þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Froskur á ferð og flugi

Jæja, þá er ég komin heim til Matthildanna minna aftur, eftir viku ferðalag um Suður-Frakkland með Franzisku, þýskri vinkonu minni hérna. Vikuna áður en við fórum var fjölskyldan mín í heimsókn (þið verðir bara að trúa mér, við tókum ekki eina einustu ljósmynd alla vikuna, svo ég hef engin sönnunargögn...), sem var æðislegt, við röltum um Strasbourg, drukkum kaffi, keyrðum um Alsace og fórum í apagarð, þar sem við fóðruðum apaketti á poppkorni og reyndum að lenda ekki í apaslag (það tókst, svona að mestu leyti, gekk betur eftir að við æfðum apasvipina sem voru á leiðbeiningaskilti. Það var mjög smart). Við fórum líka í antikverslun og keyptum tvær fallegar styttur af manni sem virkaði mjög indæll en er núna ástæðan fyrir því að það er slökkt á símanum mínum. Hvaða miðaldra maður reynir við stelpulinga eins og mig fyrir framan pabba hennar?! Frakkar eru skrýtnir. Allavega, þá var erfitt að sjá á eftir liðinu heim aftur en ég fer nú alveg að koma heim í jólafrí hvort eð er, kem heim 15. des (á föstudegi, þeir sem ekki eru enn í prófum eru skyldugir til að gera eitthvað skemmtilegt með mér þessa helgi).
Á mánudagskvöldið tókum við Franzi svo næturlestina til Marseille (það er alveg hægt að sofa eins og ungabarn í lest, hvern hefði grunað..?) og vorum mættar á svæðið hálfsex, sem er fáránlegur tími til að mæta í ókunnuga borg því það er dimmt og allt lokað. Svo við fundum bara gömlu höfnina og horfðum á sólina koma upp þar.
Við gistum tvær nætur í Marseille, á litlu hóteli hjá mjög gömlum manni sem hafði mestar áhyggjur af því að við fyndum ekki ljósrofann á ganginum og sýndi okkur hvernig hann virkaði í 10 mínútur. "Upp, ljósin slökkna. Niður, ljósin kveikna. Upp, slökkna. Niður, kveikna. Upp... osfrv". (Verst að eftir allt það skyldi ég aldri finna bölvaðan rofann aftur og gat því aldrei kveikt ljósin á ganginum. Þurfti greinilega meiri kennslu.) Við fórum að skoða les calanques í Marseille, sem var æðislegt, það er einhvers konar verndað svæði við ströndina með fullt af gönguleiðum og fullt af fólki að klifra og síga og vesenast, var frábært að labba þar í yndislegu veðri. Við skoðuðum líka fallega kirkju, Notre Dame de la Garde, sem var ekki bara falleg bygging heldur líka staðsett þannig að við sáum frá henni yfir alla borgina og ströndina, ótrúlega fallegt útsýni. Við löbbuðum meðfram allri ströndinni, sem er víst um 8 kílómetrar, í brjáluðu roki með sand í augunum, og enduðum svo dvölina á að fara í bíó. Þar rann það upp fyrir okkur að við ættum að vera að tala frönsku en ekki ensku, og gerðum það samviskusamlega það sem eftir var ferðarinnar.
Næst gistum við eina nótt í Aix-en-Provence, þar sem við fórum um allt til að kynnast betur Cézanne, sem er einn af uppáhalds listamönnunum mínum, og Zola, sem voru báðir frá borginni.
Þá var ferðinni heitið til Avignon þar sem við gistum eina nótt, það reyndist ótrúlega falleg smáborg með frábæru útsýni og þar kynntumst við líka tveimur frönskum strákum sem voru svo indælir að nenna að tala við okkur frönsku heilt kvöld, þar sem við þóttumst skilja þá og þeir okkur. Ótrúlegt hverju maður nær að koma frá sér með stami og handapati. Annar þeirra var reyndar frekar sleipur eitthvað, alltaf að reyna að koma því inn í umræðuefnið að Frakkar hafi fundið upp franska kossinn, en við leiddum það bara hjá okkur eins og Pollýönnurnar sem við erum.
Síðasti áfangastaðurinn var Lyon, sem hvorug okkar vissi neitt um en var mjög strategískt staðsett á leið aftur heim til Strasbourg svo við ákváðum að eyða þar einum sólarhring. Og ég held að ég sé jafnvel bara mest skotin í Lyon af öllum stöðunum sem við fórum til, það er alveg yndisleg borg, með stórum ám sem renna í gegnum hana, fullt af upplýstum brúm og fallegum gömlum miðbæ sem stendur á hæð í miðri borginni. Við heimsóttum þar frábært safn þar sem ég sá verk eftir næstum alla hina uppáhalds málarana mína, Degas, Greco, Picasso og Chagall, það var æðislegt! Þar var líka besta augnablik ferðarinnar, þegar það var aðeins farið að rökkva og við stóðum á einni upplýstu brúnna og horfðum niður eftir ánni, meðan tveir strákar sátu á árbakkanum og æfðu sig að spila saman á harmonikku og fiðlu, ótrúlega franskt eitthvað, og svona augnablik þar sem maður vildi hvergi annarsstaðar í heiminum frekar vera akkúrat þá.
Svo héldum við heim á leið daginn eftir og nú er allt brjál í skólanum, svo það er ekki dauð stund hér þessa dagana.
Enn og aftur vill blogger ekki hunskast til að sýna myndirnar mínar, svo þær koma seinna... Afsakið langa póstinn!

Engin ummæli: