mánudagur, júlí 28, 2003

Einni Frakklandsferð og tveimur Víkurferðum seinna... Og hættið að skamma mig fyrir að skrifa sjaldan, ég skrifa bara þegar mig langar til takk fyrir, og ekki mínútunni fyrr! Ég skal nú samt játa að ég er hvorki búin að vera dugleg að skrifa hér né bara hafa samband við félagana yfirleitt, og biðst ég hér með afsökunar.
Frakkland stóð alveg fyrir sínu, þema ferðarinnar virtist mér vera að klifra upp í alla turna, vita og aðrar byggingar sem ögra þyngdaraflinu og lærvöðvunum og borða svo eins mikið og er líkamlega gerlegt. Og ég stóð mig eins og hetja, hef séð allt sem er þess virði að sjá í þessum landshluta bæði af jafnsléttu og ofan frá, hlustaði samviskusamlega á það hvernig reipi hafa verið búin til í Frakklandi frá upphafi, hvernig skútur virka og hver drap hvern, hvenær og af hverju í La Rochelle í gamla daga, allt á því illskiljanlega tungumáli frönsku. Ég fórnaði sjálfsvirðingunni fyrir ættjarðarástina og gólaði íslensk þjóðlög eins og lífið lægi við á "international night" og varð full af einum litlum Heineken í París. Geri aðrir betur.
Ferðin var frábær og ég kynntist svo mikið af góðu fólki að ég veit ekki hvað ég á að gera við það alltsaman, en verð nú samt að segja að eftir svona ferð skilur maður hvað það er ómetanlegt að geta deilt því sem maður sér með fólki sem skilur húmorinn manns og þekkir mann nógu vel til að maður þurfi ekki allan daginn að vera að hafa áhyggjur af því að einhver hafi misskilið mann.
Franska nafnið mitt er Renée, hópurinn var ekki lengi að ákveða að við ungfrú Zellwager hefðum verið aðskildar við fæðingu og það er víst auðveldara að muna en Unnur. Unnur á tvo bræður, Renée á allavega 5 stóra bræður. Ég var semsagt svolítið grunlaus um hættur franskra stórborga og vakti með rauli og valhoppi upp stórabróðurstilfinningar í öllu karlkyns í hópnum, sem hljóp á eftir mér skelfingu lostið og sagði "ekki gera þetta", "ekki svara þessu" og "passaðu þig á þessu" við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Þeir fóru líklega allir heim með hækkaðan blóðþrýsting blessaðir en stóðu sig vel engu að síður, og voru til margra hluta nytsamlegir, til dæmis til að drepa köngulærnar... foj... Ég komst líka að því að útlendingar eru hallærislegir upp til hópa sem hentaði mér ágætlega þar sem það gerði mig að "stíliseruðustu" manneskjunni í hópnum og var ég því fljótlega gerð að ráðgjafa hópsins í sambandi við smekklegheit í klæðaburði. Hihi. Það getur ekki endað vel...

Engin ummæli: