fimmtudagur, desember 29, 2005

Dumbldórsputtinn

Ég á nokkur hefðbundin hlutverk í jólaundirbúningnum í sveitinni, og eitt af þeim er að lita makkann á henni ömmu minni. Botna ekkert í því hvers vegna það kom upphaflega í minn hlut þar sem ég hef aldrei litað svo mikið sem mitt eigið hár, hvað þá annarra, en svona er þetta. Í ár ákvað ég að láta ekki staðar numið við hárið heldur reyna hæfileika mína víðar. Og litaði löngutöng hægri handar kolbikasvarta. Mjög smart. Ég sat svo uppi með það að vera eins og Dumbldór prófessor öll jólin, með hönd sem leit út fyrir að vera hálfbrunnin til kaldra kola. En hárið á ömmu var allavega ofsa fínt, svo ég fæ vonandi að halda starfinu næstu jól. Vona bara að ég fái að halda höndinni líka, þetta er reyndar bara sú hægri sem ég nota ekkert mikið, rétt til að styðja við hluti og gefa fimm og svona, en maður veit aldrei hvenær maður gæti lent í harmónikkuspilsneyðartilfelli eða eitthvað.
Ég hef annars tekið uppá því þessi jólin að vakna alltaf um fimmleytið á morgnana og sofna ekki aftur sama hvað ég reyni. Þetta er ákaflega hressandi og hefur leitt til mikils bókalesturs, prjónaskapar og ég er að verða búin að hlusta á allan Góða dátann Svejk á geisladiskum. Elsku, elsku Gísli Halldórsson. En nú er ég semsagt mætt í vinnuna á ný, fersk og brakandi. Komið og kaupið eitthvað fallegt hjá mér.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Hefðbundin jól

Gleðilega hátíð öllsömul! Ég er í miðju kafi að halda hefðbundnu jólin mín og það gengur alveg eins og í sögu. Allt eftir handritinu þar. Jólaþrif, Þorláksmessukortadreifing, jólamessa, Þórshafnarboð. Mikið gott. Ég sit reyndar uppi með það að hírast heima í minipilsinu sem mamma mín gaf mér í jólagjöf til að spara buxurnar mínar, því það pakkaðist eitthvað undarlega niður í töskuna mína þetta árið, enda aðstæðurnar ekki alveg eins og áætlað var. Lífið og dauðinn eru víst því miður ekki sett á pásu yfir hátíðirnar og bið ég þá sem ekki fengu frá mér jólakveðjur eða jólakort afsökunar, aðstæður buðu ekki uppá það þetta árið, ekki með góðu móti allavega. En þið vitið öll að þið fáið hlýjar jólahugsanir úr Unnsubæ, er það ekki? Pabbinn í New York og fjölskyldan sem hýsir hann fá öll sérstaklega stóra jólakveðju hér.
Í ár er ég opinberlega orðin stór stelpa, því ég fékk tvö jólakort með barna- og/eða brúðkaupsmyndum vinkvenna minna. Eftir að áfallið leið hjá urðu þetta með bestu jólagjöfunum. Sem gerir mig ennþá eldri. En það er kannski bara ágætt, maður er hvort eð er farinn að borga skatta og svoleiðis leiðindafullorðins, alveg eins gott að skella sér þá bara í allan pakkann og fá kostina líka.
En semsagt, kem heim á morgun, sjáumst!

fimmtudagur, desember 22, 2005

Gleðileg jól!

Þá er ég komin í jólabloggfrí. Ég vona að þið eigið öll yndisleg jól :)

þriðjudagur, desember 20, 2005

Tapað/fundið

Tapast hefur lítið notaður sjálfsagi. Hann sást síðast í stúdentsprófunum vorið 2003, þá í fylgd með bókinni "Heimspekisögu". Síðan hefur bókin komið í leitirnar en félagi hennar ekki en hans er sárt saknað. Hann er beðinn afsökunar hérmeð á að hafa verið hundsaður að mestu leyti síðustu 22 árin, og elskan, ef þú bara kemur heim skal ég nota þig á hverjum degi. Ég looofa. Prittí plís?

Kreistikjúllinn

Ég hef eignast nýjan vin í prófstressinu. Hann er slakandi og mjúkur og ef ég kreisti hann kemur egg útúr rassinum á honum. Hver getur keppt við það? Má ég kynna my buddy my pal, Kreistikjúlla:

sunnudagur, desember 18, 2005

Hvar er inngripið?

Djamma í miðjum prófum eins og kjáni... Af hverju stoppar mann enginn???
Nöldur 1: Karókí vélar eru hámark mannvonskunnar í mínum litla verndaða heimi eins og er, hvaða illmenni fann þetta eiginlega upp? Sitja undir svona gauli í þrjá, fjóra tíma, ekki skrýtið að maður verði svolítið kreisí í hausnum... Vona að það sé bara slúður að Bjössi hafi keypt tækið í þetta skiptið...
Nöldur 2: Það ætti að reka allt ofur-hresst starfsfólk fyrir jólin. Úberógeðishress lúgusjoppustarfsmaður var svo ekki það sem ég þurfti í morgun og ef ég hefði ekki þurft þetta kók til að lifa af hefði ég lokað glugganum og keyrt í burtu um leið og hann gólaði skælbrosandi "Góðan daaaginn!" og hristi smá glimmer úr jólasveinahúfunni sinni. En ég þraukaði, sem voru mistök, því hann tók kókið mitt í gíslingu á meðan hann sýndi mér næstum allt í sjoppunni til að vera viss um að ég vildi ööörugglega ekkert fleira, bauð mér samstarfsdreng sinn (líka úberógeðishress) á rekstrarleigu og klifraði á einhverjum tímapunkti hálfa leið í gegnum lúguna sína og inn í bílinn til mín. Hvolpasvipur og vesældarlegt "Má ég plííís fara núna..?" dugði ekki neitt gegn úberógeðishressleikanum. Ég veit að ég hef nokkrum sinnum verið sjálf þessi úberógeðishressi starfsmaður í gegnum tíðina og vil ég biðja þá sem lentu í mér afsökunar, og lofa að það mun aldrei gerast aftur. Hvar er Amnesty þegar maður verður fyrir svona mannréttindabrotum? Eru ekki einhverjar reglur um að lúgustarfsmenn megi ekki undir neinum kringumstæðum klifra útum lúguna sína? Eða reyna að selja líkama sinn í gegnum téða lúgu?

þriðjudagur, desember 13, 2005

Return of the Space Cowgirl


Ef einhver er ennþá að skoða þessa síðu þá er ég mætt aftur, klappklappklapp. Til að kæfa þann misskilning í fæðingu er það ekki af því ég hafi svo mikið að segja, heldur bara vegna þess að ég á að vera að læra fyrir Evrópusamvinnu en nenni því ekki. Þar hafið þið það.
Nafna mín orðin ungfrú heimur, ég búin að sækja um á Stúdentagörðunum, flótti til Kúbu á teikniborðinu (afleiðing gífurlegs prófleiða)... Ég ákvað að sækja um á görðunum þegar foreldrar mínir gáfu litla brósa rafmagnsgítar og kraftmikinn magnara í miðri próftörninni minni. Já, maður skilur nú fyrr en skellur í tönnum!
Þrátt fyrir að vera í fáránlega erfiðri próftörn eftir hræðilega önn hefur mér samt tekist að bralla ýmislegt. Kaupa slatta af jólagjöfum, fara á jólahlaðborð og bráðum í jólaglögg, horfa á Cool Runnings, borða fullt af ógeði og missa algerlega alla tilfinningu í rassinum eftir að hafa tekið ástfóstri við að læra á gólfinu. Minn eigin dugnaður hræðir mig. Hins vegar hefur valkvíðinn tekið sig upp á ný, nú fer ég að þurfa að taka ákvörðun um hvort ég ætla í skiptinám og þá hvert, í hvað og hvað lengi. Mig svimar við tilhugsunina...

mánudagur, nóvember 14, 2005

Blogghlé

Hér verður ekki bloggað allra næstu vikurnar af persónulegum ástæðum, hafið það nú gott öllsömul, ég sný aftur fyrr en seinna hérna.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Unnsa svampur

Ég þarf greinilega að fylgjast betur með umhverfi mínu. Búin að vera í vinnunni í rúma tvo tíma og skil ekkert í því hvað ég er allt í einu orðin eitthvað mjúk og væmin að innan, uppgötva svo að sándtrekkið úr Notting Hill er búið að vera á rípít í spilaranum síðan ég kom... Ég skipti snarlega yfir í Sítt að aftan, og er núna að reyna að föndra herðapúða úr gömlu Séð og heyrt blaði inní bolinn minn. Meira hvað maður er áhrifagjarn af tónlist. Vona bara að engun detti í hug að spila hérna Smack my bitch up eða Burning down the house, það gæti farið afskaplega illa.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Fréttatilkynning dagsins


Í stað þess að vinna í ritgerðunum tveim sem ég á að skila innan skamms verð ég að vinna frá því kl. 16 í dag til kl. 14 á sunnudag. Bara ef ske kynni að þið hélduð að ég væri týnd. Ég verð nú samt í góðum félagsskap í vinnunni, bæði samstarfsfélagalega séð og kúnnalega séð, svo ég spjara mig alveg, en það er alltaf gott að nöldra, bara smávegis svona. Annars er ég komin í bullandi jólaskap alveg, langar ekkert að gera nema maula piparkökur og krulla pakkabönd, en það er ekki í boði alveg strax. Held ég klári ritgerðirnar tvær, vindi mér svo í jólin og klári þau áður en prófin byrja. Síðasta prófið er nefnilega 21. desember og ég fer líklega austur 22., og þó ég hafi í hitteðfyrra keypt allar jólagjafirnar, pakkað þeim inn og komið til skila á hálfum degi er ég ekki viss um að ég treysti mér í svoleiðis læti aftur í ár. Vil allavega heilan dag til að dunda mér við þetta, svona verður maður kröfuharður með aldrinum. Svo ef einhver er í jólainnkaupahugleiðingum ca. 23. nóvember þá vantar mig verslunar- og raulfélaga.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Bókalaus og tímalaus

Nú er ég komin á fullt span að reyna að vinna upp allt sem ég missti úr meðan ég var veik. Eini gallinn á því plani er að ég hef ekki mjög mikinn tíma til þess þar sem ég er alltaf að vinna, upprunalega planið mitt fyrir veturinn gerði víst ekki ráð fyrir neinum óvæntum uppákomum, það er ég að sjá núna... En tímaleysi er nú ekki nýtt vandamál í mínum bókum, og ég geri ráð fyrir að það sleppi fyrir horn eins og það hefur gert hingað til. Stærsta (og hneykslanlegasta) vandamál dagsins er að bókin sem ég átti að kaupa fyrir einn kúrsinn minn meðan ég var lasin, en komst ekki til að gera fyrr en áðan, er uppseld, og kemur ekki aftur fyrr en í fyrsta lagi eftir hálfan mánuð. Þetta gerðist líka í fyrra, ég fékk ekki kennslubókina í hagfræðikúrsinum mínum fyrr en mánuði eftir að skólinn byrjaði og gat þar af leiðandi ekkert byrjað að læra fyrr en þá. Er til of mikils ætlast að skyldulesefnið í kúrsunum við skólann sé bara til, jafnvel eins og mánuði fyrir próf? Garg! Jeminn eini hvað ég er hress í dag...

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Æi...

Ég er komin með samviskubit yfir að hafa líkt Kastljóss-Jóhönnu við Myrkrahöfðingjann. Mér finnst hún nefnilega að hárinu slepptu ofsalega indæl og góð sjónvarpskona og á þess utan ekkert með að vera að gagnrýna neins hár eins og er. Mitt er í augnablikinu mun djöfullegra en hennar hár nokkurn tíma. Nú vona ég að litla glerhúsið mitt fái að standa örlítið lengur...

mánudagur, október 31, 2005

Dagur 11


Ég get mælt með fínum einkaþjóni þegar þessu öllu lýkur. Mömmu minni. Það er svoleiðis dekrað við aumingja litlu píslarvottar-mig þessa dagana. Eldað ofaní mig mat sem hálsskrípið mitt og maginn gætu náðarsamlegast mögulega átt friðsamleg samskipti við, allt keypt samstundis sem mig gæti hugsanlega langað í (en langar svo einmitt ekki í þegar ég sé það fyrir framan mig), boðist til að leigja spólur ef mér skyldi detta í hug að finnast endursýningar á skjáeinum ekki lengur skemmtilegar og almenn skemmtilegheit og vorkunn stunduð allan sólarhringinn. Koss handa elsku mömmu minni :*
Hún fer hinsvegar að vinna á morgun svo staðgengill óskast, og tekið er við umsóknum í kommentakerfinu.
Allt sem mér dettur í hug að skrifa tengist sjónvarpi, kannski af því við sjónkinn erum að renna saman í eitt. Mér finnst sæta og ljúfa Ragnhildur Steinunn frábær í Kastljósinu, á meðan Jóhanna stendur sig prýðilega... svo lengi sem maður horfir ekki á hana. Eftir að hún litaði á sér hárið og uppgötvaði augnblýantinn minnir hún helst á Myrkrahöfðingjann. Sem ég hef ekki að mínu viti séð, en það kæmi mér allavega ekki á óvart að hann væri gervidökkhærður með fullt, fullt af augnblýanti, sjáið bara Marylin Manson! Mér finnst nýja Kastljósið skemmtilegt. Og mér finnst, eins og Ögmundi Jónassyni áðan, að við eigum frekar að vera góð við gamla fólkið núna og geyma annars mjög fína hugmynd um tónlistarhús bara í noookkur ár. Ég veit við þurfum að hlúa að listunum og miðbænum og ég er algjör listasnobbarahræsnarapjalla sjálf og myndi finnast ég ennþá merkilegri eftir að hafa farið í svona fínt tónlistarhús, en getur það ekki beðið bara smááá? Ég veit ég er dramatísk en ég er bara pínu veik núna og veit það er tímabundið og ég verð bráðum aftur eins og nýsleginn túskildingur, og það er heil fjölskylda og vinahópur sem dekrar við mig á meðan, en mér líður samt bölvanlega. Hvað þá ef mér liði svona (tala nú ekki um verr), vissi að það væri líklega komið til að vera og versna, ætti engan eftir til að hugsa um mig og færa mér vatnsmelónu og vídjóspólur og vorkenna mér og knúsa mig og vera ekki skítsama um mig (af því það væru allir staddir á opnun nýja tónlistarhússins líklega). Það finnst mér hljóma verr en tárum taki og vil ekkert tónlistarhús fyrr en aldraðir og fatlaðir og geðsjúkir geta líka verið glaðir og kátir þegar það opnar. Og hana nú.
(Eftir þessa umfjöllun finn ég mig knúna til að taka fram að meðfylgjandi mynd er af mömmu minni elskulegri, ekki Ögmundi Jónassyni, Myrkahöfðingjanum eða tónlistarhúsi).

sunnudagur, október 30, 2005

Dagur 10


Ég lít út eins og Johnny Bravo. Og ég er ekki bara að kvabba hérna, fólk er í alvöru að segja mér það. Ég kvartaði þegar fólk sagði að ég væri eins og Renée Zellwager, en af tvennu illu þá er það nú skömminni skárra en hr. Bravo, en ég verð samt að játa að ég sé frekar svipinn með okkur heldur en mér og frk. Zellwager. Ég er hamsturinn sem var duglegastur að safna fyrir veturinn.

föstudagur, október 28, 2005

Kaldhæðni ársins

Ég, Unnsa litla, er komin með kossasótt. Ef það er ekki kaldhæðni ársins má ég hundur heita. Var semsagt áðan greind með einkirningasótt og tekin af sýklalyfjaógeðinu sem lét mig kúgast í alla nótt. Gaman að vera búin að vera í fjóra daga að óþörfu á lyfi sem, eins og læknirinn orðaði það mjög svo fræðilega "er eins og að draga gaddavír gegnum magann á sér". Jakkbjakk. Jæja, farin að slefa.

fimmtudagur, október 27, 2005

Varúð - inniheldur sjálfsvorkunn

Nú er ég búin að vera veik í meira en viku og farin að naga veggi af leiðindum. Er í þessum töluðu að horfa á barnatímann. Ég kem ekki heil á geði útúr þessu, það er nokkuð ljóst... Get ekki einu sinni borðað ís eins og maður á að gera þegar maður er veikur því mér er svo óglatt, mataræðið mitt síðustu daga hefur samanstaðið af ávaxtasafa og vatnsmelónu. Ef ég passa mig ekki verð ég mjó. Er samt glöð að það er búið að komast að því hvað er að mér, illskeytt streptókokkasýking í hálsinum, og mér til mikillar gleði komin á sýklalyf við því. Þau virðast samt ekkert vera að virka því nú er ég búin að taka þau í þrjá daga og er nákvæmlega eins, með næstum 40 stiga hita, fullan háls af einhverju sem ég vil ekki vita hvernig lítur út (en óttast að ég muni þurfa að horfast í augu við fyrr en seinna...) og fullan líkama af ógleði. Flest ykkar vita líklega að sýklalyf eru ekki vinir mínir, er með ofnæmi fyrir einhverju af þeim og dó bara næstum síðast þegar ég reyndi að leika við þau. Þessi sem ég er á núna eru fyrir ofnæmispésa eins og mig, en ég er að verða ansi hrædd um að þetta sé bara smartís því það er ekkert að gerast. Kvartikvartikvart. Mér er samt í veikindum mínum búnar að berast nokkrar afmælisgjafir, sjúkravitjanir og sjúkrasímtöl og sms, sem er búið að vera mjög hressandi, takk fyrir að hugsa svona fallega til mín (ef þið sæuð hvað ég er ljót akkúrat núna mynduð þið snarhætta því, en það er annað mál). Hrefna meira að segja kom gjöf til mín frá Köben þessi elska, og Jóhanna færði mér lítinn bút af Ameríku. Þið eruð yyyndislegar! Setti inn mynddæmi af Jógu og Hrefnu á góðum stundum, en það er eitthvað pakk með þeim á myndunum, verðið bara að horfa framhjá því.

fimmtudagur, október 20, 2005

Bóhem í búri

Eins og ég er nú mikil kaffihúsarotta og finnst yndislegt að sækja þangað tónleika og aðra viðburði sem láta mér líða eins og ég sé æðislega menningarleg og hipp og kúl, þá er eitthvað sem gengur ekki upp við það. Nú er Airwaves byrjað og ég plantaði mér á Nasa í gærkveldi, tilbúin að drekka í mig menninguna og hippið og kúlið. Sem ég og gerði, en það reyndist samt krefjast meiri viljastyrks af minni hálfu en ég hefði haldið. Það var nefnilega svo kæfandi reykmökkur á staðnum að mér tókst að fá þessa líka fínu innilokunarkennd og "ég get ekki andað hjáááálp" tilfinningu, að ef ég væri ekki svona vel uppalin hefði ég hlaupið volandi út. Ég var á endanum meira að segja komin með innilokunarkennd í airwaves armbandinu mínu, því það næst ekki af. Er eitthvað svo endanlegt. Skuldbindingafóbía anyone? Svo kom ég heim og hélt að málið væri dautt, en viti menn, vaknaði hvað eftir annað í nótt með lungun full af ímynduðum reyk og þurfti að rjúka útí glugga og hnusa útí loftið. Ég held ég sé að verða gömul kreddukerling. Hvar ætli okkar vettvangur sé eiginlega fyrst Þjóðarsálin er búin að leggja upp laupana? Í pottinum í Laugardalslauginni? Ó ef ég væri bara svöl eins og Hermigervill pallíettupjakkur var í gær. Hann fékk pottþétt ekki innilokunarkennd í armbandinu sínu.

miðvikudagur, október 19, 2005

Átsj...

Manni getur nú sárnað, lélegar og ljótar...? Ég er í sjokki. Sem betur fer finnst litla górillugenginu mínu myndirnar mínar ofsalega fínar, og eru tilbúnir að beita léttu og hressandi ofbeldi alla þá sem voga sér að gagnrýna hæfileika mína sem ljósmyndara. Sem er lygi, taka Arnar Sigurð í mesta lagi í bóndabeygju en menn hafa nú lært kurteisi af minna. Sjáið bara hvað þeir voru reiðir og sárir fyrir mína hönd þessar elskur:

sunnudagur, október 16, 2005

Loðið myndablogg

Við stelpurnar skelltum okkur á Galileó til að kveðja Bylgjuna okkar sem ætlar aftur að yfirgefa okkur fyrir frægð og frama í Danaveldi. Hvernig ætli það sé að vera svona eftirsóttur? Hm. Ég ætlaði að vera sniðug og aldrei þessu vant taka myndir, og senda þær svo hingað á bloggið til að gleðja alla þá sem hafa gegnum tíðina kvartað yfir myndaleysinu hérna. En þá voru allir myndavélaminniskubbar fullir svo ég tók bara óskýrar og loðnar myndir á símann minn og það verður að duga í bili. Fæ allavega plús í kladdann fyrir að gera mitt besta. Bylgja var auðvitað sætust í kvöld, en það er standard því hún var heiðursgesturinn. Linda, Björk, Hrönn, Magga og ég vorum líka skítsæmilegar, sérstaklega svona óskýrar. Eftir matinn fór ég svo og hitti Örnu og Móniku og við röltum á milli kaffihúsa í einhverri taugaveiklun í smástund, Arna varð fyrir ansi hressandi, rússneskri kynferðislegri áreitni og Mónika tók kokkinn á Óliver í sálfræðilega bóndabeygju. Kvöldið endaði svo á að Arna sveif á Laugaveginum, eins og þið sjáið á síðustu myndinni, er þetta ekki merki um of mikla koffeinneyslu..?

Ætli ég geti bloggað með myndum?


Það er að segja myndum sem aðrir sjá en ég, bloggið mitt hefur alltaf verið myndskreytt í mínum huga. Eins og svo margt annað... En reynum þetta. Ef allt er eins og hugur minn ætti hér núna að sjást mynd af ösnum í buxum. Hvað er skemmtilegra en það??? En sjáið þið þá líka?

miðvikudagur, október 05, 2005

Fireball

Þá er ég búin að sturta í mig góðum skammti af töfraduftinu hennar Jógu minnar, hausinn á mér orðinn að glóandi eldhnetti (strákurinn á næsta borði er greinilega að reyna að ákveða hvort hann eigi að segja mér að ég sé um það bil að fara að fuðra upp eða láta mig komast að því "the hard way") og heilastarfsemin aftur komin í gang. Ég segi "aftur" því árið 1995 virkaði hún tímabundið þegar ég skilaði stórgóðri ritgerð um bókina "Pelastikk" og fékk 9,5 að launum. Ég er tilbúin að tækla Evrópusambandið eins og það leggur sig ásamt Atlantshafsbandalaginu, Evrópuráðinu, Kola- og stálbandalaginu og öllum litlu vinum þeirra. Koffein er skemmtilegt. Jíha!

miðvikudagur, september 21, 2005

These foolish games...

Elínborg vogaði sér að klukka mig svo hér koma fimm gagnslausar staðreyndir um mig. Ekki að margar staðreyndir um mig séu sérstaklega gagnlegar yfir höfuð...
1. Á sumrin fæ ég þrjár freknur, allar á nefið. Ekki fleiri, ekki færri. Þrjár. Alltaf. Og mér þykir vænt um þær.
2. Mér finnst að allt sem er gert úr kjötfarsi eigi að vera ólöglegt, ásamt kjötfarsinu sjálfu og áhöldum til framleiðslu þess. Þeir sem opinberlega játa neyslu þess ættu að skammast sín og leita sér hjálpar hjá 12 spora prógrammi í sínu hverfi.
3. Ég hef ekki ennþá séð kvikmyndina Braveheart. So sue me.
4. Þegar ég er alein í sundlaug þá syndi ég eins hratt og ég get í djúpa helmingnum því ég er svo hrædd um að það komi hákarl og borði mig. Ekki í grunnu samt. Bara djúpu.
5. Mér finnst yndislegt að lesa í baði, og þar fer stærstur hluti míns próflesturs fram, en er haldin fordómum gagnvart þeim sem lesa á klósettinu. Það er bara eitthvað rangt við það krakkar.
Jahá. Ég segi klukk Bylgja, Dabbi, Ásla, Ásdís og Íris Björk. Ef þetta eiga að vera fimm manns... Geri allavega eins og Ella bara, veit ekkert hvernig reglurnar eru... Krassandi alveg hreint.

mánudagur, september 19, 2005

Lyktin, stemmningin, hljóðin...

...it´s all coming back to me. Fór í leikhús í gær og sakna þess að vera að dútla við að leika og prakkarast. En það eru bara ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum. Ætla í staðinn bara að vera dugleg að fara og sjá það sem aðrir eru að dunda sér við í vetur. Amma og afi buðu á Edith Piaf, og það var yndislegt! Finn ekkert nógu fínt til að lýsa Brynhildi Guðjóndsdóttur aðalleikkonu, þið verðið bara að sjá hana sjálf. Þessi rödd... Og allt hitt flott líka, er sérstaklega hrifin af leikmyndinni, hún er rosalega einföld en virkar 150% í öllum atriðunum, sem mér finnst magnað. Svolítið táknræn, svona eins og búr, og bara rosalega vel hugsuð. Klappklappklapp, mikið er ég fegin að ég sá þetta.
Og ég er búin að týna símanum mínum og fá nýjan, en á engin símanúmer lengur og þar með hvorki vini né vandamenn. Ef þið nenntuð að senda mér sms með símanúmerunum ykkar yrði ég ofsa kát, sama hversu mikið eða lítið ég þekki ykkur, ef við tölum saman at all vil ég endilega fá númerið aftur. Annars er þetta líka gott tækifæri til að klippa mig út úr lífi ykkar fyrir fullt og allt og hverfa út í tómið. Mæli samt ekki með því, ég er fín stelpa.

fimmtudagur, september 15, 2005

41 ár

Á laugardaginn ætlum við að halda uppá það að Björk og Bylgja verða samtals 41 árs. Af því tilefni erum við (les. Bylgja og Lára) búnar að plögga allskonar frítt pláss og áfengi á skemmtistöðum bæjarins enda erum við skvísur og hver staður bættari af því að hafa okkur, sérstaklega svona lausar á því og í glasi. Upphitun verður heima hjá Björk í nýja húsinu hennar sem ku vera algjör draumur í dós, og gaman að fá að sjá það, líka of langt síðan við prökkuruðumst allar saman síðast, held svei mér þá að það hafi líka verið hjá Björk, þegar hún útskrifaðist úr snyrtifræðinni. Sem er lygi, var haldið svakalegt Sálarball í sumar en ég stakk af og ætla að láta eins og það hafi aldrei gerst. En semsagt, stelpan að fara að tjútta aðra helgina í röð og búin að lofa sér næstu líka, held ég sé komin í ruglið bara. Naumast hvað maður er villtur, ætli ég sé alkóhólisti? Ekki fyndið? Ok...

Hádegisfundur vagínanna

Fór á æðislega kvenlægan hádegisfund áðan, þennan hér semsagt, þar sem Lára Marteinsdóttir ætlaði að fjalla um kvikmyndir og kyngervi, og hátt hlutfall fæddra drengja í kvikmyndum. Ætlaði segi ég því hún gerði það ekki. Hún sýndi okkur bara nokkur atriði úr uppáhaldsmyndunum sínum og muldraði eitthvað á meðan sem heyrðist ekki því myndirnar voru svo hátt stilltar. Fann aldrei tenginguna við efnið sem hún ætlaði að fara yfir, sem hljómaði annars fannst mér mjög spennandi, dáldið svindl að lofa hádegisfundi um eitthvað en undirbúa hann svo að því er virtist ekki neitt að öðru leyti en að smella sér út á vídjóleigu á leiðinni á fundinn og grípa nokkrar karlrembumyndir. Verð líka að segja að mér fannst vanta umfjöllun um Two Lesbians and a Plumber, það hefði örugglega verið ný vídd á annars mjööög óáhugaverðum fundi.
Bloggið mitt er að breytast í mína eigin persónulegu Þjóðarsál, þar sem ég nöldra yfir því hvað ég sé tussuleg og að aðrir standist ekki væntingar. Gjössovel.

miðvikudagur, september 14, 2005

Kona dagsins...

...er ég. Af því þetta er mitt blogg og ég ræð. Líka af því ég sló persónulegt met í bæði myglu OG leti, sem er afrek. Minni sjálfa mig soldið á úfna dúddann í Notting Hill í dag, nema minna fyndin og með meiri brjóst. Svo er ég búin að sitja á Hlöðunni í allan dag og komast að því að ef maður virkilega virkilega ætlar sér ekki að læra er hægt að gera ýmislegt skemmtilegt annað hérna. Eins og að blogga (allt er hey í harðindum). Gera lista yfir stellingar sem láta mann ekki fá náladofa í tærnar(stuttur listi. Ein. Sitja eins og manneskja, sem ég einmitt get ekki, er með náladofa í tánum es ví spík. Góð saga). Búa til stöðurafmagn með því að nudda sokkunum ofsa hratt eftir gólfteppinu og gefa sofandi fólkinu smá straum. Útskýra af hverju maður er að nudda sokkunum ofsa hratt eftir gólfteppinu og gefa nývaknaða og pínu pirraða fólkinu smá straum. Pavtí pavtí.

þriðjudagur, september 13, 2005

Foj

Ég er skrímsli. Með hor. Klíni því samt ekki á veggi eins og subburnar sem Mangó þarf að díla við á Spáni. En ég er samt með bólgin augu, rautt nef og óþrjótandi uppspretta pirrandi óhljóða. Og til að toppa það hvað maður er eitthvað off þegar maður er svona stíflaður og ringlaður þá var ég rétt áðan að slasa mig á abt mjólkinni minni. Mig langaði að fara að skæla og fá að fara heim að borða frostpinna undir sæng.

föstudagur, september 09, 2005

Allt að gerast

Brjálað, brjálað, brjálað. Búin að glósa meira á viku en ég gerði allar síðustu tvær annir samanlagðar, námskeið að byrja í vinnunni og allt í geðveikinni þar, bíllinn bilaður, byrjaði með nýju tímana mína í Veggsporti og þar er fámennt en góðmennt eins og er og svo tók ameríski aðdáandinn sinn tíma. Ætti að vera á prósentum hjá Flugleiðum. Í öllu þessu rugli núna er reyndar mjög freistandi að hoppa bara til Los Angeles og gerast svona "trophy wife", láta bara klóra sér á hausnum og dást að sér allan daginn, en einhvern veginn grunar mig að það gæti orðið ööörlítið leiðigjarnt til lengdar.
En allavega, það er eitthvað við lagið Fix you með Coldplay sem gerir mig alveg æðislega dramatíska, fæ sömu tilfinningu og Bridget Jones lítur út fyrir að hafa í byrjun á skárri myndinni meðan hún hlustar á All by myself. Þetta veit ég bara af því að ég er á bílnum hennar mömmu eins og er sem er búinn sárt saknaðrar rásar tvö. Er í viku búin að hafa alveg sæmilega hugmynd um hvað er að gerast í heiminum bara. Var semsagt fellibylur í BNA, fyrir þau ykkar sem eiga ekki heldur bíl með útvarpi. Já, og kosningar yfirvofandi í Þýskalandi, Angela er að vinna, þó engum virðist líka við hana. Fæ bílinn minn aftur eftir nokkra daga og þá verður það fáfræðisalsæla (ignorance is bliss) á ný.

föstudagur, september 02, 2005

Nett geðvonska...

Fór í fýlu útí bloggið mitt og refsaði því með því að færa það í skuggalegan afkima internetsins (þeir eru alveg nokkrir) en svo rann mér reiðin fljótlega og hér er það, komið aftur heim.
Ég veit að allir eru núna æðislega reiðir útí mávana í borginni, fyrir að vera of duglegir að búa til egg og unga og koma þeim á legg og svona. Stefnir í að þeir verði skotnir í þúsundatali og hent í ruslið, sem er ferlega rómó tilhugsun finnst mér. Ekki að þeir séu fugla saklausastir. Þeim finnst gott partí að borða hina fuglana og svona, sem ég er ekki fylgjandi heldur svo ég neita staðfastlega að taka afstöðu með eða á móti mávum takk. Hinsvegar langaði mig að deila með ykkur lítilli sögu. Og takið nú eftir. Ég sá nefnilega ferlega smart máv á miðvikudaginn þegar ég var að bíða á bílastæðinu við Smáralind eftir að mamma mín kæmi að sækja mig í mánaðarlegar pyntingar (les. vax). Þar var mávur, æðislega venjulegur í útliti, pínu úfinn og illa tilhafður og svona, alveg niðursokkinn í að gera eitthvað sem virkaði spennandi. Ég vildi ekki missa af fjörinu og fór að fylgjast með hvað væri svona gaman. Þá var fuglsanginn í miðju kafi að reyna að ná brauðbita úr stórum, glærum plastpoka, og hann var greinilega enginn viðvaningur, þetta var fagmávur hinn mesti. Bíta, lyfta, hrista, bíta, lyfta, hrista... Og alltaf í rétta átt, það var ekkert tilviljanakennt við þetta starf hans, hann vissi hvar brauðið var, hvar gatið á pokanum var og var greinilega búinn að heyra að það er ekki mælt með að stinga höfðinu mikið ofaní plastpoka. Hann var sniðugur. Og fékk brauðið sitt að lokum, eftir gífurlega skipulagningu og lýtalausa framkvæmd. Minnti mig á þann ágæta máv Jónatan Livingston Máv, en svona myndi ég einmitt ímynda mér að hann næði sér í næringu milli strangra listflugsæfinga. Góð, góð bók. En semsagt, mávar eru pínu sniðugir líka. Sko.
Já, og tilkynning frá Neytendahorni Unnsu: Ooofsalega góð græn epli í Nóatúni við Nóatún. Nammi, namm. Tími varla að borða mín, þau eru svo falleg.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Menningardýrið

Í tilefni menningarnætur ætla ég að heiðra vinnumenningu landans, betur þekkta sem vinnuhólisma, og vinna 12 klst. Treysti á að mamma manni listagalleríin á Skólavörðustígnum fyrir mína hönd, en það erum við annars vanar að gera saman, töluvert meira fútt í því en að bora í nefið í tómu World Class til tíu í kvöld en einhver verður að heiðra annars vanrækta menningu vinnuhólistanna. Ég fórnaði mér fyrir liðið.
En þegar ég er búin að loka búllunni ætla ég að gera mig ofsa sæta og ganga í skrokk á eins og einu rauðvínsglasi á einhverju gasalega menningarlegu kaffihúsi (les. hvar sem er þar sem er ekki aaalveg troðið af menningarvitum). Ef það líður ekki yfir mig eftir það af þreytu ætla ég að tvista til að gleyma, en bara ef ég finn dansgólf þar sem ég get fengið að minnsta kosti átta fercentimetra fyrir mig og hallærismúvin mín. Ekkert grín að vera lítill á of troðnu sveittu dansgólfi, nefið á mér er nefnilega þar sem handakrikarnir á öllum hinum eru. Bjakk... :p

mánudagur, ágúst 15, 2005

Who knew?!

Hélt ég væri ekki hrædd við flugur, bara köngulær. Annað kom nú samt í ljós rétt áðan þegar það flaug geitungur ofaní glasið mitt í búðarkytrunni og ég flaug fram á gang æpandi og gólandi á miskunn. Ég skaust svo hratt fram á gang að ég held að ég hafi skapað einhvers konar lofttóm á bakvið mig, allavega þá sogaðist geitungsgreyið út á eftir mér og er núna að gleðja Birtu og Möggu í afgreiðslunni. Úps :)

laugardagur, ágúst 13, 2005

Tuesday on a Friday....

Fór í gær í annað skipti í lífinu að borða á Ruby Tuesday. Í fyrra skiptið (fyrir fimm árum nota bene) fékk ég ofsalega vonda og kalda súpu og var ekki sátt. Í gær fékk ég hins vegar voða gott pasta með kjúkling og hvítlauk og öðru misvellyktandi gúmmelaði, og valt út. Svo fór ég að sjá "Magnaða kvartettinn" (Fantastic Four) sem var líka bara fín, ekki jafn góð og hin myndasögubyggða myndin sem ég sá, "Syndaselaborg" (Sin City), en sat allavega alveg þegjandi róleg í gegnum hana, án þess að hugsa of mikið um ritgerðarskrípið mitt eða heimsmálin, en til þess var einmitt leikurinn gerður. Fannst samt kjánalegt að sjá þarna uppáhalds vonda lýtalækninn minn af stöð tvö, en það hjálpaði samt að hann var sami karakterinn þarna svo kerfið mitt fór ekki alveg í panik. Hann er eins og Baltasar Kormákur fyrir mér, örugglega fínn gaur en leikur alltaf svo mikla skítapésa að mér er illa við hann persónulega, myndi örugglega grýta hann með frosnum sænskum frikkadellum ef ég hitti hann í Bónus. Vondgóða löggan Vic var þarna líka, en breyttist fljótlega í steinakall svo það slapp líka fyrir horn. Skrýtið hvað ég höndla ekki að persónur úr sjónvarpsþáttum leiki fleiri en einn karakter á ferlinum, en kvikmyndaleikarar mega skipta um hlutverk eins og nærjur án þess að það trufli mig. Maður verður að fá að hafa sínar sérviskur...

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Slapplingur

Þessi belgvettlingur hér er slappur í dag. Held ég sé að fá í hausinn hvað ég er búin að vera ofvirk í sumar, kenndi bara einn tíma hálfsjö í gærmorgun og fór svo heim að skrifa ritgerð, og held að líkaminn hafi ekki þolað svona rólegheit, er allavega hálfgert flak. Það er samt ekki í boði að verða lasin fyrr en ritgerðinni hefur verið skilað. Pant verða lasin á mánudag, en ekki deginum fyrr!
Ég datt inná netdagbók um daginn hjá Íslendingum sem búa í Kína, og nú er ég alveg sjúk aftur og langar þangað í skiptiönnina/annirnar mína/mínar. Lítur samt ekki út fyrir að það sé neinn skóli í Kína í boði fyrir stúdenta HÍ, bara skipti fyrir kennara eftir því sem ég best fékk séð í fyrra þegar ég var að spá í þetta. En getur það nokkuð verið, þetta stóra og fjölmenna land..? Ég hlýt að vera að misskilja eitthvað. Held áfram að njósna þetta.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Skandall!!!

Það er svo mikill skandall að ég skuli ekki vera búin að sjá Billy Elliot ennþá! Ég af öllum. Hneyksli. Er komin efst á listann fyrst guttinn er meira að segja staddur á landinu. Hnuss, að maður skuli láta þetta fréttast um sig.
Skil annars ekki að mér skuli ennþá vera hleypt út á almannafæri, hvað þá að ég fái að tala við viðskiptavinina... Lenti í nettri krísu með kúnna áðan. Hann ætlaði að kaupa sér sokka og ég spurði hvaða skónúmer hann notaði. Hann svaraði með djúpri röddu "verð ég ekki að segja 48, er ekki þjóðsagan að þetta sé eitthvað tengt annari stærð?" og hló svo, og ég, verandi kjánaprik, sagði að ég hefði nú verið að lesa grein rétt áðan (þessa grein) þar sem þetta teldist bara sannað mál. Það fór ekki betur en svo að manngreyið snarfölnaði og þverneitaði að segja mér hvaða skónúmer hann notaði í alvöru. Úps. Keypti sokka nr. 39-42 og sagði að honum fyndist betra að hafa þá þrönga. Einmitt.

Over-achiever

Fór eins og stormsveipur um húsið mitt áðan og vökvaði sumarblómin og inniblómin. Og gerviblómin. Takk fyrir viðvörunina mamma. Hrmph.

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Komum saman og leysum vind...

Ég skellti mér til vina minna á Esso stöðinni uppá Höfða á föstudaginn til að fylla bílinn minn af bensíni. Á meðan það var verið að dæla því á Trausta fyrir mig (því ég er prinsessa og geri ekki svoleiðis sjálf) stóð ég í löngu röðinni að kassanum, fyrir aftan eldri mann. Ekki svo mikið eldri að það eigi að vorkenna honum og finnast hann krúttlegur neitt, bara svona eldri en fimmtugt eldri, ekki eldri en Móses eldri. Og þarna stóð ég í sakleysi mínu að reyna að standast Nissa súkkulaðið í hillunni við hliðina á mér (sem mistókst, en það er önnur saga), þegar karlgerpið rekur svona líka myndarlega við á mig! Lætur bara eitt djúsí prump vaða á mig án þess að blikna eða blána. Mátti engu muna að ég léti gott spark vaða í stélið á dónanum, en ég var í támjóum stígvélum og hrædd um að festa það einfaldlega á vettvangi glæpsins. Þetta er bara svo langt frá því að vera í lagi...

föstudagur, ágúst 05, 2005

All warm and fuzzy

Hvernig veit maður að maður á fullt af yndislegum vinum? Jú, þegar það er föstudagskvöld og maður segist ætla að missa meðvitund slefandi af þreytu á sófanum sínum, og þeir bjóða manni frekar sófann sinn að slefa á :)

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Þreytuleiði

Svakalega verður maður leiður þegar maður er svona þreyttur. Ég er eitthvað svo útkeyrð líkamlega en allt samt gott þannig lagað, svo andlega hliðin ætti alveg að vera í fínu tjútti, nema hún er það ekki. Hún er bara búin á því líka. Merkilegt hvað þetta fer saman. Svo allir sem vilja knúsa mig eru velkomnir í Laugar.
Fólk má líka fara að bera smá virðingu fyrir sísteminu mínu. Ég litakóðaði bolina hérna í búðinni en fólk er alltaf eitthvað að messa í kerfinu mínu. Hætta því strax. Getið gramsað í sokkakörfunni ef vantar útrás fyrir taugaveiklunina, hef ekki ennþá fundið almennilegt kerfi til að skipuleggja hana blessaða. Nöttí? Ég held ekki...

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Unnsa, fæst nú sykurskert

Gleymdi að borða áður en ég fór að sofa í gærkveldi, eins og ég geri alltaf þegar ég á að kenna tíma í bítið morguninn eftir, svo ég var um hálfníuleytið í morgun komin í þetta líka fína blóðsykursfall. Sem væri nú ekkert fréttnæmt svosem, nema af því að ég er ennþá titrandi og skjálfandi eins og aumingi, óglatt og svimar og alltsaman. Sem er ekki hressandi. 14 tíma vinnudagur í dag og hefði verið ofsa krúttlegt að halda meðvitund. En maður fær víst ekki allt. Kvartikvart.
Annars er óðum að líða á þessa vinnuviku dauðans, þetta klárast alltaf hraðar en maður heldur, skil ekkert hvað ég var að kvarta og kveina í vikubyrjun. Massetta!!!

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Afkvæmi Satans

Ok, nú er þetta að verða komið gott bara. Helmingurinn af öllum pósti sem ég fæ er boð frá öllum sem ég þekki (og nokkrum sem ég reyndar þekki ekki...) um að skrá þá í einhverja þjónustu á netinu þar sem er hægt að senda sms frítt. Sem væri merkilegra ef maður hefði ekki gert það árum saman gegnum heimasíður íslensku símafyrirtækjanna. Þetta fæ ég aftur og aftur og aftur frá sama fólkinu, sem er að öðru leyti dagfarsprútt og tiltölulega þolanlegt í umgengni svo ég neita að trúa því að þetta pakk sé alltaf að senda mér þetta viljandi. Er forritið að gera þetta sjálfvirkt eða..? Þið vitið hvaða forrit ég er að tala um, sms.ac eða eitthvað. Nú hef ég aldrei sent viljandi út svo "invitation" á einn eða neinn, svo segið mér nú, eruð þið búin að vera að fá svona drasl frá mér?

föstudagur, júlí 29, 2005

Útá land! Ég er hetja!

Nú er komið að því að standa við stóru orðin. Ætla út á land. Alla leið til Víkur í Mýrdal á landsmót barna og unglinga. Veit ekki í hverju þau keppa helst, alltaf bara talað um "landsmótið", en ætli það sé ekki veggjakrot og svoleiðis níðingsháttur. Þetta eru jú unglingar. Við vitum öll hvað þeir eru villtir og spilltir. Og hættulegir. Ja ég tek allavega piparspreyið með mér. Verst að ég þarf að keyra ein fram og tilbaka og fyrir utan að finnast leiðinlegt að keyra þá er ekki einu sinni útvarp í bílnum og smá séns að ég verði búin að missa glóruna þegar ég loksins kemst á leiðarenda. Kann ekki nógu mörg lög til að endast þrjá tíma á söngli. Verð bara að leika mínar eigin veðurfréttir og umferðarfréttir og svona milli laga. Og morgunleikfimi eins og á Rás 1, best að æfa sig til að vera við öllu búinn ef svo ólíklega fer að Dabbi fær djobbið. Gæti líka tekið upp puttalinga, þeir ættu að geta skemmt mér allavega nokkra kílómetra, og þeir eru svo æðislega réttlausir að þeim má henda út um leið og þeir glata skemmtanagildi sínu. Tók einmitt upp tvo unglinga um daginn, bæði til að komast yfir hræðslu mína við unglinga (stara í augun á óttanum) og svo voru þeir svo skemmtilega bólóttir og vandræðalegir að ég stóðst þá ekki. Enda voru þeir ofsa efnilegir. Á unglingakvarðanum. Sem þýðir að þeir stálu engu, krotuðu ekki inní bílinn, nöguðu ekki áklæðið og hræktu ekki á gólfið. Fínir strákar.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

O ó...

Nett kvíðakast í morgunsárið. Samkvæmt mínum útreikningum er ég búin að vera að eyða tímanum í eitthvað allt annað en að:

a) skrifa ritgerðina mína (sem ég var að ákveða fyrir núlleinni að ætti að vera um hversu vel skrifræðislíkan Max Webers henti nútíma skipulagsheildum. Spennandi.)
b) vera kreatív og skapandi (þ.e. skrifa eitthvað mér og öðrum til skemmtunar og hamingjuauka. Því ekki er bloggskrípið að gera sig. Það bara neitar að deyja.)
c) panta dótarí af netinu viðkomandi eróbikktímunum mínum, til að gera mig að betri kennara og tímana mannúðlegri (t.d. galdraprik og töfraduft. Og kannski skárri tónlist.)
d) ferðast innanlands (fjallageitarkomplexinn alveg gleymdur)

Samkvæmt umræddum útreikningum er ég búin að eyða því sem af er sumars í:

a) óhóflega vinnu
b) að leggja sjálfa mig í klórbleyti (mér til ánægju og yndisauka, ekki af því það væru á mér blettir, svo gagnsemin er takmörkuð)
c) hjúkra sjúku kattaskotti (tíma vel varið og sé ekki eftir mínútu af því)
d) vera á msn (get ekki á nokkurn hátt réttlætt það svona yfir hásumarið, ætti kannski að reyna að finna 12 spora prógramm)

En það þýðir ekki að gráta það, heldur reyna að nýta þennan mánuð sem eftir er sumars (!) til uppbyggilegri hluta eins og:

a) að borða barnaís í brauði (hvað er uppbyggilegra en það?)
b) skrifa bévítans ritgerðina (foj)
c) fara til Víkur að heimsækja Áslu og kjörfjölskylduna mína (og auðvitað öll börnin sem ætla að safnast þar saman því þau kunna að hlaupa hratt og hoppa hátt/langt)
d) panta eróbikkdiska á netinu sem eru ekki með lögum með Backstreet Boys eða Whitney Houston (ef þeir eru þá til...)
e) fara í allavega eina almennilega göngu (bara eitthvert, ofsa margir hringir á Laugardalsvellinum duga ef í harðbakkann slær)

Alltaf gaman að skipta blogginu sínu í liði.

föstudagur, júlí 22, 2005

Alþjóðalæti

Fór með dönsku Möggu minni að drekka te í Alþjóðahúsinu í gær. Við enduðum þar eftir smá vapp því við þurftum að tala ööörlítið saman og fimmtudagshávaði þema á næstum öllum kaffihúsum. Meðal annars í Alþjóðahúsinu, nema þar er boðið uppá sniðugt. Hægt að velja borð í hávaða eða hávaðalausu. Ég var alveg uppnumin af snilldinni. Völdum hávaðalaust og töluðum útí hið óendanlega.
Nú er ég að telja á mér tærnar í vinnunni því það er ekkert að gera og ég að bíða með óþreyju eftir að komast heim, þar sem Eva Dögg bíður með neglurnar mínar. Jei! Þó það sé útsala hjá mér vill samt enginn fórna sólinni til að versla við mig. Er alein. Foj.
Á morgun fer ég svo í fyrsta brúðkaupið á ævinni, og hlakka ofsa til, enda ekki ómerkara par að gifta sig en Guðný og Gummi. Hlýtur að verða stuð. Ég fórna World Class afmælinu fyrir það með glöðu geði, en ætla að reyna að merja það í staffapartíið og ballið um kvöldið. Það er nefnilega World Class Sálarball í Skautahöllinni annað kvöld frá kl. 23, ókeypis inn og ahahallir velkomnir. Mæta!!! Verður tjúttað alveg útí hið óendanlega, svo mikið pláss í Skautahöllinni að við ætlum að máta öll plássfrekustu hallærismúvin okkar. Teygjusokkar og hita- og kælikrem á svæðinu ef illa fer. Vííí...

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Passa mig á sólinni...

Þessa tvo daga sem sólin hefur verið að glenna sig hérna á klakanum núna er ég búin að vera andsetin af þvottabirni, svo ég hef ekki séð hana mikið. Er búin að þvo herbergið mitt vel og vandlega, eftir að hafa látið það sitja á hakanum í vinnutörninni. Og letinni. Svo nú eru allir velkomnir í heimsókn aftur, skal hætta að skella hurðinni á nefið á gestum og segja þeim að hringja á undan sér eins og siðmenntað fólk...
Í kvöld er svo hópferð á Madagaskar í bíó fyrir þá sem ekki vita, kl. 22, allir að mæta!!!

mánudagur, júlí 18, 2005

Sveitt helgi

Allt sem ég gerði þessa helgina hafði þær afleiðingar að ég svitnaði, svo ég var sveitt mestalla helgina. Fór í baðstofuna á föstudagskvöldið og svitnaði, æfingu á laugardaginn og svitnaði, út að dansa um kvöldið og svitnaði og svo á æfingu og baðstofu í gær og viti menn, svitnaði. Maður er ekki beint heillandi þessa dagana. Fór út að hlaupa í Laugardalnum með Möggu á laugardagsmorguninn fyrir vinnu og hélt ég myndi bara deyja einhversstaðar á leiðinni. Ef það hefðu ekki verið sætir útlendingar fyrir utan farfuglaheimilið hefði örugglega liðið yfir mig þar en ég fór þetta á þrjóskunni. Og þetta slefaði kannski uppí tvo kílómetra. Aumt.
Stelpukvöldið á laugardaginn tókst ofsa vel, nettur kjaftaklúbbur hjá Hrefnu minni og svo sveittur (auðvitað) dans á Hressó. Byrjuðum samt á öfugum enda, hefðum átt að byrja á að taka rölt og vera pínu sætar og svona, því eftir að við byrjuðum að dansa varð eiginlega ekki aftur snúið, við urðum strax eins og við hefðum setið í finnskri sánu í sólarhring eða svo. Kúlið farið svo við dönsuðum bara meira og fórum svo heim að lúlla. Eftir að hafa borðað ofsa góðan sjeik á Aktu taktu á leiðinni heim...

föstudagur, júlí 15, 2005

Væld þeing

Leysti vandamál gærdagsins á frumlegan hátt. Gerði hvorugt. Borðaði kringlu og kókómjólk hjá Möggu í staðinn. Svona er að hugsa útfyrir kassann sko, alltaf svo villt stelpan. Það er óðum að komast mynd á þessa helgi sem er framundan, ætla að taka góða æfingu og baðstofuslökun í kvöld eftir vinnu, smyrja á mig allskonar jukki og vappa um í baðslopp í myrkrinu. Smá kósý og rómó stemmning innan um granítsáðfrumurnar. Eftir vinnu á morgun stefnir svo í stelpukvöld ársins, verið að nýta tímann sem Hrefna mín stoppar á landinu. Það endar svo bara þar sem það endar, búið að segja mér hin og þessi plön en mér láðist að leggja eina einustu hugmynd á minnið, svo þetta er óvissuferð hjá Unnsu litlu. Eins og svo margar aðrar... Blah.

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Sól úti, ég inni

Sem er alltaf nett spælandi en það sem er samt verra er að það er skítakuldi hérna inni í búðinni hjá mér. Þannig að á meðan þið ormarnir sem eruð í sumarfríi eruð að grillast úti í sólinni er ég ekki bara snjóhvít heldur líka með gæsahúð. Kvartikvart. Annars er lífið gott. Er að lesa Ellefu mínútur eftir Paulo Coelho, og hún er ofsa góð. Það eina sem ég get fundið mér til að hafa áhyggjur af ef hvort ég á að fara á æfingu eftir vinnu eða á kaffihús að lesa meira. Svo ég hlýt að hafa það hreint ágætt bara! Maður er ekki skemmtilegur bloggari þegar lífið er svona gott.

mánudagur, júlí 11, 2005

Heróínvettlingur

Var að koma úr blóðbankanum, þar sem yndisleg gömul kona var að taka úr mér blóðprufu. Ég ræktaði hinsvegar ofsalega mjóar og kræklóttar æðar sem er næstum vonlaust að hitta á, svo eftir mikið juð og pot fram og til baka sit ég uppi með ansi hreint skemmtilegan blóðpoll undir húðinni. Skemmtilega heróínlegt, nema ég er ekki alveg nógu mjó til að klára lúkkið almennilega.
Og mætt á Hlöðuna, í júlí! Ef það er ekki eins og einnar Fálkaorðu virði þá er ég illa svikin. Er að reyna að byrja á ritgerðinni minni, ekki nema 5 vikum á eftir bjartsýnu áætluninni minni. Skal veðja að ég skoða Garfield samviskusamlega þar til Hlaðan lokar.
"Mongólitinn" vill vita hvað ég brallaði um helgina. Það var nú eitthvað rólegt. Vonbrigði? Fór reyndar á Sin City í bíó á laugardaginn, fannst hún ofsa töffaralega gerð og flott en full gorí fyrir mig, blóð er blóð, hvort sem það er rautt eða hvítt eða gult. Og öxi í ennið er ahahahalltaf öxi í ennið. (Exi í ennið? Öxi í ennið? Veit ekki...). Í gær laumaðist ég svo með Bylgjunni á kaffihús, var ofsa kósí og rómó. Játs Mongó litli/litla, þannig var nú það.
Eigið góða viku lömbin mín!

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Mouse of Wax

Dagur sjálfkjörinna kvala og pínu er genginn í garð. Nú er loksins komið að því að losa sig við þjóðlega kindalúkkið sem er búið að loða við mig síðustu vikur, og skella sér í allsherjar vax. Sem væri alls ekki í frásögur færandi nema af því að litli hausinn á mér er búinn að mikla þetta svakalega fyrir sér og ég er við það að fá taugaáfall af kvíða, er skyndilega farið að þykja æðislega vænt um feldinn minn. Eru ekki kindur voða krútt bara hvort eð er?

miðvikudagur, júlí 06, 2005

I´ve created a monster...

Bjó til meiri prinsessuna þegar ég var að hjúkra kettinum. Nú er hún miklu hressari en vill auðvitað nákvæmlega sömu athygli og umhyggju og hún fékk meðan hún var lasin. Svo nú ligg ég laglega í því. Sit uppi með kött sem vælir og skælir ef ég er ekki heima, vill láta halda á sér alveg sama hvað ég er að gera (hélt sér sjálf á öxlinni á mér þegar ég burstaði tennurnar í morgun, nettur hristingur átti ekkert í þrjóskuna) og vill sofa uppí hjá mér og láta hleypa sér inn og út úr herberginu á hálftíma fresti allar nætur. Jeminn. Ekki skrýtið að maður verði tussulegri með hverjum deginum.

laugardagur, júlí 02, 2005

Skapa(há)ra-wannabe

Dett stundum í alveg hrikalega sorglegt ástand þegar ég sé hvað margir aðrir eru að gera sniðuga hluti. Sorglega ástandið er að mig langar líka. Að vera ofsa sniðug og skapandi og listræn, búa eitthvað til sem öllum finnst ofsa hippogkúl og váhvaðégvildiaðmérhefðidottiðþettaíhug. Svona listræn penis-envy er hinsvegar ekkert svöl og ég vil losna við þetta rugl. Skil bara ekki hvernig þetta lið hefur tíma til að dunda sér svona, er þetta pakk ekki í vinnu? Kannski hefði ég líka tíma ef ég væri ekki alltaf á msn...

miðvikudagur, júní 29, 2005

Jarvis Cocker endurfæddur

Var að fá nýju gleraugun mín. Jei! Er samt svo langt síðan ég hef notað gleraugu að mig svimar pínu, og þar sem ég sit núna á sjóveikistólnum í Fitness Sport er ástandið skrautlegt... En ég er bara ánægð með femínistagleraugun mín, finnst ég svaka gella.
Af kattaskottinu er það að frétta að hún er komin úr legghlífinni í teygjusokk sem er töluvert meira smart.
En hvar er nú allt fólkið sem var með mér í að koma með miklar yfirlýsingar um sumargönguferðir fyrir nokkrum vikum? Hvernig væri að slá í eina slíka á sunnudaginn?

mánudagur, júní 27, 2005

Flashdance kisan

Kisa fór semsagt í aðgerð á föstudaginn og kom heim alveg húrrandi full. Öll saumuð á mallanum og hausnum og á svo sterkum verkjalyfjum að hún vissi hvorki í þennan heim né annan. En svo braggaðist hún nú að lokum, og ég fór áhyggjulaus að gæsa Guðnýju frænku á laugardaginn. Það heppnaðist æðislega vel, upprunalega planið fór víst alveg í vaskinn daginn áður vegna veðurs og ég skil ekki hvernig stelpunum tókst að skipuleggja þetta með svona litlum fyrirvara. Fórum um allt, í Sorpu, Húsdýragarðinn (hún átti að leita að okkur þar, vorum dreifðar um garðinn. Ég var sett í kanínuhúsið og jeminn, þær eru sko ekki spéhræddar! Kanínudónar...), í afró í Betrunarhúsinu, til ókunnugrar gamallar konu í Garðabænum að baka pönnsur, í Smáralindina... Ekki skrýtið að maður hafi verið orðinn þreyttur þegar við skriðum aftur í heimahús til að borða gómsæta grillpinna og klæmast í heita pottinum. Gerðum svo heiðarlega atlögu að djamminu en það var dæmt frá byrjun, engin orka eftir svo við stauluðumst fljótlega heim (sorrý Hrefna mín!). Hápunktar dagsins voru annars vegar afróið, sem er held ég bara það skemmtilegasta sem ég hef gert, algjör snilld að þramma þarna um (næstum) í takt við tvo trommuleikara á spítti og finnast maður æðislega töff gella þar til maður leit í spegilinn (verst að þetta var allt tekið upp og verður sýnt í brúðkaupinu. Minnið mig á að vera búin að fá mér örlítið í stóru tána áður en það gerist), og hinsvegar heimsóknin til ókunnugu konunnar sem reyndist vera ekki bara ferlega indæl heldur líka frá Sigló eins og allar í hópnum nema tvær. Var mikið spjallað um ættfræði, sem er alltaf hressandi.
En svo þegar ég vaknaði á sunnudaginn og kom fram að kíkja á kisuna mína var hún að dunda sér við að naga af sér saumana á mallanum! Komið á hana stærðarinnar gat svo við kölluðum út dýralækninn og þutum með hana að láta svæfa hana aftur og sauma sárið saman. Svo sátum við prinsessurnar bara saman það sem eftir var dags meðan þessi minni jafnaði sig af svæfingunni. En til þess að læra örugglega ekki af reynslunni var hún aftur farin að naga saumana sína í nótt, svo ég í algjöru ráðaleysi smellti á hana legghlíf... Mín var nú ekki sátt, þvílíkan morðsvip hef ég aldrei séð á ketti! '85 greinilega ekki hennar tebolli. Hún ákvað svo bara að hún gæti ekki hreyft sig með hana og í tvo tíma valt hún bara um eins og ánamaðkur, en komst að lokum að því að það væri nú alveg hægt að hreyfa sig í sokknum, og skrölti af stað. Litla skinnið mitt. Nú er bara að vona að þetta hafi verið góðkynja, allir að krossa putta, fáum niðurstöðurnar eftir nokkra daga.
Löng færsla, passið að teygja vel á eftir!

föstudagur, júní 24, 2005

Elsku kisulóran mín...

...er lasin. Hún er með kýli í spenanum og á enninu og það er allt komið í hnút, hún er víst orðin roskin þessi elska. Er samt ekkert slöpp orðin nema bara útaf þessu kýlaveseni. Mamma fór með hana til dýralæknis áðan og niðurstaðan var að á morgun á að reyna að bjarga henni kisu minni með aðgerð, ef það virkar ekki þarf bara að svæfa litla gullmolann minn. Sem mér finnst hræðilegt og er búin að skæla endalaust... Sendið kisu minni nú fallega strauma, henni verður nefnilega að batna...

sunnudagur, júní 19, 2005

...og lásinn er inn, út, inn, inn, út

Ég hef ákveðið að hjálpa hinu einhleypa fólkinu í lífi mínu að finna ástina. Hér er staddur Gunni. Hann er ungur og efnilegur, með hár sem fengi Beckham til að fölna af öfund og boltaleikni sem slefar uppí Eið Smára. Boltaleiknin, ekki Gunni. Hann vinnur í Þrek kaffi, gengur í kvenmannsfötum og er vel vaxinn niður. Mjög vel. Hver vill hann?

mánudagur, júní 13, 2005

Bloggaðu beibí bloggaðu inní eilífðina...

Vaknaði 5 í morgun, og nú er klukkan 18 og ég er alveg að morkna í baðstofunni... Ég er alls ekki viss um að eftir fjóra tíma enn geti ég yfirleitt risið á fætur til að skrönglast heim, svo ég gæti neyðst til að flytja lögheimilið mitt að Sundlaugavegi 30a, kjallara, glerbúri. Eins og simpansi. Bylgja stóð sig vel í að halda mér félagsskap framan af en svo kom mamma hennar og bannaði henni að leika við mig lengur. Ég er svo slæmur félagsskapur, svo villt. Mjá.
Mér finnst ég fáránlega mikill lúði að vera ekki að horfa á Lost þættina heilu og hálfu sólarhringana eins og allir virðast vera að gera til að forðast sólina. Sé bara ekki fyrir mér að þetta geti verið skemmtilegt, ekki frekar en 24 þættirnir, sem ég hef aldrei nennt að byrja að fylgjast með en fáir virðast halda vatni yfir. Hef séð hluta og hluta af Lost og það eina sem virðist gerast er að fólk er á eyju, labbar um allt, felur sig í runnum og skýtur upp neyðarblysum hist og her þegar það sér báta, en enginn tekur eftir þeim. Sem ætti ekki að koma á óvart í 5. þætti af 20 þátta seríu sem heitir nú einu sinni Týnd. Nema þeim sé bjargað um borð í ofsa stórt skemmtiferðaskip þar sem þau fá víðáttubrjálæði og týnast á göngunum. En ég mun víst aldrei komast að því. Kemst ekki alveg inní "Örvæntingarfullar húsmæður" heldur, léleg tilraun til að taka yfir plássið í hjarta mér sem er tileinkað "Samræði í borginni" en það mun aldrei aldrei takast. Aldrei. Hins vegar get ég ekki beðið eftir nýrri seríu af hinu stórgóða lýtalæknadrama "Nip/Tuck", sem eru æsispennandi og einstaklega menningarlegir þættir. Fallegt fólk að miskunna sig yfir ljótt fólk og gera það pínu fallegt líka. Þá erum við farin að tala saman. Ójá. Og ég vil fá sadistanæringarfræðinginn aftur, sem fór til fólks, skoðaði í ísskápana þess og sagði því að það væri nú meiri svínin og viðrinin, hlyti að vera andfúlt og sírekandi við. Vísindaleg rannsókn á kúknum þess staðfestir þennan dóm hennar alltaf og til útskýringar er allt gumsið sýnt. Sem er einstaklega fræðandi.
Nöldri og sjónvarpsgagnrýni lokið, ég verð að þjóta, nefið borar ekki í sig sjálft!

miðvikudagur, júní 08, 2005

Karlapúl

Byrjaði daginn á að kenna einn tíma í karlaátaksnámskeiði, fyrsta skipti sem ég kenni bara körlum og það var alger snilld! Karlmenn eru yndislegar verur, höfum það bara alveg á hreinu. Svo hressir og kátir, alltaf að góla framí og hafa gaman af þessu og húmor fyrir sjálfum sér. Elskaðá. Vildi að ég ætti þá, en Bára á þá víst, ég var bara með þá í láni. Takk fyrir lánið Bára. Þeir voru að vísu ekki alveg tilbúnir að kaupa það að 16, 15, 14, 13, 10, 9... væri eðlileg niðurtalning, sama hvað ég reyndi að sannfæra þá. Einhvern daginn mun ég læra að telja, þetta hlýtur bara að fara að koma. Ekkert skrýtið samt að maður lendi í vandræðum, mýslurnar í bókinni voru bara tíu en ég þarf alltaf að telja uppí sextán, það er eins og það sé ekki gert ráð fyrir því að börnin sem lesi bækurnar verði einhvern daginn að fullorðnum eróbikkkennurum...

mánudagur, júní 06, 2005

Hann var sjómaður dáðadrengur...

Í tilefni sjómannadagsins skellti ég mér til Grindavíkur á laugardaginn, á eitthvað sem var kallað sjómannaball. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar þegar Jóhanna bauð mér með, eitthvað svo ferlega rómó hugmynd að finna sér karlmannlegan, órakaðan sjómann til að eiga sumarævintýri með. En viti menn, við mætum ásamt fríðu föruneyti í Festi, uppstrílaðar eins og klassapíurnar sem við erum, til þess eins að komast að því að þegar sjómenn eru í landi nota þeir tækifærið og fara í bæinn að djamma. Það geta hinsvegar krakkarnir sem ekki eru komnir með bílpróf ekki gert. Þeir sitja uppi með ballið. Einmitt. En fyrir utan frekar púkalegt ball þá var ferðin stórskemmtileg, og góð byrjun á "oppareisjon faraferlegaoftútálandísumar". Reyndar lenti ég í smá Janet Jackson vandræðum, tæknileg klæðavilla, þegar vinstri búbba flaut uppúr toppnum sínum í sundlauginni á staðnum. Hefði ímyndað mér að viðstaddir karlmenn kynnu vel að meta en þeir tveir sem urðu vitni að atburðinum fóru bara allir í kleinu og jöfnuðu sig ekki fyrr en þeir voru búnir að fara í góða sturtu. Ah.
Í gær fór ég svo að þrífa íbúðina sem pabbi minn var að flytja úr. Stóð á haus ofaní klósettinu þegar mamma og hinn pabbinn (ég á tvo, svona til öryggis) mæta á svæðið og þyrlast útum alla íbúð eins og tveir Mr. Sheen (fríki, sköllótti, dyravarðalegi dúddinn með upphandleggsvöðvana, sem villtist utaná þvottaefnisbrúsana...) og áður en ég vissi af var bara allt orðið hreint og strokið! Ég er svo mikið dekurdýr! Takk fyrir mig allir foreldrar :)

miðvikudagur, maí 25, 2005

Blaut tuska í andlit

Verð að segja að ég bjóst nú við fleiri áköfum sjálfboðaliðum eftir síðustu færslu, jafnvel smá cyber-slag. En ég græt bara í koddann, ekki á netinu, það er eitthvað svo ókúlt.
Nú er maður farinn að vinna á fullu bara, sóla sig í sundi og tapa sér í gleðinni. Er núna á leiðinni í bæinn að reyna að kaupa mér föt (ég veit, GASP!) sem hefur ekki gerst í áraraðir og ætti að gleðja hana móður mína. Þetta verður eitthvað speees...

fimmtudagur, maí 19, 2005

Lífið að loknum prófum

Ég lifði semsagt prófin af, sjálfri mér til undrunar, og nú er bara að bíða og sjá hvernig einkunnirnar koma út. Er búin að fá eina reyndar, sem kom skemmtilega á óvart og vona að allar hinar taki sér þessa til fyrirmyndar. Dugleg einkunn, vann fyrir kaupinu sínu. Svo var auðvitað fagnað vel og vandlega helgina eftir próflok, að vísu var ég ferlega léleg og sveik Daða um djamm á föstudagskvöldinu því ég var svo æææðislega sybbin, en var þeim mun minna sybbin á laugardagskvöldið og held ég hafi sjaldan dansað jafn mikið og ég gerði þá. Mæli ekki með því að missa sig svona algerlega tímunum saman á sveittu dansgólfi ef líka er verið að reyna að vera sætur, það fer samkvæmt minni reynslu alls ekki saman. Ekki á nokkurn hátt, varð snemma kvölds eins og reytt hæna og hélt því þema til streitu það sem eftir lifði nætur. En hærregud hvað var gaman! Dansidansidans. Og svo löbbuðum við Magga heim til hennar í yndislega sumarveðrinu, gerist ekki mikið betra krakkar mínir, ónei.
Svo er maður bara farinn að vinna, sit meira að segja í baðstofunni í þessum töluðu. Hélt ég yrði að vinna frekar lítið í júnímánuði og var farin að hafa nettar áhyggjur af þessu öllu saman, en það er að koma í ljós þessa dagana að vandamál sumarsins verður eitthvað allt annað en atvinnuleysi!
Og já. Er komin með leið á þessu rugli. Rétt upp hönd sem vill vera kærastinn minn í sumar. Someone? Anyone? Foj.

föstudagur, maí 13, 2005

Tú kúl for skúl

Prófin búin! Jei!
Ætla að reyna að leggja mig í tvo tíma eða svo áður en ég þarf svo að byrja að vinna. Það er engin miskunn hjá Magnúsi, maður er farinn að vinna sama dag og prófum lýkur, það er svona að vera gráðugur... Annars sé ég ferlega eftir því að hafa tekið að mér að kenna þennan tíma á eftir, er svooo sybbin og mygluð að mig langar mest að sofna bara núna og vakna ekki fyrr en á morgun, sé rúmið mitt í hyllingum. En skítt með það, sumarið er byrjað og þetta verður meiriháttar sumar, liggur bara einhvernveginn í loftinu! Jíha! Er of þreytt til að vera sniðug, zzz...

laugardagur, maí 07, 2005

Nætursvefn? Nei, hringir engum bjöllum...

Þetta er nú meiri óbjóðurinn að geta ekki sofið á næturnar. Alveg sama hvað ég safna upp mikilli þreytu, ég get samt aldrei sofnað fyrr en undir 6 á morgnana. Er að verða nett arrý á þessu rugli, enda ekkert betra að gera á næturnar en að sofa, ekkert í sjónkanum og allir hinir sofandi.
Annars tók ég mig til í gær og skar upp herör gegn öllu rykinu og kattarhárunum í herberginu mínu, það voru að verða til margir litlir kettir í öllum hornum og glufum. En ekki lengur! Daddamm! Nú er allt spikk og span en ég er líka að verða uppiskroppa með afsakanir fyrir að læra ekki...
Ég drýgði persónulega hetjudáð í gær. Horfði á Saw. Ojbara. Sá samt bara helminginn af myndinni og lét segja mér hvað væri að gerast hinn helminginn, en samt, dugleg stelpa. Miðað við að ég er stelpan sem var hrædd á Mummy (bönnuð innan tólf. Ég var sextán...) þá er ég ánægð með sjálfa mig að hafa tekið mig saman í andlitinu og þraukað þetta. Til hvers veit ég hinsvegar ekki.

fimmtudagur, maí 05, 2005

Sveittur lærdómur

Árshátíðin er semsagt afstaðin og það var nú meira svallið! Ég var edrú próformur og sit þess vegna uppi með að muna alla skandalana... Ef það verður ekki sprengja af World Class börnum eftir 9 mánuði þá veit ég ekki hvað. En það var ofsa gaman, dansaði eins og ég ætti lífið að leysa og sýndi takta með hinum stelpunum í dansinum okkar við æ læk bigg bötts, sem mér finnst alveg ofsa fyndið að taka á árshátíð World Class. Ég var að vísu pínu heft því draslið sem ég var með inná stélinu til að stækka það var alltaf að renna niður og með því sokkabuxurnar svo ég varð að halda því uppi svo það sæist ekki í alvöru stélið mitt. Leiðinlegt að vera með plömmer á árshátíð, það er ekki mjög spari...
Núna erum við hinsvegar tvö að læra á Reykjalundi og hitamælirinn sýnir 28°c hérna inni. Við erum að vera komin úr öllu sem almennt velsæmi leyfir og samt er ég alveg grilluð í hausnum. Svitnum yfir bókunum í orðsins fyllstu! Væri alls ekkert hissa þótt það kviknaði skyndilega í öllum glósunum mínum og allt draslið fuðraði bara upp. Þetta er einhvernveginn meira rómó á Mallorca með kokteil með lítilli sólhlíf og fljótandi á vindsæng, virkar ekki eins í litlum bás á skrifstofunni á Reykjalundi. Ekkert svipaður fílingur. Bömmer.

laugardagur, apríl 30, 2005

Gúrkutíð í blogginu

Eitt próf búið, þrjú eftir. Er að lesa núna Hvar á maðurinn heima? eftir Hólmstein, í annað skipti því ég náði því engan veginn í fyrra skiptið hvar maðurinn býr eiginlega. Annars er þetta ekkert svo hrikalegt námsefni að lesa, alls ekki, svo ég ætla ekki að vorkenna mér neitt hræðilega þessa helgina. Bara smá. Er að passa örverpið í kvöld svo ég er ennþá að lesa, en á morgun verður bara tekinn maraþonlestur til fjögur-fimm, og svo sett á sig partýandlitið og búbburnar og skellt sér í bullandi kæruleysi á ááárshátíð! Jei! Selfoss hír æ komm. Og ef ég fell í prófinu á mánudaginn sendi ég Bjössa persónulega í endurtektarprófið í haust. Jeminn hvað ég vona að hann lesi ekki þetta blogg... Hlakka til, hlakka til, hlakka til. Hef samt áhyggjur af því að ég verði alvarlega ofvirk, sleppt út úr prófsetunni og á dansgólf, svo til að stemma stigu við öllu hoppinu og skoppinu sem ég þekki sjálfa mig nógu vel til að vita að mun reyna að brjótast út, þá ætla ég að vera í stígvélum af mömmu minni, sem eru 2 númerum of stór. Maður verður að kunna að halda í töffið, það er fljótt að fara þegar manneskja af minni skálastærð fer að hoppa um allt. Glóðaraugu á báðum bara fara mér ekki.

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Leyndardómur upplýstur!

Loksins búin að komast að því af hverju kommentin mín hverfa alltaf. Þau geymast víst bara í þrjá mánuði nema ég sé í áskrift sem ég borga fyrir. Ég er fátækur námsmaður og borga ekki fyrir eitt eða neitt nema bensín og hluti sem gera mig sætari. Og feitari... Hm. Já, ég sé þetta líka. Spurning um að endurskipuleggja málið. Allavega...
Jógu finnst ég leiðinleg að vera alltaf að tala um skóla á blogginu mínu. Ég er alveg sammála. Hef samt í bili ekkert annað að tala um svo þið verðið að afsaka það að fram yfir próf verður þetta annaðhvort leiðinlegt skólablogg eða pistlar um ekki neitt. Þessi er um ekki neitt. Vesgú.
Árshátíð á laugardaginn. Vei. Mikið ætla ég að vera sæt. Og fyndin. Vinn nefnilega með fyndnum stelpum og stefnan er að sameina krafta okkar í nokkrar mínútur á laugardagskvöldið og sjá hvort heimurinn þolir svona mikil skemmtilegheit á einum stað. Ef hann reynist ekki þola það þá var gaman að þekkja ykkur öll, en samt aðallega þau ykkar sem kommentuðu. Og ef einhver veit af hverju ég er búin að vera pirruð núna samfleytt í marga daga, þá má viðkomandi segja mér það. Eins ef einhver kann lækningu við því. Er að verða frekar pirruð á að vera alltaf pirruð yfir engu. Pirr. Gæti verið að ég sé farin að sakna vina minna af því ég er alltaf upptekin í skólanum? Séns. Eða það er einhver að lauma pirringi í matinn hjá mér og þá má sá hinn sami vinsamlegast hætta því strax. Ekki töff.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Morgunógleði

Á 5 mínútna leiðinni heiman frá mér og í Spöngina eru núna 8 hringtorg. Eitt var að bætast við í morgun. Það þýðir (takið eftir ógnvænlegri stærðfræðikunnáttu minni) að í morgun, fyrir hálfátta, vorum við Trausti búin að sigla kringum 16 hringtorg. Ég er nett sjóveik...
En neikvæðni lokið. Jákvæðni hafin. Það gleður mig að alveg sama hversu vel ég spenni niður hárið á mér áður en ég kenni á morgnana að ég lít samt alltaf út eins og kökuskrímslið þegar tíminn er búinn. Væri ekkert tiltökumál nema vegna þess að allir hinir í tímanum líta hreint ágætlega út í lok hans, sveittir og fínir en annars bara ferskir. Hvernig stendur á þessu? Örugglega sama ástæða og fyrir því að ég vakna alltaf með svona hár þótt ég sofni með 8 hárnet og svo margar spennur að ég held varla haus fyrir þunganum. Svona geta leyndardómar lífsins verið spennandi. Ég er búin að gefa skít í svefnhárið og hætt að gera tilraunir með hina ýmsu hárfjötra, nú legg ég metnað minn í að sofna eins úfin og ég get svo sjokkið verði minna þegar ég skríð fram á bað á morgnana.
Hvað ætli hafi annars orðið af jafnvægisskyninu mínu þegar ég var lasin um daginn? Á ekki að taka til, þá týni ég bara hlutum. Þarf samt að fara að finna það, dugar ekkert að halda sér í body bar í tímum, alveg sama hvað ég rígheld í minn enda, hinn endinn er (mjög óheppilega) ekki fastur við neitt.

mánudagur, apríl 25, 2005

Sjálfsvorkunn

Ég vorkenni mér svo mikið að vera að skrifa ritgerð að ég held ég sé að setja persónulegt met. Mér hefur ekki leiðst skóli svona mikið síðan ég var í heimspeki hjá Clarens. Nenni þessu ekki. Sem er náttúrulega ekki fullorðins afsökun fyrir að gera ekki hlutina. Ég er búin að komast að því að ég er haldin fælni við að taka ákvarðanir, get ekki ákveðið nokkurn skapaðan hlut og það hamlar mér alveg helling. Gat ekki ákveðið hvert ég vildi fara í skóla næsta vetur svo ég sótti bara ekki um skiptinámið, nú get ég ekki ákveðið hvað ég á að gera næsta vetur svo ég skráði mig á annað ár í stjórnmálafræði og fæ núna kvíðakast daglega þegar ég heyri póstinn læðast inn um lúguna ef ske kynni að þar væri greiðsluseðillinn sem ég þarf annaðhvort að borga eða ekki til að vera löglega skráð í skólann næsta ár. Er til 12 spora prógramm við þessu?

Og í fyrsta sæti er...

Hugrekkiverðlaunin hlýtur móðir mín. Megi hún lengi lifa. Húrra, húrra, húrra!

Gömul en glöð

Skemmtilegt hvað maður er búinn að koma sér upp góðu safni af allskonar meiðslum sem geta tekið sig upp við minnstu tilefni. Nú er ég í vandræðum með að sitja af því að nárameiðslin mín eru að minna á sig. Voru að gleymast og kunnu ekki við það. Sem er einstaklega vel tímasett þar sem prófin eru að byrja og útlit fyrir að maður verði meira og minna sitjandi næstu vikur. Maður er greinilega að verða gamall.
Komst líka að því að það er ekki hægt að gera öllum til geðs, stundum verður maður bara að ákveða hver maður vill vera og standa við það sama hvað hver segir. Var nefnilega sagt að ég væri of glöð. Það vissi ég reyndar ekki að væri hægt en maður er alltaf að læra. Fór samt að spá í það af hverju ég er yfir meðallagi glöð, því ég er hvorki á lyfjum né er lífið alltaf fullkomið og rósrautt. Ætli ég sé kannski bara glöð á yfirborðinu? Eftir ítarlega naflaskoðun komst ég að því að einhvern daginn ákvað ég bara að vera glöð frekar en ekki. Ekki mjög dramatísk niðurstaða úr annars vel framkvæmdri naflaskoðun. Hélt ég væri flóknari. Nett vonbrigði.
Annars ganga ritgerðasmíðarnar hægar en ég hefði kosið, held ég þurfi að láta mér vaxa sjálfsaga. Kann einhver að rækta svoleiðis?

laugardagur, apríl 23, 2005

Mygluð einn tveir og nú!

Hefst nú sá tími árs þegar ég fæ alltaf slæmt tilfelli af ljótunni sem endist framyfir próf, og nær hámarki degi fyrir síðasta próf. Dagurinn í dag er gott dæmi. Mín mætt á Reykjalund að skrifa ritgerð, fötin skemmtileg blanda af rauðu, appelsínugulu og eplagrænu og hárið farið að ögra þyngdaraflinu og þolinmæðinni minni. Ég er að vísu búin að lofa sjálfri mér og Möggu að halda í skvísið eins og ég mögulega get, verð allavega að geyma það á vísum stað þar sem árshátíð World Class er á laugardaginn og ég ætla að fórna smá stjórnmálaheimspekilestri til að mæta í matinn og sækja happdrættisvinninginn minn. Og fermingarmyndina mína! Þar fór kúlið sem ég var búin að vinna hörðum höndum við að byggja upp í fyrirtækinu. Keppni um hallærislegustu fermingarmyndina. Hver fær svona hugmyndir..? Rats.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Gleðilegt sumar!

...og takk fyrir veturinn!
Langar að leggjast í dvala þegar ég hugsa um hvað það er mikið vesen framundan, tvær ritgerðir og svo prófin. Foj. En svo þegar það er búið tekur ljúfa lífið við, sumar í Laugum! Jei! Gerist ekki mikið betra. Allavega ekki ef það verður sama góða stemmningin og var síðasta sumar. Annars er skipulagið mitt í rúst eftir nokkrar kaffihúsaferðir þar sem spjallað var um ferðalög og aftur ferðalög, ég hef enga einbeitingu í próf núna heldur langar bara að hoppa til Keflavíkur og selja köttinn fyrir flugmiða til Langtíburstan. Get ekki einu sinni grínast með þetta. Sel ekki köttinn. Nei, nei, nei! Kannski stúdentshúfuna og alla Reif í blah geisladiskana. Langar til úúútlanda!
Væliskæl.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Í skottinu mínu...

Farið úr skottinu mínu!!! Strax! Ég kann ekki að meta það þegar fólk keyrir minna en 7 cm frá bílnum mínum. Það er of nálægt. Lofa.
Tókst eiginlega ekkert að sofa í nótt fyrir ritgerða- og prófstressi svo tíminn í morgun var frekar erfiður að kenna. Bjargaði samt öllu að Jóhanna, systir hennar og mamma, Björk og Saga mættu allar í tímann og það var æðislegt að hafa þær, lak af þeim hressleikinn. Eða kannski voru þær bara hressar í samanburði við mig.
Og hver er munurinn á head of state og head of government? Ef ég á að skrifa um head of state í t.d. Bretlandi væri ég þá að skrifa um mistah Tóní eða drottninguna? Frekar mikið vesen að byrja á ritgerð sem ég veit ekki um hvað á að vera. Hvað er ég að gera í háskóla??? Þetta er eitthvað mis... Hefði aldrei átt að útskrifast af kisudeild.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Skýrsla kvöldsins

Þá var ég að skríða inn úr dyrunum eftir vel heppnað bæjarrölt. Illt í tásunum!!! Enda var ég í skvísuskónum hennar mömmu minnar, það þarf meiri karlmennsku en ég bý yfir til að endast í þeim heilt kvöld skammlaust. Ég aldrei þessu vænt nennti að gera mig skvísulega og sæta fyrir kvöldið og uppskar þess vegna örlítið fleiri augngotur en vanalega, sem var hin besta skemmtun. Í framhaldi af augngotunum komst ég samt að því, sem er gott mál, að það skín greinilega af mér að ég er ekki týpan til að draga flækingshunda með mér heim á fyrsta kvöldi. Érso dönnuð. Reiknaði það út eftir að hafa fengið tvo ókunnuga kossa á höndina og tvo á kinnina. Aldrei sami dúddinn og bara einn hafði ég séð áður en reyndar aldrei talað við. Þeir voru samt ekkert að reyna við mig, bara gengu að mér, smelltu á mig herralegum kossunum og yfirgáfu svo svæðið. Hvað þýðir það eiginlega? Skiliddiggi.
En fréttir dagsins eru samt þær að Jóga massi (a.k.a. Snúður massi) varð Íslandsmeistari í kraftlyftingum í dag! Tiiiiiiiiil luuuuuuuuuuukkuuuuuuuu! Jei! Ég var að sjálfsögðu á svæðinu til að hvetja konuna og það var svaka stuð. Oh, ef ég væri nú svona mikill töffari. Bekkpressa koddann minn með herkjum...

föstudagur, apríl 15, 2005

Hemmi frjói Gunn

Ég er svo svöl og inn að ég er heima þetta föstudagskvöldið að horfa á Það var lagið með Hemma Gunn. Alls ekki slæmur þáttur, lekur af honum lífsgleðin og ólympíuandinn, skítt með það hver vinnur, bara að vera með! Það sem hinsvegar truflar mig frá því að lifa mig almennilega inn í hamingjuna er að á skjánum á bakvið kallinn eru svona flöktandi nótur, þessar með halanum, svona óskýrar og ekki í fókus. Örugglega mjög Feng Shui vænt en lítur fyrir mér ekki út eins og neitt nema... ja sáðfrumur. Og Hemmi Gunn, þessi endanlega holdgerving íslensku þjóðarsálarinnar með alkahólismann og kransæðavandamálin en samt alltaf í boltanum og allt er æðislegt og reddast, finnst mér ekki alveg ganga upp svona umkringdur svamlandi sáðfrumum. Jakk bjakk. Kjánahrollur.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Hjááálp...!

Hvað á maður að gera þá daga sem manni finnst maður sjálfur bara ekki skemmtilegur? Koma svona dagar, eins og í dag, þar sem mér finnst brandararnir mínir ekki fyndnir, ég ekki tala um áhugaverða hluti eða vera ánægjulegur félagsskapur fyrir neinn. Hvað þá sjálfa mig en ég sit uppi með mig! Vona að ég verði aftur orðin venjulega, yndislega skemmtilega ég þegar ég vakna á morgun, eða ég neyðist til að grípa til örþrifaráða eins og að þegja og hlusta á hina. Guð forði mér frá svoleiðis ósköpum.

mánudagur, apríl 11, 2005

Smart á Smart

Kraftaverk dagsins: Trausti fékk skoðun!!! Og ekki bara fyrir árið 2005 heldur hoppaði hann yfir ár og er skoðaður fram til 2006, sem þýðir skoðunin mun lifa bílinn. Er ekki skoðun einmitt til að koma í veg fyrir að það gerist? Jæja, ekki kvarta ég! Vúhú!
Sat í tíma hjá meistara Hólmsteini í morgun og hann leiddi mig í allan sorglega sannleikann um framtíð mína. Hann benti okkur stúlkunum á það að auðvitað væri betur borgað að vera nektardansmær en t.d. kennari því þá er maður í betri einokunarstöðu á markaðnum. Það getur nefnilega hver sem er orðið kennari en svo fáar stúlkur eru nógu limafagrar til að verða nektardansmærar. Þannig að þær okkar sem eru svo óheppnar að vera ekki nógu sætar til að geta orðið stripparar sitjum uppi með það að þurfa að vera læknar, verkfræðingar og ráðherrar. Oh, alltaf er maður jafnóheppinn.
Enda er ég ekkert búin að strippa í dag. Ég er hinsvegar búin að skottast um allt á Smart bíl og svakalega fylgir því mikil gleði. Get lagt hvar sem er, bakkað útum allt eins og brjáluð því það þarf að miða vel til að ná að hitta eitthvað á honum og svo er þetta bara eitthvað svo passlegt. Vasaútgáfa af bíl fyrir vasaútgáfu af manneskju. Svo er hann svo skemmtilega fjólublár að innan allur, eitís fílingurinn bílgerður og það eykur enn á gleðina. Here in my car, I feel safest of all, I can lock all my doors, and it´s the only way to live, in cars, dúrúbb, dúrúbb dúrúbb.

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Kraftaverkaís

Nú er ég búin að lifa á ís í þrjá daga og er ekki frá því að mér sé að batna. Takk fyrir það Kjörís. Er að vísu komin með varanlega gular varir en það hlýtur að detta í tísku fyrr eða seinna. Get ekki verið heima hjá mér í náttfötunum eina einustu mínútu í viðbót svo ég ætla að harka af mér og taka vaktina mína í kvöld, láta fullt af fólki vorkenna mér og klappa mér á kollinn. "Ég ætla að kaupa af þér mánaðarkort", "Sjálfsagt, klappaðu hér (bendákoll)... og hver er svo kennitalan?...". Hljómar vel.

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Lasinpési

Nú er illt í efni. Vaknaði í morgun með sárasta háls í minni persónulegu sögu held ég, magnaðan höfuðverk og skjálfandi af kulda. Ég varð að blása af tímann minn, sem var alveg glatað því það var víst loksins ágæt mæting í morgun eftir að slæmt tilfelli af páskaleti hafði hrjáð Spangargesti. Og nú sit ég á Hlöðunni með grýlukerti á nefinu, ísmolatær og gæææsahúð, svo ekki sé minnst á höfuðverkinn sem ákvað að halda trúnaði við mig í dag, og er að reyna að klára ritgerðina mína fyrir Hannes sem ég á að skila Á MORGUN. Dramadrottning dagsins: Ég! Þeir sem vorkenna mér æðislega mikið mega segja mér hvort tekjujöfnun á vegum opinberra aðila sé réttlætanleg og taka í svörum sínum mið af ólíkum skoðunum Nozicks og Rawls. Þeir sem vorkenna mér bara smá er bent á að færa mér heitt kakó og teppi.

föstudagur, apríl 01, 2005

Hvað gerðist?

Ég settist niður í morgun í þeim skýra tilgangi að skrifa ritgerð fyrir vin minn Hannes Hólmstein. Ekki fyrir hann per se náttúrulega, hann er held ég búin að læra sína lexíu varðandi ritstuld kallinn, en fyrir kúrsinn sem hann er að kenna og ég er svo heppin að sitja. Eitthvað varðandi jafnaðarstefnu. Einmitt, gekk svona vel nefnilega því ég skrifaði helling í dag en ekki bofs varðandi neitt gagnlegt. Skemmti mér samt konunglega en veit ekki alveg hvar ég fór út af sporinu... Pínu ringluð hérna megin.
Svo er ég svolítið fegin að vera bíllaus og föst heima í dag því það er fyrsti apríl og ég er ginnkeyptari en meðaljóninn. Og ljóshærð og örvhent. Hér er ég í minnstri hættu því mamma getur ekki logið frekar en ég, Bjarki er of lítill til að kokka upp almennilegar lygar og Óli er hálfur ofaní húddinu á Trausta (sem er bíllinn minn sko, ekki misskilja) og það skilst ekki almennilega hvað hann muldrar þar ofaní hvort eð er. Búin að setja upp virki úr íþróttatöskum og bókum, útbúin seríospakka og safa í pokum (þessum litlu silfurlituðu, ofsa vondir en brósi ræður í djúsdeildinni), með salatskál á hausnum og vopnuð handþeytara. Kem ekki fram fyrr en á miðnætti.

miðvikudagur, mars 30, 2005

Tilvistarkreppa

Ég er á undarlegum stað í lífinu núna. Fullorðin í orði en ekki á borði. Eins yndislegt og það nú er að búa hjá mömmu sinni og fá klapp á bakið þegar maður þarf, þvottinn sinn hreinan á borðið sitt og geta rænt ísskápinn þegar fer að líða að mánaðamótum þá fylgir þessu eitt vandamál. Ég á fullorðins mikið af drasli en barns mikið af plássi fyrir það. Alveg sama hvað ég reyni að skipuleggja, híbýli mín rúma bara alls ekki búslóðina mína, svo það endar alltaf þannig að það er allt útum allt, erfitt að ganga frá nokkrum sköpuðum hlut ef það er enginn staður fyrir það til að byrja með. Er alveg að missa stjórn á mér, því þegar það er drasl hjá manni líður manni bara alls ekki vel en hvað á maður að gera, henda bara öllum bókunum og fötunum? En ég vil það ekki!!! Hver rúmcentimetri er þaulnýttur, kassar á hjólum undir rúmi, kassar undir skrifborði, hillur á veggjum og undir stiga, skápur, tunna, og samt á ég fullt af drasli sem á engan samastað í veröldinni. Er ekki hægt að zippa drasl eins og tölvufæla?
Þar með lauk nöldri eitt. Hefst nú nöldur tvö.
Þar sem komið er í ljós að ég verð heima í sumar og næsta vetur líklega líka þarf ég að fara að huga að bílakaupum hið snarasta. Mér var sagt áðan hreint út að hann Trausti minn væri "ekki á vetur setjandi". Mér finnst kósí og rómó að hann drepi á sér þegar ég bremsa en það finnst skoðanamanninum víst ekki. Bíll er einn af þeim hlutum sem ég get ekki hugsað mér að vera án en finnst sorglegt að þurfa að eyða peningum í. Þar verður málið snúið.
Ég bið semsagt ekki um mikið. Hús og bíl. Anyone?

mánudagur, mars 28, 2005

Plan A

Blogg. Einmitt. Hæ.
Fyrst það er komið í ljós að ég verð ekki fjölmenningarleg og framandi í sumar heldur Frónbúi og starfsmaður í hofi hins heilaga svita þá er hér með gefin út stefnuyfirlýsing fyrir komandi mánuði. Komandi mánuðir eru skilgreindir sem tíminn eftir próf og fyrir 22ja ára afmælið mitt. "Útivistarhetja með tásublöðrur, litríka höfuðklúta og smart belti með litlum vatnsflöskum í" er þema komandi árstíðar og þið kæru vinir eruð hérmeð öll dæmd samsek. Er strax farin að finna ofvirknina læsast um líkamann. Trééééééééééé!
Írski vitleysingurinn er líka búinn að boða líklega komu sína í ágúst og í þetta skipti ætlar hann að taka nokkra litla vini sína með. Ég ætla að eyða tímanum þangað til í að kveðja hárið mitt sem hefur reynst mér vel í gegnum árin en mun ekki lifa af allar heimsóknirnar í Bláa lónið.
Oh. Andlaus dagur. Sund!

mánudagur, mars 21, 2005

Pressa!...

Þetta er að verða alltof mikið álag. Ég horfði á Strákana í síðustu viku og þá voru þeir að vappa um í görðunum hjá fólki og gægjast inn, athuga hvort það væri stillt á Strákana. Svo nú þarf maður að fara að hafa sig til áður en maður sest fyrir framan skjáinn, taka til í kytrunni, passa að bora ekki í nefið eða klóra sér á óviðeigandi stöðum ef ske kynni að það væri verið að taka mann upp! Argasti dónaskapur. Fyrir utan að skipulega óreiðan í herberginu mínu er (vegna umrædds álags auðvitað, svona almennt þessa dagana) að verða fulllítið skipulögð og þess meiri óreiða svo ég er dauðhrædd um að vakna einhvern morguninn við það að Heiðar snyrtir og Margrét verðandi tengdó (eeelska Sigfús) pota í mig og það rymji í Hjálmari Hjálmarssyni úr loftinu eins og rödd Guðs eitthvað smellið um hagi mína og herbergjaskipan. Svo til öryggis þarf maður nú að fara tilhafður í háttinn líka. Pressa...

laugardagur, mars 12, 2005

Pilobolus

Þar sem yndið hún móðir mín á afmæli 13. mars ákvað hún að skella sér með gæludýrið (manninn) á Pilobolus, enda menningarviti hinn mesti. Ég bjóst við að vera heima að gæta bús og barna eins og venjan er þá sjaldan sem hún yfirgefur móðurskipið eftir að veðurfréttum stöðvar tvö lýkur á kvöldin. En þar sem þetta er nú danssýning og ég mesta áhugamanneskja um svoleiðis lagað í póstnúmerinu þá keypti hún í góðmennsku sinni líka miða handa mér. Ég er dekurbarn! Örverpið var sent í útlegð í næsta hús (sama póstnúmer) og flikkað uppá mig eins og þurfti til að fara með mig á almannafæri. Í látunum varð ég meira að segja að losa mig við vetrarfeldinn og er með skurð á fætinum þess til sönnunar, vona bara að það komi ekkert alvöru páskahret því ég næ aldrei að safna aftur í tæka tíð... Brr... En feldurinn fór fyrir góðan málstað, sýningin var alveg mögnuð, ég er ennþá í skýjunum yfir þessu öllu saman! Vei! Dansararnir eru í svakalegasta formi sem ég hef séð held ég og hreyfingar þeirra á sviðinu nánast ómannlegar. Á tímabili voru þau þyngdarlaus. Lofa. Mér er hulin ráðgáta hvernig þetta var framkvæmt yfirleitt, skil ekki hvernig nokkur manneskja getur æft nógu mikið til að verða svona góð, það eru bara ekki nógu margar klukkustundir í sólarhringnum. Vona að ég skilji þetta aldrei, þetta er kvöld sem á eftir að lifa með mér lengi. Ég er alltof hrifnæm :) Takk fyrir mig mamma mín, og til hamingju með daginn! :*

miðvikudagur, mars 09, 2005

Post-kvíðakast

Þá er lokið kvíðakastinu sem fylgdi því að kenna fyrsta pallatímann minn. Syrgi það ekkert sérstaklega, lái mér hver sem vill. Hefst nú kvíðakastið sem fylgir því að kenna annan pallatímann minn! Ah, ég er svo mikill stresspési að það er ekki sniðugt, maður skyldi ætla að ég væri með blómlegt magasár og blóðþrýsting á við Bandaríkjamann en nei, ég er greinilega bara gerð til að vera svona stressuð, er með svo lágan blóðþrýsting að konurnar í blóðbankanum sendu mig einu sinni heim með skottið á milli lappanna til að borða lakkrís. Unnur í sínu náttúrulegasta ástandi. Annars gekk tíminn bara alveg sæmilega, margt sem þarf að vinna meira í en ég datt allavega ekki um pallinn minn og allir fóru sveittir út, svo ég er sátt í bili. Ég reyndi að vera pínu hippogkúl og sniðug en það endaði bara á því að ég þurfti að athuga hvort mækinn minn væri orðinn batteríislaus því það stökk engum bros. Mækinn var í lagi. Sannast þar með enn og aftur að ég er ekki hippogkúl. Ég er svona eins og úlfurinn í teiknimyndinni um bláa óþolandi hrokafuglinn sem hleypur ofsa hratt, alveg sama hversu oft ég dett fram af klettinum og verð undir steðjanum, ég mun aldrei læra af reynslunni. Mun í einhverju stundarbrjálæði pottþétt reyna að vera hippogkúl í öllum tímunum mínum, bölvað endorfín sem lætur mann gleyma öllu slæmu jafnóðum...

sunnudagur, mars 06, 2005

Eitt agnarlítið hús...

Hata hnyttnar, einlægar, rómantískar gamanmyndir. Fór með stelpunum á Hitch áðan og nú er ég öll mjúk og malandi að innan, kann ekki við það... Langar skyndilega bara í krúttlegan kærasta til að kúra mig og knúsa og klappa mér á kollinn þegar ég er æðislega mikill lúði. Þetta er algjört stórslys! Ef þú flettir upp "einhleyp" í orðabók finnurðu þar mynd af mér! Ég á ekki að vera að hugsa svona. Annars held ég að ég verði að fara að draga eitthvað karlkyns með mér heim, bara til að gleðja mömmu mína, sem er alvarlega búin að lækka standardinn fyrir tengdasyni eftir að vonarglætan fór að fara minnkandi hjá henni. Ástandið er orðið svo slæmt að um daginn langaði hana að koma mér saman við dúdda sem vinnur með henni og rökin fyrir því: Hann gengur um skrifstofuna á sokkunum og henni finnst það sætt. Mér finnst hún farin að vanmeta kvenkosti mína alvarlega!!!

laugardagur, mars 05, 2005

Fituskert og forhert

Jeminn hvað ég er fær í að koma inn sammara hjá fólki, vældi og skældi hérna í gær og kommentakerfið tapaði sér. Jæja, þið hafið þá allavega samvisku börnin góð ;) Annars ríkir gleðin hér í dag, fór í mælingu til Fríðu Rúnar í gær og útkoman: Unnsa massi! Úggabúgga! Hef ekkert lést en er með töluvert lægri fituprósentu og stærri upphandleggi sem þýðir einfaldlega þetta, massatröll dauðans, tada! Enda ekkert skrýtið, maður er að æfa með svo biluðu liði að það væri kraftaverk ef ekkert væri að gerast. Annars hafa æfingar þessa vikuna ekki farið eftir áætlun, ég er opinberlega búin að flytja lögheimilið mitt uppá pall og hef ekki snert lóð í viku.
Frekar fátækleg helgi samt, var svo útkeyrð í gær að ég fór beint heim að lúlla eftir að ég lokaði Laugum, og í kvöld er ég að fara að passa prinsessurnar hennar Ellu og gisti þar, svo sukk og svínarí verður í algjöru lágmarki. En hefur maður ekki bara gott af að hvíla sig, held ég sé búin að sofa að meðaltali 4 tíma á nóttu síðustu vikur. Áhrif þessarrar langþreytu sjást best á því að ég hef uppá síðkastið sést ráfa um langtímum saman fyrir utan Laugar, tóm í augunum að leita að bílnum mínum...

föstudagur, mars 04, 2005

Drekinn

Ég vil þakka vinum og vandamönnum fyrir að sýna lífi mínu einstakan áhuga og pósta ekki eitt einasta "gangi þér vel dúllurass og mússímússí" við síðustu færslu. Þar opinberaði ég það að ég ætlaði að hætta lífi, limum og orðspori með pallahoppi (pallurinn er a.m.k. 30 cm hár og allar líkur á að ég detti framaf oftar en einu sinni, hafið það í huga!) en ykkur er greinilega bara sama þótt ég verði lamin með body bar af frústreruðum húsmæðrum. Þakka pent. Þið eruð rekin. Þegar hafa nýir vinir og vandamenn verið ráðnir í ykkar stað. Ég vil þakka öllu fólkinu sem var statt á Hlemmi um kvöldmatarleytið í gær fyrir sýndan áhuga. Farin að skæla í koddann. Sniff.

þriðjudagur, mars 01, 2005

Spandex og svitabönd

Ég er semsagt að fara að kenna pallatíma í Spönginni í næstu viku. Sem hljómar ansi hreint skemmtilega, held ég geti staðið mig alveg ágætlega í því um leið og ég er búin að ná því hvernig á að telja taktinn, leiðbeina liðinu og gera sporin, allt á sama tíma og án þess að detta um pallinn. Þetta er í vinnslu, enda eins gott, ekki margir dagar til stefnu. Er samt ekkert langt frá því sem ég hef verið að gera svo ég hef svosem ekkert stórkostlegar áhyggjur af þessu, veit alveg að ég massa þetta :p
Annars er ég búin að búa á Hlöðunni síðustu daga að skrifa ritgerð fyrir Hannes félaga minn Hólmstein og það gengur ekki neitt þessa stundina, er alveg strand. Ekki það að ritgerðarefnið sé einu sinni neitt það krefjandi, ég bara einhvernveginn get ekki skipulagt það í hausnum á mér til að koma því á blað. Kannski vegna þess að ég er næstum ekkert búin að sofa síðustu nætur, vakna bara alltaf á tíu mínútna fresti. Þarf að fara að æfa mig að vera hrísla í vindinum áður en ég fer að sofa, það virkar víst...

föstudagur, febrúar 25, 2005

Houston, we have a problem...

Bilunin er í stélinu. Skellti mér áðan í danstíma svona til að athuga hvar ég stæði í þeirri deildinni, var komin með alvarleg fráhvarfseinkenni. Og það var ofsa stuð, hristi mig eins og blautur hundur, tók tvöfalda pírúetta með undraverðum árangri (segi ekki að þeir hafi verið fullkomnir en ég spottaði þá allavega og lenti á fótunum!) en þegar ég ætlaði að dúndra mér í gólfið í einhverjum gettóhipphoppfíling þá tókst mér að rífa upp gamla tognun hjá rófubeininu. Hún er síðan ég gerði tilraun til að komast niður stigann af loftinu mínu án þess að nota útlimina. (Fyrir áhugasama var niðurstaða tilraunarinnar sú að það sparar tíma í ferðalaginu sjálfu en sá tími tapast aftur við það að geta ekki gengið dagana á eftir, svo út frá hagfræðilegu sjónarmiði er þetta ekki praktískt.) Er búin að sitja í klukkutíma í Laugum með íspoka á afturendanum, sem er ekki töff frá neinu sjónarhorni. Býður sig einhver fram sem sjúkranuddara? Það er samt engin borgun í boði, World Class pennarnir og mandarínan gengu út fyrir einni færslu síðan.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Ég vissiða!!!

Þessi ofurbrjóst voru greinilega mistök í framleiðslu, það hef ég alltaf sagt. Andlega er ég flatbrjósta. Sjáiði bara:

Flat
FLAT

(results contain pictures) What kind of ANIME BOOBS do you have?
brought to you by Quizillla

On again, off again...

Brjál. Alveg brjál. Var loksins búin að ákveða í hvaða háskóla ég ætlaði að sækja um næsta vetur og meira að segja hvaða áfanga ég ætlaði að taka þegar ég hitti stelpu sem var í sömu deild þar í fyrra og bar staðnum ekki góða söguna. Svo ég verð að taka nýja ákvörðun og það er langt frá því að vera mín sterkasta hlið, þessi litla vog eltir skottið á sér í marga hringi áður en hún dettur niður á svörin og eftir alla hringina í síðustu lotu held ég að önnur gæti orsakað svima og uppköst. Býður sig einhver fram til að ákveða þetta bara fyrir mig? Skal borga*.
(*Laun eru 3 pennar merktir World Class og mandarína með skrautlega fortíð.)

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Gullberg. Tileinkað Jóhönnu.

Jæja, ég var búin að lofa því að næsta færsla yrði um Gullberg (Goldberg) sem er nýuppgötvaður vinur okkar Jóhönnu. Vorum að passa á föstudagskvöldið þegar við villtumst inná glímukappasíðu og misstum okkur aðeins, eyddum því sem eftir var kvöldsins í að urra og góla "Goldberg" og "Batista". Held að karlmannsleysið sé farið að rugla í hausnum á okkur... Af þessu tilefni hófst annað og öllu karlmannlegra stig heilsuátaks og við erum búnar að borða eins og módel og lyfta eins og dívurnar sem við erum síðan. Vei. Nema við fengum okkur okkar vikulega Álfheimaís áðan í miðri heilsugeðveikinni en maður er hvergi óhultur, vissum ekki fyrr en Sölvi Fannar og Ítalinn í spandexinu voru búnir að grípa okkur glóðvolgar með skeið í annarri og kransæðastíflu í hinni. Rats. Sýndum samt hörðu hliðina á geislandi kvenleika okkar í vinnunni í gær þegar það ráfuðu inn 6 byllifyttur og fóru í baðstofuna, við enduðum á að henda þeim öllum út með látum og unnum okkur þannig inn smá "streetcred" frá Össuri Skarphéðins, sem er einmitt maður vikunnar fyrir að aðstoða við aðgerðina. Úggabúgga.

föstudagur, febrúar 18, 2005

Helgin framundan. Jahá.

Nú stefnir allt í helgi. Sem er undarlegt því það er samkvæmt mínu bókhaldi fullstutt síðan um síðustu helgi. Mitt bókhald er í sjokki. Þessa helgi á að bralla ýmislegt, en ekkert svosem óvenjulegt eða hippogkúl svo ég held ég ætli ekki að fjalla um það hér. Ég bý í rútínu og það er kannski svolítið gróft að láta ykkur alltaf lesa lýsingu á helgunum mínum þegar þær eru allar meira og minna eins. Æðislegar, en eins.
Já, svo er það eitt, þið hinir ABC foreldrarnir, fenguð þið líka bara greiðsluseðla fyrir tvo mánuði en ekki þrjá eins og venjulega með síðustu sendingu? Er búið að breyta kerfinu eða rændi einhver greiðsluseðlinum mínum? Breytir einhver kerfinu án þess að spyrja mig?
Og hvernig byrjaði Americas Next Top Model án þess að ég tæki eftir því??? Ha? Birta? Kom heim í gær og náði síðustu 5 mínútunum af einhverri endursýningu, rétt sá í stélið á smá móðursýkiskasti og brostnum prinsessudraumum en veit ég missti af allavega einni "elimination", sem þýðir að fullt af litlum fyrirsætlingum fór skælandi heim án þess að ég væri þar til að sjá það. Sem er slæmt. Það er ekki skrýtið að það sé ekki búið að finna lækningu á eyðni, þegar fólk með alla möguleika til að gera það sem það vill, eins og ég, hangir heima endalaust með aulaglott að horfa á raunveruleikaþætti um alla hina aulana sem eiga ekkert líf. Kaldhæðni?

mánudagur, febrúar 14, 2005

Svefn er fyrir aumingja. Og þá sem vilja halda geðheilsunni.

Nú er liðin ein svefnminnsta helgi í sögunni, er hálfringluð eftir þetta alltsaman. Fyrst var árshátíð stjórnmálafræðinema á föstudaginn í Stapanum, allt rosa fínt og góður matur, en svo fór það nú að verða deginum ljósara að til að skemmta sér almennilega þarna eftir að skipulagðri dagskrá lauk varð að hrynja í það, og ég var auðvitað á bíl svo það kom ekki til greina. Þannig að ég fór fljótlega í bæinn bara, kíkti á nokkra staði og fór svo heim. Þurfti svo að vakna tveim tímum seinna til að opna Laugar með Jóhönnu, sem var hægara sagt en gert. En þar sem ég var með lykilinn var það ekki í stjörnunum að fá að sofa yfir sig svo ég skreið á fætur (bókstaflega) og dreif mig af stað, sem er eins gott því afrakstur dagsins var svakaleg hetjudáð okkar Jógu, við eigum fálkaorðuna skilið fyrir þennan dag. Það kom nefnilega fötluð kona niðrí vinnu sem gat næstum ekkert tjáð sig og var að reyna að biðja okkur um að koma sér heim. Meiru náðum við eiginlega ekki, hún gat bara leikið eins og hún væri að keyra og sagt "heim". Vissum ekkert hvað hún hét, hvað hún var á annað borð að gera þarna eða hvert hún væri að fara. Hringdum samt á leigubíl fyrir hana en bílstjórinn skildi hana ekki heldur og fór á endanum aftur. Þá var konan búin að vera strand hjá okkur í meira en klukkutíma og leist ekkert á blikuna, var komin með tárin í augun og allt í steik (ég er samúðarskælari og þurfti alveg að berjast við kökkinn í hálsinum) og þá voru góð ráð orðin alveg fokdýr. Á endanum hringdum við í 1818 og konan þar var yndisleg og hjálpaði okkur að reyna að finna eitthvað sambýli sem konan gæti mögulega hafa komið frá. Ég vil ekki gefa upp smáatriðin í sambandi við hvernig við fundum þetta á endanum út því það væri brot á einkalífi umræddrar konu en allavega náðum við sambandi við sambýlið hennar og stúlka þaðan brunaði yfir til okkar að sækja hana. Hún skildi ekkert í því hvernig í ósköpunum við hefðum farið að því að finna þetta út, enda erum við hetjur og kraftar okkar fyrir ofan skilning hins almenna borgara. Þetta var góðverk dagsins og við vorum ekkert smá ánægðar með okkur :) Um kvöldið neyddumst við því til þess að fagna góðmennsku okkar og fór sá fagnaður fram í hinum ýmsu póstnúmerum en endaði eins og allir góðir fögnuðir í 101. Þar var dansað fram undir morgun eða þangað til það var grunsamlega stutt í að ég ætti að opna Laugar AFTUR. Svaf í tvo tíma og var eitt stórt glimmer í vinnunni, sem var smart. Möggu að kenna/þakka, en hún var einmitt opinber styrktaraðili þessarar helgar og henni að þakka að ég var ofsa sæt þessa helgina. Og hógvær.

föstudagur, febrúar 11, 2005

Við erum ofsa sæt

Það er greinilega alveg hægt að stjórna því hvernig fólk sér mann, sem er svolítið merkilegt. Ég t.d. vaknaði í morgun og fannst ég sæt. Sem er reyndar tímaskekkja því árshátíðin er ekki fyrr en á morgun og það er alveg happa glappa hvort ég verð líka sæt á morgun, en við krossum bara putta og vonum það besta. Ég semsagt skellti mér svo í vinnuna í sæta skapinu og viti menn, það voru alveg þrír sem sáu sig knúna til að segja mér hvað ég væri sæt. Það gæti reyndar líka þýtt að ég væri venjulega frekar sjabbí, en við skulum ekki spá í það. Svo nú vil ég að allir skutli sér í sæta skapið og láti dást að sér, gott að láta strjúka egóinu aðeins fyrir helgina! Komaso!

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Birgitta a.k.a. Rut Reginalds

Ég veit ég er æðislega mikið eftirá en ég var að sjá Birgittu dúkkuna almennilega í fyrsta skipti í Hagkaupum áðan, og eins og allir voru búnir að segja mér er hún ekkert lík fyrirmyndinni, en það sem enginn hafði sagt mér var að hún er hinsvegar nauðalík Rut Reginalds! Eftir yfirhalningu. Er ekki bara eitthvað rangt við það að halda að börnum dúkku af konu með brotna sjálfsmynd sem lagðist undir hnífinn í þeirri von að nyrðri brjóst myndu lækna allt? Mikið er ég fegin að eiga ekki börn, það er alltof mikið álag að reyna að vera alltaf einu skrefi á undan þessu samsæri.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Zzz...

Ég er alveg að missa meðvitund í fyrirlestri í opinberri stjórnsýslu. Get ekki meir. Komið gott. En ég kemst ekki út því maðurinn tekur bara eitt stutt hlé á 3 klst! Þetta á að vera bannað. Og enginn kjaftaglaður á msn... Iss...

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Blóðug, skítug og snjóug

Það sprakk á bílnum mínum í gær, í þriðja skipti á jafn mörgum vikum held ég. Þetta er að verða frekar þreytt. En í þetta skiptið ákváðum við Jóhanna að vera hetjur og skipta sjálfar um dekkið, sem við svo gerðum, beint fyrir framan KB banka hjá Hlemmi. Og við sýndum snilldartilþrif, þetta var allt ryðgað og drullugt og svo snjóaði brjálæðislega í ofanálag, við orðnar drulluskítugar og ég nett blóðug, og rennandi blautar af snjó, og ég var skyndilega gripin óstjórnlegri löngun til að spangóla "Eye of the Tiger". Sem ég gerði ekki því Jóhanna var vopnuð einhverju svona "skiptaumdekk" verkfæri. En það hefði verið svakalega töff. Ég var svo ánægð með skítugu hendurnar mínar að ég tímdi varla að þvo þær, og gerði ekki fyrr en ég var búin að sýna þær öllum í Gym 80. Þeim fannst ég töff. Sögðu þeir, en svipurinn á þeim var svolítið dularfullur...

föstudagur, janúar 28, 2005

In luv

Ég er ástfangin af kálfinum hennar Birtu! Sem er tæknilega séð ekki kálfur heldur séffer og tæknilega séð ekki hundurinn hennar Birtu ennþá heldur í prufu, en ég get ekki séð hvernig hún ætti að geta fengið það af sér að skila litla skrímslinu... Loppurnar á honum eru allsstaðar og hann hleypur eins og hestur, ég vil! Ég vil, ég vil, ég vil!!! (Nú er kötturinn minn einhversstaðar með sting í hjartanu og skilur ekki af hverju... Elskana samt. En hún er bara svo... lítil...)
Og ég kann ofsa vel að meta það að athugasemdin mín varðandi snjóinn hafi hlotið hljómgrunn en var aaalveg nauðsynlegt að breyta honum í hálku? Blóm eða glimmer hefði alveg virkað fínt sko. Confetti líka. Nei, hvað er að sjá! Kommutakkanum mínum er batnað! Vúhú! Hefði kannski átt að bíða minna en tvö ár með að fá mér vírusvörn. Nema þetta sé vegna þess að ég tók takkana af lyklaborðinu og fjarlægði hálfa köttinn sem leyndist þar undir.

sunnudagur, janúar 23, 2005

Unnsa fínbuxi (fancypants)

Mér var boðið út að borða á Sjávarkjallarann í gær. Vildi leyfa þessarri fyrstu setningu að standa svona, áður en ég ljóstraði upp að það var ekki efnilegur ungur maður sem bauð mér heldur Bjössi og Dísa sem buðu allri afgreiðslunni, 18 manns með þeim hjónum. Byrjaði reyndar ekki vel, sprakk á fáknum á Sæbrautinni og við allar á pinnahælum og alles, óðum skafla upp að ökklum og vorum almennt frekar aumkvunarverðar, sem varð okkur svo til happs því Lára keyrði fljótlega framhjá okkur og gaf okkur far. Eftir að á Sjávarkjallarann var komið er hinsvegar ekki veikur punktur á kvöldinu, þetta var bara hreint út sagt alveg frábært! Kósí staður, æðislegur matur og auðvitað frábær (en svolítið hávær) félagsskapur. Vorum komnar á tímabili ansi hátt á tónskalann held ég, enda 17 stelpur og einn Bjössi. Fyrst fengum við smakk úr eldhúsinu, sem var hrá marineruð hámeri. Hún var ofsa góð á bragðið, þrátt fyrir að ég hafi haft mínar efasemdir þegar hún kom fyrst á borðið. Í forrétt var svo næstum hrá (allavega mjööög lítið steikt) dúfnabringa, andaeitthvað (náði því ekki alveg, þjónninn átti í mestu erfiðleikum með að ná upp á okkar hluta tónstigans, bassinn hans kæfðist bara í gleðinni) og uxahalar, sem var alltsaman mjög gott. Dúfur eru eins á bragðið og gæsir komst ég að, og finnst ég menningarlegri fyrir vikið. Í aðalrétt var svo lax í bananalaufi (varð að spyrja hvort ég mætti borða bananalaufið því mér fannst það liggja eitthvað svo beint við og missti nokkur stig í menningarleika fyrir vikið, en hafði unnið inn nokkur með dúfna/gæsalíkingunni svo ég kom út á sléttu), túnfisksteik með einhverju rauðu (þjónninn var alveg hættur að reyna á þessum tímapunkti, enda hávaðinn með ólíkindum (undirrrituð ekki manna saklausust...)) og saltfiskur með kókoskartöflumús og chili. Þetta var allt mjög gómsætt en túnfiskurinn var æðislegur. Vá. Vahá. Ætla að láta einhvern grunlausan bjóða mér á deit bara til að fá meiri túnfisk! Þegar ég var með fullan munninn af dúfum og uxum hafði svo hringt síminn minn (og ég svaraði, enda kann ég mig ekki á svona fínum stöðum). Það var fjölskyldan mín að láta mig vita að þau hefðu brunað í bæinn til að skipta um dekk á bílnum mínum og vildu vita hvar þau ættu að skilja hann eftir!! Ég er dekurbarn! Svo ég var víst ennþá keyrandi og gat þess vegna ekki tekið þátt í skotaveislunni sem fylgdi á eftir matnum. Ekki skosk veisla, heldur buðu þau hjónin í skot hægri vinstri (oft reyndar varð að vinna sér þau inn, og Lára á þann hluta kvöldsins fyrir að taka stórgóða mynd af Jónínu Ben og deitinu hennar við borð stuttu frá). Eftir smá skrall á kjallaranum var haldið á Rex þar sem við áttum eitthvað vín í boði Egils, en ég kom mér undan því og fékk í staðinn sódavatn í boði Bjössa. Mér tókst svo að flýja heim fljótlega eftir miðnætti, enda varð einhver að opna búlluna í morgun!
Takk fyrir mig Bjössi og Dísa, og takk fyrir dekrið mamma og Óli!!! Ég er prinsessa.