sunnudagur, október 15, 2006

23ja ára stelpuskott á hjóli

Ég varð 23ja ára í gær og gaf sjálfri mér hjól í afmælisgjöf. Það er ævafornt og slitið, en mér líkar vel við það, það hefur persónuleika, reynslu og ratar um borgina eins og gamall leigubílstjóri. Ég nenni ekki að hlaupa niður og taka mynd af því þar sem ég er ennþá í náttfötunum, set bara inn mynd með næsta pósti. Við Jacob keyptum hjólin okkar fínu á hjólamarkaði sem er haldinn hérna tvisvar á ári, um morguninn kemur fólk með notuðu hjólin sín og kemur þeim fyrir og seinna um daginn kemur fólk og kaupir þau. Mjög sniðugt, en miklu fleira fólk en hjól, svo þessi eini tími sem ég fór í í brasilísku jiu jitsu kom sér vel. Það er góð vísbending um gáfnafar okkar Jacobs að við keyptum miða fram og tilbaka í traminn þegar við fórum á markaðinn. Mjög gáfulegt. Hjóluðum skömmustuleg heim með "tilbaka" miðann í vasanum.
Afmælisdagurinn minn var yndislegur. Þegar ég kom heim af hjólamarkaðnum opnaði ég fína pakkann frá Hrefnu minni, sem klikkar aldrei á að gefa mér afmælisgjöf á réttum degi (ætla ekki að þakka þér fyrir á blogginu mínu, ætla sko að hringja almennilega í þig til þess!). Svo fór ég og keypti í matinn því ég var búin að bjóða fjórum í mat um kvöldið, Matthildunum tveimur, Jacob og Vincent vini Matthildanna, sem er að verða hálfgerður heimilisköttur hérna. Ég vildi ekki bjóða fleirum því ég var handviss um að maturinn minn yrði óætur og vildi afsaka það fyrir sem fæstum.
Í forrétt gerði ég skötusel sem Guðný frænka var svo almennileg að kenna mér að gera. Ég kann ekkert á fisk nema hann sé í flökum, fyrir utan að ég er klígjugjörn, svo þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu:

Öllum að óvörum (aðallega mér) varð þetta að lokum að hinum ágætasta forrétti, sem meira að segja Jacob bað mig um uppskriftina að þrátt fyrir að borða venjulega ekki fisk (takk Guðný!).

Þá var komið að aðalréttinum. Þar kom mamma mér til bjargar með uppskriftinni sinni að kjúklingasalati, sem tókst líka alveg glimrandi og var étið upp til agna (sem er ótrúlegt afrek þar sem það var risavaxið og ég var viss um að þurfa að borða það í öll mál fram að páskum).

Þá var komið að eftirréttinum, en Matthildarnar höfðu keypt einhverja týpíska franska sítrónumarengstertu með stjörnuljósum og öllu. Svo var sungið og borðað og hlegið og borðað meira, þar til allir voru orðnir svo úttroðnir af frönskum marengs og íslensku nammi (takk mamma!) að þeir gátu sig hvergi hreyft (nema til að teygja sig í aaaðeins meira nammi). Þá fékk ég pakka! Matthildarnar gáfu mér Litla prinsinn, sem er ein uppáhaldsbókin mín og ég á hana reyndar fyrir, en því ætla ég aldrei að láta þær komast að. Þær gáfu mér líka matreiðslubók fyrir byrjendur, því ég var búin að vara þær svo vandlega við því að maturinn gæti orðið viðbjóður og boðið endað á Makkdónalds. Í pakkanum leyndist svo líka miði til að fara með þeim báðum á ballettsýningu í óperuhúsinu hér í borg. Jacob gaf mér Incubus disk sem við vorum nýbúin að tala um að ég ætti ekki en þyrfti að eignast, og þessa líka fínu Tinnabók. Vincent gaf mér ekki neitt því hann hafði líka keypt handa mér Litla prinsinn, en Matthildarnar voru feitari og frekari og létu hann skila henni aftur. Hann lofaði að kaupa eitthvað handa mér í Bandaríkjunum í næstu viku. Það er eins gott fyrir hann.

Við enduðum kvöldið á að stökkva á mjög undarlegan Hawaii-skreyttan stað, Waikiki, sem er innréttaður eins og trópíkölsk eyja en spilar eingöngu popp frá níunda áratugnum. Þar hittum við alla sem ég hefði viljað bjóða í mat ef við ættum fleiri stóla, drukkum með þeim fína ávaxtakokteila og rauluðum með Final Countdown.

Ég var ekki dugleg að taka myndir en hér koma allavega nokkrar:

Hluti matarhrúgunnar sem ég breytti í dýrindis kræsingar

Gestirnir mínir (hlýddu engan veginn boðinu sem krafðist formlegs klæðnaðar)

Vincent og Jacob hafa greinilega komist í myndavélina mína og tekið þessa fínu sjálfsmynd


Mætt á hinn furðulega Waikiki


Ég brost mínu blíðasta þrátt fyrir að vera ansi reytt eftir eldamennskuna, en Mathilde tók myndatökuna alls ekki nógu alvarlega


Vincent og frönsk vinkona okkar sem heitir algjörlega óskrifanlegu nafni sýndu Mathilde hvernig á að gera þetta

Engin ummæli: