Til hamingju með páskana! Ég er orðin gömul. Ég sat í morgun og horfði á páskaeggið mitt (sem venjulega hefur átt mjög stuttan líftíma fyrir höndum eftir að málshátturinn hefur verið fjarlægður með skurðaðgerð) og mig langaði meira í ristað brauð. Svo ég fékk mér ristað brauð og horfði svo meira á eggið en ekkert gerðist. Ekkert vatn í munninn, ekkert kitl í puttana, ekkert. Þetta gæti tengst því að mér var nýlega sagt hversu margar hitaeiningar eru í einu svona eggi, en ég efast samt um það, ástríða eggjanna hefur hingað til verið yfir alla svoleiðis skynsemi hafin. Svo eggið er í ísskápnum. Til hvers eiginlega að lifa ef maður hefur misst löngunina í súkkulaði?
Reyndar hefur þetta sína kosti, nú get ég kannski farið að láta mig dreyma um að lyfta sömu þyngd og (sorglegt en satt) mamma í leikfiminni okkar, og hætt að gráta mig í svefn á kvöldin yfir því að vera meiri aumingi en allar fertugar húsmæður í bænum. Hræðilegt augnablik þegar maður uppgötvar að ekki bara myndi maður líklega þurfa að lúta í lægra haldi fyrir fílefldum karlmönnum sem maður trúði nú alltaf svona innst inni að maður gæti ráðið við ef til kastanna kæmi, heldur gætu líka allar mömmurnar með bústnu kinnarnar og bingóið tekið mann í gegn ef þær langaði. Guði sé lof að þær eru friðsöm dýrategund...
sunnudagur, apríl 20, 2003
föstudagur, apríl 18, 2003
Vettlingur hefur snúið aftur úr einangrun sinni, heilbrigðari en nokkru sinni! Engin flensa hér takk. Hins vegar kom berlega í ljós á meðan á einangrun minni stóð að heimurinn virkar ekki eðlilega án mín, gerð var hetjuleg tilraun til að dimmitera en sú tilraun fór illa þar sem býflugur nokkrar gengu í skrokk á saklausu manngreyi í miðbænum (sem á nú undir högg að sækja fyrir í landinu þar sem rokið er sjaldan bara úr einni átt í einu...) og allt fór á hinn versta veg. Reyndar fór einangrun mín þann dag að mestu leyti fram í pöndugervi á Ingólfstorgi en þar sem ég er enginn boxhanski er engin leið að reyna að klína þessum ólátum á mig, ég var hreint til fyrirmyndar í allri hegðun (og hógværð). En dagurinn hefði að vísu ekki verið nándar nærri eins ánægjulegur ef starfsmenn Subway hefðu ekki lagt til hina ágætustu salernisaðstöðu fyrir lýðinn og má telja nokkuð víst að dagurinn hefði án hennar einkennst af annars konar ólátum en raunin varð. Þúsund þakkir fyrir það, ykkur er hér með fyrirgefið að ganga með der dagsdaglega!