Um hvítasunnuhelgina...
...fann ég Álftanes. Þar er til siðs að puðra fólk. Ítrekað.
...fór ég á hestbak í fyrsta sinn síðan ég taldi aldur minn með einum tölustaf. Þriggja tíma reiðtúr takk, á hesti sem ég held að hafi fundist ég leiðinleg (enda talaði ég við hann næstum stanslaust alla þrjá tímana til að reyna að telja hann á að hætta að rykkja endalaust í tauminn, því það gerði mig skelkaða). Það er ofsa gaman á hestbaki. Bara muna að fara í íþróttatopp. Og sleppa spinning vikuna áður. Mjög mikilvægt fyrir stélið.
...fór ég í kajaksiglingu á Stokkseyri í roki og hélt ég myndi missa handleggina við að róa í land á móti vindi. Lét samt ekki taka mig í tog eins og flestar stelpurnar, er hetja. Ég var svo gjörsamlega búin í handleggjunum þegar ég kom að bakkanum að ég komst ekki úr kajaknum mínum eins og manneskja heldur varð að ánamaðkast út úr honum án aðstoðar handleggjanna. Það vildi ekki betur til en svo að ég lak hálfpartinn beint út í vatnið. Mjög þokkafullt.
...sólbrann ég á nefinu í göngu í Brekkuskógi þar sem ég skoppaði um í sumarhamingjuvímu og reyndi að stíga ekki á randaflugurnar.
...sólbrann ég á restinni af líkamanum í pottinum eftir gönguna. Er röndótt eins og Bjarnabófi.
fimmtudagur, maí 15, 2008
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)