mánudagur, október 23, 2006

Ég er hér enn

Takk kærlega fyrir allar kveðjurnar eftir síðasta póst, það er gott að vita að það er fullt af fólki sem skilur hvað manni getur þótt vænt um fjórfættu fjölskyldumeðlimina :)
Í kvöld mæta svo foreldrar mínir, litli bróðir og amma á svæðið og ég get ekki beðið eftir að fá þau, vona bara að það stytti upp...

mánudagur, október 16, 2006

Æ kisuskott...


Elsku kisuskottið mitt er dáið. Ég er of sorgmædd til að geta sofnað. Hún var hluti af fjölskyldunni í 13 ár, svo það er kannski ekki skrýtið að það sé erfitt að kveðja. Ég er bara búin að skæla síðan mamma sagði mér fréttirnar í símann áðan, og nú er ótrúlega erfitt að vera ekki nálægt neinum sem maður þekkir nógu vel til að láta knúsa sig þegar maður er allur útskældur. En ég er samt á vissan hátt fegin að hafa ekki verið á staðnum, því þó ég vildi að ég hefði getað haldið á henni þegar hún fór, þá veit ég líka að ég hefði algjörlega misst stjórn á mér, því ég er svo mikil dramadrottning. Hún var orðin svo lasin að elsku mamma mín varð að fara með hana og láta svæfa hana, og hún hélt á henni og klappaði hennar á meðan hún var að sofna, meira get ég ekki beðið um fyrir hana. Hún fékk að lifa góðu lífi hjá fólki sem þótti hræðilega vænt um hana, og hún fékk að fara í fanginu á einhverjum sem hún treysti þegar henni var farið að líða illa og orðin lasin. Ég get samt ekki hætt að skæla.
Hvíldu í friði kisulóra. Okkur þykir mjög vænt um þig.

sunnudagur, október 15, 2006

23ja ára stelpuskott á hjóli

Ég varð 23ja ára í gær og gaf sjálfri mér hjól í afmælisgjöf. Það er ævafornt og slitið, en mér líkar vel við það, það hefur persónuleika, reynslu og ratar um borgina eins og gamall leigubílstjóri. Ég nenni ekki að hlaupa niður og taka mynd af því þar sem ég er ennþá í náttfötunum, set bara inn mynd með næsta pósti. Við Jacob keyptum hjólin okkar fínu á hjólamarkaði sem er haldinn hérna tvisvar á ári, um morguninn kemur fólk með notuðu hjólin sín og kemur þeim fyrir og seinna um daginn kemur fólk og kaupir þau. Mjög sniðugt, en miklu fleira fólk en hjól, svo þessi eini tími sem ég fór í í brasilísku jiu jitsu kom sér vel. Það er góð vísbending um gáfnafar okkar Jacobs að við keyptum miða fram og tilbaka í traminn þegar við fórum á markaðinn. Mjög gáfulegt. Hjóluðum skömmustuleg heim með "tilbaka" miðann í vasanum.
Afmælisdagurinn minn var yndislegur. Þegar ég kom heim af hjólamarkaðnum opnaði ég fína pakkann frá Hrefnu minni, sem klikkar aldrei á að gefa mér afmælisgjöf á réttum degi (ætla ekki að þakka þér fyrir á blogginu mínu, ætla sko að hringja almennilega í þig til þess!). Svo fór ég og keypti í matinn því ég var búin að bjóða fjórum í mat um kvöldið, Matthildunum tveimur, Jacob og Vincent vini Matthildanna, sem er að verða hálfgerður heimilisköttur hérna. Ég vildi ekki bjóða fleirum því ég var handviss um að maturinn minn yrði óætur og vildi afsaka það fyrir sem fæstum.
Í forrétt gerði ég skötusel sem Guðný frænka var svo almennileg að kenna mér að gera. Ég kann ekkert á fisk nema hann sé í flökum, fyrir utan að ég er klígjugjörn, svo þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu:

Öllum að óvörum (aðallega mér) varð þetta að lokum að hinum ágætasta forrétti, sem meira að segja Jacob bað mig um uppskriftina að þrátt fyrir að borða venjulega ekki fisk (takk Guðný!).

Þá var komið að aðalréttinum. Þar kom mamma mér til bjargar með uppskriftinni sinni að kjúklingasalati, sem tókst líka alveg glimrandi og var étið upp til agna (sem er ótrúlegt afrek þar sem það var risavaxið og ég var viss um að þurfa að borða það í öll mál fram að páskum).

Þá var komið að eftirréttinum, en Matthildarnar höfðu keypt einhverja týpíska franska sítrónumarengstertu með stjörnuljósum og öllu. Svo var sungið og borðað og hlegið og borðað meira, þar til allir voru orðnir svo úttroðnir af frönskum marengs og íslensku nammi (takk mamma!) að þeir gátu sig hvergi hreyft (nema til að teygja sig í aaaðeins meira nammi). Þá fékk ég pakka! Matthildarnar gáfu mér Litla prinsinn, sem er ein uppáhaldsbókin mín og ég á hana reyndar fyrir, en því ætla ég aldrei að láta þær komast að. Þær gáfu mér líka matreiðslubók fyrir byrjendur, því ég var búin að vara þær svo vandlega við því að maturinn gæti orðið viðbjóður og boðið endað á Makkdónalds. Í pakkanum leyndist svo líka miði til að fara með þeim báðum á ballettsýningu í óperuhúsinu hér í borg. Jacob gaf mér Incubus disk sem við vorum nýbúin að tala um að ég ætti ekki en þyrfti að eignast, og þessa líka fínu Tinnabók. Vincent gaf mér ekki neitt því hann hafði líka keypt handa mér Litla prinsinn, en Matthildarnar voru feitari og frekari og létu hann skila henni aftur. Hann lofaði að kaupa eitthvað handa mér í Bandaríkjunum í næstu viku. Það er eins gott fyrir hann.

Við enduðum kvöldið á að stökkva á mjög undarlegan Hawaii-skreyttan stað, Waikiki, sem er innréttaður eins og trópíkölsk eyja en spilar eingöngu popp frá níunda áratugnum. Þar hittum við alla sem ég hefði viljað bjóða í mat ef við ættum fleiri stóla, drukkum með þeim fína ávaxtakokteila og rauluðum með Final Countdown.

Ég var ekki dugleg að taka myndir en hér koma allavega nokkrar:

Hluti matarhrúgunnar sem ég breytti í dýrindis kræsingar

Gestirnir mínir (hlýddu engan veginn boðinu sem krafðist formlegs klæðnaðar)

Vincent og Jacob hafa greinilega komist í myndavélina mína og tekið þessa fínu sjálfsmynd


Mætt á hinn furðulega Waikiki


Ég brost mínu blíðasta þrátt fyrir að vera ansi reytt eftir eldamennskuna, en Mathilde tók myndatökuna alls ekki nógu alvarlega


Vincent og frönsk vinkona okkar sem heitir algjörlega óskrifanlegu nafni sýndu Mathilde hvernig á að gera þetta

miðvikudagur, október 11, 2006

Frakkar til sölu

Á mánudaginn gerði ég heiðarlega tilraun til að selja líkama minn í lyfjatilraunir, en það tókst ekki. Ég verð víst að tala gallalausa frönsku til að geta löglega skrifað undir. Ekki víst að móðir mín hefði verið ánægð með viðskiptin heldur, maður fær 200 þús fyrir að vera á spítala í þrjá daga og fá þrjár sprautur sem eiga að auka járn í blóðinu (hefði verið patent, mig vantar alltaf svoleiðis) og svo fylgjast þeir með því hver þeirra gerir mann minnst veikan. Huggulegt. Held að önnur Matthildurin ætli að skrá sig, þrátt fyrir að afgreiðsludaman hafi sagt við hana "þetta er ekkert mál, það hafa mörg þúsund manns tekið þátt í þessarri tilraun og bara einn dáið". Faaarðu frá mér með þessa sprautu takk!!!
Á mánudagskvöldið tóku Matthildarnar mig með í matarboð til vina sinna, vorum átta manns og ég skildi varla orð af því sem fór fram, en tróð hinsvegar í mig crépes með skinku og osti, pizzu með geitaosti, og svo að lokum crépes með súkkulaði og kókosís... Hættið að fóðra mig svona endalaust, ég fer að verða fermeter! Eða rúmmeter jafnvel!

