Þá er ég mætt aftur í land osta, rauðvíns og hrognamáls. Ferðalagið gekk mjög vel, fyrir utan svo mikla ókyrrð í lofti að nokkrir í vélinni voru farnir að öskra og gráta, þar á meðal stelpan fyrir aftan mig, sem fór ekkert vel með litlu taugarnar mínar. Tókst samt að fara ekki að gráta, sem er afrek miðað við hvað ég var tæp fyrir eftir að hafa kvatt familíuna. Jei ég. Fyrir dramatíska flugið átti ég svo mjög indæla dvöl í Leifsstöð, þar sem aðgerðalaus afgreiðsludama í snyrtivörudeildinni spurði hvort hún mætti ekki bara farða mig (það er merki um að maður hafi gengið aðeins og langt í að fljúga heimilislegur). Og það gerði hún, og ég hef aldrei ferðast sætari. Þjónustan í Leifsstöð er greinilega framúrskarandi (eða þeir eru að innleiða nýja stefnu um að vilja enga ljóta kúnna).
Í dag ætlaði ég svo að byrja að trappa mig niður í jólaógeðinu með hafragraut og lýsi, en þegar ég var rétt búin að setja pottinn yfir birtist ofsa glöð Mathilde með pizzu handa mér, sem mig langaði ekkert í (geitaostur) en hvað gat ég sagt? Svo ég át pizzu og lýsi í morgunmat.
Jólafríið á Íslandi var yndislegt, og það var ennþá erfiðara að fara núna en í haust, enda er ég núna að fara til að vera lengur. Held mér hafi tekist að taka mömmu mína alveg á taugum með því að kvarta endalaust yfir að vera að fara. Ég hef það samt auðvitað mjög gott hérna úti, er bara pínu aumingi og kvarta þess vegna stanslaust þegar eitthvað er erfitt. Og þegar ég er lasin.
Jólin í sveitinni voru yndisleg að venju, og það voru áramótin í bænum líka. Ég endaði á að dansa gamla árið í burtu með Láru á 90´s balli á Nasa, sem var hreinlega eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert lengi. Ég náði að hitta ótrúlega marga vini mína þennan stutta tíma sem ég var heima, ekki alla auðvitað, því ég er slúbbert, en marga, og það var yndislegt og mjög gott fyrir litlu útlendingasálina mína. Rifjaði upp hvað það eru margir sem mér þykir vænt um og þykir vænt um mig, og hvað getur maður gert betra um jólin? Ég vona að ykkar jól hafi verið jafn góð og mín (eða betri auðvitað) og óska ykkur öllum hamingju og heilbrigði á nýja árinu.
föstudagur, janúar 05, 2007
Kommbakk eftir bloggföstu
Birt af Unnur kl. 13:35
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli