miðvikudagur, apríl 30, 2008

Ég á bágt af því að...
...mér er illt í maganum af hungri og það eina sem ég á til og dettur í hug að geri ekki illt verra er rauð miso-súpa. Rauð miso-súpa er á bragðið eins og gubb.
...ég er sybbin en get ekki farið að sofa neitt á næstunni því ég var að uppgötva að ég á eftir að senda 11 tölvupósta í nótt á fólk sem ég verð vinsamlegast að biðja um að svara mér ekki seinna en í gær. Mér finnst ekki gaman að vera dóni.
...ég er búin að vera að hringja í fólk í allan dag til að fá upplýsingar sem mig vantar til að ritgerðin mín verði eitthvað nálægt því að vera tilbúin. Í allan dag svaraði enginn í símann sinn nema einn, sem svaraði til að segjast ætla að gera fullt af hlutum sem hann gerði svo ekki. Garg.
...dauðarefsingaritgerðin mín er að fara með geðheilsuna mína, bæði af því ég hef engan tíma til að skrifa hana og af því að umfjöllunarefnið veldur mér endalausri klígju. Í gær var ég í fyrsta sinn á ferlinum næstum búin að gubba við heimildaöflun.
...mér finnst sjálfsvorkunnar-útgáfan af mér ekki skemmtileg og er að verða ofsalega leið á að hlusta á sjálfa mig mjálma um hvað ég sé stressuð og allt sé erfitt. Samt get ég ekki hætt. Ugh, ég er meira að segja að því núna. Blah.

mánudagur, apríl 28, 2008

Um helgina komst ég að því að:
-Grænir frostpinnar eru jafn góðir í dag og þeir voru fyrir 15 árum.
-Það sem vantar til að gera Garðastrætið kósý eru strumpar. Að lágmarki tveir. (Og helst ekki hégómastrumpur. Hann hefur svo leiðinlegan talanda).
-Mig langar í veggfóður.
-Ég er ekki kjánaleg í öllum gallabuxum.
-Ég var kjánaleg í öllu, alltaf, þegar ég var unglingur. (Érí sjokki.)
-Vinkonur mínar síðan ég var unglingur eru hópur af algjörum gullmolum.
-Ég er ekki enn vaxin upp úr því að missa máttinn í útlimunum þegar mér finnst eitthvað sérlega ógeðslegt. (Þetta gerir alla ritvinnslu á dauðarefsingaritgerðinni þess mun erfiðari. Mun fljótlega fara að vélrita með nefinu.)
-Pulsur eru minna vondar en mig minnti.
-Sumarið er tíminn.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Gah!

11 dagar eftir af þessu ágæta ba-námi ef allt fer samkvæmt áætlun. Ég er orðin svo stressuð að ég titra öll inní mér, og þarf reglulega að setja sjálfa mig í time-out svo ég fari ekki á yfirsnúning og endi eins og allir skeggjuðu og skítugu mennirnir sem mamma segir að hafi lesið yfir sig. Hluti af forvarnarprógramminu er að lesa ekkert nema það sem ég nauðsynlega þarf. Er enn á bömmer eftir að hafa slysast til að lesa leiðbeiningarnar á nan-brauðspakkanum í gær. Meiri óþarfinn. Hita þar til heitt. Vesgú.
Tölvupóstur væri frábær samskiptamáti ef fólk (og ráðuneyti) aksjúallí svaraði póstinum sínum. Ef fólk sem er að gera verkefni fyrir skólann sinn sendir ykkur tölvupóst viljið þið þá prittí plís svara, og svara strax. (Sérstaklega ef viðkomandi nemönd allt að því skrifar "gerðu það elsku elsku elsku viltu svara mér fljótt því ég er um það bil að fara að skæla af stressi"). Saman getum við kannski breytt tölvupóstkarma heimsins.
Fíla: Múslístangir (því manni verður ekki illt í maganum af þeim).
Fíla ekki: Nammi (ég veit það hljómar eins og patent hugmynd þegar maður er að læra og á bágt, en manni verður illt í maganum af því. Sérstaklega ef maður blandar því við kaffi og hoppar svo um allt í stressi. Ekki gera það. Treystið mér bara hérna.)

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Pirri-Prik

AAAaaargh! Sit á Prikinu og er farin að reyta hár mitt og skegg af pirringi.
1. Stráknum á næsta borði liggur svo hátt rómur að ég er farin að dauðvorkenna vinkonu hans sem situr mjög óheppilega með vinstra eyrað staðsett ca. 20 cm frá munninum á honum, sem hann kýs að beita eins og þokulúðri.
2. Mér er orðið ferlega illt í stélinu af þessarri endalausu setu síðustu daga. Það er aldrei gott fyrir geðheilsuna. Hef grun um að ég sé að fá legusár.
3. Hef ekki skrifað orð í ritgerðina mína í dag sem ég hef ekki strokað út jafnharðan aftur. Af hverju er ég hætt að geta skrifað á íslensku???
4. Hausinn á mér er búinn að ákveða mjög ólýðræðislega að það eina sem hann hafi þolinmæði í að hlusta á meðan ég skrifa (til að útiloka hávaðamaskínuna á næsta borði) séu óperur. Þær á ég ekki á itunes-inu mínu og öll forrit sem ég finn sem stríma tónlist af netinu eru ósamvinnuþýð og neita að skilja hvað ég er að biðja þau að gera.
5. Var búin að eyða hálftíma í að skrifa snyrtilegan og pólitískt rétthugsaðan tölvupóst til að biðja um betri heimildir frá ákveðinni stofnun þegar netið datt út og tölvupósturinn með. Þessi háværi er heppinn að innbyrgð reiði er ein af mínum sérgreinum. Annars hefði hann fengið að húrra út um glugga eða tvo.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

Meinloka með skinku og osti

Ég er haldin þeirri meinloku að geta aldrei haldið áfram með BA-ritgerðina þar sem ég hætti síðast, heldur þarf ég alltaf að byrja upp á nýtt á hverjum morgni. Þetta gerir verkið frekar seinlegt. Í dag varð þó sá tímamótaviðburður að ég byrjaði þar sem frá var horfið í gær, og finn ekki hjá mér nokkra þörf til að byrja frá byrjun. Ástæðuna tel ég vera að í gær sá ég með öðru auganu (hitt augað var að vaska upp) þátt þar sem fólki var kennt að losa sig við nikótínfíkn, og verandi bullandi meðvirk þá langar mig ekkert í brakandi ferskt autt blað í dag. Né súkkulaði. Né sígarettu reyndar. Sjónvarp er hollt.

föstudagur, apríl 04, 2008

Akureyri

Akureyrarferðin um páskana var ferlega vel heppnuð, enda með eindæmum skemmtilegt kvenfólk sem ferðaðist þar saman. Við Rakel gistum í góðu yfirlæti hjá karli föður mínum og átum þar meira en góðu hófi gegnir, og kúrðum svo saman eins og í Lettlandi í den, allt voða rómó. Ég er sennilega náttúrulaus því ég hef mjög takmarkaða þolinmæði fyrir hálfnöktum olíubornum karlmönnum á palli, en ég þraukaði nú samt alveg gegnum bæði vaxtarræktar- og fitnessmótið og er sennilega betri manneskja fyrir vikið. Öllu auðveldara reyndist að þrauka matinn og ballið eftir mótið. Hið besta mál. Ég stóð mig engan veginn sem hirðljósmyndari, en nokkrar myndir tók ég nú samt. Flestar lélegar, en maður verður stundum bara að vera nægjusamur, það er nú einu sinni skollin á kreppa krakkar mínir:

Kjarnakvendi að hlaða bílinn

Föstudagskvöldið langa á Kaffi Akureyri

Jóhanna á 11 bjór...

Við Rakel að lúra saman
Veit ekki af hverju flassið lýsti mig svona mikið meira upp en Elmu og Jóhönnu... Hóst...

Meðan við Rakel drukkum Baccardi razz úr burnerflösku í stúkunni unnu Elma og Jóhanna fyrir fríðindum helgarinnar. Duglegar stelpur.

Rónarnir í stúkunni

Rakel sprengdi utan af sér buxurnar og varð að rumpa þær saman í snatri. Þá hjálpaði að vera lærð húsmóðir.

Elma og Jóhanna hættar að vinna og komnar í sukkið.

Ég var ekkert sérstaklega vinsæll ljósmyndari...