fimmtudagur, mars 25, 2004

Mætti í vinnuna í gær klukkan 6 og það er betri vinnutími en ég áttaði mig á, maður er bara búinn að vinna fullan 8 tíma vinnudag klukkan 14 og þá er allur dagurinn eftir :) Vei!
Ég er komin í svo svakalegt sumarskap að það ætti að vera bannað á þessum árstíma, svo var verið að bjóða mér gistingu í viku í júní í húsi í Torrevieja og vonin um viku á Spáni gerði ekkert nema auka á árstíðavilluna mína. Ætti maður að skella sér með? Flugið kostar 30 þús fram og til baka, sem er nú ekkert voðalegt. Hmm... El verano ya llegó, ya llegó, ya llegó... :)

sunnudagur, mars 21, 2004

Ég sá Evróvisjón lagið okkar þetta árið frumflutt í gær (já, ég horfði á Gísla Martein, en það var óvart!) og ég var pínulítið vonsvikin. Ég var búin að sjá Jónsa svartklædda fyrir mér í svakalegu stuði að heilla alla Evróvisjón hommana uppúr skónum, en hann fær bara að syngja einhverja ógó væmna ballöðuklisju, með versta texta sem ég hef nokkurn tímann heyrt (ég hef Birgittu Haukdal sterklega grunaða um að vera höfundur hans). Hann er auðvitað á ensku en svo greinilega saminn af manneskju sem á ekki ensku sem móðurmál og Jónsi er það af leiðandi allan tímann æðislega "blue" og that´s about it bara. Minnir svolítið á týnda erindið úr hinu klassíska leikskólalagi "allt sem er rautt, rautt, finnst mér vera fallegt, fyrir vin minn litla indíánann"...

Þá er maður enn á ný í blessaðri baðstofunni að bora í nefið. Þema þessarar helgar held ég að sé samt át, mér var boðið í æðislegan mat bæði föstudag og laugardag og er að fara í enn eina fóðrunina á eftir. Sem er ekki alveg í stíl við fegrunina sem á að vera í gangi en einhverra hluta vegna er fólk að finna hjá sér þörf til að útvega mér næringu þessa dagana, og ekki kvarta ég! Á föstudaginn fór ég líka í ljós í boði Lilju (í fyrsta skipti síðan um fermingu held ég... eða svo gott sem) og brann á óæðri endanum fyrir vikið. Get nú ekki sagt að það hafi verið neitt sérstaklega gott fyrir kúlið en samt mjög dæmigert fyrir Unnsu :) (Mér líður betur í botninum núna ef þið voruð áhyggjufull...). Á eftir dró Guðrún Víkurmær mig í teiti hjá Jóni Erni sem var mjög ánægjulegt og þakka ég hérmeð fyrir mig. Þar var ríkulega veitt af mati og drykk en þegar í bæinn var komið gufaði gestgjafinn hinsvegar upp á afskaplega dularfullan hátt. Hmm... Við Guðrún gerðum samt okkar besta til að mála bæinn rauðan en fundum einhvern veginn bara engan stað sem var að spila almennilega tónlist nema Nelly´s, sem var að spila frábæra ´85 hallærispésatónlist. Þar hefðum við örugglega getað misst okkur í tvistinu mjög lengi ef ekki hefði verið fyrir alla veiklulegu gaukana sem rifu sig úr að ofan og fóru að nudda sér utan í okkur. Þá röltum við nú bara heim á leið enda of sómakærar stúlkur og vandar að virðingu okkar til að láta hafa okkur útí svoleiðis dónaskap á dansgólfinu.

fimmtudagur, mars 18, 2004

Vá, það er allt of snemmt fyrir nátthrafn eins og mig að vakna svona klukkan sex á morgnana, nú er klukkan ekki nema rúmlega átta og ég er samt alveg að leka niður í vinnunni... Ég er samt í baðstofunni svo það er nánast ekkert sem ég þarf að gera nema brosa, rétta fólki handklæði og ausa vatni á grjót á klukkutíma fresti. Svo ég er alveg að sofna, zzz... Svo er auðvitað enginn mættur á msn á þessum ókristilega tíma til að skemmta manni og ég hef mjög takmarkað þol fyrir lestri kvennatímarita, eftir tvö/þrjú langar mig bara ekkert að vita hvort Jordan og Peter Andre séu alvöru par eða bara athyglissjúk og ef Jennifer Aniston lætur Brad Pitt barna sig sé ég ekki alveg hvar ég kem inn í dæmið...

miðvikudagur, mars 10, 2004

Úff, ég ætlaði aldrei að ná að losa mig við þessi spurningamerki, ég hef alltaf staðið í þeirri trú að ástæðan fyrir því hversu illa mér gengur í tölvumálum væri að ég skildi ekki tölvuna en nú virðist mér hún eiga í svipuðum vandræðum með mig... Sem er léttir, ég er þá allavega flóknari en ég gaf mér kredit fyrir.
Ég er í tölvustofunni og á að vera að gera teikningu af húsinu mínu í vektor works en Unnsa álfur gleymdi grunnteikningunum heima svo nú er ég bara að drepa tímann fram að vinnu. Svaka stuð.
Er að fara á eftir að sækja um vinnu fyrir sumarið, ég veit ekkert hvað ég get fengið mikla vinnu í World Class í sumar eða hvar ég á annað borð verð í heiminum svo ég ætla bara að sækja um fullt og vona að ég fái eitthvað.
Já, og ég er hætt að dansa við strákinn sem ég var að dansa við (surprise, surprise...) svo ég er að leita að nýjum ef einhver af ykkur er búinn að vera að leyna mig skuggalegri fortíð í dansi.
Annars kemur það í ljós á eftir hvort ég er ekki bara að fara að gera soldið skemmtilegt í vor (og svaaakalega fyndið) sem ég segi frá um leið og það er ákveðið. Ég veit allavega um eitt stykki wannabe Svía sem á eftir að gráta af hlátri :)

mánudagur, mars 08, 2004

Þá er ég víst búin að halda goggi ansi lengi hérna, og get ekki einu sinni sagt að það sé sökum anna því það er eiginlega búið að vera óvenju lítið að gera uppá síðkastið. Ég virka bara ekki ef það er ekkert álag, þá fer ég beint í letigírinn. Ég er reyndar búin að eyða miklum tíma með höfuðið í bleyti, er að reyna að ákveða hvað ég á að gera í sumar, hvort ég á að vera heima eða stinga af út og hvert út þá, hvað ég á að gera næsta vetur, verkfræðihlé eða ekki verkfræðihlé... Hjálp!!! Ef einhver er tilbúinn að taka af skarið og taka þessar ákvarðanir fyrir mína hönd er það meira en velkomið og ég bendi á kommentakerfið.
En nýjustu fréttir:
a) Fór á árshátíð verkfræðinema á Hótel Örk, sem var fínt, strákar að dansa eighties eru alltaf sniðugir, komst samt að því að strákar eru kjánar (fékk veiðilínuna "Volvóinn minn jafnast ekkert á við þig", úff...) og endaði á að elta stelpurnar allt kvöldið, sem var mjög skemmtilegt.
b) Vann voða mikið í klassinu svo tærnar mínar eru í uppnámi í augnablikinu eftir óhóflegar stöður bakvið afgreiðsluborð.
c) Fór í matarboð sem lukkaðist fínt og ég þakka gestgjöfum og öðrum viðstöddum hérmeð kærlega fyrir mig, skemmtilegt kvöld :)
d) Fór líka í bíó að sjá American Splendor, sem ég vissi ekkert um þegar ég mætti á svæðið en komst að því að hún er algjör snilld! Fékk líka smá tækifæri til að spjalla við hana Möggu mína sem var mjög nauðsynlegt.
e) Hm, var að tala við Hrefnu meðan ég ritaði þetta og hún er að reyna að plata mig með sér í dansskóla í Danmörku... Athyglisvert... Ég er alveg ringluð... :s
f) Er ég ekki skipulögð?! :)