mánudagur, október 09, 2006

Svipmyndir úr æsispennandi partíi

Hér koma þær, eins og lofað var, voilá!


Kevin, kærasti Mathilde 1, að máta fötin hennar (hann verður ofsa glaður ef hann slysast einhvern tímann inn á þessa síðu...)

Matthildar við undirbúning


Mathilde 2 og skólafélagar okkar úr IEP

Nágranni af neðri hæðinni (sá mig óvart nakta í gær, úpsí, önnur og verri saga), ótrúlega skrýtinn vinur hans og kanadískur listnemi sem ég get aldrei munað hvað heitir en þekki samt ágætlega...


Hinn nágranninn af neðri hæðinni, alltaf útúrreyktur en engu að síður ágætur (og hefur aldrei séð mig nakta)


Jacob og Fransiska með sparibrosin


Frönsk skólasystkini mín úr IEP


Kevin með tveim skólasystrum Mathilde 1


Þessir tveir skólabræður mínir mættu í þrif daginn eftir partíið


Mathilde 1 með tening sem hún þóttist nota til að fara í drykkjuleik, en Frakkar eru aldrei fullur svo ég trúi þessarri drykkjuleikjaiðkun þegar ég sé hana...


Það segja mér öruggar heimildir að ég hafi ekki verið svona eins og trúður í framan í alvörunni, en myndin er allavega skemmtileg...


Kósý stemmning á ganginum


Vinalegir þessir Frakkar...


Mathilde 2 og Jacob að reyna að vera ógeðsleg (tókst) svo ég myndi ekki taka mynd af þeim (tókst ekki)


Mathilde skárri en Jacob með hálfvitasvipinn sinn


Við reyndum að taka mynd af okkur en Mathilde leit út eins og hælismatur


Hún tók það nærri sér svo við reyndum aftur


Við þrif daginn eftir. Mathilde var sár að ég skyldi taka ljótumynd af henni...


...og lét mig taka svoleiðis af sjálfri mér líka

laugardagur, október 07, 2006

Pavtí á Slátrarastræti

Rétt rúmum mánuði eftir að ég kom hingað hitti ég mína fyrstu Íslendinga á staðnum. Ég var svo glöð að geta talað íslensku við einhvern að ég talaði frá mér röddina, og hljóma nú eins og önd inní dós (aukastig fyrir þá sem vita úr hvaða áramótaskaupi þetta er. Árni?). Margrét frænka mín var í bænum og ég (á milli þess sem ég drekkti henni í blaðri Á ÍSLENSKU, jei!) fékk að elta hana um allt í Evrópuráðinu, rak meira að segja nefið inn á fund hjá jafnréttisnefndinni hérna, sem var ótrúlega skemmtilegt. Annars var nú eiginlega bara skemmtilegast að uppgötva nýjan fjölskyldumeðlim og ná að kynnast svolítið. Við fórum út að borða á yndislegum ítölskum veitingastað, sötruðum pinot noir á kaffihúsum, röltum í búðir, þetta var algjört orkuskot fyrir framhaldið, núllstillti aðeins á manni hausinn eftir allan frönskurembinginn. Ég er mjög þakklát fyrir þessa tvo daga.
Í gærkvöldi héldum við svo partí hérna á Slátrarastrætinu, í tilefni þess að íbúðin var orðin skítug og þurfti hvort eð er að taka hana í gegn, um að gera að hafa hana bara sem skítugasta þegar þrifin fara fram. Teitið okkar litla tókst svona líka vel, buðum nokkrum Erasmusum en aðallega samt bara frönskum vinum Matthildanna og nágrönnunum okkar hérna. Ég varð vitni að allt annars konar veislusiðum en ég er vön á klakanum. Við vorum með smá áfengi á boðstólnum, sangríu og einhvern brasilískan drykk blandaðan við lime og sykur. Áfengið KLÁRAÐIST EKKI. Ekki nóg með það, heldur kom fólk í partíið vopnað áfengi, ekki handa sjálfu sér heldur handa partíinu öllu. Það er mjög nýtt fyrir mér. Það var enginn fullur, allir bara nettir, sem sést best á því að það brotnaði ekkert, var aldrei röð á klóið og baðherbergið var mjög snyrtilegt í veislulok. Við sitjum uppi með:
-Þrjár stórar vodkaflöskur
-Þrjár rauðvínsflöskur
-Fuuullt af bjór. Bjór sem við komum hvergi fyrir því hann er endalaus
-Risaflösku af rommi
-Passoaflösku
-Eplasnafsflösku
-Flösku af einhverju anísáfengi frá S-Frakklandi
Og þetta er bara það sem er óupptekið, svo flæðir allt í áfengi sem fólk fékk sér af, og við komum bara mjög einfaldlega hvergi fyrir. Gefum það sennilega til góðs málefnis bara. Þarna er heldur ekki minnst á ósköpin öll af óáfengum drykkjum sem okkur voru færðir, og er verið að reyna að finna samastað í húsinu (og maganum á okkur). Í dag kom svo hluti gestanna aftur til að þrífa með okkur og húsið er spikk og span á ný. Fínt að halda partí í Frans greinilega (nema óvenjuhátt hlutfall samkynhneigðra karlmanna meðal veislugesta sé að skekkja meðaltalið).
Þegar blogger hættir að vera asni og samþykkir að setja inn myndirnar mínar aftur skal ég setja inn svipmyndir úr teitinu.

miðvikudagur, október 04, 2006

Hitt og þetta (aðallega hitt)

-Á mínu heimili búa saman þrjár ungar og smekklegar stúlkur. Þess vegna finnst mér ótrúlega fyndið að í dag hafi verið keypt bók, sérstaklega með starfsheitið "klósettbók". Hún bætist við klámið sem er þar nú þegar, og bleikasta klósettpappírsfjall sem ég hef séð, og gerir klósettið okkar ennþá undarlegra. Rétt áðan tók ég í handfangið á klósetthurðinni og hún var læst, en fljótlega opnar hana úrill Matthildur í náttfötum með hárið allt út í loftið og hvæsir: "Hvað?? Ég er að lesa!" Ég pissaði næstum á mig af hlátri (það hjálpaði að ég var í spreng, þess vegna var ég jú að reyna að komast á klóið).
-Í dag blandaði Mathilde 1 (komin með kerfi á þetta sko) saman hráefnum sem ég hélt að mættu aldrei aldrei hittast, henti því inn í ofn og kallaði óskapnaðinn "köku". "Kakan" var borin fram með salati og höfð í kvöldmat. Hún reyndist ljúffeng. Helstu hráefni (en ekki öll því ég gleymi hlutum jafnóðum og mér eru sagðir þeir) eru gráðostur, epli og furuhnetur.
-Í gær var mér boðið í kínverskan mat sem var líka ljúffengur, en mér varð ofsalega illt í maganum af honum. Og þá var klósettbókin góða ekki komin í hús.
-Þegar ég var að labba heim úr matarboðinu varð ég að snúa við og taka á mig stóran krók til að forðast gangstéttina sem áin hafði flætt yfir. Það var semsagt í alvöru pínu rigning í gær.
-Að síðustu eru hér myndir af skiltinu góða sem ég lofaði að setja inn fyrir margt löngu síðan. Þetta er ekki allt skiltið, bara minn hluti af því, enda er ég óttalega sjálfhverf:

þriðjudagur, október 03, 2006

Mér finnst rigningin blaut

Hin Matthildurin er mætt á svæðið ásamt Jacob, og nú er húsið fullt af fólki! Þau búa tvö í einu herbergi (bara á meðan hann bíður eftir að fá lyklana að sinni íbúð) og hin Matthildur er búin að ná sér í strák sem býr fyrir utan borgina og gistir þess vegna mikið hérna á virkum dögum til að vera nær skólanum. Mér finnst þetta ágætt, fólk útum allt og fullt að gerast.
Í gærkvöldi eldaði nýja Mathilde kvöldmat handa öllu liðinu, böku með salati í aðalrétt og súkkulaði-fondú með perum í eftirrétt, það var hrikalega gott! Ég kann vel við drykkjuvenjur Frakka, við vorum fimm um eina rauðvínsflösku, drukkum öll en náðum samt ekki að klára hana. Mjög mátulegt fyrir mig.
Þessi nýja Mathilde er mjög indæl, og talar bara frönsku við mig, sem er mjög gott. Ég lofaði henni því að verða skemmtileg eftir kannski eins og tvo mánuði, því núna get ég með naumindum komið frá mér nauðsynlegum upplýsingum, hvað þá verið fyndin og sniðug.
Það er eins og alltaf þegar ég reyni að fara eitthvert með Jacob þá byrjar syndaflóð, í morgun röltum við saman í skólann og drukknuðum næstum, og nú er ég heima því ég varð að fara í sturtu og skipta um föt milli tíma, var algjörlega frosin í blautum fötum í fyrsta tímanum. Mig vantar hjól! Og pollagalla!
Síðast en ekki síst, þá ætlar fjölskyldan mín að heimsækja mig eftir þrjár vikur! Jei! Verður ofsa gaman að tala smá íslensku og skoða sig aðeins um, og knúsa liðið dálítið. Vildi að þau gætu tekið köttinn með... Einn vinur minn hérna á kött og ég fór næstum að gráta þegar ég sá hann, og lék við hann allan tímann sem ég var í heimsókn (meira þannig að hann sat á mér og borðaði á mér hárið...)(kötturinn, ekki vinur minn). Hann bauðst til að lána mér hann í nokkrar vikur en fyrri Mathilde er illa við öll dýr, svo það er ekki í spilunum.
Merkilegast af öllu fyrir mig er samt að í dag byrjuðum við Jacob að tala frönsku saman! Ég er dugleg! Snarhætti auðvitað að vera skemmtileg en það verður bara að hafa það.
Ég er farin út að fjárfesta í regnhlíf áður en næsti tími byrjar!

sunnudagur, október 01, 2006

Slökum á krakkar...

Ég held ég hafi verið að koma af fyrsta og síðasta stefnumótinu mínu í Frakklandi. Jeminn. Frakkar eru skýýýtnir. Það er kannski bara ég, en þegar einhver sem ég er að hitta í fyrsta skipti er ekki einu sinni búinn að taka einn bita af tarte flambée-inu sínu þegar hann tilkynnir mér að ég sé ekki lengur á lausu, þá langar mig bara að reyna að slá metið í 400 metrunum med det samme. Ég reyndi að tjá það á frönsku hvað mér fannst um málið en "minn rass" er frekar erfitt í þýðingu, svona merkingarlega séð.
Og ég er komin með kveeef (eða kannski bara svona heiftarleg ofnæmisviðbrögð við rómantík?).
Á morgun þarf ég að skila inn umsókn í kúrsana sem mig langar í. Ef einhver getur vinsamlega sagt mér hvaða kúrsar það eru þá eru það vel þegnar upplýsingar, því ekki veit ég það.