miðvikudagur, september 06, 2006

Nú eða aldrei...

Nú þegar ég er búin að komast að því að skólinn sem ég er að fara í er erfiðari en venjulegir háskólar hérna (hjááálp), og að allt sem ég verð í verður sennilega á frönsku (hjáááááááálp), þá er eins gott að fara að reyna að tækla þetta blessaða tungumál! Fór í gær og keypti frönsku fyrir kjána, Le francais correct pour les nuls, og Becherelle (ekki bara Becherelle sagnabókina sem allir þekkja og elska fyrir reddingu í gegnum um það bil öll frönskupróf á ferlinum, heldur kassa með hljóðfræðibók og málfræðibók að auki!). Að lokum keypti ég svo Eragon á frönsku og er núna, eftir tveggja tíma lestur, búin með þrjár blaðsíður (en kann eftir hann orðin yfir öll hugsanleg vopn, sem er örugglega mjög gagnlegt...).
Ég er að reyna að komast á franskan tíma en það gengur frekar illa, aðallega af því ég get ekki sofnað á kvöldin fyrir hita. Hálfgerður bömmer að það skuli vera svona heitt á næturnar því nýja sængin mín er æðisleg og ég get ekki beðið eftir að geta knúsað hana almennilega, en ekki bara kuðlað henni saman í hrúgu hinumegin í rúminu. Sambýliskonan fer alltaf að sofa kl. 22, og í gær reyndi ég það líka. Það var óhófleg bjartsýni þar sem líkamsklukkan mín hélt greinilega ennþá að kl. væri 20. Sem henni fannst fullsnemmt.
Í dag ætla ég að lesa Eragon og reyna að komast yfir jafnvel eins og tíu blaðsíður. You are my Everest!

Engin ummæli: