sunnudagur, desember 24, 2006

685 Bakkafjörður

Þá er maður mættur í jólasæluna í sveitinni. Við fengum loksins að fljúga í gærmorgun og þrátt fyrir smá hopp og hökt skilst mér að ferðin hafi gengið vel. (Ég tók ekkert eftir því, var of upptekin við að brjóta heilann um það hvaðan ég þekkti ofsa sæta strákinn sem heilsaði mér svo kumpánalega þegar ég var að labba inn í vélina. Held það vanti einhvern mikilvægan hluta í heilann á mér. Man ekki ennþá hvaðan við þekkjumst, verð sennilega að ganga hús úr húsi á Egilsstöðum og reyna að finna hann og spyrja, áður en þetta gerir mig alveg bil.)
Unnsteinn sótti okkur á völlinn (mjög hress eftir að hafa beðið eftir okkur næstum sólarhring á Egilsstöðum...) og við lögðum upp á Hellisheiðina. Þar lentum við í svo miklu roki að enginn viðstaddur mundi eftir öðru eins, enda vorum við skíthrædd (sérstaklega efst í Skarðsbrekkunni þar sem við horfðum niður eins og 500 metra halla og húddið var farið að lyftast ískyggilega). En niður fórum við á fjórum hjólum, reyndar öll mjög grunsamlega föl þegar niður var komið.
Á Vopnafirði stoppuðum við hjá afa og borðuðum gómsætar lummur, áður en við héldum áfram á Bakkafjörð. Þar beið amma með bæði hangikjöt og læri með öllu tilheyrandi, enda sveltur aldrei neinn hér. (Ekki nema viðkomandi sé grænmetisæta, en þá neyðist hann sennilega til að skokka út í garð og bíta gras.)
Í gær fórum við Jóhann svo í okkar hefðbundnu jólakortaútbýtingu, og fyrst það náðist þá get ég verið viss um að jólin komi. Nú er bara að sjá hvort við amma komumst ekki örugglega í jólamessuna á morgun, það má eiginlega ekki heldur klikka... Það er reyndar allt rok gengið niður eins og er, svo kannski er þetta bara gengið yfir alltsaman.
Gleðilega hátíð öllsömul! :*

föstudagur, desember 22, 2006

Föst

Þá er maður greinilega komin á Íslands farsælda Frón. Það er ekkert þjóðlegra en að vera veðurtepptur. Við ætluðum að fljúga í jólasæluna í sveitinni í dag en fluginu var aflýst og verður ekki annað fyrr en í fyrsta lagi um hádegisbilið á morgun. Ég tek því sem skýru merki þess að ég eigi að kíkja út á lífið í kvöld og njóta þess að berjast við storminn og reyna á sama tíma að halda jafnvægi á háum hælum, passa hárið og maskarann og ná andanum á móti rokinu. Þetta get ég til dæmis aldrei gert í Strass.
Annars hafa nýjustu rannsóknir mínar á landi og þjóð leitt það í ljós að molinn hennar Ásu er fallegasta og yndislegasta barn sögunnar. Ég ætlast ekki til að þið trúið mér sem ekki hafið séð hann svo ég rændi sönnunargagni af síðunni hans, og vona að foreldrar hans fari ekki í mál við mig (þýðir ekkert hvort eð er Ása mín, ég á ekki túkall með gati):

þriðjudagur, desember 19, 2006

Á Íslandi

Ég er komin heim, er eins og blómi í eggi að njóta eldamennsku móður minnar og jólastressins í Kringlunni. Blogga almennilega seinna. Njótið jólaundirbúningsins!

miðvikudagur, desember 13, 2006

Blíða drottning...

Nú þegar ég er búin að labba og hjóla um allt í rúma þrjá mánuði, og ekki stigið upp í bíl síðan fjölskyldan mín heimsótti mig á fína BMW leigujeppanum (sem þau voru svo hrifin af þegar ég hitti þau að ég þurfti að skipa þeim að hætta að segja mér frá fídusunum í gluggunum og KNÚSA MIG) þá átta ég mig á því að það er bara eitt sem ég sakna við það það vera á bíl. Það er að í bílnum hefur maður næði til að syngja hástöfum, enda gerði ég það samviskusamlega á hverjum degi heima á Íslandi, bílstjórum sem lentu við hliðina á mér á ljósum til mikillar gleði. Ég hef hinsvegar ekki sungið svo mikið sem eina nótu síðan ég kom til Frakklands, og uppá síðkastið hefur oft gripið mig skyndileg löngun til að syngja lítið lag, sem ég hef staðist nágranna minna vegna (veggirnir eru búnir til úr einhverju með svipaða hljóðeinangrunareiginleika og tissjú). Það er eins gott að ég er að fara að koma heim, held ég geti ekki barist við löngunina mikið lengur. Skemmtilega er að það hefur greinilega gripið mig mikill jólaandi því það eina sem mig hefur langað að syngja síðasta mánuðinn eða svo er Ave María eins og hún var alltaf sungin á jólatónleikunum í menntó, það er algjörlega fast í hausnum á mér.
PS. Þeir sem ætla að kommenta og segja mér að gefa skít í nágrannana og syngja bara samt hafa aldrei heyrt mig syngja. Ekki einu sinni reyna það, það er bara vandræðalegt fyrir alla.
PPS. Hrefna, við tökum saman eitt jólalag þegar ég kem heim!!! ;)

mánudagur, desember 11, 2006

Snæfinnur vs. Rocky Jr.

Ég var að rölta heim úr miðbænum á sunnudaginn þegar ég sá krúttlegan lítinn strák sem ég held að sé andlega skyldur mér. Hann stóð beint fyrir framan ótrúlega pirrandi snjókarlinn hérna fyrir neðan sem syngur falskt Jingle Bells stanslaust alla daga. Án þess að stoppa. Nokkurn tíma. Óþolandi snjókarlsgerpi. Eníhú, strákurinn horfði í augun á snjókarlinum í smástund, væntanlega að reyna að fá hann með hugarorkunni til að hætta þessu gauli. Svo kreppti hann hnefana einbeittur, dró þá upp að höku eins og boxara er siður, og náði Snæfinni með öflugum hægri krók. Svo leit hann á mig, og ég á hann, og við skildum hvort annað. Jább. Þarf að taka hann með mér til Íslands til að lækka aðeins rostann í Tomma tómati.
Annars hlýtur að vera erfitt að vera hjálpsamur Frakki í Strasbourg með alla þessa útlendinga á vappi, við skiljum ekki neitt. Í dag var ég að hjóla heim úr skólanum og var stopp á umferðarljósum. Í bílnum við hliðina á mér voru tveir strákar um tvítugt, sem skrúfuðu niður rúðuna og fóru að benda eitthvað á hjólið mitt. Ég skildi ekkert hvað þeir voru að segja nema "Þú verður að passa þig á...". Á hverju? Hvað er að hjólinu mínu? Hversu hættulegt er það?? Hjálp! Svo skildi ég að þeir voru að segja mér að það hefði eitthvað með sætið að gera og enn sá ég ekki vandamálið, sama hvað ég kíkti á hnakkinn. Þá gripu þeir til handapats og táknmáls sem reynist oft gagnlegt í samskiptum við heimska útlendinga. Þá loksins skildi ég að það sem þeir höfðu svona miklar áhyggjur af þessar elskur og vildu vara mig við var að ég fengi frekar oddmjóan hnakkinn uppí pjölluna á mér. Hvar væri kona eiginlega ef ekki væri fyrir hjálpsama heimamenn til að leiðbeina henni og ráðleggja?

laugardagur, desember 09, 2006

Jólalúffa

Þá er farið að styttast verulega í blessuð jólin, og ennþá meira í að ég fari heim í jólafrí. Ég er ótrúlega fegin að hafa ákveðið að vera tvær annir úti en ekki bara eina, því mér finnst franskan mín rétt vera að byrja að ná sér á strik núna og get ekki beðið eftir að klára þessi hræðilegu hræðilegu próf sem eru framundan og tækla næstu önn almennilega. Ég er að verða nokkuð viss um að ég nái ekki mörgum prófum á þessarri önn, en ég reyni að minna mig á það reglulega að markmiðið var fyrst og fremst að læra málið, bara svona svo ég fái ekki taugaáfall.
Annars bjargaði það því sem bjargað varð af geðheilsunni að Silja Bára var í bænum í vikunni, og við brölluðum heilmikið saman. Bræddum glös, potuðum í jólakúk, átum, drukkum og vorum glaðar. Ég fann á ferðum okkar bæði kotasælu og brún hrísgrjón sem ég er búin að leita að síðan ég kom, og tókst að gráta af hlátri nokkrum sinnum sem hefur sennilega ekki gerst síðan ég yfirgaf klakann. (Ekki að Frakkar séu ekki fyndnir, ég er bara of vitlaus til að skilja húmorinn þeirra ennþá. Eða svo segja þeir mér.) Konan er náttúrulega snillingur, suma eru bara forréttindi að þekkja. Jólin eru að gera mig meyra. Og pínu þunna... Ekki meiri jólabjór fyrir mig!
Nú er svo komið á hreint að ég fer austur á Bakkafjörð 22. des og kem aftur 28. des, svo þá er hægt að fara að skipuleggja dvölina heima aðeins betur. Ég er ofsa glöð að við ætlum austur, ég er hreinlega ekki viss um að jólin komi nema ég sofi með hausinn inní jólatrénu og vakni við að það sé hundur að pota í mig köldum nebbanum (eða við það að ég hreyfi mig í svefni og brjóti nokkrar jólakúlur, en ég vil ekki ræða það...).
Annars er ég ennþá bara að rembast við að skrifa JFK ritgerðina mína. Njótið helgarinnar!


sunnudagur, desember 03, 2006

Sapin de Noel

Í gær var ég að læra í herberginu mínu (les. skrifa jólagjafalista og borða súkkulaði) þegar Matthildarnar koma ferlega spenntar og segjast vera með svolítið óvænt handa mér. Svo ég elti þær fram og rekst þar á lítið og bústið jólatré með sjúklega blikkandi seríu. Og þar sem ég er ekki flogaveik þá fannst mér það mjög skemmtileg sjón. Það fyndna er að svo var ég rukkuð um þriðjung af kostnaðinum. Er það venjulega gert þegar fólki er komið á óvart? "Vúh, Jói, SURPRISE, til hamingju með afmælið, blííístr! Og hérna er reikningur fyrir þínum hluta af kökunni, gjössovel." Skrýtið. En samt skemmtilegt, og jólatréð er ekta, en frekar lyktarlaust finnst mér. Er að spá í að kaupa svona kúkasprey með grenilykt og úða á það.
Allir sem þekkja mig vita að mér finnst jólaskraut sem blikkar ekkert sérstaklega skemmtilegt, og hér, bæði á jólabollutrénu okkar og í gamaldags og rómantíska miðbænum, blikkar allt sem blikkað getur. Fer borginni ekkert sérstaklega vel finnst mér, frekar takkí og smekklaust alltsaman, en samt jólalegt og krúttlegt á sinn hátt. En í allri smekkleysunni fannst mér þess vegna fyndið hvað Matthildarnar voru hneykslaðar þegar ég sagðist ætla að kaupa nokkrar jólakúlur til að hengja á Vegas-tréð okkar. Þeim fannst það freeekar hallærisleg hugmynd, og ekki fara alveg við áhrifin sem þær voru að reyna að ná fram. Hm. Allt í lagi.