Í dag fórum við hér á Slátrarastrætinu seint á fætur því gærkvöldið var aðeins lengra en áætlað var. Mathilde var í vinnupartíi og við Jacob á fyrrnefndu bátaskralli, þar sem allir voru hauslausir nema við, mjög smart. Við vorum samt ekki komin heim fyrr en um hálffjögur, og þá tóku við heimspekilegar umræður við eldhúsborðið fram eftir öllu. Mathilde skreið svo heim um sjöleytið og tilkynnti okkur það að hún hefði eignast kærasta í partíinu. Mér líst vel á þetta skýra franska kerfi, þar sem maður veit eftir eitt partý hvað er í gangi, á meðan maður er heima eftir hálfs árs hitting ennþá að velta því fyrir sér hvort maður eigi kærasta eða ekki. Kærastinn nýi heitir semsagt Kevin og er samkvæmt lýsingu "í framan eins og bangsi". Við Jacob neitum að kalla hann neitt annað en Teddy, og fáum því víst aldrei að hitta hann.
Þegar við loksins skriðum á fætur öll skelltum við Jacob og Flo okkur á nýlistasafnið hér í borg, og skemmtum okkur konunglega, sérstaklega í kaffiteríunni:
Við áttum svo að hitta alla Erasmusana í Orangerie garðinum í lautarferð þar sem hver þjóð áttu að koma með hefðbundinn rétt frá heimalandi sínu. Mér láðist að taka með mér íslenskan mat og datt ekkert í hug sem ég gat búið til, svo ég sleppti því bara og ætlaði að fá að fljóta með í þýska salatinu hans Jacobs, en eftir þriggja tíma safnarölt nenntum við ómögulega í lautarferðina og ákváðum þess í stað að hafa okkar eigin við eldhúsborðið heim hjá okkur (með aaalltof mikið af salati auðvitað). Ég eldaði kjúkling og hrísgrjón til að hafa með salatskrípinu og vínegrettunni sem því fylgdi, og Mathilde lagði til rauðvín og svo Camembert, geitaost og Roquefort í eftirrétt. Þessu var svo fylgt eftir með espressobolla a lá Jacob. Við skemmtum okkur konunglega þríeykið við kertaljós og kósýheit:
Og svo tókum við til við ostaátið, og hærregud hvað það var nú gott:
Mathilde er formlega búin að gefast upp og farin að sofa, og nú standa yfir samningaviðræður um hvort við hin nennum út úr húsi eða ekki, ég held samt að það endi með því að við gerum ekki nokkurn skapaðan hlut, ég er allavega svo södd að ég get varla setið, úff...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli