þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Félagslyndið uppmálað, það er ég!

Ég fór í skólann í dag, á fund fyrir nýnema í stjórnmálafræði. Það var voða fínt, þarna var fullt af fólki sem ég kannaðist við héðan og þaðan sem ég hefði getað spjallað við og reynt að vera soldið kammó, flagga mannasiðunum. Ég bara nennti því ekki. Ég nennti í fyrra alveg að vera ógó hress og kynnast öllum og svona, en núna á ég bara voða lítið nenn eftir, og hvernig vingast maður við fólk sem maður nennir ekki að tala við? Þetta er ekki snobb, alls ekki, allir þessir krakkar líta út fyrir að vera mjög skemmtilegir og ég væri meira en til í að vera vinkona þeirra, nenni bara ekki að hafa fyrir því að verða vinkona þeirra. Ég er búin að þróa með mér óþol fyrir "smalltalk". Hjálp!

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Að eiga við Háskóla Íslands er svipað og að reyna að vinna barn í leik sem það hefur sjálft fundið uppá. Um leið og manni er að takast að komast áleiðis í kerfinu er reglunum bara breytt og þú ert aftur á byrjunarreit. Það er sko bannað að stíga á línur.
Ég er að reyna að skipta um deild innan Háskólans og drengur ó drengur er það meira en að segja það. Hef verið að síðan í maí og er búin að komast að því að ef maður spyr fimm starfsmenn stofnunarinnar sömu spurningar um kerfið þeirra fær maður fimm mismunandi svör. Spurning hvort kerfið sé að verða of flókið?... Ekki það að það séu ekki allir alltaf boðnir og búnir að hjálpa manni, það vantar ekki, það er bara að alltaf þegar búið er að greiða úr flækjunni og finna rétta eyðublaðið er ólíklegt að maður nái að skila því inn áður en búið er að breyta reglunum aftur.Maður er ekki fyrr búinn að fylla út eyðublað 35c3i með rauðum túss en ákveðið er að aðeins megi skila inn með bláum túss og þegar búið er að redda því er búið að úrelda blaðið eins og það leggur sig, í staðinn skal fylla út 35c3d og skila því á Hornafirði ásamt fæðingar- og dánarvottorði og vottorðinu sem þú fékkst í leikfimi í sjöunda bekk. Þetta er að verða alveg eins og ein af þrautunum í Ástríki og þrautunum tólf.
Miklu japli, jamli, fuðri, góðum hluta regnskóganna virði af eyðublöðum og nokkrum alvarlegum pappírsskurðum síðar er ég merkilegt nokk enn í verkfræðideild. Það var haldinn fundur um örlög svona kjánaprika eins og mér í síðustu viku en hann annaðhvort stendur enn eða að skilvirkni stofnunarinnar nær til innanhússpóstþjónustunnar og verið er að skipuleggja atvinnuviðtal fyrir manninn sem verður ráðinn til að sleikja frímerkið á umslagið mitt.
Á meðan veit ég ekkert hvað verður um mig þar sem ekki er víst að ég fái nokkuð að skipta um eina einustu deild. Íslenska ríkið er alvarlega að hugleiða að þröngva mér til að verða verkfræðingur. Hvar væri maður ef ríkið sæi ekki um að hafa vit fyrir manni?