föstudagur, júlí 29, 2005

Útá land! Ég er hetja!

Nú er komið að því að standa við stóru orðin. Ætla út á land. Alla leið til Víkur í Mýrdal á landsmót barna og unglinga. Veit ekki í hverju þau keppa helst, alltaf bara talað um "landsmótið", en ætli það sé ekki veggjakrot og svoleiðis níðingsháttur. Þetta eru jú unglingar. Við vitum öll hvað þeir eru villtir og spilltir. Og hættulegir. Ja ég tek allavega piparspreyið með mér. Verst að ég þarf að keyra ein fram og tilbaka og fyrir utan að finnast leiðinlegt að keyra þá er ekki einu sinni útvarp í bílnum og smá séns að ég verði búin að missa glóruna þegar ég loksins kemst á leiðarenda. Kann ekki nógu mörg lög til að endast þrjá tíma á söngli. Verð bara að leika mínar eigin veðurfréttir og umferðarfréttir og svona milli laga. Og morgunleikfimi eins og á Rás 1, best að æfa sig til að vera við öllu búinn ef svo ólíklega fer að Dabbi fær djobbið. Gæti líka tekið upp puttalinga, þeir ættu að geta skemmt mér allavega nokkra kílómetra, og þeir eru svo æðislega réttlausir að þeim má henda út um leið og þeir glata skemmtanagildi sínu. Tók einmitt upp tvo unglinga um daginn, bæði til að komast yfir hræðslu mína við unglinga (stara í augun á óttanum) og svo voru þeir svo skemmtilega bólóttir og vandræðalegir að ég stóðst þá ekki. Enda voru þeir ofsa efnilegir. Á unglingakvarðanum. Sem þýðir að þeir stálu engu, krotuðu ekki inní bílinn, nöguðu ekki áklæðið og hræktu ekki á gólfið. Fínir strákar.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

O ó...

Nett kvíðakast í morgunsárið. Samkvæmt mínum útreikningum er ég búin að vera að eyða tímanum í eitthvað allt annað en að:

a) skrifa ritgerðina mína (sem ég var að ákveða fyrir núlleinni að ætti að vera um hversu vel skrifræðislíkan Max Webers henti nútíma skipulagsheildum. Spennandi.)
b) vera kreatív og skapandi (þ.e. skrifa eitthvað mér og öðrum til skemmtunar og hamingjuauka. Því ekki er bloggskrípið að gera sig. Það bara neitar að deyja.)
c) panta dótarí af netinu viðkomandi eróbikktímunum mínum, til að gera mig að betri kennara og tímana mannúðlegri (t.d. galdraprik og töfraduft. Og kannski skárri tónlist.)
d) ferðast innanlands (fjallageitarkomplexinn alveg gleymdur)

Samkvæmt umræddum útreikningum er ég búin að eyða því sem af er sumars í:

a) óhóflega vinnu
b) að leggja sjálfa mig í klórbleyti (mér til ánægju og yndisauka, ekki af því það væru á mér blettir, svo gagnsemin er takmörkuð)
c) hjúkra sjúku kattaskotti (tíma vel varið og sé ekki eftir mínútu af því)
d) vera á msn (get ekki á nokkurn hátt réttlætt það svona yfir hásumarið, ætti kannski að reyna að finna 12 spora prógramm)

En það þýðir ekki að gráta það, heldur reyna að nýta þennan mánuð sem eftir er sumars (!) til uppbyggilegri hluta eins og:

a) að borða barnaís í brauði (hvað er uppbyggilegra en það?)
b) skrifa bévítans ritgerðina (foj)
c) fara til Víkur að heimsækja Áslu og kjörfjölskylduna mína (og auðvitað öll börnin sem ætla að safnast þar saman því þau kunna að hlaupa hratt og hoppa hátt/langt)
d) panta eróbikkdiska á netinu sem eru ekki með lögum með Backstreet Boys eða Whitney Houston (ef þeir eru þá til...)
e) fara í allavega eina almennilega göngu (bara eitthvert, ofsa margir hringir á Laugardalsvellinum duga ef í harðbakkann slær)

Alltaf gaman að skipta blogginu sínu í liði.

föstudagur, júlí 22, 2005

Alþjóðalæti

Fór með dönsku Möggu minni að drekka te í Alþjóðahúsinu í gær. Við enduðum þar eftir smá vapp því við þurftum að tala ööörlítið saman og fimmtudagshávaði þema á næstum öllum kaffihúsum. Meðal annars í Alþjóðahúsinu, nema þar er boðið uppá sniðugt. Hægt að velja borð í hávaða eða hávaðalausu. Ég var alveg uppnumin af snilldinni. Völdum hávaðalaust og töluðum útí hið óendanlega.
Nú er ég að telja á mér tærnar í vinnunni því það er ekkert að gera og ég að bíða með óþreyju eftir að komast heim, þar sem Eva Dögg bíður með neglurnar mínar. Jei! Þó það sé útsala hjá mér vill samt enginn fórna sólinni til að versla við mig. Er alein. Foj.
Á morgun fer ég svo í fyrsta brúðkaupið á ævinni, og hlakka ofsa til, enda ekki ómerkara par að gifta sig en Guðný og Gummi. Hlýtur að verða stuð. Ég fórna World Class afmælinu fyrir það með glöðu geði, en ætla að reyna að merja það í staffapartíið og ballið um kvöldið. Það er nefnilega World Class Sálarball í Skautahöllinni annað kvöld frá kl. 23, ókeypis inn og ahahallir velkomnir. Mæta!!! Verður tjúttað alveg útí hið óendanlega, svo mikið pláss í Skautahöllinni að við ætlum að máta öll plássfrekustu hallærismúvin okkar. Teygjusokkar og hita- og kælikrem á svæðinu ef illa fer. Vííí...

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Passa mig á sólinni...

Þessa tvo daga sem sólin hefur verið að glenna sig hérna á klakanum núna er ég búin að vera andsetin af þvottabirni, svo ég hef ekki séð hana mikið. Er búin að þvo herbergið mitt vel og vandlega, eftir að hafa látið það sitja á hakanum í vinnutörninni. Og letinni. Svo nú eru allir velkomnir í heimsókn aftur, skal hætta að skella hurðinni á nefið á gestum og segja þeim að hringja á undan sér eins og siðmenntað fólk...
Í kvöld er svo hópferð á Madagaskar í bíó fyrir þá sem ekki vita, kl. 22, allir að mæta!!!

mánudagur, júlí 18, 2005

Sveitt helgi

Allt sem ég gerði þessa helgina hafði þær afleiðingar að ég svitnaði, svo ég var sveitt mestalla helgina. Fór í baðstofuna á föstudagskvöldið og svitnaði, æfingu á laugardaginn og svitnaði, út að dansa um kvöldið og svitnaði og svo á æfingu og baðstofu í gær og viti menn, svitnaði. Maður er ekki beint heillandi þessa dagana. Fór út að hlaupa í Laugardalnum með Möggu á laugardagsmorguninn fyrir vinnu og hélt ég myndi bara deyja einhversstaðar á leiðinni. Ef það hefðu ekki verið sætir útlendingar fyrir utan farfuglaheimilið hefði örugglega liðið yfir mig þar en ég fór þetta á þrjóskunni. Og þetta slefaði kannski uppí tvo kílómetra. Aumt.
Stelpukvöldið á laugardaginn tókst ofsa vel, nettur kjaftaklúbbur hjá Hrefnu minni og svo sveittur (auðvitað) dans á Hressó. Byrjuðum samt á öfugum enda, hefðum átt að byrja á að taka rölt og vera pínu sætar og svona, því eftir að við byrjuðum að dansa varð eiginlega ekki aftur snúið, við urðum strax eins og við hefðum setið í finnskri sánu í sólarhring eða svo. Kúlið farið svo við dönsuðum bara meira og fórum svo heim að lúlla. Eftir að hafa borðað ofsa góðan sjeik á Aktu taktu á leiðinni heim...

föstudagur, júlí 15, 2005

Væld þeing

Leysti vandamál gærdagsins á frumlegan hátt. Gerði hvorugt. Borðaði kringlu og kókómjólk hjá Möggu í staðinn. Svona er að hugsa útfyrir kassann sko, alltaf svo villt stelpan. Það er óðum að komast mynd á þessa helgi sem er framundan, ætla að taka góða æfingu og baðstofuslökun í kvöld eftir vinnu, smyrja á mig allskonar jukki og vappa um í baðslopp í myrkrinu. Smá kósý og rómó stemmning innan um granítsáðfrumurnar. Eftir vinnu á morgun stefnir svo í stelpukvöld ársins, verið að nýta tímann sem Hrefna mín stoppar á landinu. Það endar svo bara þar sem það endar, búið að segja mér hin og þessi plön en mér láðist að leggja eina einustu hugmynd á minnið, svo þetta er óvissuferð hjá Unnsu litlu. Eins og svo margar aðrar... Blah.

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Sól úti, ég inni

Sem er alltaf nett spælandi en það sem er samt verra er að það er skítakuldi hérna inni í búðinni hjá mér. Þannig að á meðan þið ormarnir sem eruð í sumarfríi eruð að grillast úti í sólinni er ég ekki bara snjóhvít heldur líka með gæsahúð. Kvartikvart. Annars er lífið gott. Er að lesa Ellefu mínútur eftir Paulo Coelho, og hún er ofsa góð. Það eina sem ég get fundið mér til að hafa áhyggjur af ef hvort ég á að fara á æfingu eftir vinnu eða á kaffihús að lesa meira. Svo ég hlýt að hafa það hreint ágætt bara! Maður er ekki skemmtilegur bloggari þegar lífið er svona gott.

mánudagur, júlí 11, 2005

Heróínvettlingur

Var að koma úr blóðbankanum, þar sem yndisleg gömul kona var að taka úr mér blóðprufu. Ég ræktaði hinsvegar ofsalega mjóar og kræklóttar æðar sem er næstum vonlaust að hitta á, svo eftir mikið juð og pot fram og til baka sit ég uppi með ansi hreint skemmtilegan blóðpoll undir húðinni. Skemmtilega heróínlegt, nema ég er ekki alveg nógu mjó til að klára lúkkið almennilega.
Og mætt á Hlöðuna, í júlí! Ef það er ekki eins og einnar Fálkaorðu virði þá er ég illa svikin. Er að reyna að byrja á ritgerðinni minni, ekki nema 5 vikum á eftir bjartsýnu áætluninni minni. Skal veðja að ég skoða Garfield samviskusamlega þar til Hlaðan lokar.
"Mongólitinn" vill vita hvað ég brallaði um helgina. Það var nú eitthvað rólegt. Vonbrigði? Fór reyndar á Sin City í bíó á laugardaginn, fannst hún ofsa töffaralega gerð og flott en full gorí fyrir mig, blóð er blóð, hvort sem það er rautt eða hvítt eða gult. Og öxi í ennið er ahahahalltaf öxi í ennið. (Exi í ennið? Öxi í ennið? Veit ekki...). Í gær laumaðist ég svo með Bylgjunni á kaffihús, var ofsa kósí og rómó. Játs Mongó litli/litla, þannig var nú það.
Eigið góða viku lömbin mín!

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Mouse of Wax

Dagur sjálfkjörinna kvala og pínu er genginn í garð. Nú er loksins komið að því að losa sig við þjóðlega kindalúkkið sem er búið að loða við mig síðustu vikur, og skella sér í allsherjar vax. Sem væri alls ekki í frásögur færandi nema af því að litli hausinn á mér er búinn að mikla þetta svakalega fyrir sér og ég er við það að fá taugaáfall af kvíða, er skyndilega farið að þykja æðislega vænt um feldinn minn. Eru ekki kindur voða krútt bara hvort eð er?

miðvikudagur, júlí 06, 2005

I´ve created a monster...

Bjó til meiri prinsessuna þegar ég var að hjúkra kettinum. Nú er hún miklu hressari en vill auðvitað nákvæmlega sömu athygli og umhyggju og hún fékk meðan hún var lasin. Svo nú ligg ég laglega í því. Sit uppi með kött sem vælir og skælir ef ég er ekki heima, vill láta halda á sér alveg sama hvað ég er að gera (hélt sér sjálf á öxlinni á mér þegar ég burstaði tennurnar í morgun, nettur hristingur átti ekkert í þrjóskuna) og vill sofa uppí hjá mér og láta hleypa sér inn og út úr herberginu á hálftíma fresti allar nætur. Jeminn. Ekki skrýtið að maður verði tussulegri með hverjum deginum.

laugardagur, júlí 02, 2005

Skapa(há)ra-wannabe

Dett stundum í alveg hrikalega sorglegt ástand þegar ég sé hvað margir aðrir eru að gera sniðuga hluti. Sorglega ástandið er að mig langar líka. Að vera ofsa sniðug og skapandi og listræn, búa eitthvað til sem öllum finnst ofsa hippogkúl og váhvaðégvildiaðmérhefðidottiðþettaíhug. Svona listræn penis-envy er hinsvegar ekkert svöl og ég vil losna við þetta rugl. Skil bara ekki hvernig þetta lið hefur tíma til að dunda sér svona, er þetta pakk ekki í vinnu? Kannski hefði ég líka tíma ef ég væri ekki alltaf á msn...