föstudagur, september 29, 2006

Ánamaðkur í útlöndum

Á miðvikudagskvöldið var haldið partí til að bjóða alla nemendur IEP velkomna til nýs skólaárs. Ég fór í fyrirpartí með Matthildinni minni og fullt af öðrum Frökkum, mjög velkomið hlé á endalausum skiptinemasamkomum. Að vera Erasmus er eins og að vera í sértrúarsöfnuði, við eigum bara samskipti hvert við annað. (Reyndar eru Frakkarnir mjög viljugir að tala við Erasmusana, en Jacob sagði mér af hverju það væri. Hér er Erasmus kallað Orgasmus. I rest my case.) En ég kynntist allavega fullt af frönskum stelpum og hommum. Af hverju það voru engir gagnkynhneigðir strákar í partíinu veit ég ekki, en við spjöruðum okkur allavega fínt án þeirra. Við röltum svo yfir í stóra partíið þar sem við dönsuðum svo mikið að ég gat undið hárið á mér inná baðherberginu. Og fötin mín þegar ég kom heim. En það var gaaaman.
Ég fór svo í tíma í nútímadansi í háskólagymminu í gær, eða eins og ég kýs að kalla það "nútímarúlliogkáfi". Í einn og hálfan tíma rúllaði ég mér á gólfinu eins og ánamaðkur og nuddaði mér utaní hina ánamaðkana. Það var vandræðalegt. Kennarinn ákvað að gera þetta ekkert auðveldara og nota mig alltaf sem dæmi í alla sýnikennslu. Þannig kom það til að fyrir framan fullan leikfimisal af frönsku dansfólki þurfti ég að góla eins hátt og ég gat "Je m´appelle Unnur!" og dansa á meðan lítinn dans sem mér fannst tjá hver ég væri. Þannig kom það líka til að ég þurfti, enn fyrir framan fullan sal af fólki, að dansa þvert yfir salinn allan (með tilheyrandi ánamaðkarúlli á leiðinni, þar sem það var þemað), gólandi eitthvað orð af handahófi og dansandi hvað sem mér dytti í hug á leiðinni. Ég valdi "hreindýr". Enginn annar þurfti að gera þetta, held að kennararnum hafi bara fundist fyndið að pína útlendinginn. Ég grét inní mér.
Á morgun er ég svo skráð í tíu og hálfs tíma fjallgöngu. Fyrsti ánamaðkurinn til að klífa fjall.

þriðjudagur, september 26, 2006

Unnur does Dallas

Það hringdi maður í franska símann minn í gær. Franskur maður. Hann spurði mjög kurteislega hvort það væri ég sem væri með mynd af mér á netinu. Ég sagðist ekkert vita hvað hann væri að tala um, það eru náttúrulega myndir útum allt, á msn-inu, skype-inu, blogginu mínu, myspace, svo það gat svosem alveg verið ég. Ég reyndi að fá hann til að segja mér hvaða síðu hann væri að tala um og hvar hann hefði fengið símann minn. Það kom þá upp úr kafinu að hann hafði fengið símann minn á sömu síðu og nektarmyndirnar af mér (!) en hann vildi ekki segja mér hvaða síða þar væri nákvæmlega. Ég reyndi að sannfæra hann um að það væri ekki ég á þessum dónamyndum, hver svo sem síðan væri, en hann neitaði að trúa mér, ég varð á endanum að sækja Mathilde sem vitni um mannorð mitt, og hún lofaði honum því að ég væri ekki klámfyrirsæta. Hann trúði henni svona mátulega. Skemmtilegt.
Skólinn virðist ágætur, svona fyrir utan það að ég skil ekki hvað kennararnir segja. Skil samt meira en ég átti vona á, hélt ég gæti ekkert glósað en ég get það alveg. Það er samt á íslensku og oftast eitthvað á þessa leið: ,,Það gerðist eitthvað merkilegt í Amsterdam 1984. Þetta merkilega skipti máli því eitthvað var að minnka einhversstaðar. Það var beint samband á milli þessa einhvers og einhvers annars. París. Samningur. Regnhlíf?" Svo þær eru ekki mjög gagnlegar, en ég ákvað að venja mig samt á að glósa, allt sem ég náði að grípa. Næst er að byrja að glósa á frönsku... (Ég glósa á íslensku ennþá því ég vil ekki að sætu strákarnir í kringum mig sjái hvað ég er að bulla mikið). Ég er þessa vikuna upptekin við að mæta í alla kúrsa sem ég get til að reyna að ákveða hvaða kennara ég skil skást og hvað ég á að skrá mig í. Í gær var ég þess vegna í skólanum samfleytt frá 8 til 20 og fór í sex kúrsa. Aðeins skárri dagskrá í dag, mætti í morgun en fékk svo 4ra tíma eyðu, þarf síðan að sitja kúrsa frá 14 til 20 á eftir.
Ég er búin að ákveða að taka kúrsana "Kyn og stjórnmál" og "Þróun Evrópusamrunans síðustu 20 árin" en meira veit ég ekki eins og er, þetta er næstum allt sama kínverskan fyrir mér!
Ég var mjög kvíðin í gærmorgun áður en ég mætti í fyrsta tímann. Ég tók þess vegna stelpuna á þetta og hlustaði á sándtrekkið úr Center Stage og annað stelpustyrkjandi ( sjá hræðilegt dæmi) alla leið í skólann, hálftíma labb, að reyna að taka sjálfa mig á sálfræðinni. Ég var orðin full sjálfstrausts (og dramatíkur) þegar ég kom í skólann, en þegar ég var á leiðinni inn datt ég næstum á rassinn á sleipu holræsaloki og þurfti að taka tvöfalt splittstökk og pírúett til að bjarga mér (eins gott að ég var búin að vera að hlusta á Center Stage og var tilbúin!). Það hefði ekki getað verið minna töff og ég varð aftur að lúða. Ah...
Já, og að lokum, skemmtileg staðreynd um eina þýsku stelpuna. Hún á kærasta heima í Þýskalandi og þorir þess vegna ekki á dansnámskeið með okkur, hún heldur því nefnilega fram að ef hún horfi í augun á öðrum karlmanni heilan dans þá komist hún ekki hjá því að verða ástfangin af honum og þá sé þetta búið hjá henni og kærastanum. Ég hélt að Doris, kólumbíski salsadansarinn, myndi aldrei ná andanum aftur fyrir hlátri.

laugardagur, september 23, 2006

C´est la vie

Fundurinn í gær um hvernig við eigum að skrá okkur í kúrsa hérna var frekar sjokkerandi svo ég treysti mér ekki í blogg beint eftir hann. Það er verið að reyna að plata okkur sem verðum hérna allt árið til að skrá okkur í prógramm þar sem við náum okkur í einhverskonar diplómu hérna á þessu eina ári, CEPE (certificat d´etudes politiques europeennes), sem er gott og blessað nema til þess að fá þessa diplómu þurfum við því sem næst að ganga á heitum kolum og bryðja gler. Mér líst ekkert á þetta, en finnst ég eiginlega verða að reyna, svo ég býst við að enn einu sinni ætli ég að hoppa út í djúpu laugina (og uppgötva í miðju hoppi að ég er hvorki með kút né kork og sigli því í ka-a-af). Hér koma svo smá leiðindasmáatriði en þetta verður að fylgja með.
Í fyrsta lagi var okkur sagt að í þessum háskóla skiptir engu máli hvort þú ert Frakki eða úlli, allir taka sömu próf og skila sömu verkefnum, og ef stafsetningin þín er eins og hjá 5 ára krakka (á góðum degi) getur þú bara hunskast aftur á kisudeild þar sem þú átt heima og reynt að lita ekki út fyrir línurnar. Gúlp.
Í öðru lagi þarf ég að ná 60 evrópueiningum (30 íslenskum) til að fá þessa CEPE gráðu. Það er fullkomlega gerlegt á tungumáli sem er ekki bara bull. Því miður er franska ekki eitt af þeim. 40 eininganna þarf ég að taka í kúrsum, 10 í einhvers konar málstofu með fullt af verkefnavinnu og veseni og 10 fæ ég svo fyrir að taka þátt í einhvers konar Evrópuviku eftir áramót og skila verkefni um það. Hver kúrs er yfirleitt ekki nema 2,5 einingar (1,25 íslenskar!!!) sem þýðir að ég þarf að taka 8 kúrsa á hvorri önn til að ná kvótanum. (Stærri kúrsana er ég annaðhvort búin að taka heima eða eru bara ekki nærri eins áhugaverðir og þeir litlu.) Gúlp.
Veit ekki alveg hvað ég geri í þessu, kúrsarnir byrja á mánudaginn, sjáum hvað setur...
Í öðrum fréttum þá hýsum við yfir helgina írskan fyrrverandi kærasta Mathilde, og við erum sammála um að hann er gjörsamlega óalandi og óferjandi. Hann fer á mánudaginn og verði Suður-Frakklandi að góðu:
Við fórum í partí í gærkvöldi til Diego og Johnny en ég stoppaði stutt þar sem mér fannst ekkert voðalega skemmtilegt... Ég er kannski ofurskiptinemi en ofurkraftar mínir nægja ekki alltaf til að finnast hinir erasmusarnir fyndnir. Það var enginn spegill í íbúðinni þar sem partíið var svo ég brá á það ráð á baðherberginu að taka af mér mynd til að athuga hvort allt væri ennþá þar sem ég skildi við það. Ég glansa án afláts í þessu landi:

Í dag var ég svo í tólf tíma skoðunarferð um Alsace-hérað, sem var mjög skemmtileg. Við lærðum undirstöðuatriðin í vínsmökkun klukkan 10 fyrir hádegi, mjög hressandi (sérstaklega fyrir þann hluta hópsins sem var skelþunnur eftir partíið kvöldið áður):
Við fórum til Obernai:
Skoðuðum kastalann Chateau du Haut Koeningsbourg, sem er nær ómögulegt að mynda því hann er risavaxinn (þar fann ég könguló skríðandi niður úr hárinu á mér í miðri skoðunarferð og fór að hoppa og skrækja, leiðsögukonunni til lítillar gleði, en samferðamönnum mínum til þess meiri):
Svo enduðum við á að heimsækja Colmar, en vorum þá svo endanlega búin á því að við sáum eiginlega bara eitt stykki torg og eitt kaffihús:
Rosalega gaman að vita orðið aðeins hvað er í nágrenninu, allar borgir og þorp sem við sáum voru mjög sjarmerandi, og vínakrarnir flutu í vínberjaklösum, mjög fallegt að sjá.
Svo tók við smá dramatík þegar við komum aftur til Strasbourg. Ég þurfti að hlaupa út úr rútunni til að ná að fara í matarbúð áður en allt lokaði kirfilega fram á mánudagsmorgun, en á leiðinni varð mér svo illt í maganum að ég var farin að halda að mér hefði vaxið fyrir kraftaverk nýr botnlangi sem hefði tekið upp á að springa. Ég komst loksins í búðina en var þá hætt að geta rétt úr mér og varð að versla hokin eins og vesalingur, og setjast á gólfið til að bíða í röðinni að kassanum. Ég var orðin sveitt og ísköld og titrandi eins og bjáni, og var farin að reyna að muna hvernig maður segir "sjúkrabíll" á frönsku því ég hélt það myndi einfaldlega líða yfir mig þarna á gólfinu. Einhvern veginn náði ég samt að borga og hypja mig af stað heim, og komst um það bil hálfa leið áður en mér varð svo illt að ég settist á gangstéttina til að deyja. Um það bil mínútu seinna batnaði mér. Alveg. Ekki einu sinni pínu illt. Hið undarlegasta mál. Ákvað samt að halda mig bara heima í kvöld, ef maginn á mér skyldi reyna annað valdarán. Hér eru svo fleiri myndir af handahófi síðan í gærkvöldi, og í dag:

miðvikudagur, september 20, 2006

Þá er þýski sambýlismaðurinn farinn í hálfan mánuð. Mér finnst það einstaklega sorglegt. En í gær fórum við samt og hittum Flo og Nico á kaffihúsi og biðum eftir að klukkan slægi tólf því þá átti Nico 24ra ára afmæli. Ég tók fyrir og eftir myndir en sé ekki mikla breytingu...
Fyrir:

Eftir:
Við töluðum um stelpur, bjór og mótorhjól. Ég held ég sé að breytast í þýskan karlmann.

mánudagur, september 18, 2006

Bangsímon syndrome

Nú er af sem áður var, að ég eldaði kjúklingabringur og hafragraut í öll mál á Slátrarastrætinu. Sambýlingum mínum hefur tekist að spilla mér og nú er ástandið svona: Croissant og espresso í morgunmat á röltinu á leiðinni í skólann, baguette með camembert (!) í hádegismat og hinn helmingurinn af baguettinu með meiri camembert og rauðvínsglasi í kvöldmat. Ég verð feheit þegar ég kem heim.
Í gær fórum við nokkur að skoða Evrópustofnanirnar sem eru hér því það var opinn dagur. Það var líka syndaflóð. Við Jacob hjóluðum á svæðið regnhlífalaus og litum svona út þegar við komum á áfangastað:

Ég veit ekki hversu vel það skilaði sér á myndunum en við hefðum sennilega ekki verið neitt blautari ef við hefðum synt í ánni á áfangastað í stað þess að hjóla meðfram henni (sést kannski best á buxunum hans, ööörlítil litaskil þar). Við reyndum að vinda fötin okkar eins og við gátum en eyddum samt deginum í stofnanaskoðun gjörsamlega frosin, tveir litlir ísmolar í ráðstefnusölum... Þegar heim var komið (eftir blóðugan slag um sturtuna) vorum við of frosin til að fara í bíó eins og planað var, og sátum þess í stað öll þrjú inni hjá Mathilde í myrkrinu og horfðum á vídjó, mjög indælt kvöld.

Í kvöld skellti ég mér bara ein í bíó á einhverja franska mynd, bara til að æfa mig, og fór svo á La Java að hitta hina Erasmusana. Það var svo heitt að ég kom út með krullur. Smart. Á leiðinni heim minnti Jacob mig á að hann er að fara til Þýskalands á miðvikudagsmorgun og þaðan til Portúgal að ná í Matthildina sína, og kemur ekki aftur fyrr en í byrjun október. Það er hræðileg tilhugsun þar sem við erum búin að vera algjörar samlokur hérna, veit ekki hvað ég á að gera á meðan heiðursbróðir minn nýi er í burtu! (Mögulega læra kannski, ef í harðbakkann slær...).

Evrópustofnanaskoðun (sennilega skilar blauthundalyktin sér ekki á myndunum, en þannig var ástandið nú samt):


laugardagur, september 16, 2006

Endalaus myndablogg, skjús mí...

Í dag fórum við hér á Slátrarastrætinu seint á fætur því gærkvöldið var aðeins lengra en áætlað var. Mathilde var í vinnupartíi og við Jacob á fyrrnefndu bátaskralli, þar sem allir voru hauslausir nema við, mjög smart. Við vorum samt ekki komin heim fyrr en um hálffjögur, og þá tóku við heimspekilegar umræður við eldhúsborðið fram eftir öllu. Mathilde skreið svo heim um sjöleytið og tilkynnti okkur það að hún hefði eignast kærasta í partíinu. Mér líst vel á þetta skýra franska kerfi, þar sem maður veit eftir eitt partý hvað er í gangi, á meðan maður er heima eftir hálfs árs hitting ennþá að velta því fyrir sér hvort maður eigi kærasta eða ekki. Kærastinn nýi heitir semsagt Kevin og er samkvæmt lýsingu "í framan eins og bangsi". Við Jacob neitum að kalla hann neitt annað en Teddy, og fáum því víst aldrei að hitta hann.
Þegar við loksins skriðum á fætur öll skelltum við Jacob og Flo okkur á nýlistasafnið hér í borg, og skemmtum okkur konunglega, sérstaklega í kaffiteríunni:

Við áttum svo að hitta alla Erasmusana í Orangerie garðinum í lautarferð þar sem hver þjóð áttu að koma með hefðbundinn rétt frá heimalandi sínu. Mér láðist að taka með mér íslenskan mat og datt ekkert í hug sem ég gat búið til, svo ég sleppti því bara og ætlaði að fá að fljóta með í þýska salatinu hans Jacobs, en eftir þriggja tíma safnarölt nenntum við ómögulega í lautarferðina og ákváðum þess í stað að hafa okkar eigin við eldhúsborðið heim hjá okkur (með aaalltof mikið af salati auðvitað). Ég eldaði kjúkling og hrísgrjón til að hafa með salatskrípinu og vínegrettunni sem því fylgdi, og Mathilde lagði til rauðvín og svo Camembert, geitaost og Roquefort í eftirrétt. Þessu var svo fylgt eftir með espressobolla a lá Jacob. Við skemmtum okkur konunglega þríeykið við kertaljós og kósýheit:

Og svo tókum við til við ostaátið, og hærregud hvað það var nú gott:

Mathilde er formlega búin að gefast upp og farin að sofa, og nú standa yfir samningaviðræður um hvort við hin nennum út úr húsi eða ekki, ég held samt að það endi með því að við gerum ekki nokkurn skapaðan hlut, ég er allavega svo södd að ég get varla setið, úff...

Bátaskrall

Í gærkvöldi fór ég með hinum skiptinemalúðunum að djamma á bát á ánni sem er hérna rétt fyrir utan gluggann minn. Þar fékk ég svo fallegan fingurkoss frá Armando hinum ítalska að ég varð að deila honum:

föstudagur, september 15, 2006

Meiri myndablogg

Við Jacob vorum að skríða inn úr dyrunum eftir vel heppnaða Ikea-ferð, keypti ruslafötu og wok-pönnu og svona skemmtilegt. Allir frekar þreyttir í dag því í gær fórum við nokkur saman út að borða og svo fórum bara ég og þýsku uppáhaldsvinir mínir á pöbbarölt sem stóð aðeins of lengi kannski. Geysp. En hérna er allavega mynd af nýja genginu mínu (og mér, ööörlítið sveitt og sjúskuð), og það skemmtilegasta er að sá lengst til hægri er næstum búinn að samþykkja að vera dansherrann minn á dansnámskeiði í háskólanum í vetur. Jei! Annars eru þetta frá vinstri til hægri Jacob, Florian og Nico:

fimmtudagur, september 14, 2006

Myndablogg

Blogger hefur ekki viljað setja inn myndir frá mér í nokkra daga, frekar pirrandi, en hér koma nokkrar skýringamyndir frá Frans.Þetta eru Doris og Sebastian frá Kólumbíu, ég er voða mikið með þeim því þau tala alltaf frönsku og ég er þá tilneydd til að bjarga mér bara, því Sebastian skammar mig ef ég skipti yfir í ensku... Doris er dansari og ætlar að kenna mér Merengue og allskonar dillerí:Þetta eru Kólumbíukrúttin mín aftur, ásamt Diego, sem er Spánverji sem býr í Englandi og er ofsa skrýtinn en ágætisnáungi engu að síður, og Mariönu frá Þýskalandi, sem er voða sæt og indæl:

Þetta er uppáhaldsvinur minn og sambýlismaður þessa dagana, hann Jacob. Hann eldaði meira að segja fyrir mig áðan tarte flambé, sem er hefðbundinn réttur frá Alsace svæðinu, svona einskonar þunn pítsa með sýrðum rjóma, kjöti, geitaosti og lauk. Ofsa gott. Hann er bara algjör snillingur, og allir vinir hans líka, en ég hef ekki ennþá náð myndum af þeim. Stelpan með honum á myndinni er líka þýsk, Franzeska, og mjög fín alveg.

Ég ætlaði að taka myndir af leiðinni minni í skólann en þá varð ég batteríislaus, náði samt að taka þrjár lélegar myndir, var líka alltof bjart og svona vesen. En þetta er allavega sýnishorn:
miðvikudagur, september 13, 2006

Í gær...

...stofnaði ég reikning í banka hérna. Það tók ekki nema einn og hálfan tíma, og mér leið eins og ég væri að flytja viðskipti Microsoft eins og þau leggja sig yfir í bankann. Fyrst kom bindisklæddur maður og fór með mig yfir í risastóran fundarsal fyrir okkur tvö bara. Hann færði mér café au lait og sódavatn og sagði mér hvað hann gæti boðið mér (á frönsku, ég er hetja). Svo spjallaði hann heilmikið um borgina og um Ísland, sagði mér frá konunni sinni og börnunum og var hinn vinalegasti. Að því loknu lýsti ég því yfir að ég vildi opna litla sakleysislega reikninginn minn hjá honum og þá var ég send til stúlku sem átti að sjá um það alltsaman. Hún reyndist líka hin vinalegasta og ég kann ævisöguna hennar núna að mestu líka. Það undarlega er að þessi banki er of góður til að vera sannur, ég átta mig bara ekki á því hvar svindlið er... Ég fæ franska tryggingu á öllu, meira að segja fartölvunni og fötunum mínum, fyrir eina evru fyrsta árið þó ég ætli yfirlýst að hætta viðskiptum eftir að árið er liðið. Ég fæ ókeypis kreditkort og allar færslur og allt af því er frítt fyrsta árið líka. Ég fæ reikning með 55 evru innistæðu, af því bara. Ég var mjög tortryggin og spurði hvort að vextirnir á reikningnum væru í mínus, en þeir eru 4% í rétta átt. Ég spurði hvort það væri allt í lagi að hætta eftir árið og hann sagði að það væri ekkert mál, og það kostaði ekkert að láta loka reikningunum og hætta viðskiptum við bankann. HVAR ER SVINDLIÐ?
Annars get ég ekki lýst því hvað ég er búin að snúast marga hringi í kringum sjálfa mig við að skila hinum og þessum pappírum hingað og þangað síðustu daga, ljósrita tryggingakort og vegabréf, taka passamyndir (er búin að þurfa að skila af mér 8 passamyndum hingað til og ekki er allt búið enn!), láta sambýliskonur og íbúðareiganda skrifa uppá hitt og þetta, fá skjöl frá bankanum til að fá styrk frá franska ríkinu, fá skjöl frá sambýliskonunum til að geta opnað reikning í bankanum, þetta er allt í hnút! Mér dettur alltaf í hug þrautin úr Ástríki og þrautunum 12 þegar þeir þurftu að eiga við bjúrókratana, þetta er svona svipað.
Annars held ég að ég hafi fengið snert af taugaáfalli í skólanum í dag þegar kennarinn minn, sem er mest ógnandi maður sem ég hef kynnst hingað til, uppgötvaði (þó ég þættist vera mjög upptekin við að stara á borðið mitt) að ég væri frá Íslandi og yfirheyrði mig um það, hversu margar þingdeildir eru, hvernig er kosningakerfið, hver hefur vald til að leysa upp þing og hvenær, hver eru helstu þjóðfélagsvandamálin, hver eru áhrif þess að herinn sé að fara, eru flokkarnir skýrt settir niður á hægri/vinstri ás, blablabla, og þessu átti ég að geta svarað á frönsku! Titraði langt fram eftir degi. Ég er algjörlega á hundasundi í djúpu lauginni hérna...

mánudagur, september 11, 2006

Strembinn dagur í lífi mállausa skiptinemans

Í morgun byrjaði skólinn. Ég ákvað að vakna snemma og ná að fara út að hlaupa fyrir skóla, sem ég og gerði en ég hljóp mér til óbóta og uppskar svo heiftarlegan magakrampa að ég þurfti að fara í sturtu í fósturstellingunni og borða hafragrautinn minn úr Tupperware á leiðinni í skólann. Ég dró nýja uppáhaldsvin minn hann Jacob frá Þýskalandi með mér í skólann þó svo hann sé ekki einu sinni Erasmus skiptinemi heldur bara hérna til að vera lærlingur hjá einhverju sjónvarpsfyrirtæki, en það er svo gott að þurfa ekki að fara einn og hann lá svo vel við höggi þessi elska. Og nei, ég er ekki búin að ná mér í Þjóðverja, heldur er hann kærasti þeirrar Matthildar sem er enn í Portúgal og ég er að passa hann heima hjá mér fyrir hana. Sem er vel, því hann er algjör gersemi, og ég dreg hann með mér útum allt.
Við fundum loksins skólann og skriðum inn í þriggja tíma fyrirlestur og vesen á frönsku um hversu mörgum myndum af okkur og afritum af vegabréfunum og tryggingaskírteinunum okkar við þurfum að skila á hversu margar skrifstofur og hvenær til að vera skráð í skólann og allskonar vesen, þetta er mesta skriffinnskubrjálæði sem ég hef lent í! Ég skráði mig svo í hægferð í frönsku því ég er verst af öllum í 80 manna hópnum. Námskeiðið byrjaði ekki fyrr en kl. 14 svo við skelltum okkur í að skoða háskólagymmið, sem er merkilegt fyrir þær sakir að við megum ekki æfa þar fyrr en við erum búin að fá vottorð frá lækni uppá að líkurnar á að við fáum hjartaáfall á brettinu séu ásættanlegar. Skriiiffinnska!
Við mættum galvösk í þriggja klukkustunda frönskutímann klukkan tvö þar sem hr. Meyer byrjaði á að segja okkur að hann ætlaði hreint ekkert að kenna okkur frönsku þar sem það væri hvort eð er of seint fyrir okkur að læra hana núna ef við kynnum hana ekki nú þegar. Meira man ég ekki því hjartað í mér stoppaði um þetta leyti af áfallinu. Mér er sagt að hann hafi svo notað þessa þrjá tíma til að kenna okkur meginatriði franska stjórnkerfisins Á FRÖNSKU og ætli sér að halda því áfram næstu tvær vikurnar. Jeminn eini.
Þá var ég ekki enn búin að borða neitt síðan ég skóflaði í mig hafragrautnum góða, og var um það bil að deyja úr sulti. Við vorum næst dregin á barinn Bartholdi þar sem okkur voru gefin hvítvínsglös og skálað var fyrir okkur. Ég varð full af tveimur sopum vegna áfalls og hungurs og vakti athygli fyrir það að "þekkja alla". Ég er greinilega ofurskiptinemi, og það alveg óvart. Úpsí.
Ég skrönglaðist því næst í búð og er að elda mér karríkjúkling með brúnum hrísgrjónum, sem ég ætla líka að taka með í nesti á morgun til að geta allavega fengið næsta taugaáfall vel nærð!

laugardagur, september 09, 2006

Ég á vini! Eða þið vitið, fólk sem veit hvað ég heiti...

Ég fékk tölvupóst í dag frá ungum Spánverja að nafni Diego sem sagðist vera að koma til Strasbourg í dag sem Erasmus og bauð hinum skiptinemunum að hitta sig á barnum Perestroika í kvöld. Ég varð yfir mig spennt þar sem ég er búin að vera í hálfgerðri félagslegri einangrun, að frátalinni aumingja Mathilde sem hefur verið mitt eina samband við raunveruleikann í viku. Ég gat náttúrulega ekki farið án hennar svo ég dressaði skvísuna upp og dró hana með. Þegar á staðinn kom hittum við þar fyrir Diego auðvitað, og Ryan frá Englandi, og seinna bættust í hópinn Doris og Sebastian frá Kólumbíu og Marianne frá Þýskalandi. Þrjú síðastnefndu hafa ekki enn fundið sér íbúðir hér og gista á rándýrum hótelum, svo ég gerði mér enn og aftur grein fyrir því hversu heppin ég er að hafa fundið Matthildirnar mínar. Hinir skiptinemarnir voru líka mjög ánægðir með þessa einu sem ég kom með með mér, og spurðu hana endalaust út í borgina og hvar hitt og þetta væri, mér fannst ég virkilega lánsöm að gera svo tekið hana heim með mér þegar leiðir skildust. Það er algjör lúxus að búa með Frakka! Ég var samt orðin mjög ringluð því við töluðum öll ensku, frönsku og spænsku í bland, ég svaraði frönskum spurningum á spænsku og spænskum á ensku, og fór svo til franska barþjónsins og pantaði á spænsku, sem hann skildi ekki þessi elska en ég náði að rugla hann nóg til að hann svaraði Marianne sem pantaði næst á frönsku, á spænsku. Við vorum öll orðin mjög ringluð á þessu öllu saman og ákváðum að segja það gott í bili. Það var líka gerður samningur, frá og með mánudeginum, þegar við byrjum á frönskunámskeiðinu, verður bara töluð franska. Ég þarf varla að taka það fram að ég er lélegust í frönsku í hópnum. En það er allt í lagi, skildi svosem það sem þau voru að segja, gat bara ekki svarað neinu...

fimmtudagur, september 07, 2006

Púkó pokar

Það er ýmsar sparnaðaraðgerðir í gangi hérna, ég var áðan að kaupa mér innkaupapoka sem ég á svo alltaf að taka með mér í búðina svo ég þurfi ekki alltaf að kaupa mér poka. Gott plan, nema þá á maður aldrei poka heima hjá sér til að nota undir rusl, og þá þarf að kaupa þá, og er maður þá ekki bara kominn hringinn? Kona spyr sig... Ég held líka að ég sé að verða búin að opna skápinn undir vaskinum hundrað sinnum og er alltaf jafn hissa á að ruslið sé ekki þar, heldur hangir poki á hurðarhúninum á eldhúshurðinni. Smart. Ég er búin að fá leyfi til að kaupa ruslafötu í Ikea og hafa þetta allavega í fötu á bakvið hurðina þá, ég hef það alltaf á tilfinningunni að þetta sé að fara að detta í gólfið og dreifa eggjaskurn og kjúklingahræjum um allt.
Annars er það helst í fréttum að ég elska Frakkland ennþá en tala ekki frönsku núna frekar en fyrir tveim dögum.
En það er betra að svitna úti en inni, svo ég er farin að leita að stóra garðinum sem mér skilst að ég eigi að geta flatmagað í!

miðvikudagur, september 06, 2006

Nú eða aldrei...

Nú þegar ég er búin að komast að því að skólinn sem ég er að fara í er erfiðari en venjulegir háskólar hérna (hjááálp), og að allt sem ég verð í verður sennilega á frönsku (hjáááááááálp), þá er eins gott að fara að reyna að tækla þetta blessaða tungumál! Fór í gær og keypti frönsku fyrir kjána, Le francais correct pour les nuls, og Becherelle (ekki bara Becherelle sagnabókina sem allir þekkja og elska fyrir reddingu í gegnum um það bil öll frönskupróf á ferlinum, heldur kassa með hljóðfræðibók og málfræðibók að auki!). Að lokum keypti ég svo Eragon á frönsku og er núna, eftir tveggja tíma lestur, búin með þrjár blaðsíður (en kann eftir hann orðin yfir öll hugsanleg vopn, sem er örugglega mjög gagnlegt...).
Ég er að reyna að komast á franskan tíma en það gengur frekar illa, aðallega af því ég get ekki sofnað á kvöldin fyrir hita. Hálfgerður bömmer að það skuli vera svona heitt á næturnar því nýja sængin mín er æðisleg og ég get ekki beðið eftir að geta knúsað hana almennilega, en ekki bara kuðlað henni saman í hrúgu hinumegin í rúminu. Sambýliskonan fer alltaf að sofa kl. 22, og í gær reyndi ég það líka. Það var óhófleg bjartsýni þar sem líkamsklukkan mín hélt greinilega ennþá að kl. væri 20. Sem henni fannst fullsnemmt.
Í dag ætla ég að lesa Eragon og reyna að komast yfir jafnvel eins og tíu blaðsíður. You are my Everest!

mánudagur, september 04, 2006

Eureka!

Silja þessi snillingur var að benda á það í kommenti að símanúmerið mitt væri semsagt með öllu 00 33 677973130. Takk fyrir það! :)

And then there were two

Þá er sambýliskonan mætt á svæðið og hún er alveg eins indæl og tölvupósturinn hennar benti til. Hún talar mest við mig ensku eins og er en er að skipta yfir í frönsku meira eftir því sem líður á daginn og ég skil hana alveg, aðallega af því hún talar mjööög hægt og skýrt. Ég hef allavega engan annan skilið ennþá hérna, nema Tyrkjann sem seldi mér vatnið í gær.
Það er ofsalega heitt þessa fyrstu daga mína, og ég er bara sveitt og klístruð út í eitt. Fór sveitt í Ikea áðan að kaupa mér sæng, og fann þar uppþvottaburstann sem ég var hrædd um að ég þyrfti að láta senda mér að heiman (Mathilde var frekar hissa á gleði minni yfir að hafa fundið bakbursta í sturtuna, og ennþá meira hissa á gleði minni þegar hún komst að því að þetta væri uppþvottabursti). Ég keypti mér líka ýmislegt smálegt, handklæði, rúmföt, skurðarbretti og fleira. Mjög uppbyggileg ferð. Svo keypti ég í matinn og fékk mér franskt símanúmer, en þar sem síminn minn vildi ekki taka við franska kortinu varð ég að kaupa mér síma líka. Hann fékk ég á heilar 9 evrur og er það ljótasta sem ég hef séð lengi:

Númerið í hann er 0677973130, kannski þarf að gera 0 út úr landinu og 33 inn í Frakkland, veit það ekki.
Svo fór ég heim og eldaði. Já, ég sagði það, eldaði. Mat. Sem var ekki góður en allavega ekki vondur! Jei!

sunnudagur, september 03, 2006

Fyrirsætlingar á Slátrarastrætinu

Mig langar að kynna ykkur fyrir karlmönnunum sem ég bý með, nauðug viljug:


Þessir tveir síðustu eru reyndar hluti af mjög ósmekklegu dagatali sem er ennþá ósmekklegar staðsett:


Mathilde og Mathilde eru semsagt ofsa indælar en ekki mjög smekklegar í skreytingum. Ég hef grun um að nokkrir þessarra manna munu hverfa með dularfullum hætti á næstunni...

laugardagur, september 02, 2006

Mætt til Frans! Sveeeeiiiiitt...

Ég komst á leiðarenda! Hvern hefði grunað... Gekk samt ekki alveg snuðrulaust en það var nú alveg viðbúið. Hérna koma myndir sem ég veit að mamma mín vill sjá ekki seinna en í gær:


Eldhúsið séð frá herberginu mínu

Baðherbergið (þvooottavél!)

Sturtan mín (hrein!)


Herbergið mitt séð frá eldhúsinu

Herbergið mitt séð frá glugganumÚtsýnið beint út um svefnherbergisgluggann minn


Og pínu á ská út um hann

Íbúðin mín er algerlega stærri og hreeeeiiiiinni en ég átti von á, og hingað til hefur enginn verið dónalegur við mig eins og allir vöruðu mig við. Þvert á móti keypti ein indæl þýsk kona fyrir mig lestarmiðann í dag því ég gat ekki skilið maskínuna, og fylgdi mér svo alla leið á pallinn minn án þess að vera einu sinni að fara að taka lest sjálf. Þýskur strákur setti farangurinn minn fyrir mig í rútuna, og tók hann út fyrir mig aftur. Frönsk stúlka seldi mér miðann sinn í traminn hérna í Strasbourg áðan því ég fattaði ekki að ég átti að vera búin að kaupa hann áður en ég fór niður alla 18 rúllustigana með farangurinn minn (og ég sá ekki fyrr en seinna að hún rukkaði mig um minna en vélin hefði gert!). Kanadískur nágranni minn kom svo niður að taka á móti mér þegar ég fann íbúðina og bar þungu töskuna mína upp langa og þrönga stigann minn. Sambýliskona mín er fjarverandi en skildi eftir bók um Strasbourg sem hún er búin að merkja við góða hluta í, setti sængina sína í rúmið mitt svo mér yrði ekki kalt þar til Ikea opnar á mánudaginn og skildi eftir miða um að ég mætti endilega borða matinn hennar og nota tölvuna hennar að vild. Reynsla mín af fólkinu á svæðinu hingað til er vægast sagt góð.