miðvikudagur, september 13, 2006

Í gær...

...stofnaði ég reikning í banka hérna. Það tók ekki nema einn og hálfan tíma, og mér leið eins og ég væri að flytja viðskipti Microsoft eins og þau leggja sig yfir í bankann. Fyrst kom bindisklæddur maður og fór með mig yfir í risastóran fundarsal fyrir okkur tvö bara. Hann færði mér café au lait og sódavatn og sagði mér hvað hann gæti boðið mér (á frönsku, ég er hetja). Svo spjallaði hann heilmikið um borgina og um Ísland, sagði mér frá konunni sinni og börnunum og var hinn vinalegasti. Að því loknu lýsti ég því yfir að ég vildi opna litla sakleysislega reikninginn minn hjá honum og þá var ég send til stúlku sem átti að sjá um það alltsaman. Hún reyndist líka hin vinalegasta og ég kann ævisöguna hennar núna að mestu líka. Það undarlega er að þessi banki er of góður til að vera sannur, ég átta mig bara ekki á því hvar svindlið er... Ég fæ franska tryggingu á öllu, meira að segja fartölvunni og fötunum mínum, fyrir eina evru fyrsta árið þó ég ætli yfirlýst að hætta viðskiptum eftir að árið er liðið. Ég fæ ókeypis kreditkort og allar færslur og allt af því er frítt fyrsta árið líka. Ég fæ reikning með 55 evru innistæðu, af því bara. Ég var mjög tortryggin og spurði hvort að vextirnir á reikningnum væru í mínus, en þeir eru 4% í rétta átt. Ég spurði hvort það væri allt í lagi að hætta eftir árið og hann sagði að það væri ekkert mál, og það kostaði ekkert að láta loka reikningunum og hætta viðskiptum við bankann. HVAR ER SVINDLIÐ?
Annars get ég ekki lýst því hvað ég er búin að snúast marga hringi í kringum sjálfa mig við að skila hinum og þessum pappírum hingað og þangað síðustu daga, ljósrita tryggingakort og vegabréf, taka passamyndir (er búin að þurfa að skila af mér 8 passamyndum hingað til og ekki er allt búið enn!), láta sambýliskonur og íbúðareiganda skrifa uppá hitt og þetta, fá skjöl frá bankanum til að fá styrk frá franska ríkinu, fá skjöl frá sambýliskonunum til að geta opnað reikning í bankanum, þetta er allt í hnút! Mér dettur alltaf í hug þrautin úr Ástríki og þrautunum 12 þegar þeir þurftu að eiga við bjúrókratana, þetta er svona svipað.
Annars held ég að ég hafi fengið snert af taugaáfalli í skólanum í dag þegar kennarinn minn, sem er mest ógnandi maður sem ég hef kynnst hingað til, uppgötvaði (þó ég þættist vera mjög upptekin við að stara á borðið mitt) að ég væri frá Íslandi og yfirheyrði mig um það, hversu margar þingdeildir eru, hvernig er kosningakerfið, hver hefur vald til að leysa upp þing og hvenær, hver eru helstu þjóðfélagsvandamálin, hver eru áhrif þess að herinn sé að fara, eru flokkarnir skýrt settir niður á hægri/vinstri ás, blablabla, og þessu átti ég að geta svarað á frönsku! Titraði langt fram eftir degi. Ég er algjörlega á hundasundi í djúpu lauginni hérna...

Engin ummæli: