Þetta veður er að gera mig gersamlega veruleikafirrta. Nú er til dæmis komið vor, sólin skín og grasið er farið að grænka, sem er gott mál, nema ég er farin að efast um að snjórinn sem ég skóf af bílnum mínum í morgun hafi verið raunverulegur, ætli andleg hríð geti líka sest á bílinn manns? Það hjálpar ekki að hafa setið yfir heimspeki síðasta sólarhringinn, þessi snjór gæti hafa verið efnislegur frumhlutur, verund, skynmynd, hugmynd eða bara hvað sem er nema H2O í föstu formi því efni er ekki til því það verður ekki skynjað, og ég veit hvað ég syng, ég hugsa nefnilega og þess vegna er ég! Of mikil heimspeki, of lítill svefn...
Þegar maður er tiplandi á brún geðveikinnar fyrir, er þá sniðugt að sökkva sér ofaní hugsanir allra hinna í sögunni sem voru að missa vitið? "Allt er vatn", hver kaupir svona lagað eiginlega? Ef þessi maður hefði til dæmis haldið til á Hlemmi en ekki í Aþenu (eða hvar sem hann var, hann var allavega þyrstur...) þá hefði enginn tekið mark á þessu bulli. Ég held það væri nær að kenna manni að telja fram til skatts, ekki kann ég það ennþá og þeim er sko alveg sama þótt allir peningarnir sem ég vann mér inn á síðasta ári séu vatn...
miðvikudagur, febrúar 26, 2003
laugardagur, febrúar 22, 2003
Ég er hætt í stærðfræði og hætt við að taka stúdentinn í vor. Ég fann í gær mína hillu í lífinu, þar verður borgað undir rassinn á mér útum allan heim og á fín hótel, ég fæ bílstjóra til að snattast með mig um allt og meira að segja mína eigin sterilíseruðu vatnsflösku í löndum þar sem vatnið kemur hreinna úr krönunum! Og þessi hilla krefst þess ekki að ég vinni handtak, heldur geri bara það sem ég er best í, vera leiðinleg, fyrir framan slatta af fólki svona einu sinni í viku. Ég ætla semsagt að verða uppistandari, nánar tiltekið, ég ætla að verða Robert Townsend!!! Reyndar er það að setja markið fullhátt en maður verður að hafa eitthvað að stefna að... Ég efast ekki um að til að verða svona yfirnáttúrulega leiðinlegur þurfi eitthvað að koma til, þrotlausar æfingar, klukkustund eftir klukkustund af Maður er nefndur, horfa á allar Stjörnustríðsmyndirnar í röð (með pissuhléi reyndar, má ekki verða sjálfspíning, á bara að drepa niður öll skemmtilegheit sem gætu leynst einhversstaðar innra með manni) og eftir margra ára virði af leiðindum af ýmsu tagi verð ég tilbúin til að fara á svið og freista þess að vera jafn viðbjóðslega óskemmtileg og Robbi litli.
Nei í alvöru, má þetta??? Má þiggja peninga fyrir að vera skemmtilegur í klukkustund eða svo, taka við fénu og fara svo á svið og kynna fyrir þjóðinni alveg nýtt stig af leiðindum? Og þetta eru ekki gallabuxnafordómar, ég er nógu stór manneskja til að geta fyrirgefið honum þær, enda hljóta þær að vera kall einmana sálar á hjálp, því ég get ekki ímyndað mér að maðurinn sé hrókur alls fagnaðar í samkvæmum... Og þó, annað eins hefur nú gerst, Geir Ólafs fær víst stundum pantanir líka... Smekklaust fólk er til, en eitt vil ég segja um málið; þótt maður sé lokaður inni í dimmum sal með fullt af öðrum saklausum, óspjölluðum hugum, og sagt að maðurinn sem stígi brátt á svið sé fyndinn er ekki víst að hann sé það, og hana nú! (Nú er ég farin að þurrka blóðið úr eyrunum á mér, það rennur enn síðan í gærkveldi...)
föstudagur, febrúar 14, 2003
Elsku litli vettlingurinn minn varð fyrir árás á einkalíf sitt nýlega. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir við fjölmiðla um að fá að halda tilveru sinni leyndri fyrir skítugum almúganum hafði einn aðili (sem verður hér eftir kallaður Júdas) samvisku í að hafa hlekk á sinni síðu yfir á mína. Hans síða getur varla talist siðmenningu okkar til hróss með öllum sínum sora og vil ég biðja aðra aðila sem halda úti slíkum viðbjóði á alnetinu og hafa á fölskum forsendum lætt sér inn í líf mitt vegna þeirra forréttinda að verða reglulegir lesendur "vettlingsins" (sem ég skil reyndar mjög vel) að reyna að halda aftur af sér með að deila dýrðinni með utanaðkomandi og óverðugum einstaklingum. Að ég tali nú ekki um þá sem eru að lesa þetta án þess að hafa fengið til þess formlegt boð, viljið þið ekki bara hlera símtölin mín líka??? (Þetta var grín, kaldhæðni, vinsamlegast ekki hlera símann minn, ég kann ekki að meta svoleiðis lagað...) Vík burt ruslaralýður!
fimmtudagur, febrúar 06, 2003
laugardagur, febrúar 01, 2003
Hér ritar nú kona sem er einu líffærinu fátækari en reynslunni ríkari. Finnst samt gífurlega ósanngjarnt gagnvart líffærum eins og hjarta og lifur að gagnslaus varta eins og botnlanginn fái borið sömu nafngift; líffæri. Af hverju í ósköpunum er svona drasli ekki bara kippt úr við fæðingu, ásamt kirtlum, öðru nýranu, nokkrum eitlum og öðru sem við komum aldrei til með að þurfa? Þessi hugsunarháttur er kannski ástæða þess, í hnotskurn, að mér yrði aldrei hleypt í læknisfræði... En hvers vegna er það, að þegar annað fólk er skorið upp á stöðum með nöfn eins og Borgarspítalinn eða Landsspítalinn að þá enda ég alltaf einhvernveginn á Heilsubælinu? Svo virðist sem allir heilbrigðisstarfsmenn (að undaskildu hraðvirka hjúkkugenginu sem kom í skólann til að bólusetja okkur gegn heilahimnubólgu, þvílík atorka!) þjáist af leyndri meinloku sem er þá aðeins vandamál sé háttsett ég á svæðinu. Meira að segja lífvana tæki og tól virka ekki nálægt mér á spítölum, dvöl mín kostaði tvö, TVÖ, saklaus blóðþrýstingsmælitæki lífið, ég fer eins og fellibylur um ganga spítalanna og skil eftir mig slóð eyðileggingar og örvæntingar! En hefnd hjúkkanna var ekki lengi að bíða, og hún var grimmileg, bannað að fara í bað í viku!!! Í viku! Ég á hvorki vini né ættingja lengur, meira að segja kötturinn er hættur að vitja mín...