Nú er af sem áður var, að ég eldaði kjúklingabringur og hafragraut í öll mál á Slátrarastrætinu. Sambýlingum mínum hefur tekist að spilla mér og nú er ástandið svona: Croissant og espresso í morgunmat á röltinu á leiðinni í skólann, baguette með camembert (!) í hádegismat og hinn helmingurinn af baguettinu með meiri camembert og rauðvínsglasi í kvöldmat. Ég verð feheit þegar ég kem heim.
Í gær fórum við nokkur að skoða Evrópustofnanirnar sem eru hér því það var opinn dagur. Það var líka syndaflóð. Við Jacob hjóluðum á svæðið regnhlífalaus og litum svona út þegar við komum á áfangastað:
Ég veit ekki hversu vel það skilaði sér á myndunum en við hefðum sennilega ekki verið neitt blautari ef við hefðum synt í ánni á áfangastað í stað þess að hjóla meðfram henni (sést kannski best á buxunum hans, ööörlítil litaskil þar). Við reyndum að vinda fötin okkar eins og við gátum en eyddum samt deginum í stofnanaskoðun gjörsamlega frosin, tveir litlir ísmolar í ráðstefnusölum... Þegar heim var komið (eftir blóðugan slag um sturtuna) vorum við of frosin til að fara í bíó eins og planað var, og sátum þess í stað öll þrjú inni hjá Mathilde í myrkrinu og horfðum á vídjó, mjög indælt kvöld.
Í kvöld skellti ég mér bara ein í bíó á einhverja franska mynd, bara til að æfa mig, og fór svo á La Java að hitta hina Erasmusana. Það var svo heitt að ég kom út með krullur. Smart. Á leiðinni heim minnti Jacob mig á að hann er að fara til Þýskalands á miðvikudagsmorgun og þaðan til Portúgal að ná í Matthildina sína, og kemur ekki aftur fyrr en í byrjun október. Það er hræðileg tilhugsun þar sem við erum búin að vera algjörar samlokur hérna, veit ekki hvað ég á að gera á meðan heiðursbróðir minn nýi er í burtu! (Mögulega læra kannski, ef í harðbakkann slær...).
Evrópustofnanaskoðun (sennilega skilar blauthundalyktin sér ekki á myndunum, en þannig var ástandið nú samt):
Engin ummæli:
Skrifa ummæli