fimmtudagur, júlí 31, 2003

Duncan minn dafnar vel samkvæmt síðustu fréttum, og nú er komið í ljós að barnið er snillingur líkt og móðir hans. Einkunnirnar komu í dag og þær eru allar á bilinu 8.8 til 9.4 og geri aðrir betur. Til lukku Duncan, húrra, húrra, húrra! (Það kom líka ný mynd af honum nema hún er næstum alveg eins og myndin frá í fyrra, hef þá hjá ABC sterklega grunaða um að hafa bara tekið 10 myndir síðast og ætla svo að senda þær á ársfresti... samsæri...)

mánudagur, júlí 28, 2003

Einni Frakklandsferð og tveimur Víkurferðum seinna... Og hættið að skamma mig fyrir að skrifa sjaldan, ég skrifa bara þegar mig langar til takk fyrir, og ekki mínútunni fyrr! Ég skal nú samt játa að ég er hvorki búin að vera dugleg að skrifa hér né bara hafa samband við félagana yfirleitt, og biðst ég hér með afsökunar.
Frakkland stóð alveg fyrir sínu, þema ferðarinnar virtist mér vera að klifra upp í alla turna, vita og aðrar byggingar sem ögra þyngdaraflinu og lærvöðvunum og borða svo eins mikið og er líkamlega gerlegt. Og ég stóð mig eins og hetja, hef séð allt sem er þess virði að sjá í þessum landshluta bæði af jafnsléttu og ofan frá, hlustaði samviskusamlega á það hvernig reipi hafa verið búin til í Frakklandi frá upphafi, hvernig skútur virka og hver drap hvern, hvenær og af hverju í La Rochelle í gamla daga, allt á því illskiljanlega tungumáli frönsku. Ég fórnaði sjálfsvirðingunni fyrir ættjarðarástina og gólaði íslensk þjóðlög eins og lífið lægi við á "international night" og varð full af einum litlum Heineken í París. Geri aðrir betur.
Ferðin var frábær og ég kynntist svo mikið af góðu fólki að ég veit ekki hvað ég á að gera við það alltsaman, en verð nú samt að segja að eftir svona ferð skilur maður hvað það er ómetanlegt að geta deilt því sem maður sér með fólki sem skilur húmorinn manns og þekkir mann nógu vel til að maður þurfi ekki allan daginn að vera að hafa áhyggjur af því að einhver hafi misskilið mann.
Franska nafnið mitt er Renée, hópurinn var ekki lengi að ákveða að við ungfrú Zellwager hefðum verið aðskildar við fæðingu og það er víst auðveldara að muna en Unnur. Unnur á tvo bræður, Renée á allavega 5 stóra bræður. Ég var semsagt svolítið grunlaus um hættur franskra stórborga og vakti með rauli og valhoppi upp stórabróðurstilfinningar í öllu karlkyns í hópnum, sem hljóp á eftir mér skelfingu lostið og sagði "ekki gera þetta", "ekki svara þessu" og "passaðu þig á þessu" við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Þeir fóru líklega allir heim með hækkaðan blóðþrýsting blessaðir en stóðu sig vel engu að síður, og voru til margra hluta nytsamlegir, til dæmis til að drepa köngulærnar... foj... Ég komst líka að því að útlendingar eru hallærislegir upp til hópa sem hentaði mér ágætlega þar sem það gerði mig að "stíliseruðustu" manneskjunni í hópnum og var ég því fljótlega gerð að ráðgjafa hópsins í sambandi við smekklegheit í klæðaburði. Hihi. Það getur ekki endað vel...

miðvikudagur, júlí 23, 2003

Til þeirra sem ekki fengu tölvupóstinn:
Kæru félagar.
Mér þykir leitt að þurfa að tilkynna að minn elskulegur Lárus var hnepptur í gíslingu síðastliðið föstudagskvöld í þjófabælinu Þorlákshöfn og hefur ekkert til hans spurst síðan. Engar kröfur um lausnargjald hafa borist og vonin um að endurheimta gamlan félaga dofnar með hverri mínútunni sem líður.
Blóm og kransar engan veginn afþakkaðir.
Af virðingu við minningu Lárusar sé ég mér ekki fært að fá annan til að fylla í skarð hans samstundis.
Því vil ég benda þeim sem vilja votta mér samúð í sorg minni eða þurfa að ná í mig vegna annarra mála á hina úreltu uppfinningu "heimasímann" sem ykkur rámar kannski í úr æsku. Eftir dálitla rykhreinsun hef ég komist að því að hann virkar enn og svarar enn sínu gamla kalli, 5667662.
Með sorg í hjarta,
Unnur.

fimmtudagur, júlí 03, 2003

5 dagar í Frakkland! Ég varð að lokum að horfast í augu við þá staðreynd að það væri nauðsynleg öryggisráðstöfun að fá sér kreditkort fyrir ferðina, svona ef eitthvað skrautlegt og óviðbúið kæmi uppá (sem það gerir yfirleitt þá daga sem ég á annað borð fer útúr húsi...). Svo ég kyngdi stoltinu og fyllti út umsóknareyðublaðið með það sterklega á tilfinningunni að þetta væri upphafið að endalokunum. Sem það líklega er. Vildi bara koma þessu frá mér ef ske kynni að ég hyrfi í útlandinu. Death by Visa...
Annars hef ég tekið þá dramatísku ákvörðun að borga greiðsluseðilinn frá Háskólanum. Ekki með Visa. Sem þýðir að frá og með morgundeginum verður þetta ekki aftur tekið, le moufle mun breyta verkfræðideildinni eins og Palli breytti Júróvissjón. Mínus latexið... Úff, hvernig tilfinning ætli það sé að faaalla, með 4.9, tvítvítvítvítvítvííí?