föstudagur, júní 09, 2006

Naglasúpa

Smá bloggleti að hrjá mig þessa dagana, enda ýmislegt búið að vera að gerast. Ég er flutt í 101 og það er nú meiri hamingjan, hjólaði meira að segja í vinnuna í morgun og það hef ég ekki getað gert síðan ég var að vinna á Hlein! Nú er reyndar hafin alveg æðislega leiðinleg vinnuhelgi, þarf meira að segja að vinna af mér Kvennahlaupið, sem mér finnst skítt í meira lagi. En ég verð víst ennþá kona í næstu viku og hleyp þá bara mitt eigið kvennahlaup í blíðunni sem ég er búin að panta. Eini gallinn sem ég sé á nýjum híbýlum mínum er að ég bý alveg upp við kirkjugarðinn og pöddulífið þar er bæði fjölskrúðugt og að því er virðist félagslynt. Silfuskotturnar á baðherberginu halda stundum samkomur með maurum og köngulóm og einhvers konar bjöllum, og þá vantar mig einhvern til að fjarlægja samkomugesti og flysja mig niður úr loftinu þar sem ég hangi stjörf á klónum. Býður sig einhver fram?
Um síðustu helgi kvaddi ég gæludýrin og skellti mér í sveitina með Árna frænda. Ég var búin að gleyma því hvað kindur eru skemmtilegar, en náði að rifja upp nokkra gamla takta í fjárhúsunum og skemmti mér konunglega. Fór líka í heimsóknir á Þórshöfn, í Sel að kíkja aðeins á varpið og í messu með ömmu minni. Á leiðinni aftur í bæinn komum við svo við hjá karli föður mínum á Akureyri, og þáðum tebolla í nýju, fínu íbúðinni hans. Var allt í allt bara frábær ferð og ég þakka frændanum hérmeð kærlega vel fyrir mig!
Skólinn í Strasbourg er búinn að senda mér vilyrði fyrir skólavist þar næsta vetur, sem er mjög gott nema það er allt fullt á skólagörðunum þeirra, sem þýðir að ég þarf að leigja mér húsnæði þar blint á almenna markaðnum. Hjálp! Ég á eftir að búa í frönskum skókassa. Ég er ferlega glöð að hafa ekki skráð mig í meiri vinnu í sumar því nú hef ég þrjá mánuði til að verða mellufær í frönsku, og líkurnar á að það takist eru hverfandi miðað við hversu lítið mér tókst að læra þessi 5 ár af gagnfræða- og menntaskólafrönsku. Gæti ekki einu sinni pantað mér kaffi í Frakklandi eins og er. Öll hjálp vel þegin.
Oh, ekki hægt að blogga skemmtilega eftir svona langt hlé, þá eru bara fréttatilkynningar.

Engin ummæli: