miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Lögfræðingsgerpið strikes again

Í dag er sorgardagur á Slátrarastrætinu því í kvöld þarf ég að fara og kveðja uppáhaldsvin minn hér í Strass (og þann eina sem mér finnst fyndinn) hann Jacob, sem er að flytja aftur heim til Þýskalands. Ég á eftir að sakna hans ægilega. Snökt. Vil ekki hugsa um það alveg strax.
Ég sat á útikaffihúsi og var að lesa í dag þegar það barði allt í einu maður í borðið mitt og lét mig næstum fá hjartaáfall. Ég leit upp og sá að þetta var lögfræðingsgerpið sem ég er alltaf að rekast á útum allt og lætur mig alltaf fá símanúmerið sitt og ég hringi aldrei í. Það skondna við það er að í hvert sinn sem ég hitti hann lætur hann eins og við höfum aldrei hist áður, ég sé ekki með númerið hans á hundrað miðum um alla íbúð og sé ekki mjög greinilega að hunsa hann. Nema í dag, þá lemur hann í borðið mitt og rýkur í burtu í fússi. Ég segi ekki neitt og leiði þetta bara hjá mér. Fimm mínútum seinna kemur hann aftur, kynnir sig og lætur eins og við séum að hittast í fyrsta sinn. Er maðurinn eitthvað geðveikur eða hefur orðrómurinn um hvað ég er hrikalega ómannglögg í alvöru náð alla leið til Frakklands?

föstudagur, febrúar 23, 2007

Unnur í árabát

Þessa viku í þinginu hef ég notið þess ennþá meira en venjulega að labba í vinnuna (skóli er vinna í þessarri færslu, því það hljómar betur). Það er sennilega vegna þess að ég elska ána við hliðina á húsinu mínu, og þingið er ca 40 mín neðar við þessa sömu á, svo ég fylgi henni bara alla leið í vinnuna. Alla vikuna er ég líka búin að hugsa um það hvað það væri ennþá skemmtilegra að eiga lítinn árabát og geta siglt í vinnuna. Ég gæti látið mig fljóta með straumnum í vinnuna á morgnana og róið svo heim til að fá útrás eftir erfiðan vinnudag (eða gripið í bátinn hjá strákunum sem æfa róður á ánni og látið þá draga mig heim...). Það eru litlar bryggjur bæði við húsið mitt og við Evrópuþinghúsið, svo þetta er alveg gráupplagt. Fer á framtíðarplanið; búa á Slátrarastrætinu, vinna í þinginu, sigla í vinnuna (sennilega yrði þá "koma Íslandi í ESB" að vera á listanum líka svo ég ætti séns í að fá vinnu í þinginu...).
Í dag kynntum við verkefnin sem við erum búin að vera að vinna í vikunni og það gekk bara vel, ég kom reyndar alltof seint því mér var rænt af blindum manni á leiðinni, en okkar hópur var fimmti í röðinni svo það kom ekki að sök. Ég var nefnilega bara að labba í sakleysi mínu meðfram ánni og mjög upptekin við dagdrauma þegar það greip blindur maður í mig og bað mig að hjálpa sér að komast í vinnuna (það er svona að ganga í skóm sem gera læti). Það er nefnilega verið að grafa upp allar gangstéttar eins og er og holur og skurðir um allt, ekki mjög blindravænt sennilega. Hann reyndist vera prófessor í háskóla nálægt mínum (en ekkert nálægt þinginu) svo ég fylgdi honum þangað og við spjölluðum heilmikið. Þegar ég var búin að skila honum í skólann hljóp ég eins og líf mitt lægi við niður í þing, og sagði öryggisvörðunum að þeir yrðu að hleypa mér inn þó ég væri sein, mér hefði verið rænt af blindingja og það væri ekki mér að kenna. Þeir tóku þá skynsamlegu ákvörðun að biðja ekki um frekari skýringar heldur hleypa mér bara inn, móðri og sveittri og úfinni (en í kjól og stígvélum því ég ætlaði að vera svo fín og sæt á kynningunni).
Þá er þessarri fínu þingviku líka lokið.

mánudagur, febrúar 19, 2007

Evrópuormur

Þessa vikuna er ég flutt með eplið mitt og reglustikuna í Evrópuþinghúsið hér í Strass, þar sem við fáum að þykjast vera þingmenn í fimm daga. Ég er nógu mikill lúði til að finnst það ótrúlega skemmtilegur leikur. Ég er ein í þeim klúbbi eins og er. Hópurinn minn á að einbeita sér að því að nota Evrópusambandið til að viðhalda friði (frið, friðnum... fallbeygingarvandræði, hjálp!) innan aðildarríkjanna og stuðla að heimsfriði. Auðvelt verkefni. Í dag vorum við beðin um að fara heim og tala við þá vini okkar sem eru í hernum og biðja um þeirra sýn á málið og hugmyndir. Þá áttaði ég mig enn og aftur á því hvað ég er heppin að koma frá landi þar sem hvorki er her né herskylda, ég á bara einn vin í hernum og hann er í þeim austurríska. Hann er friðarsinni en er undir herskyldu, svo hann ákvað að skrá sig bara í konunglegu lífvarðasveitina (eða hvað það nú heitir þegar maður stendur grafkyrr fyrir framan merkilegar byggingar með skrítinn hatt og má ekki brosa þegar fólk tekur myndir með manni). Hann hinsvegar krossaði í vitlausan reit á skráningarblaðinu sínu og endaði í einhverskonar ofurnaggasveit, og var sendur í þjálfun sem byggir meðal annars á því að skríða í drullu undir gaddavír og hoppa yfir hinar og þessar hindranir eins og verðlaunahross á meðan lítill maður með byssu segir þér að þú sért ómerkilegur ormur sem eigir ekki skilið að hoppa yfir svona fínar hindranir. Í augnablikinu er hann einhversstaðar uppá fjalli þangað sem hann var sendur hálfnakinn með hnífinn sinn og á að æfa sig í að deyja ekki á meðan litlu mennirnir með byssurnar finna uppá nýjum pyntingaraðferðum. Georg er hinsvegar harðlínugrænmetisæta og í stað þess að drepa kanínur með hnífnum sínum og éta þær mun hann mjög líklega nota hann til að ógna þeim og ræna gulrótunum þeirra. Ég get ímyndað mér að akkúrat í þessum skrifuðu orðum sitji hann einhversstaðar undir tré og nagi trjábörk, grátandi. (Sem er merkilegt nokk einmitt það sem ég myndi gera ef ég yrði sett í þessar aðstæður). Ég myndi spyrja hann um álit hans á framtíðarhlutverki ESB í friðarmálum, en ég held hann sé ekki í aðstöðu til að svara tölvupósti á fjallinu sínu. Fyrir utan það að ég held að hans fyrsta athugasemd í hermálum væri að það þyrfti að gera skráningarblöðin minna ruglingsleg. Með þessum reytingslega pósti vildi ég bara segja að ég er fegin að vera ekki skylduð í herinn. Takk Ísland.

laugardagur, febrúar 17, 2007

Allir komnir í klámið

Það er greinilegt á bloggum samlanda minna að fyrirhuguð klámráðstefna í Reykjavík er aðalhitamál landans þessa dagana. Ég er næstum hætt að þora á netið, hvað þá að lesa blogg, því ég verð svo innilega reið og vonsvikin og sár að lesa það sem sumt fólk skrifar um málið að ég fæ bara hjartsláttartruflanir og langar að fara að gráta. Eini ljósi punkturinn við þetta frá mínum sjálfselska sjónarhóli er að fólk sýnir þar allavega sitt rétta andlit og það er mikill tímasparnaður fyrir okkur einhleypingana, nú þegar allir virðast blogga, að geta stundað netnjósnir á því hvað hinir og þessir vonbiðlar hafa látið út úr sér á netinu um mál eins og þessi.
Ég er eins og er á kafi í bókum um klám, vændi og mansal því mig langar að skrifa BA ritgerðina mína um eitthvað þessu tengt. Ég þykist nú samt ekki vera neinn sérfræðingur eins og er, enda rétt að byrja, en sú almenna fáfræði um málið sem kemur fram á bloggum og í athugasemdum um allt net þessa dagana kemur mér samt óþægilega á óvart. Reiðin sem meðmælendur kláms virðast margir búa yfir kemur mér líka á óvart, og ég átta mig ekki alveg á því hvað það er sem getur orsakað hana. Ég er farin að halda að þessi fáfræði sé ekki raunveruleg, heldur kjósi fólk að loka augunum fyrir því sem það veit samt innst inni, en af hverju get ég samt ekki ímyndað mér.
Svona lagað gerir mig jafn innilega sorgmædda og þegar ég heyri fólk hlæja að sögum um misþyrmingar á dýrum, sem er einhvernveginn alltaf að gerast. Fólk getur verið svo kalt.
Ég ætla annars ekkert að tjá mig um þetta ráðstefnumál beint, enda of langt í burtu til að vita almennilega um hvað málið snýst.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Kvefgemlingur

Nú hefur það komið í ljós að hinar annars sæmilega samhentu Matthildar styðja sinn hvorn frambjóðandann í forsetakosningunum. Umræðurnar við matarborðið eru háværar þessa dagana. Mér fyndist áhugavert að vita meira um þessar kosningar og frambjóðendurna, en það er ekki í boði því alltaf þegar málið kemst á dagskrá hér á Slátrarastrætinu eða í hinum og þessum frönsku matarboðum þá tala allir svo hratt og ofaní hvern annan að ég skil ekki neitt. En mér skilst að Ségolène Royal sé dóni og Nicolas Sarkozy kynþáttahatari, svo mér líst ekkert á þetta fyrir hönd Frakkanna. Sennilega þarf ég nú samt að kynna mér málið bara sjálf, er að fá mjög vafasamar upplýsingar í þessum stanslausu rökræðum Matthildanna.
Á Valentínusardaginn var ég lasin (rek það til heiftarlegs ofnæmis fyrir rómantík) en Mathilde 2 var búin að bjóða fullt af Þjóðverjum í mat svo það var annaðhvort að vera kurteis, borða með þeim og þykjast skilja þýsku, eða stinga af með kvefið mitt. Ég ákvað að stinga af, og fór á yndislegt stefnumót með sjálfri mér. Ég bauð mér uppá rauðvínsglas og ítalskan mat, og í bíó á eftir, og ég er frábært deit, þó ég segi sjálf frá.
Um síðustu helgi fékk ég íslenska stelpu sem býr í borg hérna nálægt í heimsókn, og við tókum einn dag í að kanna það hversu mikið er mannlega mögulegt að borða og drekka á einum degi. Niðurstaðan: Heilan helling. Við römbuðum á laugardagskvöldið inná veitingastað sem við vissum engin deili á, fengum æðislegan mat og ennþá æðislegri eftirrétt, og Mathilde 1 sagði mér daginn eftir að þetta væri frægur staður og ómögulegt að fá borð þar nema með margra daga fyrirvara, hún hefði oft reynt með fjölskyldunni sinni en aldrei tekist. Svona er maður mikill heppnisgrís. Skemmtilegasta atvik kvöldsins var samt þegar maðurinn á næsta borði rak við með látum og öllum á staðnum tókst að halda andlitinu nema okkur. Ég hló svo mikið að ég fór að gráta. Prump er fyndið, það er bara svoleiðis. Svo var aðeins kíkt á djammið, og ég fékk útrás fyrir klórþörfina mína með því að klóra Ítala með kiwi-klippingu á hausnum í sirka tvo tíma. Ég get skemmt mér við ótrúlegustu hluti. Ég er þar með mögulega búin að finna lausn á kattaleysinu, því Mathilde 1 leyfir mér ekki að fá mér kött, en Ítalir gera greinilega sama gagn, eru loðnir, finnst gott að láta klóra sér og mjálma svo eitthvað óskiljanlegt á ítölsku (sennilega "í guðanna bænum viltu láta höfuðið á mér vera, kona").
Áðan fór ég að kaupa í matinn og var á leiðinni inn á sama tíma og eldri kona var á leiðinni út, svo ég hinkraði og hleypti henni út á undan. Hún sagði "takk fyrir að hleypa mér á undan þér, og takk fyrir að gera það brosandi". Mér finnst það svolítið sorglegt að það þurfi að þakka manni sérstaklega fyrir það. Ég legg til átak, allir að brosa til ókunnugra við öll möguleg og ómöguleg tækifæri.

föstudagur, febrúar 09, 2007

Kvensnift á faraldsfæti


Ég er að fara til Parísar fyrstu helgina í mars! Jei! Foreldrar Mathilde 1 eiga heima þar og hún bauðst til að taka mig með sér þangað og sýna mér pleisið. Það getur varla tekið meira en eina helgi að skoða alla París, er það? Ah, ég get ekki beðið! Ég er búin að vara Mathilde við því að ég ætla mér að eiga rómantíska helgi í þessarri höfuðborg ástarinnar, og hún verði bara að þola það að ég horfi á hana dreymnum augum og flissi eins og smástelpa. Við sjáum svo hversu vandræðaleg sambúðin verður eftir það...
Annars er ég frekar eftir mig eftir að hafa hlustað á einn samnemanda minn reyna í einn og hálfan tíma fyrr í dag að útskýra það hvernig hann túlkar orðið "ríkisborgari" (í stuttu máli telur hann sig ríkisborgara þess lands sem hann er staddur í hverju sinni. Mér finnst það vafasöm túlkun. Honum finnst ég óþolandi kvensnift.). Það að vera nemandi í stjórnmálafræði býður stundum upp á brjálæðislega leiðinlegar samræður. Fyrir utan það að franska töluð með spænskum framburði er nóg til að hausinn á mér veit ekkert hvaða tungumál hann á að vera að reyna að skilja og fer í verkfall.
En París! Jei!

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Ennþá hér

Ég var að koma úr prófi sem þýðir að ég er hérmeð formlega búin með leiðinlegasta kúrs sem ég hef nokkurntímann komið nálægt! Jei! Veit samt ekkert hvernig mér gekk, en það þýðir ekkert að hafa áhyggjur af því fyrr en í júní. Enn eitt matarboðið í kvöld, og ég nenni ekki neitt enda ekkert búin að sofa fyrir prófstressi. En það þýðir ekkert að væla, ég skal snæða þríréttaða franska máltíð í kvöld með góðu eða illu. Ég á svo bágt að það er agalegt.
Í öðrum fréttum er það helst að ég get ekki gengið, staðið upp né sest niður fyrir harðsperrum, sem skiptir engu máli því það er hvort eð er skollið á annað syndaflóð og ekki hundi út sigandi. Vona að það verði stytt upp áður en ég verð dregin út og fóðruð með valdi í kvöld. Eða að Matthildarnar hreinlega finni mig ekki undir teppinu mínu og skilji mig eftir heima.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Silfurskotta


Ég gleymdi að segja frá því að þegar ég hélt fyrirlesturinn minn í síðustu viku þá var ég fyrst í röðinni (í Frakklandi er ég allt í einu fyrst í stafrófinu, en ekki síðust eins og venjulega), og þegar ég stóð fyrir framan alla og ætlaði að fara að byrja þá tók ég eftir því að kennarinn minn, kona um fertugt, var búin að lita hárið á sér silfurfjólublátt. Fjólublátt. Fjóóólublátt. Alltaf þegar ég leit upp frá blaðinu mínu greip hárið á henni athygli mína og ég vissi ekki lengur hvar ég var eða um hvað ég var að tala. Ég er nokkuð viss um að hún gerði þetta bara til að trufla mig.
Annars þjáist ég þessa dagana af lamandi valkvíða, það er svo margt sem ég á að vera að gera og langar að vera að gera, að ég get ekki valið mér verkefni og enda á að gera bara ekki neitt. Hjálp.

föstudagur, febrúar 02, 2007

Skýrsla vikunnar

Ég þjáist af miklu andleysi í bloggdeildinni þessa dagana, en það er ekki þar með sagt að það sé ekkert að gerast hérna, ég hef bara ómögulega nennt að skrifa um það.
-Um síðustu helgi eldaði ég íslenskan jólamat handa Matthildunum mínum, Jacobi, Franzi og Vincent, og þau voru vægast sagt mishrifin. Það var held ég sviðasultan sem fór alveg með þau (þorrinn læddist örlítið inn í jólaþemað). Hún fór reyndar eiginlega með mig líka, svo ég skildi þau mjög vel. Þeim fannst sígarettulykt af bæði reykta silungnum og hangikjötinu, en átu það síðan með bestu lyst og viðurkenndu að lyktin hefði verið villandi. Þau voru sérstaklega hrifin af sósunni sem ég bjó til með silungnum, sem er svolítið svekkjandi því hún var gerð af fingrum fram í algjöru paniki á síðustu stundu, svo mér mun sennilega aldrei takast að gera hana aftur. Sannast það hér með að ég virka best undir pressu.
-Það er allt að hrynja af eldhúsveggjunum okkar þessa dagana (því miður ekki ósmekklega semi-klámið samt, heldur einhver vodkapóstkort (við Matthildarnar erum með mjööög ólíkan skreytistíl...)) og sambýliskonurnar ákváðu að rífa bara allt draslið niður og setja upp íslensk póstkort í staðinn. Svo núna er eldhúsið okkar eins og snögg hringferð um landið. Mjög kósý og rómó.
-Í gærkvöldi voru svo tvær afmælisveislur, hjá Vincent og Franzi, en ég ákvað að kíkja frekar í hans veislu en hennar því hann var búinn að hafa svo mikið fyrir því að elda "alþjóðlegt hlaðborð" (les. ókeypis matur) en hún hélt afmælið sitt á veitingastað (les. matur sem ég þarf að borga fyrir). Það var ótrúlega skemmtilegt, hann var búinn að elda (í litlu herbergiskompunni sinni þar sem allt er inni í einum litlum skáp; ísskápur, vaskur, eldavél, hillur undir leirtau, ég held að Vincent hljóti að vera göldróttur) kínverskan mat, indverskan, mexíkóskan, mið-austurlenskan, enda borðuðum við öll á okkur gat. (Göt? Veit ekki.) Við enduðum svo kvöldið á að mála öll saman (ca. 25 manns) málverk inná baði. Mjög kreatívt og krúttlegt.
-Í gær flutti ég minn fyrsta fyrirlestur á frönsku, og var svo gagnrýnd í tætlur af versta kennara í sögunni. En ég var langt því frá sú eina, og ég fór ekki að skæla, svo ég er bara sátt. Konan á að vera að kenna okkur hvernig formið á að vera á ritgerðum og fyrirlestrum og svona, en lætur okkur svo hafa ótrúlega erfið og flókin umfjöllunarefni úr evrópufræðum, og gagnrýnir okkur efnislega en segir okkur ekkert hvað hefði betur mátt fara í uppbyggingunni. Botna ekkert í þessu. Eftir fyrirlestrana lagði hún fyrir okkur öll óvænt munnlegt próf, fyrir framan alla þurftum við að svara einhverri random spurningu um aðferðafræði sem hún tók svo geðþóttaákvörðum um hvort hefði verið fullnægjandi eða ekki. Ég fékk einu spurninguna sem ég hefði mögulega getað svarað og stóð mig með glæsibrag.
-Um helgina ætlar Mathilde að elda handa okkur sambýliskonunum og við ætlum að leigja okkur dvd og hafa það notalegt saman, gerum ekki nóg af því enda allir uppteknir við sitt. Nú er stefnan að fara að bæta örlítið úr því. Annars á helgin að fara í rólegheit, skrifa einn ritgerðarstubb og lesa svolítið. Kíkja jafnvel á útsölurestar, bara svona til að sýna mig og sjá aðra.
-Ennþá andlaus bloggari, en ótrúlega ánægð með hvað kommentararnir mínir eru skapandi og frjóir, sem kom berlega í ljós eftir síðustu færslu. Spurning um að biðja þær um að ættleiða þetta blogg og lífga aðeins upp á það!

Góða helgi!