Úff, ég held ég sé að slá persónulegt svitamet þessa dagana... Það er endalaust um þrjátíu stiga hiti, og engin loftræsting á Slátrarastrætinu svo ég sit bara og marinerast í próflestrinum, á milli þess sem ég dreg lappirnar uppí skóla til að taka próf. Ég hef reynt að læra á kaffihúsum og nýta sólina, en þá steikist ég bara algjörlega í hausnum og þarf að leggja mig á eftir! Þarf að gera breytingu á þeirri alhæfingu minni að ég fúnkeri vel í hita. Ég fúnkera vel í hita ef það eina sem ég þarf að gera er að skríða út af hóteli og niður á strönd, liggja þar í móki í nokkra tíma og staulast heim aftur. Lather rinse repeat. Ég fúnkera ekki neitt í prófum í svona veðri, og það ógeðslegasta sem ég veit er að sitja í fullri skólastofu, í stressi að taka próf, og finna svitadropana leka niður bakið á mér... Oj. Fyrir utan það að ég kann ekkert að klæða mig fyrir daglega lífið í þessum hita, á Spáni skellir maður sér í bikiní og flippfloppara en ég hef grun um að slíkur klæðaburður væri litinn hornauga í hinni virðulegu stofnun IEP. Í gær var ég í mínum venjulegu gallabuxum og bol, en þegar ég kom heim var ég svo pikkföst í gallabuxunum að það tók mig heillangan tíma og mikið brölt (eins gott að ég er liðug, sjísh...) að komast úr þeim aftur. Mathilde meira að segja kom og tékkaði hvort það væri ekki allt í lagi með mig, henni leist ekki á blikuna þegar ég var farin að hoppa á öðrum og bölva eins og sjóari.
Dagskráin fyrri hluta sumars er í óða önn að taka á sig mynd, og lítur bara vel út. Sé reyndar ekki fram á mikinn tíma til að skrifa BA ritgerðina mína fínu, en mun nýta allar lausar stundir í hana, lofa. Dagskráin lítur svona út eins og er (en ekkert skrifað í stein, svo hún mun örugglega breytast heilmikið áður en yfir lýkur):
-Nonni mætir 28. maí, en er búinn að lofa að hafa sig hægan þar til eftir prófin mín tvö þann 29. Ég er frábær gestgjafi...
-2.-9. júní verða mamma og Ella frænka í heimsókn, og ég hlakka endalaust til. Planið er að versla, drekka kaffi og sóla okkur eins mikið og er mannlega mögulegt á einni viku. Ég er búin að panta sólskin.
-15. júní flyt ég af Slátrarastrætinu, sennilega á næsta götuhorn þar sem ég mun sofa í dyragætt því ég hef enn ekki fundið mér íbúð.
-21. júní kíkir Einar í heimsókn á Evróputúrnum sínum.
-23. júní (eða 24... hú nós) skrepp ég til Barcelona að hitta á ofurhressa vini þar (Aaarna mín!), og halda litla minningarathöfn um spænskuna sem ég talaði einu sinni en var hent út fyrir frönsku einhverntímann í vetur.
-1. júlí flýg ég frá Barcelona til Riga í Lettlandi, þar sem ég verð í tíu daga með gáfumannafélagi (eftir því sem ég kemst næst) Geri ráð fyrir að ég sé skemmtiatriði.
-17. júlí kemur Ásla og verður í nokkra daga, ég er fáránlega spennt, en skilst að hún ætli að sofa á sínu græna allan tímann og vakna bara til að drekka eitt og eitt rauðvínsglas. Og kaupa nýja Harry Potter.
Lengra get ég ekki hugsað í bili, ýmislegt í bígerð en ekkert búið að negla niður. Algjör óþarfi að skipuleggja sig meira en tvo mánuði fram í tímann hvort eð er!
Back to the books!
fimmtudagur, maí 24, 2007
Blogg, hið nýja fílófax
Birt af Unnur kl. 18:31
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli