mánudagur, janúar 29, 2007

Skiptinemablús

Þó þú sitja í tímunum megir
og hlusta á meðan þú þegir
það gagnast þér lítið
(og kannsk´ekki skrýtið)
þú skilur ekkert sem kennarinn segir.

föstudagur, janúar 26, 2007

Skyldupóstur. Skjús mí.

Magga frænka kom með snjóinn með sér fyrr í vikunni en virðist ekki hafa tekið hann með sér aftur þegar hún fór í dag... Ég naut góðs af veru hennar hérna, og er búin að hafa það ofsalega gott síðustu daga, kíkja í Evrópuráðið, borða góðan mat, versla, allt í góðum félagsskap auðvitað. Tókst meira að segja loksins að fá hugmynd að BA ritgerðinni minni, keypti nokkrar bækur um efnið í ráðinu og er að vinna í að lesa þær núna. Í gær fórum við svo á flottasta veitingastað sem ég hef komið á hingað til í Strass, og ég fékk þar betri túnfisksteik en á Sjávarkjallaranum, sem ég hélt ekki að væri mögulegt. Oh, er búin að hafa það alltof gott, hrikalegt að þurfa að trappa sig niður í hversdaginn aftur!
Skólinn er byrjaður aftur eftir prófin, og það er enginn smá munur á að byrja í kúrsum núna og það var í haust, núna veit ég allavega svona sirka bát um hvað kúrsarnir snúast eftir fyrsta tímann, en í haust valdi ég kúrsa eftir því hversu hrædd ég var við kennarana. Svo ég göslast í skólann í slabbinu með bros á vör þessa dagana. Ég reyndar skrópaði í allan dag, en bara af því að það er ekki hægt að hjóla í snjónum og ég get ekki gengið því ég er með ígerð í fætinum. Mjög smart. Svo ég er farlama heima á föstudagskvöldi að syrgja brottflogna ættingja, borða súkkulaði (má því ég á bágt...) og horfa á Friends á frönsku.
Á morgun ætla ég að lesa nýju bækurnar mínar (geri ráð fyrir að verða ennþá farlama), muna að hringja í íslensku stelpuna sem er í Colmar og ég gleymdi að hringja í í kvöld og haltra svo kannski í bíó. Á sunnudaginn ætla ég loksins að elda hangikjötið sem ég kom með út og halda lítil íslensk jól fyrir sambýlingana og mögulega Vincent og kærastann hans. (Mamma mín, það þýðir að þú verður að vera í símafæri á sunnudaginn svo það fari ekki allt til fjandans í pottunum mínum...).
Oh, leiðinlegur póstur. Ég kenni fætinum um. Góða helgi!

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Snjór!

Það er kominn snjór í Strass! Ég myndaði hann útum gluggann minn en það er dimmt svo hann sést ekki mjög vel, en með jákvæðu hugarfari má samt sjá glitta í hann...

Þó að rok og rigning sé sennilega mikið týpískara íslenskt veður en logn og snjókoma þá labbaði ég samt heim í kvöld með kjánaglott út að eyrum inni í stóru loðnu hettunni minni. Snjór! Krullur! Hálka! Allt svo skemmtilega íslenskt.

Annars er ekki að marka mig, er alltof glöð af því ég talaði íslensku í allt kvöld, við föðursystur mína sem er mætt á svæðið aftur, og þrjá indæla íslenska líftæknifræðinga sem hún fann í reiðileysi (sem er stafað hvernig..?) á flugvellinum. Og á morgun mun ég tala meiri íslensku, og sennilega hitta íslenska stelpu sem býr hérna. Það finnst mér merkilegt og ég hlakka til.

Það er hinsvegar annað og verra mál að Mathilde er búin að taka eftir því að ég hef ekki verið að borða crépe-ið sem hún býr til í morgunmat, og vill vita hvort mér finnist það vont. Crépe með súkkulaði og banana? Vont? Jahá, allt er nú til. Ég vildi ekki útskýra fyrir henni að mér fyndist ég orðið örlítið of búsældarleg, svo ég lofaði að borða þær í morgunmat í fyrramálið. Er ljótt að taka nokkrar og henda þeim í ruslið og elda mér svo hafragraut? Dyrnar hérna eru frekar þröngar og það væri fáránlega vandræðalegt að komast ekki út úr íbúðinni án þess að smyrja dyrakarmana með smjöri.

föstudagur, janúar 19, 2007

Sæt í staðinn

Í dag komst ég endanlega að því að ég mun þurfa að byggja lífsafkomu mína á því að vera sæt í staðinn, svo það er eins gott að fara að mæta í ræktina... Ég mætti í síðasta prófið í morgun (jíha!) og þar beið mín, mér til mikillar gleði, að skrifa ritgerð um skrifræði Webers í stofnunum. Gleðin kom til af því ég skrifaði fyrir rúmu ári ritgerð um skrifræði Webers og hvernig það á við í stofnunum nútímans, og fékk frekar hátt fyrir hana meira að segja. Gleðin var hinsvegar skammvinn því ég uppgötvaði það fljótlega að ég mundi ekki hálfa setningu úr ritgerðinni, eða að hvaða niðurstöðu ég komst um málið. Það hljóta í alvöru talað að vera til lyf við þessu. Svo ég blaðraði heilmikið um ýmislegt sem kom málinu ekkert við, alveg eins og í öllum hinum prófunum. Og þarf svo ekki að hafa áhyggjur af þessu meir, allavega ekki fyrr en í júní!
Í kvöld er próflokafagnaður, þar sem á líka að kveðja þá skiptinema sem verða bara eina önn, og kynnast þeim sem eru að koma til að vera seinni önnina. Þetta hljómar allt ágætlega í kenningunni, en ef það er eitthvað sem ég lærði í Brussel þá er það að það er aldrei góð hugmynd að fara út að borða með fleiri en tíu manns (nema mögulega ef meirihluti fólksins er siðmenntaður, eins og þegar amma bauð okkur í mat á Hótel Holti. Gekk fínt. En það er hvorki ég né hinir fjölþjóðlegu apakettirnir hérna, svo það hjálpar ekkert), og hérna stefnir í að hópurinn verði um 80 stykki. Pant ekki. Pant vera heima á náttfötunum, eða fara í bíó (mögulega á náttfötunum), eða í ræktina (sennilega ekki á náttfötunum) eða eitthvað. Oh, ég er svo mikill félagsskítur að það er agalegt. Fyrir alla hina á ég við. Hóst.
Eigið góða helgi!

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Og þá var eftir eitt...

Síðasta prófið á morgun! Ég hélt þessi dagur myndi aldrei koma... Prófin eru annars búin að ganga upp og niður, munnlega prófið gekk betur en ég hélt því ég skyldi allavega spurningarnar, sem var mitt helsta áhyggjuefni fyrir prófið. Ef ég hefði bara vitað svörin við þeim líka hefði það auðvitað verið ennþá betra, en maður getur ekki beðið um allt. Annars er ég helst pirruð á því að þurfa að bíða FRAM Í JÚNÍ eftir að fá að vita hvort ég náði einhverju af þessu eða ekki. LÍN er auðvitað ekki alveg vön svona ósköpum, ekki frekar en ég, svo við verðum báðar að reyna að hemja forvitnina fram á sumar. Skemmtileg þessi forræðishyggja hjá Frökkunum, það er meðaltalið yfir árið sem ræður því hvort maður nær því eða ekki, og þeir eru hræddir um að fullorðna fólkið í háskólanum þeirra leggi sig ekki fram á næstu önn ef það veit að því gekk sæmilega í þessum prófum. Ég myndi segja að það væri þá bara þeirra vandamál, en þess vegna hef ég heldur aldrei verið beðin um að reka háskóla.
Þá er að bíta á jaxlinn og lesa þetta síðasta kvöld í bili...
Annars er þetta það sem gerist þegar mér leiðist í prófum (annað en að herbergið mitt verður fáránlega hreint auðvitað):

Var búin að borða svo hollt öll prófin (ekkert nammi! Ekki einu sinni súkkulaði!) að ég bara varð að borða eitthvað gott svona síðasta kvöldið. Stakk þessu meira að segja inn í ofn eins og ítalirnir gerðu við forréttinn hennar Silju fyrir jólin, og þetta var svooo gott...

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Franskur sleikur

Vá. Frakkar kunna sko að snúa hnífnum í sárinu! Í dag fór ég í fyrsta prófið og það gekk hræðilega, eins og við var að búast. Eftir að hafa bisað við prófið mitt í tilsettan tíma (að skrifa allt sem mér datt í hug um Mannréttindadómsstól Evrópu, sem var alls ekki ritgerðarefnið en ég vissi bara ekkert um það og eitthvað varð ég að gera þessa tvo tíma!) var ég farin að skammast mín allverulega fyrir að vera að fara að skila inn þessarri hryggðarmynd. En ég ákvað að bíta bara á jaxlinn og skila, þó það þýddi kannski að kennarinn benti á mig og hlæði næst þegar ég mætti honum á ganginum. Flestir voru ennþá að tæma viskubrunninn á blaðið sitt, svo ég læddist fremst í salinn til konunnar sem tók við prófunum og reyndi að skila því. Hún vildi ekki taka við því og sagði mér að ég ætti eftir að sleikja það. Huh? Ég hélt ég hlyti að vera að misskilja eitthvað franskt orðatiltæki og spurði aftur og aftur þar til hún lék fyrir mig hvernig maður sleikti blað. Mig langaði bara að fara að gráta, ekki ætlaði konan að láta mig, fyrir framan um það bil 60 manns, sleikja ritgerðardraslið mitt? Og af hverju var hún svona vond við mig? Og hvernig vissi hún á annað borð að ritgerðin mín væri svona vond? Meðan ég stóð þarna í örvæntingu minni og velti fyrir mér vonsku heimsins, kom annar nemandi askvaðandi, sleikti hornið á ritgerðinni sinni, braut það niður svo það huldi nafnið hans og límdist fast með einhverju sem reyndist vera þessi fína frímerkjalega límrönd. Svo ég tók gleði mína á ný, sleikti ritgerðina mína af áfergju og skilaði henni. Eitt búið, fjögur eftir! Þar af tvö á morgun...

sunnudagur, janúar 07, 2007

Nöldur pöldur

Í dag náði prófstressið í skottið á mér. Hélt ég yrði alveg kúl á því í prófum sem ég veit ég er að fara að falla í en nei, þetta bannsetta munnlega próf er alveg að fara með mig. Það er eitt að hripa eitthvað bull á blað og skila því en annað að þurfa að horfast í augu við kennarann og bulla uppí opið geðið á honum. Líst ekkert á þetta. Og hvernig stendur á því að ég er búin að standast Evrópusamvinnukúrsinn hans Baldurs OG fara til Brussel í skoðunarferð, en man samt ekki neitt um Evrópusambandið, stofnanirnar, sáttmálana, ákvarðanatökuferlið, bara ekki noget som helst?? Ég held í alvöru stundum að ég hljóti að vera komin með snert af heimskunni.
Próf á fimmtudag og svo tvö á föstudag, þar á meðal þetta munnlega. Hvar ætli maður geti keypt spítt í Strass?

föstudagur, janúar 05, 2007

Kommbakk eftir bloggföstu

Þá er ég mætt aftur í land osta, rauðvíns og hrognamáls. Ferðalagið gekk mjög vel, fyrir utan svo mikla ókyrrð í lofti að nokkrir í vélinni voru farnir að öskra og gráta, þar á meðal stelpan fyrir aftan mig, sem fór ekkert vel með litlu taugarnar mínar. Tókst samt að fara ekki að gráta, sem er afrek miðað við hvað ég var tæp fyrir eftir að hafa kvatt familíuna. Jei ég. Fyrir dramatíska flugið átti ég svo mjög indæla dvöl í Leifsstöð, þar sem aðgerðalaus afgreiðsludama í snyrtivörudeildinni spurði hvort hún mætti ekki bara farða mig (það er merki um að maður hafi gengið aðeins og langt í að fljúga heimilislegur). Og það gerði hún, og ég hef aldrei ferðast sætari. Þjónustan í Leifsstöð er greinilega framúrskarandi (eða þeir eru að innleiða nýja stefnu um að vilja enga ljóta kúnna).
Í dag ætlaði ég svo að byrja að trappa mig niður í jólaógeðinu með hafragraut og lýsi, en þegar ég var rétt búin að setja pottinn yfir birtist ofsa glöð Mathilde með pizzu handa mér, sem mig langaði ekkert í (geitaostur) en hvað gat ég sagt? Svo ég át pizzu og lýsi í morgunmat.
Jólafríið á Íslandi var yndislegt, og það var ennþá erfiðara að fara núna en í haust, enda er ég núna að fara til að vera lengur. Held mér hafi tekist að taka mömmu mína alveg á taugum með því að kvarta endalaust yfir að vera að fara. Ég hef það samt auðvitað mjög gott hérna úti, er bara pínu aumingi og kvarta þess vegna stanslaust þegar eitthvað er erfitt. Og þegar ég er lasin.
Jólin í sveitinni voru yndisleg að venju, og það voru áramótin í bænum líka. Ég endaði á að dansa gamla árið í burtu með Láru á 90´s balli á Nasa, sem var hreinlega eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert lengi. Ég náði að hitta ótrúlega marga vini mína þennan stutta tíma sem ég var heima, ekki alla auðvitað, því ég er slúbbert, en marga, og það var yndislegt og mjög gott fyrir litlu útlendingasálina mína. Rifjaði upp hvað það eru margir sem mér þykir vænt um og þykir vænt um mig, og hvað getur maður gert betra um jólin? Ég vona að ykkar jól hafi verið jafn góð og mín (eða betri auðvitað) og óska ykkur öllum hamingju og heilbrigði á nýja árinu.