þriðjudagur, maí 08, 2007

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld...

Í gær fór ég í Erasmus forprófa-partý, og það var hræðilega gaman. Ég ákvað að fyrst flestir væru að fara heim eftir mánuð og ég væri búin að þrauka svona lengi á persónuleikalausu frönskunni minni einni saman þá væri ekki seinna vænna núna að spjalla aðeins við þann hluta hópsins sem talar alltaf ensku sín á milli. Þau hef ég hingað til forðast eins og heitann eldinn til að detta ekki í þá gryfju að tala bara ensku alla daga, því það er svo mikið þægilegra. Þarna varð mér það endanlega ljóst hverju ég fórnaði þegar ég ákvað að rembast bara á frönsku, og sitja frekar í frönskumælandi hóp og hlusta en í enskumælandi og taka þátt. Það komu hinir og þessir til mín þetta kvöld og sögðust vera gapandi hissa á að ég væri ekki sjúklega feimin eins og þau höfðu haldið í allan vetur, og ennþá meira hissa á því að ég væri bara dálítið skemmtileg. En það spunnust líka umræður um það í partýinu hverjum væri búið að fara mest fram á þessum tíma hérna, og einróma álit var að það væri litla ég, sem gladdi mitt litla hjarta heilmikið. Niðurstaða kvöldsins, eftir mikla naflaskoðun, er að ég er þrátt fyrir allt mjög sátt við að hafa þraukað með franskan persónuleika á við burkna í allan vetur, þó það þýði að það séu ekki mjög margir hérna sem þekki mig vel. Ég hefði nefnilega verið mjög spæld að koma heim jafn léleg í frönsku og ég var þegar ég fór, þó ég þekkti heilan hóp af nýju og skemmtilegu fólki.
Mér tókst líka í partýinu að sannfæra fólk um ágæti júróvissjón (eftir að hafa útskýrt fyrir stórum hluta hópsins hvað það eiginlega væri, menningarsnauða pakk...), og nauðsyn þess fyrir stjórnmálafræðinema að horfa á þennan mjög svo pólitíska viðburð. Svo nú er kominn rífandi júróvissjón-stemmari í liðið, og tvö partý á dagskrá (bara laugardagspartý dugar mér ekki því ég hef enga trú á að við komumst á úrslitakvöldið).
Í öðrum fréttum þá voru á sunnudaginn mini-óeirðir hérna vegna forsetakjörsins, og þáttakendur voru svo tillitsamir að hafa þær í beinni sjónlínu frá glugganum mínum svo ég gæti fylgst spennt með. Sem ég og gerði. Þetta var náttúrulega ekkert miðað við ástandið í öðrum og stærri borgum, því Alsace er mjög hallt undir Sarkozy, hann fékk víst 65% atkvæða hér. Svolítið íslensk mótmæli eiginlega, tvístígandi fólk að góla eitthvað og löggan stóð og fylgdist með af takmörkuðum áhuga.
Verkefni dagsins: Eitt stykki ritgerð. Ef einhver veit hvar ég finn heimildir um utanríkisstefnu Gétulio Vargas í Brasilíu á fyrri hluta síðustu aldar þá má viðkomandi endilega láta mig vita, því ég finn ekki boffs! Gagnslausa internet...

Engin ummæli: