sunnudagur, desember 24, 2006

685 Bakkafjörður

Þá er maður mættur í jólasæluna í sveitinni. Við fengum loksins að fljúga í gærmorgun og þrátt fyrir smá hopp og hökt skilst mér að ferðin hafi gengið vel. (Ég tók ekkert eftir því, var of upptekin við að brjóta heilann um það hvaðan ég þekkti ofsa sæta strákinn sem heilsaði mér svo kumpánalega þegar ég var að labba inn í vélina. Held það vanti einhvern mikilvægan hluta í heilann á mér. Man ekki ennþá hvaðan við þekkjumst, verð sennilega að ganga hús úr húsi á Egilsstöðum og reyna að finna hann og spyrja, áður en þetta gerir mig alveg bil.)
Unnsteinn sótti okkur á völlinn (mjög hress eftir að hafa beðið eftir okkur næstum sólarhring á Egilsstöðum...) og við lögðum upp á Hellisheiðina. Þar lentum við í svo miklu roki að enginn viðstaddur mundi eftir öðru eins, enda vorum við skíthrædd (sérstaklega efst í Skarðsbrekkunni þar sem við horfðum niður eins og 500 metra halla og húddið var farið að lyftast ískyggilega). En niður fórum við á fjórum hjólum, reyndar öll mjög grunsamlega föl þegar niður var komið.
Á Vopnafirði stoppuðum við hjá afa og borðuðum gómsætar lummur, áður en við héldum áfram á Bakkafjörð. Þar beið amma með bæði hangikjöt og læri með öllu tilheyrandi, enda sveltur aldrei neinn hér. (Ekki nema viðkomandi sé grænmetisæta, en þá neyðist hann sennilega til að skokka út í garð og bíta gras.)
Í gær fórum við Jóhann svo í okkar hefðbundnu jólakortaútbýtingu, og fyrst það náðist þá get ég verið viss um að jólin komi. Nú er bara að sjá hvort við amma komumst ekki örugglega í jólamessuna á morgun, það má eiginlega ekki heldur klikka... Það er reyndar allt rok gengið niður eins og er, svo kannski er þetta bara gengið yfir alltsaman.
Gleðilega hátíð öllsömul! :*

Engin ummæli: