Þessa viku í þinginu hef ég notið þess ennþá meira en venjulega að labba í vinnuna (skóli er vinna í þessarri færslu, því það hljómar betur). Það er sennilega vegna þess að ég elska ána við hliðina á húsinu mínu, og þingið er ca 40 mín neðar við þessa sömu á, svo ég fylgi henni bara alla leið í vinnuna. Alla vikuna er ég líka búin að hugsa um það hvað það væri ennþá skemmtilegra að eiga lítinn árabát og geta siglt í vinnuna. Ég gæti látið mig fljóta með straumnum í vinnuna á morgnana og róið svo heim til að fá útrás eftir erfiðan vinnudag (eða gripið í bátinn hjá strákunum sem æfa róður á ánni og látið þá draga mig heim...). Það eru litlar bryggjur bæði við húsið mitt og við Evrópuþinghúsið, svo þetta er alveg gráupplagt. Fer á framtíðarplanið; búa á Slátrarastrætinu, vinna í þinginu, sigla í vinnuna (sennilega yrði þá "koma Íslandi í ESB" að vera á listanum líka svo ég ætti séns í að fá vinnu í þinginu...).
Í dag kynntum við verkefnin sem við erum búin að vera að vinna í vikunni og það gekk bara vel, ég kom reyndar alltof seint því mér var rænt af blindum manni á leiðinni, en okkar hópur var fimmti í röðinni svo það kom ekki að sök. Ég var nefnilega bara að labba í sakleysi mínu meðfram ánni og mjög upptekin við dagdrauma þegar það greip blindur maður í mig og bað mig að hjálpa sér að komast í vinnuna (það er svona að ganga í skóm sem gera læti). Það er nefnilega verið að grafa upp allar gangstéttar eins og er og holur og skurðir um allt, ekki mjög blindravænt sennilega. Hann reyndist vera prófessor í háskóla nálægt mínum (en ekkert nálægt þinginu) svo ég fylgdi honum þangað og við spjölluðum heilmikið. Þegar ég var búin að skila honum í skólann hljóp ég eins og líf mitt lægi við niður í þing, og sagði öryggisvörðunum að þeir yrðu að hleypa mér inn þó ég væri sein, mér hefði verið rænt af blindingja og það væri ekki mér að kenna. Þeir tóku þá skynsamlegu ákvörðun að biðja ekki um frekari skýringar heldur hleypa mér bara inn, móðri og sveittri og úfinni (en í kjól og stígvélum því ég ætlaði að vera svo fín og sæt á kynningunni).
Þá er þessarri fínu þingviku líka lokið.
föstudagur, febrúar 23, 2007
Unnur í árabát
Birt af Unnur kl. 13:25
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli