laugardagur, maí 20, 2006

Ættfræðipistill

Allir sem voru í Gaggó Mos á svipuðum tíma og ég skilja sjokkið sem ég fékk þegar ég komst að því að ég ætti að leika Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir framan Ragnheiði Ríkharðsdóttur í gærkvöldi. Ég fór næstum að gráta því ég vissi bara að næst þegar við yrðum kölluð á sal væri það ég sem þyrfti að standa upp og játa syndir mínar undir þrumuraust hennar. Úff. Fyrir utan það að samkvæmið sem slíkt, sjálfstæðismannahátíð, hræddi mig meira en orð fá lýst. En ég fékk að svara "Komstu keyrandi?" með "Nei, við í flokknum megum ekki keyra meira fyrr en eftir kosningar" og það fannst mér allavega pínu skemmtilegt. Aumingja, aumingja Eyþór Arnalds.
En það sem gerðist merkilegra í gær var að ég fékk að gæsa mömmu mína, sem alls ekki allir fá að gera í lífinu. Það var líka ofsa gaman, ég var reyndar meira svona konan á bak við tjöldin heldur en aksjúal þátttakandi en það finnst mér bara næstum skemmtilegra. Ég hendi inn myndum um leið og ég fæ þær. Mamma verður vonandi búin að fyrirgefa mér í brúðkaupinu á morgun því annars er ég hrædd um að hún felli mig eða eitthvað þegar ég geng með hana inn kirkjugólfið til að gefa hana. Sem ég geri algerlega nauðug viljug því mig langar ekkert að gefa neinum hana mömmu mína. Bara alls ekki. Hef líka ákveðið að kalla þetta lán. Ég er að lána hana, með ströngum skilyrðum. En það skemmtilega við þessi lánaviðskipti er að ég gegni þar hlutverki pabba hennar, sem ætti hefðinni samkvæmt að lána/gefa hana en kemst ekki, og þannig er ég, eins og Laddi, orðin afi minn. Ég er afi minn, lalalala...
Brúðkaup á morgun. Úff. Best að hætta að blogga og halda áfram að skrifa ritgerð, eins gott að nýta þessar sjaldgæfu stundir sem ég er ekki að brúðkaupast til að halda áfram með þetta síðasta verkefni annarinnar. Ef einhver vill einhverntímann giftast mér þá má hann plís ráða öllu og gera allt. Ég mæti bara. Heyrirðu það skan? Knock yourself out.

Engin ummæli: