Ég geri mér grein fyrir því að ég er enginn ofur-bloggari. Og ég sætti mig við það. Amen.
Mér er held ég að verða búið að takast að senda þeim í Strasbourg um það bil allt sem þeir vilja fá frá mér til að ég teljist góður og gildur nemandi hjá þeim næsta vetur, þar á meðal mynd af mér (þar sem ég er 19 ára og fannst zoolander töff), nöfn og númer á kúrsunum sem ég vil fara í (sem mér var sagt að væri mjög nauðsynlegt þangað til ég sendi þeim það og var þá sagt að listinn sem þeir sendu mér væri úreltur og ég þyrfti ekki að velja kúrsa fyrr en ég kæmi út), blóðprufu, fingraför og hár úr hala mínum. Nákvæmir þarna í Frans. Það eina sem allir vara mig alltaf við sem hafa reynslu af svæðinu er að það sé alveg hræðilega ofsalega kalt þarna á veturna, svo ég er farin að hamstra hlífðarföt að góðra íkorna sið. Ef einhver á föðurland sem hann vill losna við þá er ég að leita. Vitið þið hvað föðurlönd kosta??? Þetta er glæpur. Ég hinsvegar get ekki sofið hérna heima á veturna fyrir kulda, og þar sem húsin þarna úti eru mun verr upphituð og kuldinn rakari þá býst ég við því að þurfa annaðhvort að klæða mig í heimskautsfaragallann fyrir svefninn eða fá einhvert Frakkagrey til að hita bólið mitt fyrir mig. Það vill svo heppilega til að eina setningin sem ég er með á kristaltæru í frönskunni er einmitt "voulez-vous couchez avec moi ce soir?" svo það ætti alveg að reddast.
mánudagur, júní 26, 2006
Lady Marmalade til bjargar
Birt af Unnur kl. 14:53
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli