miðvikudagur, ágúst 27, 2003

Fyrsti dagur minn sem verkfræðinema að kveldi kominn, og gekk svona líka stóráfallalaust. Allar líkur á því að stóráfallið bresti samt á á morgun þegar ég fer í fyrsta stærðfræðitímann minn... Átti reyndar von á því í allan dag að einhver myndi pikka í öxlina á mér og benda mér á að háskólinn væri því miður ekki fyrir börn, en það gerðist furðulegt nokk ekki. Sér í alvöru enginn að ég er of lítil til að vera í háskóla?!!

mánudagur, ágúst 25, 2003

Brjálaður Íri kominn og farinn, en þetta fór betur en á horfðist. Hann hafði engan áhuga á neinu sem heitir náttúra nema hann gæti verið nakinn þar, þannig að Bláa lónið var heimsótt tvisvar, skýlulaust að sjálfsögðu, afskekktur hraunbútur var heimsóttur einu sinni til nakinna myndataka (veit ekki hvaða bækling hann las eiginlega!) og auðvitað háttaði hann sig einu sinni í miðbænum líka til að viðhalda þemanu. Ef ég kynni að setja myndir á netið myndi ég deila þeim með almúganum en enn sem komið er verður ímyndunarafl ykkar að duga. Ég gerði nokkrar persónulegar og misgagnlegar uppgötvanir; ég hef meira drykkjuþol en mig grunaði, ég er vonlaus í glímu og mun alltaf tapa jafnvel þótt ég svindli eins og ég eigi lífið að leysa og að eftir tvær lónsferðir og bjórbað deyr hár einfaldlega. Ég er gersamlega uppgefin eftir að hafa verið skemmtileg samfleytt í 5 daga og verð ekki skemmtileg aftur fyrr en í fyrsta lagi um páskana. Nú er strax farið að skipuleggja sambýli í Döbblin næsta sumar en einhvern veginn grunar mig samt að heimurinn og lifrin mín muni ekki lifa þann kokteil af!
Ps. Háskólinn byrjar með kynningarfundi á morgun en ég er að gera mitt besta til að hunsa þá staðreynd í bili þar sem ég hef hvorki sofið né talað íslensku í fimm daga og er ekki lengur viss á grundvallaratriðum eins og nafni, kennitölu og uppsprettu þeirrar sjálfspíningarhvatar sem leiddi til þess að ég skráði máladeildarhausinn minn í verkfræði til að byrja með... (Ef einhvern rámar í eitthvað af ofantöldu má hann gjarnan láta Agnar vita.)

miðvikudagur, ágúst 13, 2003

Ég er að fá Íra í hausinn! 20. ágúst, hjálp! Ég kann ekki að djamma og bílið mitt er bilað, hvað í ósköpunum á ég að gera við hann??? Láta hann horfa á vídjó með litla brósa??? Úff, ef það eru einhverjir sjálfboðaliðar í ferð í Skaftafell um þetta leyti eða ef einhver er til í magnað djamm helgina á eftir má hann gjarnan láta mig vita, ég er orðin örvæntingarfull...