Í morgun byrjaði skólinn. Ég ákvað að vakna snemma og ná að fara út að hlaupa fyrir skóla, sem ég og gerði en ég hljóp mér til óbóta og uppskar svo heiftarlegan magakrampa að ég þurfti að fara í sturtu í fósturstellingunni og borða hafragrautinn minn úr Tupperware á leiðinni í skólann. Ég dró nýja uppáhaldsvin minn hann Jacob frá Þýskalandi með mér í skólann þó svo hann sé ekki einu sinni Erasmus skiptinemi heldur bara hérna til að vera lærlingur hjá einhverju sjónvarpsfyrirtæki, en það er svo gott að þurfa ekki að fara einn og hann lá svo vel við höggi þessi elska. Og nei, ég er ekki búin að ná mér í Þjóðverja, heldur er hann kærasti þeirrar Matthildar sem er enn í Portúgal og ég er að passa hann heima hjá mér fyrir hana. Sem er vel, því hann er algjör gersemi, og ég dreg hann með mér útum allt.
Við fundum loksins skólann og skriðum inn í þriggja tíma fyrirlestur og vesen á frönsku um hversu mörgum myndum af okkur og afritum af vegabréfunum og tryggingaskírteinunum okkar við þurfum að skila á hversu margar skrifstofur og hvenær til að vera skráð í skólann og allskonar vesen, þetta er mesta skriffinnskubrjálæði sem ég hef lent í! Ég skráði mig svo í hægferð í frönsku því ég er verst af öllum í 80 manna hópnum. Námskeiðið byrjaði ekki fyrr en kl. 14 svo við skelltum okkur í að skoða háskólagymmið, sem er merkilegt fyrir þær sakir að við megum ekki æfa þar fyrr en við erum búin að fá vottorð frá lækni uppá að líkurnar á að við fáum hjartaáfall á brettinu séu ásættanlegar. Skriiiffinnska!
Við mættum galvösk í þriggja klukkustunda frönskutímann klukkan tvö þar sem hr. Meyer byrjaði á að segja okkur að hann ætlaði hreint ekkert að kenna okkur frönsku þar sem það væri hvort eð er of seint fyrir okkur að læra hana núna ef við kynnum hana ekki nú þegar. Meira man ég ekki því hjartað í mér stoppaði um þetta leyti af áfallinu. Mér er sagt að hann hafi svo notað þessa þrjá tíma til að kenna okkur meginatriði franska stjórnkerfisins Á FRÖNSKU og ætli sér að halda því áfram næstu tvær vikurnar. Jeminn eini.
Þá var ég ekki enn búin að borða neitt síðan ég skóflaði í mig hafragrautnum góða, og var um það bil að deyja úr sulti. Við vorum næst dregin á barinn Bartholdi þar sem okkur voru gefin hvítvínsglös og skálað var fyrir okkur. Ég varð full af tveimur sopum vegna áfalls og hungurs og vakti athygli fyrir það að "þekkja alla". Ég er greinilega ofurskiptinemi, og það alveg óvart. Úpsí.
Ég skrönglaðist því næst í búð og er að elda mér karríkjúkling með brúnum hrísgrjónum, sem ég ætla líka að taka með í nesti á morgun til að geta allavega fengið næsta taugaáfall vel nærð!
mánudagur, september 11, 2006
Strembinn dagur í lífi mállausa skiptinemans
Birt af Unnur kl. 18:48
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli