Á miðvikudagskvöldið var haldið partí til að bjóða alla nemendur IEP velkomna til nýs skólaárs. Ég fór í fyrirpartí með Matthildinni minni og fullt af öðrum Frökkum, mjög velkomið hlé á endalausum skiptinemasamkomum. Að vera Erasmus er eins og að vera í sértrúarsöfnuði, við eigum bara samskipti hvert við annað. (Reyndar eru Frakkarnir mjög viljugir að tala við Erasmusana, en Jacob sagði mér af hverju það væri. Hér er Erasmus kallað Orgasmus. I rest my case.) En ég kynntist allavega fullt af frönskum stelpum og hommum. Af hverju það voru engir gagnkynhneigðir strákar í partíinu veit ég ekki, en við spjöruðum okkur allavega fínt án þeirra. Við röltum svo yfir í stóra partíið þar sem við dönsuðum svo mikið að ég gat undið hárið á mér inná baðherberginu. Og fötin mín þegar ég kom heim. En það var gaaaman.
Ég fór svo í tíma í nútímadansi í háskólagymminu í gær, eða eins og ég kýs að kalla það "nútímarúlliogkáfi". Í einn og hálfan tíma rúllaði ég mér á gólfinu eins og ánamaðkur og nuddaði mér utaní hina ánamaðkana. Það var vandræðalegt. Kennarinn ákvað að gera þetta ekkert auðveldara og nota mig alltaf sem dæmi í alla sýnikennslu. Þannig kom það til að fyrir framan fullan leikfimisal af frönsku dansfólki þurfti ég að góla eins hátt og ég gat "Je m´appelle Unnur!" og dansa á meðan lítinn dans sem mér fannst tjá hver ég væri. Þannig kom það líka til að ég þurfti, enn fyrir framan fullan sal af fólki, að dansa þvert yfir salinn allan (með tilheyrandi ánamaðkarúlli á leiðinni, þar sem það var þemað), gólandi eitthvað orð af handahófi og dansandi hvað sem mér dytti í hug á leiðinni. Ég valdi "hreindýr". Enginn annar þurfti að gera þetta, held að kennararnum hafi bara fundist fyndið að pína útlendinginn. Ég grét inní mér.
Á morgun er ég svo skráð í tíu og hálfs tíma fjallgöngu. Fyrsti ánamaðkurinn til að klífa fjall.
föstudagur, september 29, 2006
Ánamaðkur í útlöndum
Birt af Unnur kl. 16:01
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli