fimmtudagur, desember 29, 2005

Dumbldórsputtinn

Ég á nokkur hefðbundin hlutverk í jólaundirbúningnum í sveitinni, og eitt af þeim er að lita makkann á henni ömmu minni. Botna ekkert í því hvers vegna það kom upphaflega í minn hlut þar sem ég hef aldrei litað svo mikið sem mitt eigið hár, hvað þá annarra, en svona er þetta. Í ár ákvað ég að láta ekki staðar numið við hárið heldur reyna hæfileika mína víðar. Og litaði löngutöng hægri handar kolbikasvarta. Mjög smart. Ég sat svo uppi með það að vera eins og Dumbldór prófessor öll jólin, með hönd sem leit út fyrir að vera hálfbrunnin til kaldra kola. En hárið á ömmu var allavega ofsa fínt, svo ég fæ vonandi að halda starfinu næstu jól. Vona bara að ég fái að halda höndinni líka, þetta er reyndar bara sú hægri sem ég nota ekkert mikið, rétt til að styðja við hluti og gefa fimm og svona, en maður veit aldrei hvenær maður gæti lent í harmónikkuspilsneyðartilfelli eða eitthvað.
Ég hef annars tekið uppá því þessi jólin að vakna alltaf um fimmleytið á morgnana og sofna ekki aftur sama hvað ég reyni. Þetta er ákaflega hressandi og hefur leitt til mikils bókalesturs, prjónaskapar og ég er að verða búin að hlusta á allan Góða dátann Svejk á geisladiskum. Elsku, elsku Gísli Halldórsson. En nú er ég semsagt mætt í vinnuna á ný, fersk og brakandi. Komið og kaupið eitthvað fallegt hjá mér.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Hefðbundin jól

Gleðilega hátíð öllsömul! Ég er í miðju kafi að halda hefðbundnu jólin mín og það gengur alveg eins og í sögu. Allt eftir handritinu þar. Jólaþrif, Þorláksmessukortadreifing, jólamessa, Þórshafnarboð. Mikið gott. Ég sit reyndar uppi með það að hírast heima í minipilsinu sem mamma mín gaf mér í jólagjöf til að spara buxurnar mínar, því það pakkaðist eitthvað undarlega niður í töskuna mína þetta árið, enda aðstæðurnar ekki alveg eins og áætlað var. Lífið og dauðinn eru víst því miður ekki sett á pásu yfir hátíðirnar og bið ég þá sem ekki fengu frá mér jólakveðjur eða jólakort afsökunar, aðstæður buðu ekki uppá það þetta árið, ekki með góðu móti allavega. En þið vitið öll að þið fáið hlýjar jólahugsanir úr Unnsubæ, er það ekki? Pabbinn í New York og fjölskyldan sem hýsir hann fá öll sérstaklega stóra jólakveðju hér.
Í ár er ég opinberlega orðin stór stelpa, því ég fékk tvö jólakort með barna- og/eða brúðkaupsmyndum vinkvenna minna. Eftir að áfallið leið hjá urðu þetta með bestu jólagjöfunum. Sem gerir mig ennþá eldri. En það er kannski bara ágætt, maður er hvort eð er farinn að borga skatta og svoleiðis leiðindafullorðins, alveg eins gott að skella sér þá bara í allan pakkann og fá kostina líka.
En semsagt, kem heim á morgun, sjáumst!

fimmtudagur, desember 22, 2005

Gleðileg jól!

Þá er ég komin í jólabloggfrí. Ég vona að þið eigið öll yndisleg jól :)

þriðjudagur, desember 20, 2005

Tapað/fundið

Tapast hefur lítið notaður sjálfsagi. Hann sást síðast í stúdentsprófunum vorið 2003, þá í fylgd með bókinni "Heimspekisögu". Síðan hefur bókin komið í leitirnar en félagi hennar ekki en hans er sárt saknað. Hann er beðinn afsökunar hérmeð á að hafa verið hundsaður að mestu leyti síðustu 22 árin, og elskan, ef þú bara kemur heim skal ég nota þig á hverjum degi. Ég looofa. Prittí plís?

Kreistikjúllinn

Ég hef eignast nýjan vin í prófstressinu. Hann er slakandi og mjúkur og ef ég kreisti hann kemur egg útúr rassinum á honum. Hver getur keppt við það? Má ég kynna my buddy my pal, Kreistikjúlla:

sunnudagur, desember 18, 2005

Hvar er inngripið?

Djamma í miðjum prófum eins og kjáni... Af hverju stoppar mann enginn???
Nöldur 1: Karókí vélar eru hámark mannvonskunnar í mínum litla verndaða heimi eins og er, hvaða illmenni fann þetta eiginlega upp? Sitja undir svona gauli í þrjá, fjóra tíma, ekki skrýtið að maður verði svolítið kreisí í hausnum... Vona að það sé bara slúður að Bjössi hafi keypt tækið í þetta skiptið...
Nöldur 2: Það ætti að reka allt ofur-hresst starfsfólk fyrir jólin. Úberógeðishress lúgusjoppustarfsmaður var svo ekki það sem ég þurfti í morgun og ef ég hefði ekki þurft þetta kók til að lifa af hefði ég lokað glugganum og keyrt í burtu um leið og hann gólaði skælbrosandi "Góðan daaaginn!" og hristi smá glimmer úr jólasveinahúfunni sinni. En ég þraukaði, sem voru mistök, því hann tók kókið mitt í gíslingu á meðan hann sýndi mér næstum allt í sjoppunni til að vera viss um að ég vildi ööörugglega ekkert fleira, bauð mér samstarfsdreng sinn (líka úberógeðishress) á rekstrarleigu og klifraði á einhverjum tímapunkti hálfa leið í gegnum lúguna sína og inn í bílinn til mín. Hvolpasvipur og vesældarlegt "Má ég plííís fara núna..?" dugði ekki neitt gegn úberógeðishressleikanum. Ég veit að ég hef nokkrum sinnum verið sjálf þessi úberógeðishressi starfsmaður í gegnum tíðina og vil ég biðja þá sem lentu í mér afsökunar, og lofa að það mun aldrei gerast aftur. Hvar er Amnesty þegar maður verður fyrir svona mannréttindabrotum? Eru ekki einhverjar reglur um að lúgustarfsmenn megi ekki undir neinum kringumstæðum klifra útum lúguna sína? Eða reyna að selja líkama sinn í gegnum téða lúgu?

þriðjudagur, desember 13, 2005

Return of the Space Cowgirl


Ef einhver er ennþá að skoða þessa síðu þá er ég mætt aftur, klappklappklapp. Til að kæfa þann misskilning í fæðingu er það ekki af því ég hafi svo mikið að segja, heldur bara vegna þess að ég á að vera að læra fyrir Evrópusamvinnu en nenni því ekki. Þar hafið þið það.
Nafna mín orðin ungfrú heimur, ég búin að sækja um á Stúdentagörðunum, flótti til Kúbu á teikniborðinu (afleiðing gífurlegs prófleiða)... Ég ákvað að sækja um á görðunum þegar foreldrar mínir gáfu litla brósa rafmagnsgítar og kraftmikinn magnara í miðri próftörninni minni. Já, maður skilur nú fyrr en skellur í tönnum!
Þrátt fyrir að vera í fáránlega erfiðri próftörn eftir hræðilega önn hefur mér samt tekist að bralla ýmislegt. Kaupa slatta af jólagjöfum, fara á jólahlaðborð og bráðum í jólaglögg, horfa á Cool Runnings, borða fullt af ógeði og missa algerlega alla tilfinningu í rassinum eftir að hafa tekið ástfóstri við að læra á gólfinu. Minn eigin dugnaður hræðir mig. Hins vegar hefur valkvíðinn tekið sig upp á ný, nú fer ég að þurfa að taka ákvörðun um hvort ég ætla í skiptinám og þá hvert, í hvað og hvað lengi. Mig svimar við tilhugsunina...