miðvikudagur, apríl 25, 2007

Fíll frá Pam

Ég verð svo hrikalega meyr alltaf í þessum Íslandsheimsóknum mínum að ég hef kosið að blogga sem minnst meðan á þeim stendur. Langar ekkert að tala um nema það hvað ég er heppin með vini og vandamenn, hvað mér þykir ægilega vænt um ykkur öll og hvað þið eruð endalaust góð við mig alltaf hreint. Ekki mjög spennandi bloggefni. Nú er ég hinsvegar farin að sjá fyrir endann á þessarri heimsókn minni, fer út á mánudaginn, og er bara frekar sátt við það því mér finnst svo stutt þar til ég kem aftur heim í lok sumars, og þá til að vera.
Þetta stefnir annars í að verða ansi viðburðaríkt sumar, nokkur ferðalög á teikniborðinu og einhverjir gestir væntanlegir til mín, fyrir utan hvað ég er að verða spennt fyrir því að byrja á BA-ritgerðinni minni eftir mjög inspiring (ísl. hvað? Andríkan?) fund með leiðbeinöndinni minni.
Mér finnst alltaf erfitt að byrja að skrifa á bloggið mitt aftur eftir dapurlega atburði, truflar mig eitthvað hvað lífið heldur hratt áfram eftir þá, en ég held ég geti sagt án þess að það sé vanvirðing við neinn að ég er þrátt fyrir allt lukkunnar pamfíll og lífið er ljúft.

sunnudagur, apríl 08, 2007

Farfugl á flandri

Ég geri eins og svo margir bara áætlanir til að breyta þeim, og er þess vegna komin til Íslands viku áður en ég ætlaði mér. Það kemur reyndar ekki til af góðu, en ég er nú samt auðvitað glöð að vera komin heim. Ég fer austur á morgun og verð í viku á Bakkafirði, kem sennilega suður aftur sunnudaginn 15. apríl.
Bara til að halda ykkur í lúppunni.
Gleðilega páska lömbin mín.

mánudagur, apríl 02, 2007

Flight of the Conchords

Ég er skotin í þeim báðum. Þeir eru rétt mátulega nógu miklir lúðar.Þeir eru líka hér og hér. Snillingar.

Af páfagaukum og geirfuglum

Prófið gekk mjög undarlega. Ég endaði á að þurfa að skrifa ritgerð um nútímavæðingu Kína 1860-1937. Þá gerist svolítið merkilegt í hausnum á mér, því allt í einu mundi ég öll litlu smáatriðin um 19. öldina, en um leið og árið 1911 skall á í Kína þurrkaðist allt útúr minninu og ég mundi ekkert af því sem er common knowledge, það er, þetta sem ég vissi áður en ég las fyrir prófið. Maó, hver er það..? Gangan mikla..? 4. maí hreyfingin..? Hringdi engum bjöllum. Ég hef heyrt um þetta fyrirbæri. Að maður páfagauki fyrir próf og setji það á annan stað í heilanum en það sem maður veit dagsdaglega, og hafi svo ekki aðgang að "hversdagsheilanum" í prófinu, bara "páfagauksheilanum". Svo ég tók próf með páfagauksheila. Frábært.
Svo svaf ég allan laugardaginn því ég hafði ekkert náð að sofa fyrir prófið, gleymdi að stilla vekjaraklukku og vaknaði rétt áður en markaðurinn lokaði og átti eftir að kaupa í matinn, og allt lokað á sunnudögum. Svo ég nuddaði ekki einu sinni stírurnar úr augunum, heldur stökk bara af stað í búðina með koddahár og krumpaða kinn. Á leiðinni í búðina stoppaði mig maður til að segja mér að ég væri fullkomin. Ég var næstum búin að slá hann.
Um kvöldið var partý hjá Nathalie, ég klæddi mig í samkvæmisljónið því planið var að djamma loksins, í fyrsta skipti eftir áramót. Við vorum tvö sem fengum það memó. Allir hinir drukku te og sögðust þurfa að gera hluti daginn eftir. Svo við stungum af á næsta bar. Það er annars ótrúlega patent að vera Íslendingur í útlöndum. Skil ekki hvernig annarra þjóða kvikindi kynnast fólki hérna, sumir hafa hreinlega neyðst til að þróa með sér persónuleika. Ég hinsvegar uppgötva það í hvert skipti sem ég hætti mér í samkvæmi eða á skemmtistað að sem Íslendingur get ég verið blessunarlega laus við allt þetta persónuleikavesen. Upplifði mig eins og síðasta geirfuglinn á barnum þar sem ég sat í miðjum hópi Spánverja og Frakka sem voru nýbúnir að uppgötva hvaðan ég væri og horfðu á mig eins og þeir hefðu borgað fyrir miðann sinn og væru að bíða eftir sjóvinu. Ég ætlaði að fara að útskýra þetta fyrir þeim, en kann ekki að segja geirfugl á neinu tungumáli öðru en íslensku. Miðað við svipinn á þeim þá kom "I´m starting to feel like the big fat bird who couldn´t fly and got clubbed and eaten by the starving Icelanders in the 19th century" tilfinningunni ekki nógu vel til skila. Svo ég gafst upp og tók spurningar úr sal.