fimmtudagur, maí 24, 2007

Blogg, hið nýja fílófax

Úff, ég held ég sé að slá persónulegt svitamet þessa dagana... Það er endalaust um þrjátíu stiga hiti, og engin loftræsting á Slátrarastrætinu svo ég sit bara og marinerast í próflestrinum, á milli þess sem ég dreg lappirnar uppí skóla til að taka próf. Ég hef reynt að læra á kaffihúsum og nýta sólina, en þá steikist ég bara algjörlega í hausnum og þarf að leggja mig á eftir! Þarf að gera breytingu á þeirri alhæfingu minni að ég fúnkeri vel í hita. Ég fúnkera vel í hita ef það eina sem ég þarf að gera er að skríða út af hóteli og niður á strönd, liggja þar í móki í nokkra tíma og staulast heim aftur. Lather rinse repeat. Ég fúnkera ekki neitt í prófum í svona veðri, og það ógeðslegasta sem ég veit er að sitja í fullri skólastofu, í stressi að taka próf, og finna svitadropana leka niður bakið á mér... Oj. Fyrir utan það að ég kann ekkert að klæða mig fyrir daglega lífið í þessum hita, á Spáni skellir maður sér í bikiní og flippfloppara en ég hef grun um að slíkur klæðaburður væri litinn hornauga í hinni virðulegu stofnun IEP. Í gær var ég í mínum venjulegu gallabuxum og bol, en þegar ég kom heim var ég svo pikkföst í gallabuxunum að það tók mig heillangan tíma og mikið brölt (eins gott að ég er liðug, sjísh...) að komast úr þeim aftur. Mathilde meira að segja kom og tékkaði hvort það væri ekki allt í lagi með mig, henni leist ekki á blikuna þegar ég var farin að hoppa á öðrum og bölva eins og sjóari.

Dagskráin fyrri hluta sumars er í óða önn að taka á sig mynd, og lítur bara vel út. Sé reyndar ekki fram á mikinn tíma til að skrifa BA ritgerðina mína fínu, en mun nýta allar lausar stundir í hana, lofa. Dagskráin lítur svona út eins og er (en ekkert skrifað í stein, svo hún mun örugglega breytast heilmikið áður en yfir lýkur):
-Nonni mætir 28. maí, en er búinn að lofa að hafa sig hægan þar til eftir prófin mín tvö þann 29. Ég er frábær gestgjafi...
-2.-9. júní verða mamma og Ella frænka í heimsókn, og ég hlakka endalaust til. Planið er að versla, drekka kaffi og sóla okkur eins mikið og er mannlega mögulegt á einni viku. Ég er búin að panta sólskin.
-15. júní flyt ég af Slátrarastrætinu, sennilega á næsta götuhorn þar sem ég mun sofa í dyragætt því ég hef enn ekki fundið mér íbúð.
-21. júní kíkir Einar í heimsókn á Evróputúrnum sínum.
-23. júní (eða 24... hú nós) skrepp ég til Barcelona að hitta á ofurhressa vini þar (Aaarna mín!), og halda litla minningarathöfn um spænskuna sem ég talaði einu sinni en var hent út fyrir frönsku einhverntímann í vetur.
-1. júlí flýg ég frá Barcelona til Riga í Lettlandi, þar sem ég verð í tíu daga með gáfumannafélagi (eftir því sem ég kemst næst) Geri ráð fyrir að ég sé skemmtiatriði.
-17. júlí kemur Ásla og verður í nokkra daga, ég er fáránlega spennt, en skilst að hún ætli að sofa á sínu græna allan tímann og vakna bara til að drekka eitt og eitt rauðvínsglas. Og kaupa nýja Harry Potter.

Lengra get ég ekki hugsað í bili, ýmislegt í bígerð en ekkert búið að negla niður. Algjör óþarfi að skipuleggja sig meira en tvo mánuði fram í tímann hvort eð er!
Back to the books!

laugardagur, maí 19, 2007

Blákaldur veruleikinn

Ég held að maðurinn sem var búinn að útbúa sér lítið heimili undir einni brúnni hérna hafi dáið í nótt. Allavega voru lögreglu- og sjúkrabílar á staðnum, lögreglumenn á vappinu á brúnni, og fullt af forvitnu fólki að horfa á lögreglumenn á bátum sem tóku eitthvað sem líktist mannslíkama undan brúnni. Mikið finnst mér erfið tilhugsun að á meðan ég sat yfir bókunum, fitnaði af óhóflegu súkkulaðiáti og kvartaði yfir hvað lífið væri erfitt, hafi maður ca. 500 metra frá mér verið að deyja í innkaupakerrunni sinni undir brú. Hvað getur maður sagt...

Sjeik itt beibí

Sjeik morgunsins var ferlega góður, svo ég ætla að deila honum með ykkur:
-hálfur frosinn banani
-1/8 lítil melóna (þessi sem er grængrá að utan og appelsínugul að innan...)
-ca. 15 hindber
-hálf appelsína
Blandað eins lengi og það tekur mann að þvo hnífinn og skurðarbrettið, þurrka upp gumsið sem subbaðist um allt og hlaupa fram til að setja þvottavélina af "þvo" yfir á "vinda".
Njótið!

föstudagur, maí 18, 2007

The early days

Pabbi var að senda mér þessa ágætu mynd af okkur þegar ég var (samkvæmt honum, man það ekki svo gjörla sjálf) ca. 5 daga gömul. Ég vil biðja ykkur sérstaklega að taka eftir gáfulegum augunum (og þakka svo Guði fyrir að þetta grísanef óx niður).

miðvikudagur, maí 16, 2007

Blaður í staðinn fyrir að læra...

Þessi fjöldahystería um samsæri Austur-Evrópu í Júrivisjón er að gera mig frekar bil. Eru allir búnir að gleyma hvaða land vann í fyrra? Er ekki smá séns að austur-evrópsku löndin hafi hreinlega sent betri lög í keppnina í ár en löndin sem eru að skæla mest yfir samsæri? Bretar eru allavega komnir með samsæriskenningarnar inn á þing hjá sér, en ég held að það hafi ekki þurft sovésku mafíuna til að koma þeim í næstneðsta sætið, flugþjónadramað þeirra var ægilegt. Sendum bara betri tónlist á næsta ári og sjáum hvað gerist! Mér finnst persónulega sigurlagið frábært, og flytjandinn algjör töffari.
PS. Er ég sú eina sem er farin að hræðast Moggabloggið meira en flest annað í netheimum..? Jeminn.

mánudagur, maí 14, 2007

Rigningardagur

Eldaði plokkfisk. Alein. Er húsleg. Var meira að segja mjög góður, og ég gerði helling af honum, svo ég get japlað á honum alla vikuna. Mun mögulega sjá eftir því fljótlega.
Annars gladdi ég lítil túristahjörtu í dag með því að fara út að hlaupa í hellidembu í aðal túrista-attrakksjóninu hérna, Petite-France. Ég veit ég er að bjóða hættunni heim með því að hlaupa þar, en þetta er nú alveg nógu leiðinlegt án þess að maður taki líka í burtu fallega útsýnið! Er sennilega í myndaalbúmum útum allan heim, hlaupandi í bakgrunninum á sís-brosandi fjölskyldumyndum með örvæntingu í augunum og eplarautt andlit. En við GusGus áttuðum okkur ekki á því áðan að það að hlaupa í hellidembu á eldgömlu steinstéttunum hérna er ekkert svipað og að gera það á malbikuðu stéttunum á Fróni. Sleeeiiipt! Ég datt reyndar aldrei, en þurfti nokkrum sinnum að baða út öllum öngum eins og teiknimyndafígúra sem hleypur ofsa hratt á staðnum til að detta ekki. Og einu sinni þurfti ég að grípa í túrista (giska á þýskan) sem leit út fyrir að vera frekar stöðugur. En túristunum fannst ég allavega fyndin. Gaman að geta verið fólki til ánægju býst ég við...

sunnudagur, maí 13, 2007

Undarlegt kvöld. Fullt tungl?

Allar vinkonur mínar hérna eru á föstu, eins og langflestir í borginni virðast vera. Mér finnst fólk hérna almennt ekki spá svo mikið í að vera neitt sérstaklega ástfangið í alvörunni, bara í því að vera nú örugglega á föstu með einhverjum og leika rómantíska paraleikinn. Þetta virðist hafa mjög spes afleiðingar, eins og ég komst að á Júróvisjón-skrallinu okkar í gær.
Þarna vorum við á yfirlýstu stelpudjammi og ég sú eina á lausu. Það voru alltaf að koma til okkar einhverjir dúddar að spjalla (því við erum efnilegir kvenkostir auðvitað, það sér hver maður) og ég var sú eina sem var ekki nógu þakklát fyrir hrósið til að fara í sleik við fullan Tyrki (ekki meint illa gagnvart Tyrkjum, það vildi bara svo til að þetta voru næstum allt Tyrkir í þetta skiptið) bara af því hann sagði mér að ég væri sæt. Ég skil bara ekki hvað er varið í samband sem fólk er til í að fórna fyrir smá athygli frá manni sem þekki mann ekki neitt og getur þess vegna ekki meint neitt af því fallega sem hann segir. Eru Íslendingar eina þjóðin sem er nógu kaldhæðin til að falla ekki fyrir svona? Eða missir maður sjálfsálitið þegar maður er búinn að vera lengi á föstu og verður auðveld bráð? Og er þá ekki skárra að vera á lausu heldur en vera með einhverjum af handahófi til þess að vera örugglega aldrei á lausu? Þá gætu þær allavega bara farið í sleik á skemmtistöðum í góðum fíling án þess að þurfa að hringja í mig daginn eftir að farast úr samviskubiti. Botna ekkert í þessu. Ringluð í dag.

PS. Til hamingju Serbía!

föstudagur, maí 11, 2007

Leggur ekkert inn, tekur bara ú-út

Í gær bjargaði Youtube heiðri Eiríks Haukssonar meðal stjórnmálafræðinema í Strasbourg. Þegar allir í júróteitinu voru orðnir sannfærðir um það að íslenska lukkutröllið væri skelfilegasta tímaskekkja sem þau höfðu séð lengi (þetta var að sjálfsögðu áður en þau sáu tékknesku hár-rokkarana), þá skellti ég mér á Youtube og sýndi þeim Gleðibankann góða. Eftir það urðu þau öll að viðurkenna að maðurinn væri töffari af Guðs náð, enda engin leið að deila um það þegar svona sönnunargögn liggja fyrir. (Allar umræður um Eirík rauða gleymdust svo um leið og Austurríkismenn stigu á svið. Teitisgestir kunnu almennt ekki að meta þann gjörning, en mér hinsvegar fannst risa-pjallan þeirra, sem breyttist í eyðnis-borðann þegar fjórir rauðir menn með sundhettur og glimmer skriðu útúr henni, mjög merkileg.)
Fyrir júrópartýið fór ég í mitt fyrsta próf og það gekk bara alveg sæmilega, alveg þangað til að prófinu var lokið og kennarinn kom til mín að spjalla og var svo óvænt indæll að ég fór að skæla. Þá varð hann ennþá indælli svo ég átti engra kosta völ annarra en að flýja vettvanginn, áður en ég færi hreinlega að væla með látum. Gott að vita að maður er í góðu jafnvægi í prófunum... (Ég get annars alveg þolað það að fólk sé indælt, bara ekki svona óvænt sjáið til. Það verður að gefa manni smá viðvörun og aðlögunartíma. Þýðir ekki að vera strangur og ógnvekjandi heilan vetur og svissa svo bara beint í power-knúsin! Jú sí..? Jú sí.)
Annars er allt eins og blómstrið eina. (Ef blómstur eru nett sjúskaðir stressboltar sem skæla when knúsd. Annars er allt eins og eitthvað allt annað.)

þriðjudagur, maí 08, 2007

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld...

