föstudagur, febrúar 02, 2007

Skýrsla vikunnar

Ég þjáist af miklu andleysi í bloggdeildinni þessa dagana, en það er ekki þar með sagt að það sé ekkert að gerast hérna, ég hef bara ómögulega nennt að skrifa um það.
-Um síðustu helgi eldaði ég íslenskan jólamat handa Matthildunum mínum, Jacobi, Franzi og Vincent, og þau voru vægast sagt mishrifin. Það var held ég sviðasultan sem fór alveg með þau (þorrinn læddist örlítið inn í jólaþemað). Hún fór reyndar eiginlega með mig líka, svo ég skildi þau mjög vel. Þeim fannst sígarettulykt af bæði reykta silungnum og hangikjötinu, en átu það síðan með bestu lyst og viðurkenndu að lyktin hefði verið villandi. Þau voru sérstaklega hrifin af sósunni sem ég bjó til með silungnum, sem er svolítið svekkjandi því hún var gerð af fingrum fram í algjöru paniki á síðustu stundu, svo mér mun sennilega aldrei takast að gera hana aftur. Sannast það hér með að ég virka best undir pressu.
-Það er allt að hrynja af eldhúsveggjunum okkar þessa dagana (því miður ekki ósmekklega semi-klámið samt, heldur einhver vodkapóstkort (við Matthildarnar erum með mjööög ólíkan skreytistíl...)) og sambýliskonurnar ákváðu að rífa bara allt draslið niður og setja upp íslensk póstkort í staðinn. Svo núna er eldhúsið okkar eins og snögg hringferð um landið. Mjög kósý og rómó.
-Í gærkvöldi voru svo tvær afmælisveislur, hjá Vincent og Franzi, en ég ákvað að kíkja frekar í hans veislu en hennar því hann var búinn að hafa svo mikið fyrir því að elda "alþjóðlegt hlaðborð" (les. ókeypis matur) en hún hélt afmælið sitt á veitingastað (les. matur sem ég þarf að borga fyrir). Það var ótrúlega skemmtilegt, hann var búinn að elda (í litlu herbergiskompunni sinni þar sem allt er inni í einum litlum skáp; ísskápur, vaskur, eldavél, hillur undir leirtau, ég held að Vincent hljóti að vera göldróttur) kínverskan mat, indverskan, mexíkóskan, mið-austurlenskan, enda borðuðum við öll á okkur gat. (Göt? Veit ekki.) Við enduðum svo kvöldið á að mála öll saman (ca. 25 manns) málverk inná baði. Mjög kreatívt og krúttlegt.
-Í gær flutti ég minn fyrsta fyrirlestur á frönsku, og var svo gagnrýnd í tætlur af versta kennara í sögunni. En ég var langt því frá sú eina, og ég fór ekki að skæla, svo ég er bara sátt. Konan á að vera að kenna okkur hvernig formið á að vera á ritgerðum og fyrirlestrum og svona, en lætur okkur svo hafa ótrúlega erfið og flókin umfjöllunarefni úr evrópufræðum, og gagnrýnir okkur efnislega en segir okkur ekkert hvað hefði betur mátt fara í uppbyggingunni. Botna ekkert í þessu. Eftir fyrirlestrana lagði hún fyrir okkur öll óvænt munnlegt próf, fyrir framan alla þurftum við að svara einhverri random spurningu um aðferðafræði sem hún tók svo geðþóttaákvörðum um hvort hefði verið fullnægjandi eða ekki. Ég fékk einu spurninguna sem ég hefði mögulega getað svarað og stóð mig með glæsibrag.
-Um helgina ætlar Mathilde að elda handa okkur sambýliskonunum og við ætlum að leigja okkur dvd og hafa það notalegt saman, gerum ekki nóg af því enda allir uppteknir við sitt. Nú er stefnan að fara að bæta örlítið úr því. Annars á helgin að fara í rólegheit, skrifa einn ritgerðarstubb og lesa svolítið. Kíkja jafnvel á útsölurestar, bara svona til að sýna mig og sjá aðra.
-Ennþá andlaus bloggari, en ótrúlega ánægð með hvað kommentararnir mínir eru skapandi og frjóir, sem kom berlega í ljós eftir síðustu færslu. Spurning um að biðja þær um að ættleiða þetta blogg og lífga aðeins upp á það!

Góða helgi!

Engin ummæli: