mánudagur, júlí 10, 2006

Lífið á brúninni

Það er mjög heilsusamlegt að búa í miðbænum. Ég er meira að segja farin að stunda áhættuíþrótt í fyrsta skipti á ævinni. Nýja áhugamálið mitt: Extreme pisserí. Baðherbergið mitt er FULLT af kirkjugarðsskordýrum, svo klósettferðir á mínum bæ fá hjartað til að slá hraðar og adrenalínið til að streyma, fyrir utan að leiða mann til að iðka nokkrar klassískari íþróttir í bland. Til dæmis í gær sat ég á klóinu og var mikið að fylgjast með bjöllunni sem sat á veggnum fyrir framan mig og leit út fyrir að vera pínu drukkin (kannski komist í smá ilmvatn?) þegar Speedo Gonzales (RISA-könguló sem ferðast (get svo svarið það) á hraða ljóssins, nefndur eftir sundskýlu þar sem Speedy var þegar frátekið fyrir litlu köngulóna sem ferðast (get svo svarið það) á hraða ljóssing og býr í herberginu mínu) birtist á fleygiferð í áttina til mín. Ég tók með það sama þokkafullt grindahlaup yfir klósettið og svo þrístökk fram í stofu, þar sem ég hljóp 400 metrana með frjálsri aðferð og veini. Og af hverju í ósköpunum get ég ekki drepið skordýr??? Hvað er eiginlega að mér? Þau eiga bara eftir að halda áfram að safnast heim til mín þar til ég fæ taugaáfall, enda ekkert sem truflar þau þar og nóg af ilmvatni fyrir þau að rónast langt fram á haust!

Engin ummæli: