mánudagur, október 31, 2005

Dagur 11


Ég get mælt með fínum einkaþjóni þegar þessu öllu lýkur. Mömmu minni. Það er svoleiðis dekrað við aumingja litlu píslarvottar-mig þessa dagana. Eldað ofaní mig mat sem hálsskrípið mitt og maginn gætu náðarsamlegast mögulega átt friðsamleg samskipti við, allt keypt samstundis sem mig gæti hugsanlega langað í (en langar svo einmitt ekki í þegar ég sé það fyrir framan mig), boðist til að leigja spólur ef mér skyldi detta í hug að finnast endursýningar á skjáeinum ekki lengur skemmtilegar og almenn skemmtilegheit og vorkunn stunduð allan sólarhringinn. Koss handa elsku mömmu minni :*
Hún fer hinsvegar að vinna á morgun svo staðgengill óskast, og tekið er við umsóknum í kommentakerfinu.
Allt sem mér dettur í hug að skrifa tengist sjónvarpi, kannski af því við sjónkinn erum að renna saman í eitt. Mér finnst sæta og ljúfa Ragnhildur Steinunn frábær í Kastljósinu, á meðan Jóhanna stendur sig prýðilega... svo lengi sem maður horfir ekki á hana. Eftir að hún litaði á sér hárið og uppgötvaði augnblýantinn minnir hún helst á Myrkrahöfðingjann. Sem ég hef ekki að mínu viti séð, en það kæmi mér allavega ekki á óvart að hann væri gervidökkhærður með fullt, fullt af augnblýanti, sjáið bara Marylin Manson! Mér finnst nýja Kastljósið skemmtilegt. Og mér finnst, eins og Ögmundi Jónassyni áðan, að við eigum frekar að vera góð við gamla fólkið núna og geyma annars mjög fína hugmynd um tónlistarhús bara í noookkur ár. Ég veit við þurfum að hlúa að listunum og miðbænum og ég er algjör listasnobbarahræsnarapjalla sjálf og myndi finnast ég ennþá merkilegri eftir að hafa farið í svona fínt tónlistarhús, en getur það ekki beðið bara smááá? Ég veit ég er dramatísk en ég er bara pínu veik núna og veit það er tímabundið og ég verð bráðum aftur eins og nýsleginn túskildingur, og það er heil fjölskylda og vinahópur sem dekrar við mig á meðan, en mér líður samt bölvanlega. Hvað þá ef mér liði svona (tala nú ekki um verr), vissi að það væri líklega komið til að vera og versna, ætti engan eftir til að hugsa um mig og færa mér vatnsmelónu og vídjóspólur og vorkenna mér og knúsa mig og vera ekki skítsama um mig (af því það væru allir staddir á opnun nýja tónlistarhússins líklega). Það finnst mér hljóma verr en tárum taki og vil ekkert tónlistarhús fyrr en aldraðir og fatlaðir og geðsjúkir geta líka verið glaðir og kátir þegar það opnar. Og hana nú.
(Eftir þessa umfjöllun finn ég mig knúna til að taka fram að meðfylgjandi mynd er af mömmu minni elskulegri, ekki Ögmundi Jónassyni, Myrkahöfðingjanum eða tónlistarhúsi).

sunnudagur, október 30, 2005

Dagur 10


Ég lít út eins og Johnny Bravo. Og ég er ekki bara að kvabba hérna, fólk er í alvöru að segja mér það. Ég kvartaði þegar fólk sagði að ég væri eins og Renée Zellwager, en af tvennu illu þá er það nú skömminni skárra en hr. Bravo, en ég verð samt að játa að ég sé frekar svipinn með okkur heldur en mér og frk. Zellwager. Ég er hamsturinn sem var duglegastur að safna fyrir veturinn.

föstudagur, október 28, 2005

Kaldhæðni ársins

Ég, Unnsa litla, er komin með kossasótt. Ef það er ekki kaldhæðni ársins má ég hundur heita. Var semsagt áðan greind með einkirningasótt og tekin af sýklalyfjaógeðinu sem lét mig kúgast í alla nótt. Gaman að vera búin að vera í fjóra daga að óþörfu á lyfi sem, eins og læknirinn orðaði það mjög svo fræðilega "er eins og að draga gaddavír gegnum magann á sér". Jakkbjakk. Jæja, farin að slefa.

fimmtudagur, október 27, 2005

Varúð - inniheldur sjálfsvorkunn

Nú er ég búin að vera veik í meira en viku og farin að naga veggi af leiðindum. Er í þessum töluðu að horfa á barnatímann. Ég kem ekki heil á geði útúr þessu, það er nokkuð ljóst... Get ekki einu sinni borðað ís eins og maður á að gera þegar maður er veikur því mér er svo óglatt, mataræðið mitt síðustu daga hefur samanstaðið af ávaxtasafa og vatnsmelónu. Ef ég passa mig ekki verð ég mjó. Er samt glöð að það er búið að komast að því hvað er að mér, illskeytt streptókokkasýking í hálsinum, og mér til mikillar gleði komin á sýklalyf við því. Þau virðast samt ekkert vera að virka því nú er ég búin að taka þau í þrjá daga og er nákvæmlega eins, með næstum 40 stiga hita, fullan háls af einhverju sem ég vil ekki vita hvernig lítur út (en óttast að ég muni þurfa að horfast í augu við fyrr en seinna...) og fullan líkama af ógleði. Flest ykkar vita líklega að sýklalyf eru ekki vinir mínir, er með ofnæmi fyrir einhverju af þeim og dó bara næstum síðast þegar ég reyndi að leika við þau. Þessi sem ég er á núna eru fyrir ofnæmispésa eins og mig, en ég er að verða ansi hrædd um að þetta sé bara smartís því það er ekkert að gerast. Kvartikvartikvart. Mér er samt í veikindum mínum búnar að berast nokkrar afmælisgjafir, sjúkravitjanir og sjúkrasímtöl og sms, sem er búið að vera mjög hressandi, takk fyrir að hugsa svona fallega til mín (ef þið sæuð hvað ég er ljót akkúrat núna mynduð þið snarhætta því, en það er annað mál). Hrefna meira að segja kom gjöf til mín frá Köben þessi elska, og Jóhanna færði mér lítinn bút af Ameríku. Þið eruð yyyndislegar! Setti inn mynddæmi af Jógu og Hrefnu á góðum stundum, en það er eitthvað pakk með þeim á myndunum, verðið bara að horfa framhjá því.

fimmtudagur, október 20, 2005

Bóhem í búri

Eins og ég er nú mikil kaffihúsarotta og finnst yndislegt að sækja þangað tónleika og aðra viðburði sem láta mér líða eins og ég sé æðislega menningarleg og hipp og kúl, þá er eitthvað sem gengur ekki upp við það. Nú er Airwaves byrjað og ég plantaði mér á Nasa í gærkveldi, tilbúin að drekka í mig menninguna og hippið og kúlið. Sem ég og gerði, en það reyndist samt krefjast meiri viljastyrks af minni hálfu en ég hefði haldið. Það var nefnilega svo kæfandi reykmökkur á staðnum að mér tókst að fá þessa líka fínu innilokunarkennd og "ég get ekki andað hjáááálp" tilfinningu, að ef ég væri ekki svona vel uppalin hefði ég hlaupið volandi út. Ég var á endanum meira að segja komin með innilokunarkennd í airwaves armbandinu mínu, því það næst ekki af. Er eitthvað svo endanlegt. Skuldbindingafóbía anyone? Svo kom ég heim og hélt að málið væri dautt, en viti menn, vaknaði hvað eftir annað í nótt með lungun full af ímynduðum reyk og þurfti að rjúka útí glugga og hnusa útí loftið. Ég held ég sé að verða gömul kreddukerling. Hvar ætli okkar vettvangur sé eiginlega fyrst Þjóðarsálin er búin að leggja upp laupana? Í pottinum í Laugardalslauginni? Ó ef ég væri bara svöl eins og Hermigervill pallíettupjakkur var í gær. Hann fékk pottþétt ekki innilokunarkennd í armbandinu sínu.

miðvikudagur, október 19, 2005

Átsj...

Manni getur nú sárnað, lélegar og ljótar...? Ég er í sjokki. Sem betur fer finnst litla górillugenginu mínu myndirnar mínar ofsalega fínar, og eru tilbúnir að beita léttu og hressandi ofbeldi alla þá sem voga sér að gagnrýna hæfileika mína sem ljósmyndara. Sem er lygi, taka Arnar Sigurð í mesta lagi í bóndabeygju en menn hafa nú lært kurteisi af minna. Sjáið bara hvað þeir voru reiðir og sárir fyrir mína hönd þessar elskur:

sunnudagur, október 16, 2005

Loðið myndablogg

Við stelpurnar skelltum okkur á Galileó til að kveðja Bylgjuna okkar sem ætlar aftur að yfirgefa okkur fyrir frægð og frama í Danaveldi. Hvernig ætli það sé að vera svona eftirsóttur? Hm. Ég ætlaði að vera sniðug og aldrei þessu vant taka myndir, og senda þær svo hingað á bloggið til að gleðja alla þá sem hafa gegnum tíðina kvartað yfir myndaleysinu hérna. En þá voru allir myndavélaminniskubbar fullir svo ég tók bara óskýrar og loðnar myndir á símann minn og það verður að duga í bili. Fæ allavega plús í kladdann fyrir að gera mitt besta. Bylgja var auðvitað sætust í kvöld, en það er standard því hún var heiðursgesturinn. Linda, Björk, Hrönn, Magga og ég vorum líka skítsæmilegar, sérstaklega svona óskýrar. Eftir matinn fór ég svo og hitti Örnu og Móniku og við röltum á milli kaffihúsa í einhverri taugaveiklun í smástund, Arna varð fyrir ansi hressandi, rússneskri kynferðislegri áreitni og Mónika tók kokkinn á Óliver í sálfræðilega bóndabeygju. Kvöldið endaði svo á að Arna sveif á Laugaveginum, eins og þið sjáið á síðustu myndinni, er þetta ekki merki um of mikla koffeinneyslu..?

Ætli ég geti bloggað með myndum?


Það er að segja myndum sem aðrir sjá en ég, bloggið mitt hefur alltaf verið myndskreytt í mínum huga. Eins og svo margt annað... En reynum þetta. Ef allt er eins og hugur minn ætti hér núna að sjást mynd af ösnum í buxum. Hvað er skemmtilegra en það??? En sjáið þið þá líka?

miðvikudagur, október 05, 2005

Fireball

Þá er ég búin að sturta í mig góðum skammti af töfraduftinu hennar Jógu minnar, hausinn á mér orðinn að glóandi eldhnetti (strákurinn á næsta borði er greinilega að reyna að ákveða hvort hann eigi að segja mér að ég sé um það bil að fara að fuðra upp eða láta mig komast að því "the hard way") og heilastarfsemin aftur komin í gang. Ég segi "aftur" því árið 1995 virkaði hún tímabundið þegar ég skilaði stórgóðri ritgerð um bókina "Pelastikk" og fékk 9,5 að launum. Ég er tilbúin að tækla Evrópusambandið eins og það leggur sig ásamt Atlantshafsbandalaginu, Evrópuráðinu, Kola- og stálbandalaginu og öllum litlu vinum þeirra. Koffein er skemmtilegt. Jíha!