sunnudagur, desember 24, 2006

685 Bakkafjörður

Þá er maður mættur í jólasæluna í sveitinni. Við fengum loksins að fljúga í gærmorgun og þrátt fyrir smá hopp og hökt skilst mér að ferðin hafi gengið vel. (Ég tók ekkert eftir því, var of upptekin við að brjóta heilann um það hvaðan ég þekkti ofsa sæta strákinn sem heilsaði mér svo kumpánalega þegar ég var að labba inn í vélina. Held það vanti einhvern mikilvægan hluta í heilann á mér. Man ekki ennþá hvaðan við þekkjumst, verð sennilega að ganga hús úr húsi á Egilsstöðum og reyna að finna hann og spyrja, áður en þetta gerir mig alveg bil.)
Unnsteinn sótti okkur á völlinn (mjög hress eftir að hafa beðið eftir okkur næstum sólarhring á Egilsstöðum...) og við lögðum upp á Hellisheiðina. Þar lentum við í svo miklu roki að enginn viðstaddur mundi eftir öðru eins, enda vorum við skíthrædd (sérstaklega efst í Skarðsbrekkunni þar sem við horfðum niður eins og 500 metra halla og húddið var farið að lyftast ískyggilega). En niður fórum við á fjórum hjólum, reyndar öll mjög grunsamlega föl þegar niður var komið.
Á Vopnafirði stoppuðum við hjá afa og borðuðum gómsætar lummur, áður en við héldum áfram á Bakkafjörð. Þar beið amma með bæði hangikjöt og læri með öllu tilheyrandi, enda sveltur aldrei neinn hér. (Ekki nema viðkomandi sé grænmetisæta, en þá neyðist hann sennilega til að skokka út í garð og bíta gras.)
Í gær fórum við Jóhann svo í okkar hefðbundnu jólakortaútbýtingu, og fyrst það náðist þá get ég verið viss um að jólin komi. Nú er bara að sjá hvort við amma komumst ekki örugglega í jólamessuna á morgun, það má eiginlega ekki heldur klikka... Það er reyndar allt rok gengið niður eins og er, svo kannski er þetta bara gengið yfir alltsaman.
Gleðilega hátíð öllsömul! :*

föstudagur, desember 22, 2006

Föst

Þá er maður greinilega komin á Íslands farsælda Frón. Það er ekkert þjóðlegra en að vera veðurtepptur. Við ætluðum að fljúga í jólasæluna í sveitinni í dag en fluginu var aflýst og verður ekki annað fyrr en í fyrsta lagi um hádegisbilið á morgun. Ég tek því sem skýru merki þess að ég eigi að kíkja út á lífið í kvöld og njóta þess að berjast við storminn og reyna á sama tíma að halda jafnvægi á háum hælum, passa hárið og maskarann og ná andanum á móti rokinu. Þetta get ég til dæmis aldrei gert í Strass.
Annars hafa nýjustu rannsóknir mínar á landi og þjóð leitt það í ljós að molinn hennar Ásu er fallegasta og yndislegasta barn sögunnar. Ég ætlast ekki til að þið trúið mér sem ekki hafið séð hann svo ég rændi sönnunargagni af síðunni hans, og vona að foreldrar hans fari ekki í mál við mig (þýðir ekkert hvort eð er Ása mín, ég á ekki túkall með gati):

þriðjudagur, desember 19, 2006

Á Íslandi

Ég er komin heim, er eins og blómi í eggi að njóta eldamennsku móður minnar og jólastressins í Kringlunni. Blogga almennilega seinna. Njótið jólaundirbúningsins!

miðvikudagur, desember 13, 2006

Blíða drottning...

Nú þegar ég er búin að labba og hjóla um allt í rúma þrjá mánuði, og ekki stigið upp í bíl síðan fjölskyldan mín heimsótti mig á fína BMW leigujeppanum (sem þau voru svo hrifin af þegar ég hitti þau að ég þurfti að skipa þeim að hætta að segja mér frá fídusunum í gluggunum og KNÚSA MIG) þá átta ég mig á því að það er bara eitt sem ég sakna við það það vera á bíl. Það er að í bílnum hefur maður næði til að syngja hástöfum, enda gerði ég það samviskusamlega á hverjum degi heima á Íslandi, bílstjórum sem lentu við hliðina á mér á ljósum til mikillar gleði. Ég hef hinsvegar ekki sungið svo mikið sem eina nótu síðan ég kom til Frakklands, og uppá síðkastið hefur oft gripið mig skyndileg löngun til að syngja lítið lag, sem ég hef staðist nágranna minna vegna (veggirnir eru búnir til úr einhverju með svipaða hljóðeinangrunareiginleika og tissjú). Það er eins gott að ég er að fara að koma heim, held ég geti ekki barist við löngunina mikið lengur. Skemmtilega er að það hefur greinilega gripið mig mikill jólaandi því það eina sem mig hefur langað að syngja síðasta mánuðinn eða svo er Ave María eins og hún var alltaf sungin á jólatónleikunum í menntó, það er algjörlega fast í hausnum á mér.
PS. Þeir sem ætla að kommenta og segja mér að gefa skít í nágrannana og syngja bara samt hafa aldrei heyrt mig syngja. Ekki einu sinni reyna það, það er bara vandræðalegt fyrir alla.
PPS. Hrefna, við tökum saman eitt jólalag þegar ég kem heim!!! ;)

mánudagur, desember 11, 2006

Snæfinnur vs. Rocky Jr.

Ég var að rölta heim úr miðbænum á sunnudaginn þegar ég sá krúttlegan lítinn strák sem ég held að sé andlega skyldur mér. Hann stóð beint fyrir framan ótrúlega pirrandi snjókarlinn hérna fyrir neðan sem syngur falskt Jingle Bells stanslaust alla daga. Án þess að stoppa. Nokkurn tíma. Óþolandi snjókarlsgerpi. Eníhú, strákurinn horfði í augun á snjókarlinum í smástund, væntanlega að reyna að fá hann með hugarorkunni til að hætta þessu gauli. Svo kreppti hann hnefana einbeittur, dró þá upp að höku eins og boxara er siður, og náði Snæfinni með öflugum hægri krók. Svo leit hann á mig, og ég á hann, og við skildum hvort annað. Jább. Þarf að taka hann með mér til Íslands til að lækka aðeins rostann í Tomma tómati.
Annars hlýtur að vera erfitt að vera hjálpsamur Frakki í Strasbourg með alla þessa útlendinga á vappi, við skiljum ekki neitt. Í dag var ég að hjóla heim úr skólanum og var stopp á umferðarljósum. Í bílnum við hliðina á mér voru tveir strákar um tvítugt, sem skrúfuðu niður rúðuna og fóru að benda eitthvað á hjólið mitt. Ég skildi ekkert hvað þeir voru að segja nema "Þú verður að passa þig á...". Á hverju? Hvað er að hjólinu mínu? Hversu hættulegt er það?? Hjálp! Svo skildi ég að þeir voru að segja mér að það hefði eitthvað með sætið að gera og enn sá ég ekki vandamálið, sama hvað ég kíkti á hnakkinn. Þá gripu þeir til handapats og táknmáls sem reynist oft gagnlegt í samskiptum við heimska útlendinga. Þá loksins skildi ég að það sem þeir höfðu svona miklar áhyggjur af þessar elskur og vildu vara mig við var að ég fengi frekar oddmjóan hnakkinn uppí pjölluna á mér. Hvar væri kona eiginlega ef ekki væri fyrir hjálpsama heimamenn til að leiðbeina henni og ráðleggja?

laugardagur, desember 09, 2006

Jólalúffa

Þá er farið að styttast verulega í blessuð jólin, og ennþá meira í að ég fari heim í jólafrí. Ég er ótrúlega fegin að hafa ákveðið að vera tvær annir úti en ekki bara eina, því mér finnst franskan mín rétt vera að byrja að ná sér á strik núna og get ekki beðið eftir að klára þessi hræðilegu hræðilegu próf sem eru framundan og tækla næstu önn almennilega. Ég er að verða nokkuð viss um að ég nái ekki mörgum prófum á þessarri önn, en ég reyni að minna mig á það reglulega að markmiðið var fyrst og fremst að læra málið, bara svona svo ég fái ekki taugaáfall.
Annars bjargaði það því sem bjargað varð af geðheilsunni að Silja Bára var í bænum í vikunni, og við brölluðum heilmikið saman. Bræddum glös, potuðum í jólakúk, átum, drukkum og vorum glaðar. Ég fann á ferðum okkar bæði kotasælu og brún hrísgrjón sem ég er búin að leita að síðan ég kom, og tókst að gráta af hlátri nokkrum sinnum sem hefur sennilega ekki gerst síðan ég yfirgaf klakann. (Ekki að Frakkar séu ekki fyndnir, ég er bara of vitlaus til að skilja húmorinn þeirra ennþá. Eða svo segja þeir mér.) Konan er náttúrulega snillingur, suma eru bara forréttindi að þekkja. Jólin eru að gera mig meyra. Og pínu þunna... Ekki meiri jólabjór fyrir mig!
Nú er svo komið á hreint að ég fer austur á Bakkafjörð 22. des og kem aftur 28. des, svo þá er hægt að fara að skipuleggja dvölina heima aðeins betur. Ég er ofsa glöð að við ætlum austur, ég er hreinlega ekki viss um að jólin komi nema ég sofi með hausinn inní jólatrénu og vakni við að það sé hundur að pota í mig köldum nebbanum (eða við það að ég hreyfi mig í svefni og brjóti nokkrar jólakúlur, en ég vil ekki ræða það...).
Annars er ég ennþá bara að rembast við að skrifa JFK ritgerðina mína. Njótið helgarinnar!


sunnudagur, desember 03, 2006

Sapin de Noel

Í gær var ég að læra í herberginu mínu (les. skrifa jólagjafalista og borða súkkulaði) þegar Matthildarnar koma ferlega spenntar og segjast vera með svolítið óvænt handa mér. Svo ég elti þær fram og rekst þar á lítið og bústið jólatré með sjúklega blikkandi seríu. Og þar sem ég er ekki flogaveik þá fannst mér það mjög skemmtileg sjón. Það fyndna er að svo var ég rukkuð um þriðjung af kostnaðinum. Er það venjulega gert þegar fólki er komið á óvart? "Vúh, Jói, SURPRISE, til hamingju með afmælið, blííístr! Og hérna er reikningur fyrir þínum hluta af kökunni, gjössovel." Skrýtið. En samt skemmtilegt, og jólatréð er ekta, en frekar lyktarlaust finnst mér. Er að spá í að kaupa svona kúkasprey með grenilykt og úða á það.
Allir sem þekkja mig vita að mér finnst jólaskraut sem blikkar ekkert sérstaklega skemmtilegt, og hér, bæði á jólabollutrénu okkar og í gamaldags og rómantíska miðbænum, blikkar allt sem blikkað getur. Fer borginni ekkert sérstaklega vel finnst mér, frekar takkí og smekklaust alltsaman, en samt jólalegt og krúttlegt á sinn hátt. En í allri smekkleysunni fannst mér þess vegna fyndið hvað Matthildarnar voru hneykslaðar þegar ég sagðist ætla að kaupa nokkrar jólakúlur til að hengja á Vegas-tréð okkar. Þeim fannst það freeekar hallærisleg hugmynd, og ekki fara alveg við áhrifin sem þær voru að reyna að ná fram. Hm. Allt í lagi.

sunnudagur, nóvember 26, 2006

L-Ú-Ð-I

Ég er bara að verða meira og meira töff hérna í Strass. Á fimmtudaginn fór ég að skæla í skólanum. Tvisvar. Og ekki útaf neinu almennilegu eins og kennara sem sagði að ég væri of vitlaus til að vera í háskóla, eða yfirþyrmandi prófkvíða, heldur af því við vorum að horfa á bíómynd. Og ekki bara einhverja bíómynd, heldur bíómynd með KEVIN COSTNER! Jább. Ef þið viljið aldrei tala við mig aftur þá skil ég það vel. Ég myndi persónulega hætta að tala við mig.
(Mér til varnar: Það varð næstum kjarnorkustyrjöld og HEIMSENDIR, og samtals áttu þeir þrír 16 börn, og eitt þeirra spilaði ruðning í sló mó, en svo snéru skipin við! Þau snéru við! Og þá skælir maður... En sum héldu samt áfram. Og það komu tvö bréf! Tvö! Og þeir drápu flugmanninn! En svo kom sólin upp! Hún gerði það! Og Rússar elska börnin sín líka! Og Kevin Costner fór að gráta í eggin sín, og hvað gerir maður þá annað en að skæla með honum? Ekkert. Ég er að spá í að láta bara tattúvera stórt L á ennið á mér til að spara fólki tíma sem annars færi í að gera táknið með þumli og vísifingri þegar það sér mig.)

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Allt er stærst í Ameríku!

Skemmtilegt samtal sem ég átti við bandaríska skólasystur mína í dag:
Hún: Þú verður að koma einhverntímann að heimsækja mig til Bandaríkjanna, við erum með allar gerðir af fólki og náttúru, meira að segja hæsta fjall í heimi!
Ég: Ha? Er það ekki Mt. Everest..?
Hún: Jú, Mt. Everest er í Bandaríkjunum.
Ég: Ertu viss? Því ég held það sé í Himalayafjöllunum...
Hún: Já, þau eru í Bandaríkjunum.
Ég: (Að reyna að vera kurteis) Ertu viss..? Því ég held þau séu í Asíu...
Hún: (Hlær innilega) Neineinei, þau eru sko í Bandaríkjunum. Asíu, hah!
Ég: Uh. Allt í lagi. Ég er ekkert rosa góð í landafræði sko...
Hún: Greinilega ekki!

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Grár hversleikinn

Stundum getur grái hversdagsleikinn verið ótrúlega ljúfur. Áðan fór ég til dæmis að versla í matinn fyrir matarboðið mitt í kvöld, og í búðinni sá ég strák sem var sýndist mér að gera það sama. Ótrúlega venjulegan strák, í venjulegum fötum að kaupa venjulegan mat, nema hann var með rauðan varalit. Mér fannst það æðislegt. Á leiðinni heim rakst ég á hljómsveit sem var að spila úti á götu og fullt af fólki hafði safnast í kring. Hljómsveitarmeðlimir voru frekar margir, sennilega um 20 manns, og voru bara að spila á hitt og þetta, allir að syngja með og vera glaðir, þetta var ótrúlega flott hjá þeim og spilagleðin var mjög smitandi. Þau minntu mig pínulítið á Polyphonic Spree þegar þau spiluðu Light & Day í Scrubs. Þegar mér tókst svo að slíta mig frá þeim og tölta heim sá ég að það var verið að reisa jólatré beint fyrir utan gluggann minn. Ekki skrýtið að súpan sem Ella frænka sendi mér uppskrift af hafi verið svona góð, ég var svo kát þegar ég gerði hana. Ég vona að hversdagurinn ykkar sé líka svona glansandi fínn.

föstudagur, nóvember 17, 2006

Súrt kál

Í gærkvöldi fékk ég grun minn staðfestan. Súrkál er viðbjóður, sérstaklega þegar það er borið fram með einhverju sem líktist helst grófum hrossabjúgum, og undarlega fölum pylsuskrípum:

Ég kláraði nú samt af disknum mínum, og er mjög stolt af sjálfri mér fyrir það afrek. Mig langar sérstaklega að þakka stóóóra rauðvínsglasinu mínu fyrir hjálpina. Ég reyndi að taka myndir af matargestunum en þeir voru frekar óþægir. Mathilde þóttist ekki vita að það væri verið að taka mynd (þó ég væri búin að góla "brosa" á öllum tungumálum sem ég kann, og biðja hana um að segja bæði "sís" og "kíví"), Vincent var sá eini sem stóð sig eins og hetja og brosti sínu blíðasta, og Clémence litla systir Mathilde fékkst ekki til að snúa rétt: Þegar ég reyndi að taka mynd af hinum helming hópsins hljóp hin Mathilde fram á gang, Melanie reyndi að hylja á sér andlitið með tissjúi (en ég var of fljót að smella af, hah!) og Antoine gerði eitthvað mjög ógnvekjandi við andlitið á sér sem ég get ekki með góðri samvisku kallað bros:

En ég reyndi allavega, og það er það sem skiptir máli. Bara að vera með.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Kvabb

Í kvöld ætlar Mathilde 2 að elda handa okkur öllum. Ég var búin að þiggja boðið þegar hún tilkynnti að í aðalrétt væri... súrkál! Hjááálp... Það er sérréttur Alsace-héraðs og mér finnst það svo ógeðslegt að ég er nokkuð viss um að sá sem fann það upp sé sá hinn sami og fann upp nælonsokkabuxurnar og hnakkana á spinninghjólin. Semsagt Satan.
Í öðrum fréttum þá fékk ég fyrstu frönsku ritgerðina mína til baka í morgun. Þessa sem ég sat sveitt yfir í marga daga. Kennarinn sagði að hún væri ágæt nema ég þyrfti að vanda mig. Ég vona að maðurinn hennar eldi handa henni súrkál í kvöld.

mánudagur, nóvember 13, 2006

I am so smart! S-M-R-T!

Vandræðalegt ástand hér í borg um helgina... Frakkar lokuðu öllu á laugardaginn til að fagna því að þeir hafi á þessum degi árið 1918 unnið sigur á Þjóðverjum í fyrri heimsstyrjöldinni. Ég bý á landamærum Frakklands og Þýskalands og umgengst jöfnum höndum Frakka og Þjóðverja. Við skulum bara segja að ekki allir hafi verið í jafn miklu veisluskapi þessa hátíðina... Það vill samt svo skemmtilega til að á þessum sama ágæta degi átti samband Mathilde (Frakki) og Jacob (Þjóðverji) ársafmæli og við fögnuðum því í staðinn að þau væru allavega að gera sitt og fórna sér til að halda friðinn milli þjóðanna. Annars var ég mest upptekin við að gera ekki neitt um helgina, en þið?

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Grísk gúrkutíð

Nýjasta æðið mitt: Gúrkubitar með stöppuðum fetaosti. NAMM! Allir íbúar Slátrarastrætisins eru orðnir fíklar og nú er ekkert í ísskápnum okkar nema fullt af gúrkum og fetaostskrukkum, og ég endurskilgreini hér með hugtakið ,,gúrkutíð". Ég mana ykkur til að prófa (þið getið verið minimalísk eins og ég eða gert eins og Matthildarnar og bætt út í réttinn ediki og hunangi, en mér finnst það persónulega vera skref afturábak). Næringarlega séð er þetta æði mikið betra en síðasta (camenbert á baguette), sem ég kenni algjörlega um það að ég get varla lengur hneppt gallabuxunum mínum.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Myndir í smá rugli

Get ekki sett inn skýringar með myndunum, þær lenda bara útum allt, þannig að hér er smá myndasúpa sem byrjar með gönguferð um les calanques og endar í Lyon, þið megin skemmta ykkur við að giska á hvað er að gerast og hvar þess á milli...


þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Froskur á ferð og flugi

Jæja, þá er ég komin heim til Matthildanna minna aftur, eftir viku ferðalag um Suður-Frakkland með Franzisku, þýskri vinkonu minni hérna. Vikuna áður en við fórum var fjölskyldan mín í heimsókn (þið verðir bara að trúa mér, við tókum ekki eina einustu ljósmynd alla vikuna, svo ég hef engin sönnunargögn...), sem var æðislegt, við röltum um Strasbourg, drukkum kaffi, keyrðum um Alsace og fórum í apagarð, þar sem við fóðruðum apaketti á poppkorni og reyndum að lenda ekki í apaslag (það tókst, svona að mestu leyti, gekk betur eftir að við æfðum apasvipina sem voru á leiðbeiningaskilti. Það var mjög smart). Við fórum líka í antikverslun og keyptum tvær fallegar styttur af manni sem virkaði mjög indæll en er núna ástæðan fyrir því að það er slökkt á símanum mínum. Hvaða miðaldra maður reynir við stelpulinga eins og mig fyrir framan pabba hennar?! Frakkar eru skrýtnir. Allavega, þá var erfitt að sjá á eftir liðinu heim aftur en ég fer nú alveg að koma heim í jólafrí hvort eð er, kem heim 15. des (á föstudegi, þeir sem ekki eru enn í prófum eru skyldugir til að gera eitthvað skemmtilegt með mér þessa helgi).
Á mánudagskvöldið tókum við Franzi svo næturlestina til Marseille (það er alveg hægt að sofa eins og ungabarn í lest, hvern hefði grunað..?) og vorum mættar á svæðið hálfsex, sem er fáránlegur tími til að mæta í ókunnuga borg því það er dimmt og allt lokað. Svo við fundum bara gömlu höfnina og horfðum á sólina koma upp þar.
Við gistum tvær nætur í Marseille, á litlu hóteli hjá mjög gömlum manni sem hafði mestar áhyggjur af því að við fyndum ekki ljósrofann á ganginum og sýndi okkur hvernig hann virkaði í 10 mínútur. "Upp, ljósin slökkna. Niður, ljósin kveikna. Upp, slökkna. Niður, kveikna. Upp... osfrv". (Verst að eftir allt það skyldi ég aldri finna bölvaðan rofann aftur og gat því aldrei kveikt ljósin á ganginum. Þurfti greinilega meiri kennslu.) Við fórum að skoða les calanques í Marseille, sem var æðislegt, það er einhvers konar verndað svæði við ströndina með fullt af gönguleiðum og fullt af fólki að klifra og síga og vesenast, var frábært að labba þar í yndislegu veðri. Við skoðuðum líka fallega kirkju, Notre Dame de la Garde, sem var ekki bara falleg bygging heldur líka staðsett þannig að við sáum frá henni yfir alla borgina og ströndina, ótrúlega fallegt útsýni. Við löbbuðum meðfram allri ströndinni, sem er víst um 8 kílómetrar, í brjáluðu roki með sand í augunum, og enduðum svo dvölina á að fara í bíó. Þar rann það upp fyrir okkur að við ættum að vera að tala frönsku en ekki ensku, og gerðum það samviskusamlega það sem eftir var ferðarinnar.
Næst gistum við eina nótt í Aix-en-Provence, þar sem við fórum um allt til að kynnast betur Cézanne, sem er einn af uppáhalds listamönnunum mínum, og Zola, sem voru báðir frá borginni.
Þá var ferðinni heitið til Avignon þar sem við gistum eina nótt, það reyndist ótrúlega falleg smáborg með frábæru útsýni og þar kynntumst við líka tveimur frönskum strákum sem voru svo indælir að nenna að tala við okkur frönsku heilt kvöld, þar sem við þóttumst skilja þá og þeir okkur. Ótrúlegt hverju maður nær að koma frá sér með stami og handapati. Annar þeirra var reyndar frekar sleipur eitthvað, alltaf að reyna að koma því inn í umræðuefnið að Frakkar hafi fundið upp franska kossinn, en við leiddum það bara hjá okkur eins og Pollýönnurnar sem við erum.
Síðasti áfangastaðurinn var Lyon, sem hvorug okkar vissi neitt um en var mjög strategískt staðsett á leið aftur heim til Strasbourg svo við ákváðum að eyða þar einum sólarhring. Og ég held að ég sé jafnvel bara mest skotin í Lyon af öllum stöðunum sem við fórum til, það er alveg yndisleg borg, með stórum ám sem renna í gegnum hana, fullt af upplýstum brúm og fallegum gömlum miðbæ sem stendur á hæð í miðri borginni. Við heimsóttum þar frábært safn þar sem ég sá verk eftir næstum alla hina uppáhalds málarana mína, Degas, Greco, Picasso og Chagall, það var æðislegt! Þar var líka besta augnablik ferðarinnar, þegar það var aðeins farið að rökkva og við stóðum á einni upplýstu brúnna og horfðum niður eftir ánni, meðan tveir strákar sátu á árbakkanum og æfðu sig að spila saman á harmonikku og fiðlu, ótrúlega franskt eitthvað, og svona augnablik þar sem maður vildi hvergi annarsstaðar í heiminum frekar vera akkúrat þá.
Svo héldum við heim á leið daginn eftir og nú er allt brjál í skólanum, svo það er ekki dauð stund hér þessa dagana.
Enn og aftur vill blogger ekki hunskast til að sýna myndirnar mínar, svo þær koma seinna... Afsakið langa póstinn!

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Eg fann sjoinn!!!

Bara ad tekka inn, fjolskyldan komin og farin og eg stungin af til Sudur-Frakklands, er a lelegu internetkaffi i Marseille eins og er og nenni ekki ad skrifa a svona kjanalegt lyklabord. Hendi inn ferdasogum sidustu tveggja vikna sennilega a sunnudaginn thegar eg sny aftur a Slatrarastraetid.

mánudagur, október 23, 2006

Ég er hér enn

Takk kærlega fyrir allar kveðjurnar eftir síðasta póst, það er gott að vita að það er fullt af fólki sem skilur hvað manni getur þótt vænt um fjórfættu fjölskyldumeðlimina :)
Í kvöld mæta svo foreldrar mínir, litli bróðir og amma á svæðið og ég get ekki beðið eftir að fá þau, vona bara að það stytti upp...

mánudagur, október 16, 2006

Æ kisuskott...


Elsku kisuskottið mitt er dáið. Ég er of sorgmædd til að geta sofnað. Hún var hluti af fjölskyldunni í 13 ár, svo það er kannski ekki skrýtið að það sé erfitt að kveðja. Ég er bara búin að skæla síðan mamma sagði mér fréttirnar í símann áðan, og nú er ótrúlega erfitt að vera ekki nálægt neinum sem maður þekkir nógu vel til að láta knúsa sig þegar maður er allur útskældur. En ég er samt á vissan hátt fegin að hafa ekki verið á staðnum, því þó ég vildi að ég hefði getað haldið á henni þegar hún fór, þá veit ég líka að ég hefði algjörlega misst stjórn á mér, því ég er svo mikil dramadrottning. Hún var orðin svo lasin að elsku mamma mín varð að fara með hana og láta svæfa hana, og hún hélt á henni og klappaði hennar á meðan hún var að sofna, meira get ég ekki beðið um fyrir hana. Hún fékk að lifa góðu lífi hjá fólki sem þótti hræðilega vænt um hana, og hún fékk að fara í fanginu á einhverjum sem hún treysti þegar henni var farið að líða illa og orðin lasin. Ég get samt ekki hætt að skæla.
Hvíldu í friði kisulóra. Okkur þykir mjög vænt um þig.

sunnudagur, október 15, 2006

23ja ára stelpuskott á hjóli

Ég varð 23ja ára í gær og gaf sjálfri mér hjól í afmælisgjöf. Það er ævafornt og slitið, en mér líkar vel við það, það hefur persónuleika, reynslu og ratar um borgina eins og gamall leigubílstjóri. Ég nenni ekki að hlaupa niður og taka mynd af því þar sem ég er ennþá í náttfötunum, set bara inn mynd með næsta pósti. Við Jacob keyptum hjólin okkar fínu á hjólamarkaði sem er haldinn hérna tvisvar á ári, um morguninn kemur fólk með notuðu hjólin sín og kemur þeim fyrir og seinna um daginn kemur fólk og kaupir þau. Mjög sniðugt, en miklu fleira fólk en hjól, svo þessi eini tími sem ég fór í í brasilísku jiu jitsu kom sér vel. Það er góð vísbending um gáfnafar okkar Jacobs að við keyptum miða fram og tilbaka í traminn þegar við fórum á markaðinn. Mjög gáfulegt. Hjóluðum skömmustuleg heim með "tilbaka" miðann í vasanum.
Afmælisdagurinn minn var yndislegur. Þegar ég kom heim af hjólamarkaðnum opnaði ég fína pakkann frá Hrefnu minni, sem klikkar aldrei á að gefa mér afmælisgjöf á réttum degi (ætla ekki að þakka þér fyrir á blogginu mínu, ætla sko að hringja almennilega í þig til þess!). Svo fór ég og keypti í matinn því ég var búin að bjóða fjórum í mat um kvöldið, Matthildunum tveimur, Jacob og Vincent vini Matthildanna, sem er að verða hálfgerður heimilisköttur hérna. Ég vildi ekki bjóða fleirum því ég var handviss um að maturinn minn yrði óætur og vildi afsaka það fyrir sem fæstum.
Í forrétt gerði ég skötusel sem Guðný frænka var svo almennileg að kenna mér að gera. Ég kann ekkert á fisk nema hann sé í flökum, fyrir utan að ég er klígjugjörn, svo þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu:

Öllum að óvörum (aðallega mér) varð þetta að lokum að hinum ágætasta forrétti, sem meira að segja Jacob bað mig um uppskriftina að þrátt fyrir að borða venjulega ekki fisk (takk Guðný!).

Þá var komið að aðalréttinum. Þar kom mamma mér til bjargar með uppskriftinni sinni að kjúklingasalati, sem tókst líka alveg glimrandi og var étið upp til agna (sem er ótrúlegt afrek þar sem það var risavaxið og ég var viss um að þurfa að borða það í öll mál fram að páskum).

Þá var komið að eftirréttinum, en Matthildarnar höfðu keypt einhverja týpíska franska sítrónumarengstertu með stjörnuljósum og öllu. Svo var sungið og borðað og hlegið og borðað meira, þar til allir voru orðnir svo úttroðnir af frönskum marengs og íslensku nammi (takk mamma!) að þeir gátu sig hvergi hreyft (nema til að teygja sig í aaaðeins meira nammi). Þá fékk ég pakka! Matthildarnar gáfu mér Litla prinsinn, sem er ein uppáhaldsbókin mín og ég á hana reyndar fyrir, en því ætla ég aldrei að láta þær komast að. Þær gáfu mér líka matreiðslubók fyrir byrjendur, því ég var búin að vara þær svo vandlega við því að maturinn gæti orðið viðbjóður og boðið endað á Makkdónalds. Í pakkanum leyndist svo líka miði til að fara með þeim báðum á ballettsýningu í óperuhúsinu hér í borg. Jacob gaf mér Incubus disk sem við vorum nýbúin að tala um að ég ætti ekki en þyrfti að eignast, og þessa líka fínu Tinnabók. Vincent gaf mér ekki neitt því hann hafði líka keypt handa mér Litla prinsinn, en Matthildarnar voru feitari og frekari og létu hann skila henni aftur. Hann lofaði að kaupa eitthvað handa mér í Bandaríkjunum í næstu viku. Það er eins gott fyrir hann.

Við enduðum kvöldið á að stökkva á mjög undarlegan Hawaii-skreyttan stað, Waikiki, sem er innréttaður eins og trópíkölsk eyja en spilar eingöngu popp frá níunda áratugnum. Þar hittum við alla sem ég hefði viljað bjóða í mat ef við ættum fleiri stóla, drukkum með þeim fína ávaxtakokteila og rauluðum með Final Countdown.

Ég var ekki dugleg að taka myndir en hér koma allavega nokkrar:

Hluti matarhrúgunnar sem ég breytti í dýrindis kræsingar

Gestirnir mínir (hlýddu engan veginn boðinu sem krafðist formlegs klæðnaðar)

Vincent og Jacob hafa greinilega komist í myndavélina mína og tekið þessa fínu sjálfsmynd


Mætt á hinn furðulega Waikiki


Ég brost mínu blíðasta þrátt fyrir að vera ansi reytt eftir eldamennskuna, en Mathilde tók myndatökuna alls ekki nógu alvarlega


Vincent og frönsk vinkona okkar sem heitir algjörlega óskrifanlegu nafni sýndu Mathilde hvernig á að gera þetta

miðvikudagur, október 11, 2006

Frakkar til sölu

Á mánudaginn gerði ég heiðarlega tilraun til að selja líkama minn í lyfjatilraunir, en það tókst ekki. Ég verð víst að tala gallalausa frönsku til að geta löglega skrifað undir. Ekki víst að móðir mín hefði verið ánægð með viðskiptin heldur, maður fær 200 þús fyrir að vera á spítala í þrjá daga og fá þrjár sprautur sem eiga að auka járn í blóðinu (hefði verið patent, mig vantar alltaf svoleiðis) og svo fylgjast þeir með því hver þeirra gerir mann minnst veikan. Huggulegt. Held að önnur Matthildurin ætli að skrá sig, þrátt fyrir að afgreiðsludaman hafi sagt við hana "þetta er ekkert mál, það hafa mörg þúsund manns tekið þátt í þessarri tilraun og bara einn dáið". Faaarðu frá mér með þessa sprautu takk!!!
Á mánudagskvöldið tóku Matthildarnar mig með í matarboð til vina sinna, vorum átta manns og ég skildi varla orð af því sem fór fram, en tróð hinsvegar í mig crépes með skinku og osti, pizzu með geitaosti, og svo að lokum crépes með súkkulaði og kókosís... Hættið að fóðra mig svona endalaust, ég fer að verða fermeter! Eða rúmmeter jafnvel!

mánudagur, október 09, 2006

Svipmyndir úr æsispennandi partíi

Hér koma þær, eins og lofað var, voilá!


Kevin, kærasti Mathilde 1, að máta fötin hennar (hann verður ofsa glaður ef hann slysast einhvern tímann inn á þessa síðu...)

Matthildar við undirbúning


Mathilde 2 og skólafélagar okkar úr IEP

Nágranni af neðri hæðinni (sá mig óvart nakta í gær, úpsí, önnur og verri saga), ótrúlega skrýtinn vinur hans og kanadískur listnemi sem ég get aldrei munað hvað heitir en þekki samt ágætlega...


Hinn nágranninn af neðri hæðinni, alltaf útúrreyktur en engu að síður ágætur (og hefur aldrei séð mig nakta)


Jacob og Fransiska með sparibrosin


Frönsk skólasystkini mín úr IEP


Kevin með tveim skólasystrum Mathilde 1


Þessir tveir skólabræður mínir mættu í þrif daginn eftir partíið


Mathilde 1 með tening sem hún þóttist nota til að fara í drykkjuleik, en Frakkar eru aldrei fullur svo ég trúi þessarri drykkjuleikjaiðkun þegar ég sé hana...


Það segja mér öruggar heimildir að ég hafi ekki verið svona eins og trúður í framan í alvörunni, en myndin er allavega skemmtileg...


Kósý stemmning á ganginum


Vinalegir þessir Frakkar...


Mathilde 2 og Jacob að reyna að vera ógeðsleg (tókst) svo ég myndi ekki taka mynd af þeim (tókst ekki)


Mathilde skárri en Jacob með hálfvitasvipinn sinn


Við reyndum að taka mynd af okkur en Mathilde leit út eins og hælismatur


Hún tók það nærri sér svo við reyndum aftur


Við þrif daginn eftir. Mathilde var sár að ég skyldi taka ljótumynd af henni...


...og lét mig taka svoleiðis af sjálfri mér líka