miðvikudagur, júní 28, 2006

IKEA-væðing

Við Ása skelltum okkur í IKEA í gær því enginn má flytja að heiman án viðkomu þar. Við fundum allt sem mig vantaði og fullt sem mig vantaði ekki en keypti samt, en hinsvegar fannst ekkert sem Ásu vantaði. Misjafnt mannanna lán og allt það. Hér kemur allavega alveg ótrúlega smáborgaraleg og döll vörutalning: Ég keypti mér:

Ofsa fína og marglita kertastjaka

Lampa (en enga peru...)

Diska og skálar (diska upp á sportið og skálar undir haaafragraut)

Meira að segja bjórglös! (undir bjór...)

Einnig keypt en ekki myndað: Sængurföt, lak, skurðarbretti, hnífur, þvottaklemmur og herðatré. Uppgötvaði líka að ég er vatnsglasasnobbari, engin vatnsglös í IKEA voru nógu góð fyrir mig, er hinsvegar búin að finna þau í Duka í Kringlunni og ætla að kaupa þau á morgun. Ég á allskonar dótarí! Jei!
Þessi færsla var bara fyrir mömmu held ég, allir hinir verða bara að afsaka þessa hrösun í ruglið.

mánudagur, júní 26, 2006

Lady Marmalade til bjargar

Ég geri mér grein fyrir því að ég er enginn ofur-bloggari. Og ég sætti mig við það. Amen.
Mér er held ég að verða búið að takast að senda þeim í Strasbourg um það bil allt sem þeir vilja fá frá mér til að ég teljist góður og gildur nemandi hjá þeim næsta vetur, þar á meðal mynd af mér (þar sem ég er 19 ára og fannst zoolander töff), nöfn og númer á kúrsunum sem ég vil fara í (sem mér var sagt að væri mjög nauðsynlegt þangað til ég sendi þeim það og var þá sagt að listinn sem þeir sendu mér væri úreltur og ég þyrfti ekki að velja kúrsa fyrr en ég kæmi út), blóðprufu, fingraför og hár úr hala mínum. Nákvæmir þarna í Frans. Það eina sem allir vara mig alltaf við sem hafa reynslu af svæðinu er að það sé alveg hræðilega ofsalega kalt þarna á veturna, svo ég er farin að hamstra hlífðarföt að góðra íkorna sið. Ef einhver á föðurland sem hann vill losna við þá er ég að leita. Vitið þið hvað föðurlönd kosta??? Þetta er glæpur. Ég hinsvegar get ekki sofið hérna heima á veturna fyrir kulda, og þar sem húsin þarna úti eru mun verr upphituð og kuldinn rakari þá býst ég við því að þurfa annaðhvort að klæða mig í heimskautsfaragallann fyrir svefninn eða fá einhvert Frakkagrey til að hita bólið mitt fyrir mig. Það vill svo heppilega til að eina setningin sem ég er með á kristaltæru í frönskunni er einmitt "voulez-vous couchez avec moi ce soir?" svo það ætti alveg að reddast.

laugardagur, júní 10, 2006

Fitness dúett

Ég trúi því ekki að ég hafi í síðasta fréttapistli gleymt að minnast á heilsuátak Unnsu og Gunnsa. Nú þegar ég er á leið til Frakklands og Gunnar Helgi orðinn löggildur listamaður með gráðu og allt (jei Gunni!) þá var ekki um annað að ræða en að flikka aðeins upp á lúkkið, svona fyrir allar Séð og Heyrt myndatökurnar hans og myndatökur frönsku aðdáandanna minna. Svo við fengum einkaþjálfaranema til að taka okkur í gegn ókeypis, því við erum svo hagsýn, og erum á góðri leið með að breytast í fyrirmyndirnar okkar, Barbí og Ken. Vandræðalegt samt um daginn þegar við vorum saman á æfingu og ætluðum í sund á eftir en týndum hvoru öðru í gímaldinu sem er kallað Laugar og eftir að hafa ráfað um húsið heillengi og leitað þá fórum við bæði í sund, á sama tíma í sömu laug, en hittumst ekki. Þetta. Hús. Er. Of. Stórt.

föstudagur, júní 09, 2006

Naglasúpa

Smá bloggleti að hrjá mig þessa dagana, enda ýmislegt búið að vera að gerast. Ég er flutt í 101 og það er nú meiri hamingjan, hjólaði meira að segja í vinnuna í morgun og það hef ég ekki getað gert síðan ég var að vinna á Hlein! Nú er reyndar hafin alveg æðislega leiðinleg vinnuhelgi, þarf meira að segja að vinna af mér Kvennahlaupið, sem mér finnst skítt í meira lagi. En ég verð víst ennþá kona í næstu viku og hleyp þá bara mitt eigið kvennahlaup í blíðunni sem ég er búin að panta. Eini gallinn sem ég sé á nýjum híbýlum mínum er að ég bý alveg upp við kirkjugarðinn og pöddulífið þar er bæði fjölskrúðugt og að því er virðist félagslynt. Silfuskotturnar á baðherberginu halda stundum samkomur með maurum og köngulóm og einhvers konar bjöllum, og þá vantar mig einhvern til að fjarlægja samkomugesti og flysja mig niður úr loftinu þar sem ég hangi stjörf á klónum. Býður sig einhver fram?
Um síðustu helgi kvaddi ég gæludýrin og skellti mér í sveitina með Árna frænda. Ég var búin að gleyma því hvað kindur eru skemmtilegar, en náði að rifja upp nokkra gamla takta í fjárhúsunum og skemmti mér konunglega. Fór líka í heimsóknir á Þórshöfn, í Sel að kíkja aðeins á varpið og í messu með ömmu minni. Á leiðinni aftur í bæinn komum við svo við hjá karli föður mínum á Akureyri, og þáðum tebolla í nýju, fínu íbúðinni hans. Var allt í allt bara frábær ferð og ég þakka frændanum hérmeð kærlega vel fyrir mig!
Skólinn í Strasbourg er búinn að senda mér vilyrði fyrir skólavist þar næsta vetur, sem er mjög gott nema það er allt fullt á skólagörðunum þeirra, sem þýðir að ég þarf að leigja mér húsnæði þar blint á almenna markaðnum. Hjálp! Ég á eftir að búa í frönskum skókassa. Ég er ferlega glöð að hafa ekki skráð mig í meiri vinnu í sumar því nú hef ég þrjá mánuði til að verða mellufær í frönsku, og líkurnar á að það takist eru hverfandi miðað við hversu lítið mér tókst að læra þessi 5 ár af gagnfræða- og menntaskólafrönsku. Gæti ekki einu sinni pantað mér kaffi í Frakklandi eins og er. Öll hjálp vel þegin.
Oh, ekki hægt að blogga skemmtilega eftir svona langt hlé, þá eru bara fréttatilkynningar.