föstudagur, febrúar 25, 2005

Houston, we have a problem...

Bilunin er í stélinu. Skellti mér áðan í danstíma svona til að athuga hvar ég stæði í þeirri deildinni, var komin með alvarleg fráhvarfseinkenni. Og það var ofsa stuð, hristi mig eins og blautur hundur, tók tvöfalda pírúetta með undraverðum árangri (segi ekki að þeir hafi verið fullkomnir en ég spottaði þá allavega og lenti á fótunum!) en þegar ég ætlaði að dúndra mér í gólfið í einhverjum gettóhipphoppfíling þá tókst mér að rífa upp gamla tognun hjá rófubeininu. Hún er síðan ég gerði tilraun til að komast niður stigann af loftinu mínu án þess að nota útlimina. (Fyrir áhugasama var niðurstaða tilraunarinnar sú að það sparar tíma í ferðalaginu sjálfu en sá tími tapast aftur við það að geta ekki gengið dagana á eftir, svo út frá hagfræðilegu sjónarmiði er þetta ekki praktískt.) Er búin að sitja í klukkutíma í Laugum með íspoka á afturendanum, sem er ekki töff frá neinu sjónarhorni. Býður sig einhver fram sem sjúkranuddara? Það er samt engin borgun í boði, World Class pennarnir og mandarínan gengu út fyrir einni færslu síðan.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Ég vissiða!!!

Þessi ofurbrjóst voru greinilega mistök í framleiðslu, það hef ég alltaf sagt. Andlega er ég flatbrjósta. Sjáiði bara:

Flat
FLAT

(results contain pictures) What kind of ANIME BOOBS do you have?
brought to you by Quizillla

On again, off again...

Brjál. Alveg brjál. Var loksins búin að ákveða í hvaða háskóla ég ætlaði að sækja um næsta vetur og meira að segja hvaða áfanga ég ætlaði að taka þegar ég hitti stelpu sem var í sömu deild þar í fyrra og bar staðnum ekki góða söguna. Svo ég verð að taka nýja ákvörðun og það er langt frá því að vera mín sterkasta hlið, þessi litla vog eltir skottið á sér í marga hringi áður en hún dettur niður á svörin og eftir alla hringina í síðustu lotu held ég að önnur gæti orsakað svima og uppköst. Býður sig einhver fram til að ákveða þetta bara fyrir mig? Skal borga*.
(*Laun eru 3 pennar merktir World Class og mandarína með skrautlega fortíð.)

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Gullberg. Tileinkað Jóhönnu.

Jæja, ég var búin að lofa því að næsta færsla yrði um Gullberg (Goldberg) sem er nýuppgötvaður vinur okkar Jóhönnu. Vorum að passa á föstudagskvöldið þegar við villtumst inná glímukappasíðu og misstum okkur aðeins, eyddum því sem eftir var kvöldsins í að urra og góla "Goldberg" og "Batista". Held að karlmannsleysið sé farið að rugla í hausnum á okkur... Af þessu tilefni hófst annað og öllu karlmannlegra stig heilsuátaks og við erum búnar að borða eins og módel og lyfta eins og dívurnar sem við erum síðan. Vei. Nema við fengum okkur okkar vikulega Álfheimaís áðan í miðri heilsugeðveikinni en maður er hvergi óhultur, vissum ekki fyrr en Sölvi Fannar og Ítalinn í spandexinu voru búnir að grípa okkur glóðvolgar með skeið í annarri og kransæðastíflu í hinni. Rats. Sýndum samt hörðu hliðina á geislandi kvenleika okkar í vinnunni í gær þegar það ráfuðu inn 6 byllifyttur og fóru í baðstofuna, við enduðum á að henda þeim öllum út með látum og unnum okkur þannig inn smá "streetcred" frá Össuri Skarphéðins, sem er einmitt maður vikunnar fyrir að aðstoða við aðgerðina. Úggabúgga.

föstudagur, febrúar 18, 2005

Helgin framundan. Jahá.

Nú stefnir allt í helgi. Sem er undarlegt því það er samkvæmt mínu bókhaldi fullstutt síðan um síðustu helgi. Mitt bókhald er í sjokki. Þessa helgi á að bralla ýmislegt, en ekkert svosem óvenjulegt eða hippogkúl svo ég held ég ætli ekki að fjalla um það hér. Ég bý í rútínu og það er kannski svolítið gróft að láta ykkur alltaf lesa lýsingu á helgunum mínum þegar þær eru allar meira og minna eins. Æðislegar, en eins.
Já, svo er það eitt, þið hinir ABC foreldrarnir, fenguð þið líka bara greiðsluseðla fyrir tvo mánuði en ekki þrjá eins og venjulega með síðustu sendingu? Er búið að breyta kerfinu eða rændi einhver greiðsluseðlinum mínum? Breytir einhver kerfinu án þess að spyrja mig?
Og hvernig byrjaði Americas Next Top Model án þess að ég tæki eftir því??? Ha? Birta? Kom heim í gær og náði síðustu 5 mínútunum af einhverri endursýningu, rétt sá í stélið á smá móðursýkiskasti og brostnum prinsessudraumum en veit ég missti af allavega einni "elimination", sem þýðir að fullt af litlum fyrirsætlingum fór skælandi heim án þess að ég væri þar til að sjá það. Sem er slæmt. Það er ekki skrýtið að það sé ekki búið að finna lækningu á eyðni, þegar fólk með alla möguleika til að gera það sem það vill, eins og ég, hangir heima endalaust með aulaglott að horfa á raunveruleikaþætti um alla hina aulana sem eiga ekkert líf. Kaldhæðni?

mánudagur, febrúar 14, 2005

Svefn er fyrir aumingja. Og þá sem vilja halda geðheilsunni.

Nú er liðin ein svefnminnsta helgi í sögunni, er hálfringluð eftir þetta alltsaman. Fyrst var árshátíð stjórnmálafræðinema á föstudaginn í Stapanum, allt rosa fínt og góður matur, en svo fór það nú að verða deginum ljósara að til að skemmta sér almennilega þarna eftir að skipulagðri dagskrá lauk varð að hrynja í það, og ég var auðvitað á bíl svo það kom ekki til greina. Þannig að ég fór fljótlega í bæinn bara, kíkti á nokkra staði og fór svo heim. Þurfti svo að vakna tveim tímum seinna til að opna Laugar með Jóhönnu, sem var hægara sagt en gert. En þar sem ég var með lykilinn var það ekki í stjörnunum að fá að sofa yfir sig svo ég skreið á fætur (bókstaflega) og dreif mig af stað, sem er eins gott því afrakstur dagsins var svakaleg hetjudáð okkar Jógu, við eigum fálkaorðuna skilið fyrir þennan dag. Það kom nefnilega fötluð kona niðrí vinnu sem gat næstum ekkert tjáð sig og var að reyna að biðja okkur um að koma sér heim. Meiru náðum við eiginlega ekki, hún gat bara leikið eins og hún væri að keyra og sagt "heim". Vissum ekkert hvað hún hét, hvað hún var á annað borð að gera þarna eða hvert hún væri að fara. Hringdum samt á leigubíl fyrir hana en bílstjórinn skildi hana ekki heldur og fór á endanum aftur. Þá var konan búin að vera strand hjá okkur í meira en klukkutíma og leist ekkert á blikuna, var komin með tárin í augun og allt í steik (ég er samúðarskælari og þurfti alveg að berjast við kökkinn í hálsinum) og þá voru góð ráð orðin alveg fokdýr. Á endanum hringdum við í 1818 og konan þar var yndisleg og hjálpaði okkur að reyna að finna eitthvað sambýli sem konan gæti mögulega hafa komið frá. Ég vil ekki gefa upp smáatriðin í sambandi við hvernig við fundum þetta á endanum út því það væri brot á einkalífi umræddrar konu en allavega náðum við sambandi við sambýlið hennar og stúlka þaðan brunaði yfir til okkar að sækja hana. Hún skildi ekkert í því hvernig í ósköpunum við hefðum farið að því að finna þetta út, enda erum við hetjur og kraftar okkar fyrir ofan skilning hins almenna borgara. Þetta var góðverk dagsins og við vorum ekkert smá ánægðar með okkur :) Um kvöldið neyddumst við því til þess að fagna góðmennsku okkar og fór sá fagnaður fram í hinum ýmsu póstnúmerum en endaði eins og allir góðir fögnuðir í 101. Þar var dansað fram undir morgun eða þangað til það var grunsamlega stutt í að ég ætti að opna Laugar AFTUR. Svaf í tvo tíma og var eitt stórt glimmer í vinnunni, sem var smart. Möggu að kenna/þakka, en hún var einmitt opinber styrktaraðili þessarar helgar og henni að þakka að ég var ofsa sæt þessa helgina. Og hógvær.

föstudagur, febrúar 11, 2005

Við erum ofsa sæt

Það er greinilega alveg hægt að stjórna því hvernig fólk sér mann, sem er svolítið merkilegt. Ég t.d. vaknaði í morgun og fannst ég sæt. Sem er reyndar tímaskekkja því árshátíðin er ekki fyrr en á morgun og það er alveg happa glappa hvort ég verð líka sæt á morgun, en við krossum bara putta og vonum það besta. Ég semsagt skellti mér svo í vinnuna í sæta skapinu og viti menn, það voru alveg þrír sem sáu sig knúna til að segja mér hvað ég væri sæt. Það gæti reyndar líka þýtt að ég væri venjulega frekar sjabbí, en við skulum ekki spá í það. Svo nú vil ég að allir skutli sér í sæta skapið og láti dást að sér, gott að láta strjúka egóinu aðeins fyrir helgina! Komaso!

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Birgitta a.k.a. Rut Reginalds

Ég veit ég er æðislega mikið eftirá en ég var að sjá Birgittu dúkkuna almennilega í fyrsta skipti í Hagkaupum áðan, og eins og allir voru búnir að segja mér er hún ekkert lík fyrirmyndinni, en það sem enginn hafði sagt mér var að hún er hinsvegar nauðalík Rut Reginalds! Eftir yfirhalningu. Er ekki bara eitthvað rangt við það að halda að börnum dúkku af konu með brotna sjálfsmynd sem lagðist undir hnífinn í þeirri von að nyrðri brjóst myndu lækna allt? Mikið er ég fegin að eiga ekki börn, það er alltof mikið álag að reyna að vera alltaf einu skrefi á undan þessu samsæri.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Zzz...

Ég er alveg að missa meðvitund í fyrirlestri í opinberri stjórnsýslu. Get ekki meir. Komið gott. En ég kemst ekki út því maðurinn tekur bara eitt stutt hlé á 3 klst! Þetta á að vera bannað. Og enginn kjaftaglaður á msn... Iss...

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Blóðug, skítug og snjóug

Það sprakk á bílnum mínum í gær, í þriðja skipti á jafn mörgum vikum held ég. Þetta er að verða frekar þreytt. En í þetta skiptið ákváðum við Jóhanna að vera hetjur og skipta sjálfar um dekkið, sem við svo gerðum, beint fyrir framan KB banka hjá Hlemmi. Og við sýndum snilldartilþrif, þetta var allt ryðgað og drullugt og svo snjóaði brjálæðislega í ofanálag, við orðnar drulluskítugar og ég nett blóðug, og rennandi blautar af snjó, og ég var skyndilega gripin óstjórnlegri löngun til að spangóla "Eye of the Tiger". Sem ég gerði ekki því Jóhanna var vopnuð einhverju svona "skiptaumdekk" verkfæri. En það hefði verið svakalega töff. Ég var svo ánægð með skítugu hendurnar mínar að ég tímdi varla að þvo þær, og gerði ekki fyrr en ég var búin að sýna þær öllum í Gym 80. Þeim fannst ég töff. Sögðu þeir, en svipurinn á þeim var svolítið dularfullur...