mánudagur, október 31, 2005

Dagur 11


Ég get mælt með fínum einkaþjóni þegar þessu öllu lýkur. Mömmu minni. Það er svoleiðis dekrað við aumingja litlu píslarvottar-mig þessa dagana. Eldað ofaní mig mat sem hálsskrípið mitt og maginn gætu náðarsamlegast mögulega átt friðsamleg samskipti við, allt keypt samstundis sem mig gæti hugsanlega langað í (en langar svo einmitt ekki í þegar ég sé það fyrir framan mig), boðist til að leigja spólur ef mér skyldi detta í hug að finnast endursýningar á skjáeinum ekki lengur skemmtilegar og almenn skemmtilegheit og vorkunn stunduð allan sólarhringinn. Koss handa elsku mömmu minni :*
Hún fer hinsvegar að vinna á morgun svo staðgengill óskast, og tekið er við umsóknum í kommentakerfinu.
Allt sem mér dettur í hug að skrifa tengist sjónvarpi, kannski af því við sjónkinn erum að renna saman í eitt. Mér finnst sæta og ljúfa Ragnhildur Steinunn frábær í Kastljósinu, á meðan Jóhanna stendur sig prýðilega... svo lengi sem maður horfir ekki á hana. Eftir að hún litaði á sér hárið og uppgötvaði augnblýantinn minnir hún helst á Myrkrahöfðingjann. Sem ég hef ekki að mínu viti séð, en það kæmi mér allavega ekki á óvart að hann væri gervidökkhærður með fullt, fullt af augnblýanti, sjáið bara Marylin Manson! Mér finnst nýja Kastljósið skemmtilegt. Og mér finnst, eins og Ögmundi Jónassyni áðan, að við eigum frekar að vera góð við gamla fólkið núna og geyma annars mjög fína hugmynd um tónlistarhús bara í noookkur ár. Ég veit við þurfum að hlúa að listunum og miðbænum og ég er algjör listasnobbarahræsnarapjalla sjálf og myndi finnast ég ennþá merkilegri eftir að hafa farið í svona fínt tónlistarhús, en getur það ekki beðið bara smááá? Ég veit ég er dramatísk en ég er bara pínu veik núna og veit það er tímabundið og ég verð bráðum aftur eins og nýsleginn túskildingur, og það er heil fjölskylda og vinahópur sem dekrar við mig á meðan, en mér líður samt bölvanlega. Hvað þá ef mér liði svona (tala nú ekki um verr), vissi að það væri líklega komið til að vera og versna, ætti engan eftir til að hugsa um mig og færa mér vatnsmelónu og vídjóspólur og vorkenna mér og knúsa mig og vera ekki skítsama um mig (af því það væru allir staddir á opnun nýja tónlistarhússins líklega). Það finnst mér hljóma verr en tárum taki og vil ekkert tónlistarhús fyrr en aldraðir og fatlaðir og geðsjúkir geta líka verið glaðir og kátir þegar það opnar. Og hana nú.
(Eftir þessa umfjöllun finn ég mig knúna til að taka fram að meðfylgjandi mynd er af mömmu minni elskulegri, ekki Ögmundi Jónassyni, Myrkahöfðingjanum eða tónlistarhúsi).

Engin ummæli: