mánudagur, febrúar 23, 2004

Síðustu vikur er ég búin að komast að því að næstum allur vinahópurinn minn er búinn að kúldrast í skápnum alla sína hunds og kattartíð en virðist líka allur tilbúinn að koma út úr honum núna, enda nóg komið. Þá er ég ekki að tala um þennan klassíska skáp þeirra sem girnast eigið kyn (enda væri það ekkert merkilegt þar sem stór hluti vina minna er löngu kominn útúr þeim lúna skáp, orðið frekar þreytt mál) heldur dansskápinn, þéttsetnari mublu en mig hefði nokkurn tímann grunað. Og nú vilja þessi ungu dansfífl með sínar blöðrulausu tær endilega að ég kenni þeim að dansa, ég er að fá fyrirspurnir úr ólíklegustu áttum, sem er mjög skemmtilegt (alltaf gaman að vera vinsæll) en ég þarf að leggja höfuðið ansi vel í bleyti ef ég á að geta gert eitthvað úr þessu máli þar sem ég er ryðgaðri en fólk virðist gera sér grein fyrir. (Þá er ég að tala um samkvæmisdansa, hin tegundin af dansfíflunum er að fá útrás nú þegar). Ég er að vinna í að leysa þetta mál, veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í því en það er semsagt í vinnslu... Vil endilega fá þessar elskur til að dansa með mér, það er ekkert skemmtilegra til, en þarf að reyna að finna leið til að búa til svona "allir dansa saman" aðstæður frekar en "Unnur kennir öllum að dansa" aðstæður því ég er bara of mikið kjánaprik í þessarri deild þessa dagana til að geta það :) Ég er nú samt ferlega ánægð með ykkur sko!!! (Þau fáu ykkar sem aksjúalli lesa þessa síðu... hmm, oh well, hringi í rest...)

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Vá, ég var að koma af æfingu og ég er ekkert smá glöð. Það er örugglega mjög smáborgaralegt að gleðjast yfir svona en ég ætla að gera það engu að síður. Með okkur á æfingu voru semsagt núverandi heimsmeistarar í samkvæmisdönsum og þau voru svooo flott, það var magnað! Að vísu fengu þau mann til að sjá alla sína eigin galla í tíunda veldi og ég varð á mettíma feit, skakklöppuð og afskaplega taktlaus en það var alveg þess virði, flott að sjá par hafa svo gaman af því sem það gerir að það næstum fellur bara í trans og tekur ekki eftir neinu í umhverfinu nema hvoru öðru. Tvímælalaust besta æfing sem ég hef farið á lengi :)

þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Annað fólk skilur engan veginn af hverju mér er svona gasalega illa við að fara til tannlæknis. Alltaf þegar ég fer gerast kjánalegir hlutir (svolítið eins og hjá Phoebe, mínus dauðsföllin...) og heimsókn mín þangað í morgun er lýsandi dæmi. Þegar ég kem til að láta föndra svolítið er það fyrsta sem ég heyri tannlækninn minn segja við klínikdömuna að hún sé orðin svo lasin að hún sjái varla lengur, hvað þá standi í lappirnar, og hún verði að afpanta alla tíma það sem eftir sé dagsins. Nema minn!!! Jibbí. Ég fékk að sitja með opinn gúlann á meðan hálfmeðvitundarlaus tannsi reyndi að greina milli tannanna á mér gegnum flensumóðuna. Ég skelf ennþá...

Við Sófus

Ég á í mjög uppbyggjandi og gagnlegu sambandi við sófa. Alltaf þegar ég þarf að hugsa um tilgang lífsins og vinna úr hinum og þessum kvíðaköstum leggst ég á sófann hennar Lilju, skýt þar rótum í minnst hálfan sólarhring í einu, missi yfirleitt meðvitund allavega einu sinni í hvert skipti og kem út betri manneskja. Svo það er greinilega rétt hjá amerísku bíómyndunum að það sé geðheilsunni í hag að fara til sálfræðings reglulega, liggja þar á sófa og láta leysa úr krísunum, eini misskilningurinn virðist samkvæmt mínum rannsóknum vera að sálfræðingurinn sé mikilvægur hluti jöfnunnar, sófinn gerir greinilega sitt gagn algerlega án hans. Allavega þessi umræddi sófi, langaði bara að mæla með þessu svona þegar skammdegisþunglyndið er að ná hámarki... Allir í sófann!

laugardagur, febrúar 14, 2004

Þá er ég komin í skólann á laugardags,,morgni" til að gera verkefni í hinum afskaplega slappa áfanga ,,verkfræðingurinn og umhverfið". Rétt náði að toga mig fram úr rúminu eftir tveggja tíma svefn (magapest, foj) og hvað bíður mín svo þegar ég kem hingað, slöpp og sveltandi (með serios í poka, alltaf bjartsýn...) ? Jú, verkefnafélagi sem er of upptekinn við að skrifa pennavini sínum í Svíþjóð til að læra nokkurn skapaðan hlut. Ég er ekki sátt.

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

R.I.P rúðuþurrkur...

Ég sit hér á Reykjalundi í básnum hennar mömmu (samviskusamlega skreyttum vitnisburðum um öll afrek mín í gegnum tíðina auðvitað) og bíð eftir rúðuþurrkuviðgerðamanninum (a.k.a. pabbi). Það er alltaf afskaplega fræðandi að koma hingað, skil ekkert í því af hverju "the Office" er að vekja svona mikla athygli þessa dagana þegar hér er alvöru skrifstofa með mikið athyglisverðara dýralífi. Ég geng allavega alltaf hressari héðan en ég kom og það verður nú ekki sagt um margar skrifstofur, venjulega fær maður kaldan svita og athyglisbrest við það eitt að stíga inn á þær. Stelpur eru sniðugar!

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Hvar eru lærin mín?

Fór í fyrsta skipti að æfa í World Class í morgun, í Spöngina til Hrefnu og það var æðislegt alveg, svaka fín stemmning hjá þeim. Eini gallinn er að ég virðist hafa týnt lærunum mínum þar... Það er þó ekki svo gott að þau hafi minnkað, ég sé þau alveg ef ég lít niður, þau virðast bara hafa misst tengslin við afganginn af líkamanum, ég finn ekkert fyrir þeim og þau virka ekki undir álagi, hrundi næstum á hausinn í danstíma áðan þegar annað þeirra skyndilega gaf sig... Sem er hreint ekki mjög pent eða dömulegt á að horfa.
Annars virðist líf mitt fara fram að miklum hluta til fyrir framan spegla þessa dagana, í World Class og dansinum, sem hefur leitt til skyndiheilsuátaks.

þriðjudagur, febrúar 03, 2004

Kannski kominn tími á að láta vita af sér? Jæja, ég er búin að vera afskaplega upptekin, byrjaði að vinna í World Class sem er frekar tímafrekt alltsaman, en ekkert á við danskennsluna fyrir Skeljung, það var nú mesta tímaryksuga sem ég hef komist í kynni við! Ef það hefði ekki verið svona svakalega gaman væri ég örugglega pirruð yfir öllum tímunum sem fóru í að semja þetta og kenna, en þetta var alveg æðislegt alltsaman, gott fólk sem gaf sig allt í þetta og ég er mjög fegin að hafa tekið þetta að mér :) Endaði svo allt með árshátíð á föstudaginn með tilheyrandi spennufalli og kvíðaköstum, svaka stuð! Skeljungarnir mínir stóðu sig svona líka eins og hetjur og eyddu kvöldinu í að þiggja drykki og hrós frá þakklátum starfsfélögum á meðan ég eyddi minni orku að mestu í að passa að hlýralausi kjóllinn minn héldist upp um mig (sem hann gerði að mestu, rúmba er hættuleg!). Einn af Skeljungunum reyndist vera samkvæmisdansari inni við beinið svo nú á að taka fram dansskóna og fara að æfa svoleiðis aftur, sem er einmitt það skemmtilegasta sem ég geri svo ég er voða spennt :) Skólann stunda ég svo milli mála... Skeljungarnir hvöttu mig svo til að hafa danstíma áfram fyrir starfsfólkið þar, held það hafi átt að byrja skráningu í dag og ég vona bara að einhver skrái sig, þetta er ekkert smá skemmtilegt alltsaman og magnað hvað smá hopp og dill gefur fólki mikið (myself included).
Að lokum langar mig að segja að þið sem haldið því alltaf fram að ég hljóti að vera dauð þegar ég blogga ekki eruð ekkert að hafa fyrir því að hringja og tékka á mér (ha, Gunni!!!) svo ég fer að verða pínu sár... ;)