laugardagur, október 07, 2006

Pavtí á Slátrarastræti

Rétt rúmum mánuði eftir að ég kom hingað hitti ég mína fyrstu Íslendinga á staðnum. Ég var svo glöð að geta talað íslensku við einhvern að ég talaði frá mér röddina, og hljóma nú eins og önd inní dós (aukastig fyrir þá sem vita úr hvaða áramótaskaupi þetta er. Árni?). Margrét frænka mín var í bænum og ég (á milli þess sem ég drekkti henni í blaðri Á ÍSLENSKU, jei!) fékk að elta hana um allt í Evrópuráðinu, rak meira að segja nefið inn á fund hjá jafnréttisnefndinni hérna, sem var ótrúlega skemmtilegt. Annars var nú eiginlega bara skemmtilegast að uppgötva nýjan fjölskyldumeðlim og ná að kynnast svolítið. Við fórum út að borða á yndislegum ítölskum veitingastað, sötruðum pinot noir á kaffihúsum, röltum í búðir, þetta var algjört orkuskot fyrir framhaldið, núllstillti aðeins á manni hausinn eftir allan frönskurembinginn. Ég er mjög þakklát fyrir þessa tvo daga.
Í gærkvöldi héldum við svo partí hérna á Slátrarastrætinu, í tilefni þess að íbúðin var orðin skítug og þurfti hvort eð er að taka hana í gegn, um að gera að hafa hana bara sem skítugasta þegar þrifin fara fram. Teitið okkar litla tókst svona líka vel, buðum nokkrum Erasmusum en aðallega samt bara frönskum vinum Matthildanna og nágrönnunum okkar hérna. Ég varð vitni að allt annars konar veislusiðum en ég er vön á klakanum. Við vorum með smá áfengi á boðstólnum, sangríu og einhvern brasilískan drykk blandaðan við lime og sykur. Áfengið KLÁRAÐIST EKKI. Ekki nóg með það, heldur kom fólk í partíið vopnað áfengi, ekki handa sjálfu sér heldur handa partíinu öllu. Það er mjög nýtt fyrir mér. Það var enginn fullur, allir bara nettir, sem sést best á því að það brotnaði ekkert, var aldrei röð á klóið og baðherbergið var mjög snyrtilegt í veislulok. Við sitjum uppi með:
-Þrjár stórar vodkaflöskur
-Þrjár rauðvínsflöskur
-Fuuullt af bjór. Bjór sem við komum hvergi fyrir því hann er endalaus
-Risaflösku af rommi
-Passoaflösku
-Eplasnafsflösku
-Flösku af einhverju anísáfengi frá S-Frakklandi
Og þetta er bara það sem er óupptekið, svo flæðir allt í áfengi sem fólk fékk sér af, og við komum bara mjög einfaldlega hvergi fyrir. Gefum það sennilega til góðs málefnis bara. Þarna er heldur ekki minnst á ósköpin öll af óáfengum drykkjum sem okkur voru færðir, og er verið að reyna að finna samastað í húsinu (og maganum á okkur). Í dag kom svo hluti gestanna aftur til að þrífa með okkur og húsið er spikk og span á ný. Fínt að halda partí í Frans greinilega (nema óvenjuhátt hlutfall samkynhneigðra karlmanna meðal veislugesta sé að skekkja meðaltalið).
Þegar blogger hættir að vera asni og samþykkir að setja inn myndirnar mínar aftur skal ég setja inn svipmyndir úr teitinu.

Engin ummæli: