Þetta veður er að gera mig gersamlega veruleikafirrta. Nú er til dæmis komið vor, sólin skín og grasið er farið að grænka, sem er gott mál, nema ég er farin að efast um að snjórinn sem ég skóf af bílnum mínum í morgun hafi verið raunverulegur, ætli andleg hríð geti líka sest á bílinn manns? Það hjálpar ekki að hafa setið yfir heimspeki síðasta sólarhringinn, þessi snjór gæti hafa verið efnislegur frumhlutur, verund, skynmynd, hugmynd eða bara hvað sem er nema H2O í föstu formi því efni er ekki til því það verður ekki skynjað, og ég veit hvað ég syng, ég hugsa nefnilega og þess vegna er ég! Of mikil heimspeki, of lítill svefn...
Þegar maður er tiplandi á brún geðveikinnar fyrir, er þá sniðugt að sökkva sér ofaní hugsanir allra hinna í sögunni sem voru að missa vitið? "Allt er vatn", hver kaupir svona lagað eiginlega? Ef þessi maður hefði til dæmis haldið til á Hlemmi en ekki í Aþenu (eða hvar sem hann var, hann var allavega þyrstur...) þá hefði enginn tekið mark á þessu bulli. Ég held það væri nær að kenna manni að telja fram til skatts, ekki kann ég það ennþá og þeim er sko alveg sama þótt allir peningarnir sem ég vann mér inn á síðasta ári séu vatn...
miðvikudagur, febrúar 26, 2003
Birt af Unnur kl. 14:54
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli