Allir sem voru í Gaggó Mos á svipuðum tíma og ég skilja sjokkið sem ég fékk þegar ég komst að því að ég ætti að leika Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir framan Ragnheiði Ríkharðsdóttur í gærkvöldi. Ég fór næstum að gráta því ég vissi bara að næst þegar við yrðum kölluð á sal væri það ég sem þyrfti að standa upp og játa syndir mínar undir þrumuraust hennar. Úff. Fyrir utan það að samkvæmið sem slíkt, sjálfstæðismannahátíð, hræddi mig meira en orð fá lýst. En ég fékk að svara "Komstu keyrandi?" með "Nei, við í flokknum megum ekki keyra meira fyrr en eftir kosningar" og það fannst mér allavega pínu skemmtilegt. Aumingja, aumingja Eyþór Arnalds.
En það sem gerðist merkilegra í gær var að ég fékk að gæsa mömmu mína, sem alls ekki allir fá að gera í lífinu. Það var líka ofsa gaman, ég var reyndar meira svona konan á bak við tjöldin heldur en aksjúal þátttakandi en það finnst mér bara næstum skemmtilegra. Ég hendi inn myndum um leið og ég fæ þær. Mamma verður vonandi búin að fyrirgefa mér í brúðkaupinu á morgun því annars er ég hrædd um að hún felli mig eða eitthvað þegar ég geng með hana inn kirkjugólfið til að gefa hana. Sem ég geri algerlega nauðug viljug því mig langar ekkert að gefa neinum hana mömmu mína. Bara alls ekki. Hef líka ákveðið að kalla þetta lán. Ég er að lána hana, með ströngum skilyrðum. En það skemmtilega við þessi lánaviðskipti er að ég gegni þar hlutverki pabba hennar, sem ætti hefðinni samkvæmt að lána/gefa hana en kemst ekki, og þannig er ég, eins og Laddi, orðin afi minn. Ég er afi minn, lalalala...
Brúðkaup á morgun. Úff. Best að hætta að blogga og halda áfram að skrifa ritgerð, eins gott að nýta þessar sjaldgæfu stundir sem ég er ekki að brúðkaupast til að halda áfram með þetta síðasta verkefni annarinnar. Ef einhver vill einhverntímann giftast mér þá má hann plís ráða öllu og gera allt. Ég mæti bara. Heyrirðu það skan? Knock yourself out.
laugardagur, maí 20, 2006
Ættfræðipistill
miðvikudagur, maí 10, 2006
Reykjalundarfjör
Nú er próflestur fyrir öryggi og samvinnu í alþjóðakerfinu á byrjunar- og lokastigi, sem er mjög algengt ástand í mínu námi. Er að fá massaprófkvíða og svona, sem kemur ekki á óvart því ég fékk næstum taugaáfall síðast þegar ég tók próf hjá þessum kennara, reytti hár mitt og skegg og fleygði blöðum um allt. Mamma þurfti að taka mig á sálfræðinni til að fá mig til að mæta í prófið yfirleitt, og mér sýnist stefna í það sama núna. (Mamma mín, plís komdu heim í hádeginu á morgun, það þarf einhver að bjarga hárinu mínu, rífa blöðin úr stirðnunum lúkunum á mér og henda mér út með penna, bíllykla og magic!). Eftir það er líka bara eitt próf eftir, og á föstudaginn verður þetta prófvesen búið. Þrítugsafmæli mætir próflokadjammi það kvöld, jeeeiii! Svo er það bara að rumpa af einu stykki 20 bls. ritgerð og þá er þessarri önn samviskuseminnar (hóst) lokið!!!
Í deiglunni er það hinsvegar helst að foreldrar mínir tilkynntu það í byrjun vikunnar að þau ætla að gifta sig 21. maí. Reyndar tilkynnti held ég Óli það aðallega að hann ætlaði að gifta sig, og bauð mömmu að taka þátt ef hún kærði sig um. Hefði verið gaman að sjá hverjum hann hefði gifst ef hún hefði ákveðið að taka ekki þátt, en það fáum við víst aldrei að vita. Gott samt að vita að ég er ekki ein í mínum valkvíða, mamma er búin að vera í ca. 18 ár að gera það upp við sig hvort það sé nokkuð vit í þessu sambandi. En það semsagt er það, og nú á að segja prestinum það. Og guði. En hann veit það nú líklega fyrir...
mánudagur, maí 08, 2006
Miðbæjarrotta in the making
Um mánaðamótin flyt ég á Ásvallagötuna. Það er ótrúlega æðislegt, þó það sé bara yfir sumarið, enda veit ég ekkert hvort ég verð á landinu næsta vetur, ef ze grand masterplan gengur upp þá verð ég náttúrulega í Strasbourg. En í sumar mun ég semsagt hjóla útum allt, lesa á kaffihúsum og drekka alla daga því ég þarf ekki að borga handlegg og fótlegg fyrir leigubíl heim. Jei! Ég verð ekki að vinna einu sinni fulla vinnu, ólíkt síðasta sumri þegar ég vann 315% vinnu allt sumarið, svo ég býst meira að segja við því að sleppa frá þessu sumri sæmilega heil á geði. Nú er bara að klára prófin, klára ritgerðina og flytja svo lögheimilið í Laugardalslaugina. Eða á Ásvallagötuna.
Vill svo einhver segja mér af hverju það er í lagi að flytja inn fullt af vændiskonum til að "þjónusta" alla gröðu, sveittu fótboltaaðdáendurna í Þýskalandi? Ég veit að Hannes Hólmsteinn segir að aumingja stelpurnar sem eru sætar en ekkert voða klárar verði að fá að vinna fyrir sér einhvern veginn en hærregud, það er eitthvað mjög rangt við þetta alltsaman. Er ekki bjór og fóbó hvort eð er meira stuð en skipulagt kynbundið ofbeldi og fóbó? Og ef það er svona svakalegt aftöppunarvandamál í gangi væri þá ekki sniðugra að láta alla gröðu, sveittu fótboltaaðdáendurna bara hafa túbu af handáburði og klósettrúllu við komuna á HM?
fimmtudagur, maí 04, 2006
Stríð vs. próf
Próftarnir eru líkar stríði að því leyti að mitt í öllum viðbjóðnum eru oft gerðar merkilegar uppgötvanir. Dánartíðnin er hinsvegar töluvert hærri í stríðum, en þá er andlegur dauði ekki talinn með auðvitað. Uppgötvun vorprófa 2006 er: BSÍ kaffi!!! Það er kleinubragð af því! Er hægt að biðja um eitthvað meira, fyrir utan hvað það er skemmtilega þjóðlegt? Ég er orðin algerlega háð því, fékk ekkert í gær og endaði í titrandi fráhvarfi, og þá kom nú hin fíknin mín sér vel: XA radíó 88,5. Jább, ég er orðin gjörsamlega háð útvarpsstöð AA-samtakanna, sem kom mér í gegnum mesta fráhvarfið í bílnum á leiðinni heim úr skólanum í gær. Ég viðurkenndi með tárin í augunum að BSÍ kaffi hefur þau áhrif á mig að það breytir því hvernig ég upplifi heiminn, ég er valdalaus gagnvart því og er núna að vinna í listanum mínum yfir þá sem ég þarf að biðja afsökunar á því að hafa traðkað á þeim á leið minni á BSÍ. Batnandi fólki er víst best að lifa...
PS. Mömmu minni finnst þessi húmor ekki sniðugur. Fyrirgefðu mamma mín, ég er að reyna að hætta...
mánudagur, maí 01, 2006
Hressleikinn at 02:30
Hér er lítil mynd sem sýnir hressleikastuðulinn núna þegar klukkan er að nálgast alltofmargt, Eva og Hildur, voilá (Eva vill að þið vitið að stundum er hún töluvert sæt. Ekki núna, en stundum):
Í gær var lokaslútt í leikhúsinu og ekki mikið sofið í kjölfarið. Í dag er búið að ræða kenningar í stjórnmálafræði út í eitt og ég held að lífsviljinn minn sé að verða horfinn. Skál.