Hér ritar nú kona sem er einu líffærinu fátækari en reynslunni ríkari. Finnst samt gífurlega ósanngjarnt gagnvart líffærum eins og hjarta og lifur að gagnslaus varta eins og botnlanginn fái borið sömu nafngift; líffæri. Af hverju í ósköpunum er svona drasli ekki bara kippt úr við fæðingu, ásamt kirtlum, öðru nýranu, nokkrum eitlum og öðru sem við komum aldrei til með að þurfa? Þessi hugsunarháttur er kannski ástæða þess, í hnotskurn, að mér yrði aldrei hleypt í læknisfræði... En hvers vegna er það, að þegar annað fólk er skorið upp á stöðum með nöfn eins og Borgarspítalinn eða Landsspítalinn að þá enda ég alltaf einhvernveginn á Heilsubælinu? Svo virðist sem allir heilbrigðisstarfsmenn (að undaskildu hraðvirka hjúkkugenginu sem kom í skólann til að bólusetja okkur gegn heilahimnubólgu, þvílík atorka!) þjáist af leyndri meinloku sem er þá aðeins vandamál sé háttsett ég á svæðinu. Meira að segja lífvana tæki og tól virka ekki nálægt mér á spítölum, dvöl mín kostaði tvö, TVÖ, saklaus blóðþrýstingsmælitæki lífið, ég fer eins og fellibylur um ganga spítalanna og skil eftir mig slóð eyðileggingar og örvæntingar! En hefnd hjúkkanna var ekki lengi að bíða, og hún var grimmileg, bannað að fara í bað í viku!!! Í viku! Ég á hvorki vini né ættingja lengur, meira að segja kötturinn er hættur að vitja mín...
laugardagur, febrúar 01, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli