mánudagur, júlí 31, 2006

8 rue des Bouchers

Nú fer þetta blogg mitt senn að breytast í útlandablogg, sem er eins gott því það er alveg að deyja hérna heima. Ég var loksins að fá vilyrði fyrir íbúð áðan, með tveimur frönskum stelpum sem heita báðar Mathilde... Samkvæmt lýsingunni er íbúðin sæt og fín, nýuppgerð, í miðbænum og stutt frá skólanum, með adsl og þvottavél og öllu. Hljómar kannski aaaðeins of gott til að vera satt en það verður bara að koma í ljós. Þær eru voða krúttlegar eitthvað og áhugasamar um allt sem er íslenskt, tónlist og tungumál og alltsaman, svo kannski get ég fengið þær til að kenna mér frönsku í skiptum fyrir íslenska menningarfræðslu. En þær skilja allavega ensku (og reyndar frönsku, þýsku, portúgölsku og ítölsku!) og hvað getur maður beðið um meira?? Og þá slepp ég við að leigja appelsínugula herbergið af önuga manninum sem svarar aldrei því sem ég spyr um heldur einhverju allt öðru. Injófeis önugi maður.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Já, þúsund sinnum já, þó þú sért plebbi!

Ég kom víst í Brúðkaupsþættinum já í gær, mér til einstakrar gleði. Nú þarf ég aldrei að gifta mig. Finnst skemmtilegur femínismi í því að vera karllaus í brúðkaupsþætti. En þá er ég kannski að grípa í strá... Þeir klipptu samt skilst mér út fínu litlu ræðurnar mínar tvær sem ég var látin halda af miklum gervihressleika. Ég er að íhuga málsókn.
Annars er ég bara kvefuð og málhölt í samræmi við það.

föstudagur, júlí 21, 2006

Í hverju ertu?


Ég vona að það séu ekki allir búnir að gleyma í blíðunni að fara daglega inn á www.thehungersite.com og klikka á stóra gula takkann til að láta auglýsendurna gefa smá mat, og nota svo flettispjöldin efst til að fara á systursíðurnar fimm til að gera það sama. Ég var búin að gleyma því nefnilega, mundi bara eftir síðunum í gær, en nú eru þær orðnar að sértakka á netinu mínu svo ég gleymi þeim ekki aftur. Fyrr en bráðum...
Foreldrar mínir ætla svo að ættleiða ABC-barnið mitt á meðan ég er úti, og það væri nú skemmtilegt ef þið tækjuð að ykkur að styrkja nokkra vini handa honum á meðan ég er í burtu. Svo hann sakni mín ekki þið vitið.
Annars hófst vinnudagurinn minn í dag kl. 8 í morgun og stendur til 12 í kvöld, með smá hléi til að skjótast aðeins til Evu fjöltyngdu sem ætlar að vera svo indælis indæl að hringja fyrir mig til Frans í einhvern gaur sem vill kaaannski leigja mér herbergi. Ég ætla að reyna að fá hana til að borða smá krít fyrst svo hún hljómi eins og stúlkugeiturnar á Rauða torginu (og úlfurinn í grísunum þrem...) en hún veit það ekki ennþá. Annars er ég við það að hætta bara við þetta alltsaman, ég á eftir að sakna allra svo hræðilega mikið. Af hverju verða allir svona hrikalega skemmtilegir og sniðugir rétt áður en maður flytur úr landi? Og hvað á ég eiginlega að gera ÁN KATTARINS???

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Þeir brúnkast seint sem veðurguðirnir hata

Ekki að ég ætli að vera með einhver leiðindi hérna, en ER VERIÐ AÐ GRÍNAST Í MÉR??? Nú er búið að vera slagveður í tvo mánuði, svo í gær er mér sagt að forðast sól í mánuð og voilá! SÓL! Argh!
Ég ætla í dag að ganga um í flíspeysu, ullarsokkum og snjóbrettabuxum með vettlinga, eyrnaband (hvenær ætli þau komist í tísku aftur?) og glamrandi tennur og þykjast ekki sjá þennan bannsetta gula bolta sem aldrei getur gert eins og ég bið hann. Hrmph. (Og skriðtækla alla sem labba framhjá búðinni minn í dag a) á leiðinni í laugina, b) með ís eða c) með sólgleraugu).

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Dr. Bónus

Ég held að læknar þessa lands séu búnir að rotta sig saman um það að vanrukka mig. Sem er auðvitað ekkert nema dásamlegt! Fór til tannlæknis um daginn sem tók myndir og krukkaði og potaði og rukkaði mig svo um fimmtánhundruð krónur, og í dag fór ég til sérfræðings sem rukkaði mig um tvöogfimm. Alveg hélt ég að það væri dýrara en þetta að vera lasinpési! Og í báðum tilfellum fékk ég bót meina minna, engar fýluferðir fyrir útsöluprísinn. Er kannski bara svona ódýrt að fara til lækna...?
Í gærkvöldi fórum við listamaðurinn í baðstofuslökun, og ég er ennþá svo slök að ég get ekki bloggað. Ég er franskbrauð í dag.

laugardagur, júlí 15, 2006

Skrúbbarnir


Í gær keypti ég mér Skrúbbaseríu og horfði á alveg helminginn af henni í einu með frönskum texta sem ég las samviskusamlega. Og það hjálpaði alveg helling! Enn ein ástæða til að elska Skrúbbana.
Annars eru fréttir núll eins og er, bara rigning og ég að vinna. Enda ekkert betra að gera í svona veðri. Get samt ekki sagt að vinnustaðurinn sé leiðinlegur sama dag og ég mæti svíni í grænum smekkbuxum á línuskautum um leið og ég dragnaðist inn í húsið hálfsofandi í morgun. Merkilega nokk þá var það með allar mögulegar hlífar, svo svín eru greinilega mjög öryggismeðvituð. Það eru ný vísindi fyrir mér.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Why don´t they liiiiiiiike me??? snökt...

Af hverju af hverju af hverju vill fólk ekki leigja með mér??? Veit það ekki hvað ég er fáránlega skemmtileg? Og sæt? Hvað þarf maður eiginlega að gera til að fá leigða íbúð í Frans?? Ekki það að ég veit alveg hvað maður þarf að gera. Maður þarf að svara auglýsingunum á frönsku. Ég get bara ekki fengið það af mér að skrifa einhverjum tölvupóst sem ég veit að er bæði fáránlega málfræðilega vitlaus og vitlaust stafsettur því ég er ekki með franska stafi. Ég er málfræðifasisti og get það bara ekki! Alveg nógu mikið álag að skrifa þessar tvær línur í minni eigin auglýsingu á frönsku... Í dag ætla ég samt að skrá mig (loksins) í Alliance Francaise og fá lánaðar franskar og ó svo menningarlegar myndir (man að síðast þegar ég fór sá ég eina um talandi hund, ætli hún sé ennþá til?) og halda svo mína eigin frönsku kvikmyndahátið (fyrst Háskólabíó þarf endilega alltaf að halda sínar akkúrat þegar ég er í prófum). Allir velkomnir, en alpahúfur og baguette eru sérstaklega velkomin.
"Þú verður að fylgja hjarta þínu. Mitt er hér í Sýrakúsu en þitt siglir burt"

mánudagur, júlí 10, 2006

Lífið á brúninni

Það er mjög heilsusamlegt að búa í miðbænum. Ég er meira að segja farin að stunda áhættuíþrótt í fyrsta skipti á ævinni. Nýja áhugamálið mitt: Extreme pisserí. Baðherbergið mitt er FULLT af kirkjugarðsskordýrum, svo klósettferðir á mínum bæ fá hjartað til að slá hraðar og adrenalínið til að streyma, fyrir utan að leiða mann til að iðka nokkrar klassískari íþróttir í bland. Til dæmis í gær sat ég á klóinu og var mikið að fylgjast með bjöllunni sem sat á veggnum fyrir framan mig og leit út fyrir að vera pínu drukkin (kannski komist í smá ilmvatn?) þegar Speedo Gonzales (RISA-könguló sem ferðast (get svo svarið það) á hraða ljóssins, nefndur eftir sundskýlu þar sem Speedy var þegar frátekið fyrir litlu köngulóna sem ferðast (get svo svarið það) á hraða ljóssing og býr í herberginu mínu) birtist á fleygiferð í áttina til mín. Ég tók með það sama þokkafullt grindahlaup yfir klósettið og svo þrístökk fram í stofu, þar sem ég hljóp 400 metrana með frjálsri aðferð og veini. Og af hverju í ósköpunum get ég ekki drepið skordýr??? Hvað er eiginlega að mér? Þau eiga bara eftir að halda áfram að safnast heim til mín þar til ég fæ taugaáfall, enda ekkert sem truflar þau þar og nóg af ilmvatni fyrir þau að rónast langt fram á haust!

sunnudagur, júlí 09, 2006

Sunnudagsmorgunn í tómri líkamsræktarstöð

Af hverju tekst mér alltaf að djamma á vinnuhelgunum mínum og vera róleg fríhelgarnar? Sem betur fer vinn ég á stað þar sem enginn þarf að sjá hvað ég er mygluð. Hóst.
Ég er búin að senda póst á um það bil alla 99 sem eru að leita að meðleigjendum í Strasbourg á þessarri síðu en enginn vill mig. Af hverju vill mig enginn??? Ég reyki ekki, bít ekki og er kassavön! Það er meira en hægt er að segja um flesta Frakka ef orðið á götunni er rétt. Er farin að spá í að láta mynd af Unni Birnu fylgja með auglýsingunni minni, kannski hjálpar það...
Í Mogganum í dag er talað um 9 ára barn sem var að fæða barn í S-Ameríku, og það er "óttast að um nauðgun hafi verið að ræða". Vill einhver útskýra fyrir mér hver hinn möguleikinn er!

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Fair warning:


Ætli það sé samkvæmisdansmenning í Strass? Kannski get ég spilað útlendingaspilinu til að fá einhvern til að dansa við mig... Er alveg sjúk, mig laaangar svo að byrja aftur að dansa, pirrandi að vera ástfangin af íþrótt sem maður er fullkomlega upp á einhvern annan kominn um að geta stundað. Ég vil vera mín eigin lipurtá, kann ekki við að vera háð einhverju taktlausu strákgerpi í dillinu, en gallinn er sá að það er skemmtilegi hlutinn. Að dansa við einhvern. Er búin að fullnægja þörfinni að hluta til með einhverju sóló-legghlífahoppi í mörg ár en nú er nóg komið, og mér skal takast að fá eitthvað aumingjans Frakkagrey til að dansa pínu foxtrott eða vals eða bara fugladans þó það verði mitt síðasta! Mark my words! Einhver ætti nú samt að vara Frakkana við, það er ekki nema sanngjarnt að þeir fái tækifæri til að verja sig...

mánudagur, júlí 03, 2006

Útilegu-Unnur, fæst núna með gæsahúð


Helgin var algjörlega æðisleg, þrátt fyrir að ég sé einni nögl fátækari að henni lokinni (vinstri miðtásunögl: Sakna þín beibí!). Ég elti Bylgju mína á Vindheimamela á landsmót hestamanna, þar sem hún komst í ÚRSLIT! Til hamingju elsku Bylgjukrútt :* Ég er að vísu alger bjáni þegar kemur að þessum hestabisness svo ég sat bara í brekkunni, fast vafin inn í fullt af teppum eins og frönsk pulsa, og horfði stóreyg á allt sem var að gerast. Rembdist við að læra að þekkja gangtegundirnar og það tókst svona að mestu leyti, spurði heimskulegra spurninga við öll tækifæri og vældi og skældi yfir því hvað það væri agalega gasalega kalt í tjaldinu mínu (það voru í alvöru hitaskil sem gengu í gegnum mitt tjaldið, Bylgja var grilluð öðru megin meðan ég lá skjálfandi hinumegin knúsandi hundinn mér til hlýju. Takk Iða.). Fjölskyldan hennar Bylgju ættleiddi mig (nauðug viljug), fóðraði mig á grillmat (namm) og vafði mig inn í teppi þegar ég var farin að blána í brekkunni. Ég kynntist fullt af skemmtilegu fólki og var sagt að ég væri "dönnuð", sem segir kannski mest um félagsskapinn sem ég var í.
Besta augnablik ferðarinnar: Liggja og lúra í brekkunni undir teppi og hlusta á rigninguna. Íslensk sumur eru svo yndisleg!! Ég er öll alveg flöffí af gleði yfir þessu öllu saman :)