Í gær fór ég í Erasmus forprófa-partý, og það var hræðilega gaman. Ég ákvað að fyrst flestir væru að fara heim eftir mánuð og ég væri búin að þrauka svona lengi á persónuleikalausu frönskunni minni einni saman þá væri ekki seinna vænna núna að spjalla aðeins við þann hluta hópsins sem talar alltaf ensku sín á milli. Þau hef ég hingað til forðast eins og heitann eldinn til að detta ekki í þá gryfju að tala bara ensku alla daga, því það er svo mikið þægilegra. Þarna varð mér það endanlega ljóst hverju ég fórnaði þegar ég ákvað að rembast bara á frönsku, og sitja frekar í frönskumælandi hóp og hlusta en í enskumælandi og taka þátt. Það komu hinir og þessir til mín þetta kvöld og sögðust vera gapandi hissa á að ég væri ekki sjúklega feimin eins og þau höfðu haldið í allan vetur, og ennþá meira hissa á því að ég væri bara dálítið skemmtileg. En það spunnust líka umræður um það í partýinu hverjum væri búið að fara mest fram á þessum tíma hérna, og einróma álit var að það væri litla ég, sem gladdi mitt litla hjarta heilmikið. Niðurstaða kvöldsins, eftir mikla naflaskoðun, er að ég er þrátt fyrir allt mjög sátt við að hafa þraukað með franskan persónuleika á við burkna í allan vetur, þó það þýði að það séu ekki mjög margir hérna sem þekki mig vel. Ég hefði nefnilega verið mjög spæld að koma heim jafn léleg í frönsku og ég var þegar ég fór, þó ég þekkti heilan hóp af nýju og skemmtilegu fólki.
Mér tókst líka í partýinu að sannfæra fólk um ágæti júróvissjón (eftir að hafa útskýrt fyrir stórum hluta hópsins hvað það eiginlega væri, menningarsnauða pakk...), og nauðsyn þess fyrir stjórnmálafræðinema að horfa á þennan mjög svo pólitíska viðburð. Svo nú er kominn rífandi júróvissjón-stemmari í liðið, og tvö partý á dagskrá (bara laugardagspartý dugar mér ekki því ég hef enga trú á að við komumst á úrslitakvöldið).
Í öðrum fréttum þá voru á sunnudaginn mini-óeirðir hérna vegna forsetakjörsins, og þáttakendur voru svo tillitsamir að hafa þær í beinni sjónlínu frá glugganum mínum svo ég gæti fylgst spennt með. Sem ég og gerði. Þetta var náttúrulega ekkert miðað við ástandið í öðrum og stærri borgum, því Alsace er mjög hallt undir Sarkozy, hann fékk víst 65% atkvæða hér. Svolítið íslensk mótmæli eiginlega, tvístígandi fólk að góla eitthvað og löggan stóð og fylgdist með af takmörkuðum áhuga.
Verkefni dagsins: Eitt stykki ritgerð. Ef einhver veit hvar ég finn heimildir um utanríkisstefnu Gétulio Vargas í Brasilíu á fyrri hluta síðustu aldar þá má viðkomandi endilega láta mig vita, því ég finn ekki boffs! Gagnslausa internet...

laugardagur, maí 05, 2007

Halló ég!

Heima að skrifa ritgerð á laugardagskvöldi. Ég er félagslegur útlagi. Væliskæl.
Eníhú. Það er búið að taka mig ansi langan tíma að venjast því að hérna eru alltaf bara til þær tegundir af ávöxtum og grænmeti sem eru "in season" hverju sinni. Því eins og við öll vitum eru ekkert nema kartöflur og hundasúrur nokkurn tímann "in season" á Íslandi, svo ég er vön því að það sé bara flogið með þetta til mín frá Langtíburstan því demmit mig langar í vatnsmelónu NÚNA. En þannig virkar það semsagt ekki hér. Neiónei. Nú er hinsvegar hafin gósentíð, því áðan í búðinni komst ég að því að þessa dagana eru svörin við spurningunum "Hvað er ódýrt og "in season"?" og "Hvað er best í heiminum?" nákvæmlega þau sömu. Jarðarber og brakandi ferskt spínat. Þvílík botnlaus hamingja. (Hinsvegar kosta umræddar vatnsmelónur 11 evrur stykkið (!) og eru ekki í fjárlögum).
Þetta var pistill dagsins um franskt matvælaverð og -framboð. Verði ykkur að góðu. (Er algjörlega hætt að hugsa um skemmtanagildi þessa bloggs þar sem ég var að setja upp teljara fyrir hana og komst að því að það les hana hvort eð er enginn nema ég. Og mér finnst ég skemmtileg.)

fimmtudagur, maí 03, 2007

Myndasamtíningur

Nú á ég að vera að skrifa tvær ritgerðir í algjöru tímastressi, og þá er einmitt upplagt að blogga svolítið...
Ég tók næstum engar myndir í Íslandsheimsókninni minni, enda vonlaus í þeirri deild, en þessi vel völdu (og ótrúlega random) augnablik tókst mér samt að festa á filmu:

Haukur Bragi og Ása sátu uppi með mig stóran hluta dvalarinnar

Sögulegur hittingur á Amokka, mér leið eins og ég hefði stokkið tíu ár aftur í tímann þegar ég horfði á þær allar, Ingunni, Ásu og Möggu, á sama stað. Ó svo skemmtilegt!

Örnu (nææærmynd) elti ég eins og hundur um allt
Oddný og Monika á Boston eftir kveðjudinnerinn hennar Oddnýjar á Ítalíu. Eins gott að maturinn var ofsa góður, því umræðuefnið yfir matnum var ekki lystaukandi...
Una mætti í fína kjólnum sínum þetta sama kvöld (það gerðu reyndar fleiri (halló Hrefna!) en eftir að þessi mynd var tekin var okkur tilkynnt að það væri bannað að taka myndir á staðnum. Á miðvikudagskvöldi. Hm.)
Fyrirmyndarfjölskyldan í Fífulindinni bauð mér nokkrum sinnum í mat (takk fyrir mig!), og þar ríkir gleðin eins og sjá má...

Næst lofa ég að reyna að taka myndir í einhverju samhengi...

þriðjudagur, maí 01, 2007

Tilkynning frá hvíta manninum:

Í dag las ég á kaffihúsi í klukkutíma. Með skelfilega hallærislegum afleiðingum (glöggir lesendur munu taka eftir því að ég er ekki bara með agalega bóndabrúnkulegt bolafar heldur líka þetta fína far eftir PERLUFESTINA MÍNA!):Smart. Ó svo smart.

Back to Butcher Street

Í gær yfirgaf ég klakann minn ljúfa. Það var ekki svo erfitt í þetta skiptið því mér finnst svo stutt þar til ég kem heim aftur (og líka af því að í þetta skiptið hljóp ég bara ein inn í Leifsstöð og útrýmdi þar með rúllustigakveðjustundinni, en það er hún sem fer alltaf með mig). Ég lenti í Frankfurt um eittleytið og átti miða í hálfsex-rútuna til Strass, en nennti ómögulega að bíða svo lengi svo ég fór og skældi í bílstjóranum á hálftvö-rútunni. Hann lét undan og leyfði mér að koma með en ég þurfti að sitja í litlu aukasæti við hliðina á bílstjóranum, sem ég sá ekkert athugavert við fyrr en við lögðum af stað og keyrðum undan flugvallarþakinu. Sóóól. Og ég sat í þrjá tíma klesst upp við framrúðuna á rútu og grillaðist. Ég man voða lítið eftir þessarri rútuferð. En heim komst ég nú samt.
Þegar ég var búin að staulast upp alla stigana á Slátrarastrætinu með töskuna mína uppgötvaði ég að Matthildarnar eru enn í fríi og ég hélt ég væri þá ein heima. Það reyndist misskilningur. Um leið og ég fór að ganga um íbúðina sá ég nýju sambýliskonur mínar. Súkkulaðibeljurnar. Þær voru allsstaðar. Í eldhússkápunum, á póstinum mínum, í eyrnapinnaboxinu mínu, osfrv. Þessi var í fataskápnum mínum:
Súkkulaðibeljunærmynd: