sunnudagur, nóvember 26, 2006

L-Ú-Ð-I

Ég er bara að verða meira og meira töff hérna í Strass. Á fimmtudaginn fór ég að skæla í skólanum. Tvisvar. Og ekki útaf neinu almennilegu eins og kennara sem sagði að ég væri of vitlaus til að vera í háskóla, eða yfirþyrmandi prófkvíða, heldur af því við vorum að horfa á bíómynd. Og ekki bara einhverja bíómynd, heldur bíómynd með KEVIN COSTNER! Jább. Ef þið viljið aldrei tala við mig aftur þá skil ég það vel. Ég myndi persónulega hætta að tala við mig.
(Mér til varnar: Það varð næstum kjarnorkustyrjöld og HEIMSENDIR, og samtals áttu þeir þrír 16 börn, og eitt þeirra spilaði ruðning í sló mó, en svo snéru skipin við! Þau snéru við! Og þá skælir maður... En sum héldu samt áfram. Og það komu tvö bréf! Tvö! Og þeir drápu flugmanninn! En svo kom sólin upp! Hún gerði það! Og Rússar elska börnin sín líka! Og Kevin Costner fór að gráta í eggin sín, og hvað gerir maður þá annað en að skæla með honum? Ekkert. Ég er að spá í að láta bara tattúvera stórt L á ennið á mér til að spara fólki tíma sem annars færi í að gera táknið með þumli og vísifingri þegar það sér mig.)

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Allt er stærst í Ameríku!

Skemmtilegt samtal sem ég átti við bandaríska skólasystur mína í dag:
Hún: Þú verður að koma einhverntímann að heimsækja mig til Bandaríkjanna, við erum með allar gerðir af fólki og náttúru, meira að segja hæsta fjall í heimi!
Ég: Ha? Er það ekki Mt. Everest..?
Hún: Jú, Mt. Everest er í Bandaríkjunum.
Ég: Ertu viss? Því ég held það sé í Himalayafjöllunum...
Hún: Já, þau eru í Bandaríkjunum.
Ég: (Að reyna að vera kurteis) Ertu viss..? Því ég held þau séu í Asíu...
Hún: (Hlær innilega) Neineinei, þau eru sko í Bandaríkjunum. Asíu, hah!
Ég: Uh. Allt í lagi. Ég er ekkert rosa góð í landafræði sko...
Hún: Greinilega ekki!

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Grár hversleikinn

Stundum getur grái hversdagsleikinn verið ótrúlega ljúfur. Áðan fór ég til dæmis að versla í matinn fyrir matarboðið mitt í kvöld, og í búðinni sá ég strák sem var sýndist mér að gera það sama. Ótrúlega venjulegan strák, í venjulegum fötum að kaupa venjulegan mat, nema hann var með rauðan varalit. Mér fannst það æðislegt. Á leiðinni heim rakst ég á hljómsveit sem var að spila úti á götu og fullt af fólki hafði safnast í kring. Hljómsveitarmeðlimir voru frekar margir, sennilega um 20 manns, og voru bara að spila á hitt og þetta, allir að syngja með og vera glaðir, þetta var ótrúlega flott hjá þeim og spilagleðin var mjög smitandi. Þau minntu mig pínulítið á Polyphonic Spree þegar þau spiluðu Light & Day í Scrubs. Þegar mér tókst svo að slíta mig frá þeim og tölta heim sá ég að það var verið að reisa jólatré beint fyrir utan gluggann minn. Ekki skrýtið að súpan sem Ella frænka sendi mér uppskrift af hafi verið svona góð, ég var svo kát þegar ég gerði hana. Ég vona að hversdagurinn ykkar sé líka svona glansandi fínn.

föstudagur, nóvember 17, 2006

Súrt kál

Í gærkvöldi fékk ég grun minn staðfestan. Súrkál er viðbjóður, sérstaklega þegar það er borið fram með einhverju sem líktist helst grófum hrossabjúgum, og undarlega fölum pylsuskrípum:

Ég kláraði nú samt af disknum mínum, og er mjög stolt af sjálfri mér fyrir það afrek. Mig langar sérstaklega að þakka stóóóra rauðvínsglasinu mínu fyrir hjálpina. Ég reyndi að taka myndir af matargestunum en þeir voru frekar óþægir. Mathilde þóttist ekki vita að það væri verið að taka mynd (þó ég væri búin að góla "brosa" á öllum tungumálum sem ég kann, og biðja hana um að segja bæði "sís" og "kíví"), Vincent var sá eini sem stóð sig eins og hetja og brosti sínu blíðasta, og Clémence litla systir Mathilde fékkst ekki til að snúa rétt: Þegar ég reyndi að taka mynd af hinum helming hópsins hljóp hin Mathilde fram á gang, Melanie reyndi að hylja á sér andlitið með tissjúi (en ég var of fljót að smella af, hah!) og Antoine gerði eitthvað mjög ógnvekjandi við andlitið á sér sem ég get ekki með góðri samvisku kallað bros:

En ég reyndi allavega, og það er það sem skiptir máli. Bara að vera með.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Kvabb

Í kvöld ætlar Mathilde 2 að elda handa okkur öllum. Ég var búin að þiggja boðið þegar hún tilkynnti að í aðalrétt væri... súrkál! Hjááálp... Það er sérréttur Alsace-héraðs og mér finnst það svo ógeðslegt að ég er nokkuð viss um að sá sem fann það upp sé sá hinn sami og fann upp nælonsokkabuxurnar og hnakkana á spinninghjólin. Semsagt Satan.
Í öðrum fréttum þá fékk ég fyrstu frönsku ritgerðina mína til baka í morgun. Þessa sem ég sat sveitt yfir í marga daga. Kennarinn sagði að hún væri ágæt nema ég þyrfti að vanda mig. Ég vona að maðurinn hennar eldi handa henni súrkál í kvöld.

mánudagur, nóvember 13, 2006

I am so smart! S-M-R-T!

Vandræðalegt ástand hér í borg um helgina... Frakkar lokuðu öllu á laugardaginn til að fagna því að þeir hafi á þessum degi árið 1918 unnið sigur á Þjóðverjum í fyrri heimsstyrjöldinni. Ég bý á landamærum Frakklands og Þýskalands og umgengst jöfnum höndum Frakka og Þjóðverja. Við skulum bara segja að ekki allir hafi verið í jafn miklu veisluskapi þessa hátíðina... Það vill samt svo skemmtilega til að á þessum sama ágæta degi átti samband Mathilde (Frakki) og Jacob (Þjóðverji) ársafmæli og við fögnuðum því í staðinn að þau væru allavega að gera sitt og fórna sér til að halda friðinn milli þjóðanna. Annars var ég mest upptekin við að gera ekki neitt um helgina, en þið?

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Grísk gúrkutíð

Nýjasta æðið mitt: Gúrkubitar með stöppuðum fetaosti. NAMM! Allir íbúar Slátrarastrætisins eru orðnir fíklar og nú er ekkert í ísskápnum okkar nema fullt af gúrkum og fetaostskrukkum, og ég endurskilgreini hér með hugtakið ,,gúrkutíð". Ég mana ykkur til að prófa (þið getið verið minimalísk eins og ég eða gert eins og Matthildarnar og bætt út í réttinn ediki og hunangi, en mér finnst það persónulega vera skref afturábak). Næringarlega séð er þetta æði mikið betra en síðasta (camenbert á baguette), sem ég kenni algjörlega um það að ég get varla lengur hneppt gallabuxunum mínum.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Myndir í smá rugli

Get ekki sett inn skýringar með myndunum, þær lenda bara útum allt, þannig að hér er smá myndasúpa sem byrjar með gönguferð um les calanques og endar í Lyon, þið megin skemmta ykkur við að giska á hvað er að gerast og hvar þess á milli...






































þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Froskur á ferð og flugi

Jæja, þá er ég komin heim til Matthildanna minna aftur, eftir viku ferðalag um Suður-Frakkland með Franzisku, þýskri vinkonu minni hérna. Vikuna áður en við fórum var fjölskyldan mín í heimsókn (þið verðir bara að trúa mér, við tókum ekki eina einustu ljósmynd alla vikuna, svo ég hef engin sönnunargögn...), sem var æðislegt, við röltum um Strasbourg, drukkum kaffi, keyrðum um Alsace og fórum í apagarð, þar sem við fóðruðum apaketti á poppkorni og reyndum að lenda ekki í apaslag (það tókst, svona að mestu leyti, gekk betur eftir að við æfðum apasvipina sem voru á leiðbeiningaskilti. Það var mjög smart). Við fórum líka í antikverslun og keyptum tvær fallegar styttur af manni sem virkaði mjög indæll en er núna ástæðan fyrir því að það er slökkt á símanum mínum. Hvaða miðaldra maður reynir við stelpulinga eins og mig fyrir framan pabba hennar?! Frakkar eru skrýtnir. Allavega, þá var erfitt að sjá á eftir liðinu heim aftur en ég fer nú alveg að koma heim í jólafrí hvort eð er, kem heim 15. des (á föstudegi, þeir sem ekki eru enn í prófum eru skyldugir til að gera eitthvað skemmtilegt með mér þessa helgi).
Á mánudagskvöldið tókum við Franzi svo næturlestina til Marseille (það er alveg hægt að sofa eins og ungabarn í lest, hvern hefði grunað..?) og vorum mættar á svæðið hálfsex, sem er fáránlegur tími til að mæta í ókunnuga borg því það er dimmt og allt lokað. Svo við fundum bara gömlu höfnina og horfðum á sólina koma upp þar.
Við gistum tvær nætur í Marseille, á litlu hóteli hjá mjög gömlum manni sem hafði mestar áhyggjur af því að við fyndum ekki ljósrofann á ganginum og sýndi okkur hvernig hann virkaði í 10 mínútur. "Upp, ljósin slökkna. Niður, ljósin kveikna. Upp, slökkna. Niður, kveikna. Upp... osfrv". (Verst að eftir allt það skyldi ég aldri finna bölvaðan rofann aftur og gat því aldrei kveikt ljósin á ganginum. Þurfti greinilega meiri kennslu.) Við fórum að skoða les calanques í Marseille, sem var æðislegt, það er einhvers konar verndað svæði við ströndina með fullt af gönguleiðum og fullt af fólki að klifra og síga og vesenast, var frábært að labba þar í yndislegu veðri. Við skoðuðum líka fallega kirkju, Notre Dame de la Garde, sem var ekki bara falleg bygging heldur líka staðsett þannig að við sáum frá henni yfir alla borgina og ströndina, ótrúlega fallegt útsýni. Við löbbuðum meðfram allri ströndinni, sem er víst um 8 kílómetrar, í brjáluðu roki með sand í augunum, og enduðum svo dvölina á að fara í bíó. Þar rann það upp fyrir okkur að við ættum að vera að tala frönsku en ekki ensku, og gerðum það samviskusamlega það sem eftir var ferðarinnar.
Næst gistum við eina nótt í Aix-en-Provence, þar sem við fórum um allt til að kynnast betur Cézanne, sem er einn af uppáhalds listamönnunum mínum, og Zola, sem voru báðir frá borginni.
Þá var ferðinni heitið til Avignon þar sem við gistum eina nótt, það reyndist ótrúlega falleg smáborg með frábæru útsýni og þar kynntumst við líka tveimur frönskum strákum sem voru svo indælir að nenna að tala við okkur frönsku heilt kvöld, þar sem við þóttumst skilja þá og þeir okkur. Ótrúlegt hverju maður nær að koma frá sér með stami og handapati. Annar þeirra var reyndar frekar sleipur eitthvað, alltaf að reyna að koma því inn í umræðuefnið að Frakkar hafi fundið upp franska kossinn, en við leiddum það bara hjá okkur eins og Pollýönnurnar sem við erum.
Síðasti áfangastaðurinn var Lyon, sem hvorug okkar vissi neitt um en var mjög strategískt staðsett á leið aftur heim til Strasbourg svo við ákváðum að eyða þar einum sólarhring. Og ég held að ég sé jafnvel bara mest skotin í Lyon af öllum stöðunum sem við fórum til, það er alveg yndisleg borg, með stórum ám sem renna í gegnum hana, fullt af upplýstum brúm og fallegum gömlum miðbæ sem stendur á hæð í miðri borginni. Við heimsóttum þar frábært safn þar sem ég sá verk eftir næstum alla hina uppáhalds málarana mína, Degas, Greco, Picasso og Chagall, það var æðislegt! Þar var líka besta augnablik ferðarinnar, þegar það var aðeins farið að rökkva og við stóðum á einni upplýstu brúnna og horfðum niður eftir ánni, meðan tveir strákar sátu á árbakkanum og æfðu sig að spila saman á harmonikku og fiðlu, ótrúlega franskt eitthvað, og svona augnablik þar sem maður vildi hvergi annarsstaðar í heiminum frekar vera akkúrat þá.
Svo héldum við heim á leið daginn eftir og nú er allt brjál í skólanum, svo það er ekki dauð stund hér þessa dagana.
Enn og aftur vill blogger ekki hunskast til að sýna myndirnar mínar, svo þær koma seinna... Afsakið langa póstinn!

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Eg fann sjoinn!!!

Bara ad tekka inn, fjolskyldan komin og farin og eg stungin af til Sudur-Frakklands, er a lelegu internetkaffi i Marseille eins og er og nenni ekki ad skrifa a svona kjanalegt lyklabord. Hendi inn ferdasogum sidustu tveggja vikna sennilega a sunnudaginn thegar eg sny aftur a Slatrarastraetid.