Þessa vikuna er ég flutt með eplið mitt og reglustikuna í Evrópuþinghúsið hér í Strass, þar sem við fáum að þykjast vera þingmenn í fimm daga. Ég er nógu mikill lúði til að finnst það ótrúlega skemmtilegur leikur. Ég er ein í þeim klúbbi eins og er. Hópurinn minn á að einbeita sér að því að nota Evrópusambandið til að viðhalda friði (frið, friðnum... fallbeygingarvandræði, hjálp!) innan aðildarríkjanna og stuðla að heimsfriði. Auðvelt verkefni. Í dag vorum við beðin um að fara heim og tala við þá vini okkar sem eru í hernum og biðja um þeirra sýn á málið og hugmyndir. Þá áttaði ég mig enn og aftur á því hvað ég er heppin að koma frá landi þar sem hvorki er her né herskylda, ég á bara einn vin í hernum og hann er í þeim austurríska. Hann er friðarsinni en er undir herskyldu, svo hann ákvað að skrá sig bara í konunglegu lífvarðasveitina (eða hvað það nú heitir þegar maður stendur grafkyrr fyrir framan merkilegar byggingar með skrítinn hatt og má ekki brosa þegar fólk tekur myndir með manni). Hann hinsvegar krossaði í vitlausan reit á skráningarblaðinu sínu og endaði í einhverskonar ofurnaggasveit, og var sendur í þjálfun sem byggir meðal annars á því að skríða í drullu undir gaddavír og hoppa yfir hinar og þessar hindranir eins og verðlaunahross á meðan lítill maður með byssu segir þér að þú sért ómerkilegur ormur sem eigir ekki skilið að hoppa yfir svona fínar hindranir. Í augnablikinu er hann einhversstaðar uppá fjalli þangað sem hann var sendur hálfnakinn með hnífinn sinn og á að æfa sig í að deyja ekki á meðan litlu mennirnir með byssurnar finna uppá nýjum pyntingaraðferðum. Georg er hinsvegar harðlínugrænmetisæta og í stað þess að drepa kanínur með hnífnum sínum og éta þær mun hann mjög líklega nota hann til að ógna þeim og ræna gulrótunum þeirra. Ég get ímyndað mér að akkúrat í þessum skrifuðu orðum sitji hann einhversstaðar undir tré og nagi trjábörk, grátandi. (Sem er merkilegt nokk einmitt það sem ég myndi gera ef ég yrði sett í þessar aðstæður). Ég myndi spyrja hann um álit hans á framtíðarhlutverki ESB í friðarmálum, en ég held hann sé ekki í aðstöðu til að svara tölvupósti á fjallinu sínu. Fyrir utan það að ég held að hans fyrsta athugasemd í hermálum væri að það þyrfti að gera skráningarblöðin minna ruglingsleg. Með þessum reytingslega pósti vildi ég bara segja að ég er fegin að vera ekki skylduð í herinn. Takk Ísland.
mánudagur, febrúar 19, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli